Hús dagsins: Helgamagrastræti 46

Árið 1942 fengu feðgarnir Kári Karlsson og Karl Sigfússon lóðP5030889 við Helgamagrastræti 46 ásamt byggingarleyfi fyrir húsi 13,7x8,0m að stærð, ein hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með timburgólfum og járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson, en hann á heiðurinn af þó nokkrum húsum við Helgamagrastrætið, þ.á.m. húsum nr. 42, 44, 45. Upprunalegar teikningar að Helgamagrastræti 46 eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu.

Helgamagrastræti 46 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir en einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum. Húsið er parhús og nokkuð stærra að grunnfleti en nærliggjandi hús. Á norðurhlið er forstofubygging með flötu þaki, byggð árið 2003.

Karl Sigfússon sem var frá Víðiseli í Reykjadal og kona hans Vigfúsína Vigfúsdóttir frá Hvammi í Þistilfirði bjuggu hér, ásamt stórfjölskyldu, til dánardægurs, Karl  lést 1962 en Vigfúsína 1967. Karl var rokkasmiður en sú iðngrein hefur vafalítið átt nokkuð undir högg að sækja þegar leið á 20. öldina. Kári Karlsson bjó einnig hér um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni, en kona hans var Alda Rannveig Þorsteinsdóttir. Kári, sem fæddur var á Rauðá í Bárðardal starfaði lengst af hjá Gefjun en varð síðar yfirbréfberi hjá Póstinum á Akureyri.  Sonur Karls og bróðir Kára var Þráinn (1939-2016), einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar. Þráinn var einn helstu máttarstólpa Akureyrskrar leiklistar í hálfa öld og tók þátt í flestum sýningum Leikfélags Akureyrar á því tímabili. Hann fór einnig með hlutverk í kvikmyndum á borð Útlagann, Hrafninn flýgur og Stellu í Orlofi.

 Helgamagrastræti 46 var, í hluta eða í heild, í eigu sömu fjölskyldu fram undir aldamót en síðan hafa ýmsir átt hér og búið. Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upphafi, að undanskilinni forstofubyggingu á norðurhlið og sólpalli úr timbri á suðurhlið.  Húsið er í góðu standi og traustlegt og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Sömu sögu er að segja af lóð, sem er vel gróin og hirt og enn stendur hluti af steyptum vegg með stöplum framan við húsið. Helgamagrastræti 46 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 907, 30. apríl 1942. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 430
  • Frá upphafi: 417799

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 241
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband