Hús dagsins: Strandgata 13b

Af gatnamótum Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs bregðum við okkur niður á Oddeyri; á Miðbæjarsvæðið en á baklóð nærri horni Strandgötu og Glerárgötu lúrir lágreist og vinalegt steinhús frá 3. áratug 20. aldar...

Strandgötu 13b reisti Grímur Valdimarsson bifreiðasmiður árið 1926 sem verkstæðishús.PB110712 Hann fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu á lóð Kristjáns Þorvaldssonar á lóðarmörkum að norðan og 10 álnir (6,3m) frá verkstæði Óskars Sigurgeirssonar (þ.e. Strandgötu 11b). Skilyrði var, að eldvarnarveggur væri á húsinu norðanverðu og húsið mætti ekki standa nær lóð Óskars en 5 álnir (3,15m).  Umrædd lóð Kristjáns Þorvaldssonar var Strandgata 13. Húsið er sem áður segir byggt 1926 en fékk ekki númerið 13b fyrr en löngu síðar. Elstu heimildir sem finnast á timarit.is um Strandgötu 13b eru frá 1952 en þær eiga væntanlega ekki við þetta hús heldur viðbyggingu norðan við Strandgötu 13, sem nú er löngu horfin.  

Strandgata 13b er einlyft steinsteypuhús með háu risi og þverpóstum í gluggum veggir múrhúðaðir en bárujárn á þaki. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphafi en hefur gegn um tíðina hýst hina ýmsu starfsemi, lengi vel verkstæði. ekki er greinarhöfundi kunnugt um að búið hafi verið í húsinu. Það getur þó meira en vel verið; kannski kannast einhver lesandi þessarar greinar við það. Nú er rekin þarna verslun með kristilegan varning, Litla húsið, og hefur hún verið starfrækt þarna frá því snemma á níunda áratugnum.  

Grímur Valdimarsson, sem byggði Strandgötu 13b, var sem áður segir bifreiðasmiður og var sá fyrsti á Norðurlandi sem lagði þá iðngrein fyrir sig. Hann hafði áður numið trésmíði og fólst bifreiðasmíðin m.a. í því, að smíða yfirbyggingar yfir bíla. Sjálfsagt hafa þó nokkrir þeirra bíla sem Grímur smíðaði varðveist og verið gerðir upp.  Í fjórða bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið birtast endurminningar Gríms og ekki er annað hægt hér, en að mæla með þeirri lesningu. Þar segir hann m.a. nokkuð ítarlega frá byggingu Glerárvirkjunar árið 1921 en hann starfaði þar sem verkamaður.

Strandgata 13b er einfalt og látlaust hús, því sem næst óbreytt frá upphaflegri gerð. Árið 2014 var unnin Húsakönnun um Miðbæ og neðri hluta Ytri Brekku. Þar er varðveislugildi hússins ekki talið verulegt, en engu að síður er Strandgata 13b hið geðþekkasta hús, í góðri hirðu og snyrtilegt. Myndin er tekin þann  11. nóvember 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 585, 7. ágúst 1926. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson 1975. Aldnir hafa orðið, IV bindi. Akureyri: Skjaldborg. 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 417794

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 238
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband