"Hús dagsins" 10 ára

Það var fyrir 10 árum, þann 25. júní 2009 klukkan 10.28 sem ég birti hér mynd af Norðurgötu 17, Steinhúsinu eða Gömlu prentsmiðjunni ásamt nokkrum málsgreinum um sögu hússins undir yfirskriftinni "Hús dagsins". Myndin var lítil enda kunni ég ekki almennilega að setja myndir hér inn og textinn var stuttur, enda skrifaði ég einungis það sem ég mundi þá stundina. Myndin var tekin 2006, og var ein 80 húsamynda sem ég átti þá, en ég hafði myndað nokkur elstu hús bæjarins.  Þá var ætlunin að setja a.m.k. þær myndir sem ég átti hér inn ásamt stuttu söguágripi og láta þá gott heita á fáeinum mánuðum eða sjá til hversu lengi ég nennti þessu...

Til þess að gera langa sögu stutta eru pistlarnir orðnir 573 þegar þetta er ritað, húsamyndasafnið telur um 1000 myndir og enn á ég eftir að fjalla um Helgamagrastrætið, Skipagötu í Miðbænum, nokkur hús við Strandgötu á Oddeyri og ég veit ekki hvað og hvað. Eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir, hef ég agalega gaman af tölfræði hvers konar og í því samhengi má gróflega áætla, að ég hafi varið um 430 klukkustundum í pistlaskrif og ferðast um 500km um götur Akureyrar með myndavélina. (Geri ráð fyrir, að hver pistill taki mig um 45mínútur í vinnslu og ég fari að jafnaði sjö sinnum á ári í 7-8 km ljósmyndagöngu- og hjóltúra. Hef svssem ekki haldið nákvæma skrá). Og þá skal tekið fram, að ég myndi ekki eyða í þetta einni einustu mínútu, hefði ég ekki gaman af þessu sjálfur. Því til þess er nú leikurinn gerður. Þó skal að sjálfsögu ekki gert lítið úr, hversu mjög gefandi það er að fá viðbrögð og verða var við áhuga hjá lesendum. Það er ævinlega ánægjulegt að vita til þess að lesendur hafi af þessum pistlum gagn og ekki síst gaman. Er það ekki síst áhugi og viðbrögð ykkar, lesendur góðir, sem drífur mig áfram í þessari vegferð. 

Það er svosem ekkert sérstakt sem liggur fyrir í tilefni dagsins í dag hér á síðunni (engin flugeldasýning eða veisla ), en í tilefni afmælisins ég hef á síðustu vikum unnið að því að gera eldri pistla aðgengilegri gegn um tengla, bæði eftir árum auk þess sem ég hef reynt að flokka tengla á greinar eftir götum (sjá hér til hliðar). Þá má nefna listann yfir 100 elstu (102) hús bæjarins. Sjálfsagt hefur vefurinn einhvern tíma verið skemmitilegri á að líta, því langir listar á borð við þá sem hafa verið fyrirferðarmiklir hér, eru kannski ekki svo skemmtilegir aflestrar.Og alltaf má breyta og bæta. Eitt "eilífðarverkefni" í sambandi við vefsíðuna, er að bæta merkingar á myndasafninu og mun ég halda því áfram. Það er, að ef mynd er opnuð og skoðuð sérstaklega, komi fram hvert húsið er. Þessu er mjög ábótavant hér og reyni ég jöfnum höndum að bæta úr því. En fyrst og fremst held ég áfram að birta hér húsapistla. En við skulum bregða okkur 10 ár aftur í tímann og sjá hvað ég hafði að segja um Norðurgötu 17, 25. júní 2009. (Eins og fram kemur þarna, hafði ég reyndar fengist við þetta á Facebook í nokkrar vikur, en ég miða upphaf "Húsa dagsins" engu að síður við þennan vettvang hér):

Ég hef í nokkrar vikur birt myndir sem ég á af húsum á Akureyri og stutta umfjöllun um þau á Facebook. Hérna mun halda áfram með það. Eru þetta yfirleitt gömul hús á Oddeyri eða Innbænum en ég á orðið ágætis myndasafn af þeim. Heimildir um byggingarár og sögu húsanna eru fengnar úr öllum mögulegum bókum um byggingarsögu Akureyrar auk þess sem ég hef sótt a.m.k. eina sögugöngu Minjasafnsins um þessi eldri hverfi á hverju sumri síðan 1997.P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

Ég minntist á að þetta væri 3.-4. elsta hús Oddeyrar. Sjálfsagt mál er að telja upp þau hús á Oddeyri sem teljast eldri en Steinhúsið. Norðurgata 11 er jafn gamalt (1880), Lundargata 2 (1879), Strandagata 27 (1876) og elst er Strandgata 49, Gránufélagshúsið, (1874).

Svo mörg voru þau orð. En fyrst það er afmæli er líklega upplagt, að bjóða upp á tónlist svona í lok pistils. Og að sjálfsögðu eru það lög um hús- en ekki hvað. Hér er lagið "This Ol´house" (Þetta gamla hús) í flutningi The Shadows. Ef Hús dagsins væri sjónvarpsþáttur, þætti mér þetta tilvalið upphafsstef:

https://www.youtube.com/watch?v=y-zdkL0_2sk

Led Zeppelin-liðar hljóðrituðu árið 1972 hið stórskemmtilega "Houses of the Holy". (Hús hinna heilögu). Þeir gáfu ári síðar út samnefnda plötu, en lagið var ekki að finna þar, heldur kom það út á næstu plötu Physical Graffiti. Þess má geta, að ég hlusta oftar en ekki á þetta lag í MP3-spilara þegar ég held í húsaljósmyndunarleiðangra. Þykir mér það einhvern veginn viðeigandi, svona í ljósi titilsins.

https://www.youtube.com/watch?v=fPv2bbCTAfw 

Þetta er íslensk vefsíða um íslensk hús! gæti einhver sagt, sem er vissulega rétt. Því verður auðvitað að bjóða upp á eitthvað íslenskt. Og þar sem Akureyrsk hús eru megin umfjöllunarefni er þá ekki um að gera að bjóða upp á Akureyrska tónlist. Hér flytja þeir Villi og félagar í 200.000 naglbítum "Hæð í húsi":

https://www.youtube.com/watch?v=FtV8K86c9Fc

 

Kærar þakkir, lesendur góðir, fyrir innlit og viðbrögð hvers konar þennan áratug.  smile   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Þegar smellt er á Hrafnagilsstræti, kemur upp listi yfir húsin við Þingvallastræti, sá sami og þegar smellt er á það síðarnefnda. Ertu búinn að fjalla um Hrafnagilsstræti? Hvernig er með húsið sem eitt sinn var Páls Briems gata 1, var og er það ekki þar?

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 25.6.2019 kl. 18:50

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Heil og sæl. Er búinn að leiðrétta þetta með tengilinn á Hrafnagilsstræti, það er einmitt viðbúið að eitthvað hafi skolast til og einhverjir tenglana vísi annað en þeim er ætlað. Kærar þakkir fyrir að láta mig vita cool.

Varðandi Hrafnagilsstrætið hef ég aðeins tekið fyrir elstu húsin, enn sem komið er, en það stendur nú til bóta. Næsta hús í umfjölluninni um þá götu þegar ég tek upp þráðinn verður einmitt Hrafnagilsstræti 12, sem var upphaflega ætlað að vera Páls Briem gata 1. Sú gata var hins vegar aldrei lögð, en hún hefur líklega átt að liggja N-S frá lóð Menntaskólans að Sundlaugarsvæðinu. 

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 26.6.2019 kl. 00:01

3 identicon

Takk f. þetta. Ég man eftir því að skrifað var utan á jólakort til Páls Briems götu heima hjá mér. Mér þótti þetta skrítið, svona götunöfn eins og þetta og Helgamagrastræti tíðkuðust ekki f. sunnan. En ég veit ekki hvenær var hætt við þetta götunafn. Það er sjálfsagt nefnt í bók Steindórs.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.6.2019 kl. 15:07

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já þetta eru dálítið sérstök nöfn. Upprunalega var gert ráð fyrir að Helgamagrastræti héti aðeins Helgastræti. En hitt varð ofan á. (Þá ætti Þórunnarstræti raunar að heita Þórunnarhyrnustræti til samræmis eða öfugt). Páls Briemsgötunafnið virðist hafa verið í "opinberri" notkun fram til 1960, ef marka má timarit.is, en sá ágæti gagnagrunnur finnur 13 niðurstöður frá árunum 1948-60 ef Páls Briemsgötu er flett upp. (http://timarit.is/search_init.jsp?q=%22P%E1ls+briemsg%F6tu%22&lang=is&advanced=&pubId=-1&orderby=score&date_from=01.01.1940&date_to=31.12.1949).  

Arnór Bliki Hallmundsson, 28.6.2019 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 765
  • Frá upphafi: 419901

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 604
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband