Hús dagsins: Helgamagrastræti 50

Guðmundur Tómasson byggingameistari hefur e.t.v. haft stórhuga áform um uppbyggingu nyrst og neðst við Helgamagrastrætið haustið 1941. P5030886Hann sótti um þrjár lóðir, þá nyrstu að vestan og tvær hinar á móti austan, en þær höfðu þá ekki fengið númer. Það var síðan á fundi Bygginganefndar þann 3. október 1941 sem Guðmundi var úthlutað lóðunum, sem fengu númerin 45, 47 og 50. Guðmundur byggði á tveimur þessara lóða, en syðri lóðina vestan megin, 45, fékk Páll Friðfinnsson síðar og byggði þar. En rúmu ári eftir að Guðmundur fékk lóðina Helgamagrastræti 50, nánar til tekið þann 23. október 1942 var honum leyft að byggja þarna hús; eina hæð á kjallara og með lágu valmaþaki. Húsið byggt úr steinsteypu, þak úr timbri og járnklætt og stærð hússins 9,22x7,82m auk útskota; 4,5x1,5m að vestan og 4,7x1,2m að sunnan.  Ekki mun vitað hver teiknaði húsið. Mögulega hefur Guðmundur Tómasson bæði teiknað húsið og byggt.

Helgamagrastræti 50 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Steiningarmúr er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið. Í kverkinni á milli er inngangur á efri hæð og steyptar tröppur. Þak slúttir yfir inngang og myndar dyraskýli.

Guðmundur Tómasson mun ekki hafa búið þarna, heldur hefur líklega byggt þetta hús sem verktaki til sölu. Fyrstu eigendur hússins munu hafa verið þau Karl Arngrímsson og Karitas Sigurðardóttir, en þau keyptu húsið árið 1943, en það er einmitt skráð byggingarár hússins. Höfðu þau áður stundað búskap að Veisu í Fnjóskadal um árabil, en bæði voru þau fædd 1883 og stóðu því á sextugu þegar þau fluttu hingað. Voru þau bæði úr Fnjóskadal, Karl uppalin á Halldórsstöðum en Karitas á Draflastöðum. Hér bjuggu einnig synir þeirra, Arnór og Þórður og tengdadóttir, Steinunn Jónasdóttir, kona Þórðar. Eftir lát Karitasar, 1955, fluttist Karl ofar í Helgamagrastræti, nánar tiltekið í Helgamagrastræti 26 þar sem bjuggu dóttir hans Guðrún Karitas og tengdasonur, Sigurður Guðmundsson („Siggi Gúmm“). Arnór og Þórður Karlssynir hlutu árið 1955 verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir garðinn en verðlaunin voru veitt eftir hverfum og hlaut garðurinn hér verðlaun Norðurbrekku. (Í greininni er talað um Norðurbrekkur í fleirtölu, en það mun hafa tíðkast ásamt heitinu Norðurbrekku í et. Og Ytri Brekku. Það síðast talda var líklega tamast en nú er oftar talað um Norðurbrekku, sbr. Húsakönnun 2015). Ræktun lá auðvitað vel fyrir Arnóri, en umræddur nafni síðuhafa var að sjálfsögðu þekktur sem Arnór í Blómabúðinni. Hann stundaði blómasölu í meira en hálfa öld. Eftir að þau Karl og Karitas fluttu hingað stunduðu þau ræktun á jörðinni Végeirsstöðum í Fnjóskadal, sem börn þeirra héldu svo ræktunarstarfinu áfram eftir þeirra dag. Löngu síðar, eða 1995, færði Arnór jörðina Háskólanum á Akureyri að gjöf, í minningu móður sinnar,  og er þar síðan ræktunarstöð Háskólans. Þess má að sjálfsögðu geta, að Arnór arfleiddi Háskólann einnig að afrakstri langs ævistarfs síns til uppbyggingar að Végeirsstöðum. Aðdáunarverður rausnarskapur.

Helgamagrastræti 50 er traustlegt og glæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Lóðin er líklega nokkuð breytt frá tíð þeirra bræðra Arnórs og  Þórðar en engu að síður vel gróin og í góðri hirðu, eins og flestar lóðir við Helgamagrastrætið.  Húsið er í góðri hirðu, nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 886. 3. okt. 1941. Fundur nr. 930, 23. okt. 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 58
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 534
  • Frá upphafi: 417755

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 340
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband