Hús dagsins: Helgamagrastræti 23

Helgamagrastræti 23 reisti Guðmundur Tómasson byggingameistari árið 1944.P8260794 Hann fékk í ágúst 1942 lóð við Helgmagrastræti, aðra lóð sunnan við fyrirhugaðan veg að Staðarhóli. Staðarhóll var býli sem stóð spölkorn ofar og vestar á Brekkunni, þar sem nú er Ásvegur sunnan Hamarkotsklappa (efri). Umræddur vegur er líkast til þar sem nú er efri hluti Bjarkarstígs, á milli Helgamagrastrætis og Þórunnarstrætis. Af Staðarhóli er það að segja, að íbúðarhúsið, timburhús frá fyrri hluta 20. aldar, brann til grunna í ágúst 1957 og í kjölfarið leið búskapur þar undir lok.

Guðmundur Tómasson fékk byggingarleyfi haustið 1943 fyrir húsi á lóð sinni; hús á tveimur hæðum byggt úr steinsteypu með flötu þaki, að stærð 14,4x9,7m. Guðmundur Tómasson gerði sjálfur teikningarnar að húsinu.

Helgamagrastræti 23 er funkishús af stærri gerð, tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og upphækkun á þakkanti að framan, sem gefur húsinu ákveðinn svip og einkenni. Á framhlið eru inndregnar svalir með skrautlegu járnavirki á handriði og inngöngudyr neðana við. Á suðurhlið er útskot til SA, og svalir í kverkinni þar á milli. Framhlið hússins er samhverf um miðju, horngluggar til norðurs og suðurs. Einfaldir lóðréttir póstar með láréttum millifögum eru í flestum gluggum, steining á veggjum og þakpappi á þaki. Húsið er nokkuð sérstakt að gerð, svipmikið og „voldugt“ og er hugsanlega undir áhrifum frá hamra- eða lýðveldisstíl Guðjóns Samúelssonar. (sbr. Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 21).

Guðmundur Tómasson var frá  Bústöðum í Goðdalasókn í Skagafirði. Eiginkona hans, Ragna Kemp var einnig frá Skagafirði, nánar til tekið frá Illugastöðum í Laxárdal. Guðmundur var trésmíðameistari og starfrækti lengi vel verkstæði en söðlaði síðar um og stofnaði hina valinkunnu kexverksmiðju Lórelei. Hann teiknaði nokkur hús á ytri Brekkunni á fyrri hluta 20. aldar, m.a. Hlíðargötu 1 og Munkaþverárstræti. Bróðir Guðmundar, Eyþór, var einnig forstjóri og löngum kenndur við sælgætisgerðina Lindu. Guðmundur Tómasson bjó hér til dánardægurs árið 1966 og fluttist Ragna til Reykjavíkur fljótlega eftir það.

Helgamagrastræti 23 er í afbragðs góðri hirðu og  hefur nýlega hlotið gagngerar endurbætur og hafa þær tekist mjög vel upp á allan hátt. Á sama tíma voru gerðar gagngerar endurbætur á lóð en þá um leið lappað upp á upprunalegan steinvegg og tröppur að götu. Endurbætur og frágangur  á hús og lóð er til mikillar fyrirmyndar húsið og umhverfi þess til stökustu prýði í umhverfi sínu. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 en fær jafnframt + fyrir byggingarlist sem „sérstakt hús“.  Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 26. ágúst 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, þ. 7. ágúst 1942.  Fundur nr. 978, 30. maí 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0685
  • IMG_0776
  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 200
  • Sl. viku: 546
  • Frá upphafi: 419488

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 446
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband