Hús dagsins: Gránufélagsgata 48

Laufásgata liggur til norðurs frá Strandgötu á Oddeyrartanga og tengist Hjalteyrargötu að norðan. Við hana standa að mestu verkstæðishús o.fl. auk athafnasvæða að austanverðu. Gránufélagsgata þverar Laufásgötu og á suðaustur horni gatnanna tveggja stendur reisulegt steinhús, Gránufélagsgata 48.PC290882

Gránufélagsgötu 48 reisti Sigfús Baldvinsson útgerðarmaður og síldarsaltandi frá Tjörn í Svarfaðardal. Hann fékk árið 1943 lóð á leigu meðfram Gránufélagsgötu að sunnan, og norður af lóð Kristjáns Kristjánssonar (Strandgata 53). Þá fékk hann leyfi til að reisa geymsluhús, byggt úr steinsteypu með timburþaki, ein hæð með háu risi. Í gögnum bygginganefndar er húsið sagt 20x41m að stærð en líklega hefur það misritast og átt við 20x14m. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar má finna upprunalegar raflagnateikningar frá janúar 1944 ásamt teikningum Jóns Geirs Ágústssonar frá 2001 vegna lítils háttar breytinga á innra skipulagi ásamt neyðarútgöngum.

Gránufélagsgata 48 er einlyft steinsteypuhús með háu risi. Tveir kvistir með einhalla þaki eru á hvorri hlið þekju. Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir og krosspóstar í flestum gluggum. Sigfús Baldvinsson og kona hans Ólöf Guðmundsdóttir fædd á Gásum við Eyjafjörð, voru búsett í Fjólugötu 10, norðar og ofar á Eyrinni, en það hús reistu þau árið 1933.  Sigfús var stórtækur útgerðarmaður og síldarsaltandi og stóð fyrir eigin rekstri frá árinu 1930, en áður hafði hann verið sjómaður hjá útgerð Ásgeirs Péturssonar. Sigfús var einn stofnenda Netagerðarinnar Odda árið 1933. Sigfús stundaði atvinnurekstur allt til hinsta dags, en hann lést 1969, 75 ára að aldri.  Gránufélagsgata 48 var sem áður segir byggt sem geymsluhús en þar hafa einnig alla tíð verið íbúðir, þ.e. í risi og vesturhluta. Sonur Sigfúsar, Snorri, bjó þarna um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni. Gránufélagsgata 48 hefur á 76 árum hýst ýmsa starfsemi,  Netagerð, Nótaverkstæðið Oddi var starfrækt þarna um árabil á vegum Sigfúsar og árið 1972 eru auglýstar þarna til sölu Brøyt-gröfur á vegum fyrirtækisins Landverks, og síðar Heildverslunin Eyfjörð sf. Á tíunda áratugnum var þarna verslunin Köfun.

Nú eru í húsinu, auk íbúðar vinnustofur listamanna á efri hæð og austurenda neðri hæðar. Húsið er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að utan. Gránufélagsgata 48 hlaut töluverðar endurbætur að utan sem innan á fyrsta áratug þessarar aldar og er í mjög góðri hirðu. Ekki veit sá sem þetta ritar til þess, að húsið hafi verið metið til varðveislugildis, en það er hans álit, að sögulegt gildi iðnaðarhúsa á Oddeyrartanga frá fyrri helmingi síðustu aldar hljóti að vera töluvert. Þar hefur ýmis starfsemi farið fram gegn um tíðina og húsin geyma mikla sögu um atvinnustarfsemi liðinna tíma. Og ekki bara liðinni tíma; því í flestum umræddra húsa er enn unnið og starfað að iðn, framleiðslu sem og listum, svo sem í tilfelli Gránufélagsgötu 48.  Myndin er tekin þann 29. desember 2018.  

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 904, 27. Mars 1943. Fundur nr. 919, 24. júlí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 145
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 419845

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 597
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband