Hús dagsins: Möðruvallastræti 7

Möðruvallastræti 7 reisti Þorbjörg Einarsson árið 1942. PA270984Var það Ásgeir Austfjörð múrarameistari, sem reisti m.a. húsið á móti, Möðruvallastræti 6, sem sótti um byggingarleyfi fyrir hennar hönd. Fékk Þorbjörg að reisa hús á einni hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með steingólfi. Í bókunum  Bygginganefndar frá 1941-2 er þess sérstaklega getið, að Þorbjörg sé frá Siglufirði.  Teikningarnar gerði Guttormur Andrjesson.

Sú lýsing sem gefin er upp í bókunum bygginganefndar á að mestu leyti við húsið eins og það er í dag, enda lítið breytt frá upphafi, steinsteypuhús, ein hæð á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Bárujárna er á þaki og veggir múrsléttaðir og gluggar flestir með einu opnanlegu lóðréttu fagi, og sumir póstlausir.

Þorbjörg Ásmundsdóttir Einarsson var fædd að Brekkulæk í Miðfirði árið 1893. Hún nam hjúkrunarfræði í Kaupmannahöfn og starfaði við fag sitt í Danmörku um nokkurt skeið en heim fluttist hún 1923 en hún bjó á Siglufirði ásamt manni sínum, Steingrími Einarssyni, yfirlækni frá 1928 til 1941, að hann lést. Eftir lát hans fluttist hún til Akureyrar og reisti þetta veglega hús að Möðruvallastræti 7. Ef heimilisfanginu „Möðruvallastræti 7“ er flett upp í hinu stórkostlega gagnasafni prentmiðla, timarit.is birtast 21 niðurstöður. Ein af elstu niðurstöðunum eru frá október 1950 þar sem Þorbjörg Einarsson auglýsir „Ljós fyrir börn“ og að hún sé til viðtals milli 12-13. Þarna er svo sannarlega ekki um að ræða vasaljós heldur mun Þorbjörg hafa staðið fyrir ljósaböðum fyrir börn. Ljósin voru talin sérlega heilnæm fyrir börn um og eftir miðja 20. öld og ekki óalgengt að ljósalampar væru til staðar í barnaskólum. Þorbjörg fluttist héðan árið 1953 til Hafnarfjarðar þar sem hún tók við stöðu yfirhjúkrunarkonu hins nýreista hjúkrunarheimilis Sólvangs. Gegndi hún þeirri stöðu til dánardægurs, 1959. Margir hafa síðan búið hér um lengri eða skemmri tíma. Húsið mun að mestu óbreytt að ytra byrði frá upphafi og hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð, og hefur líkast til verið svo frá upphafi.

 Möðruvallastræti 7 er einfalt og látlaust, af dæmigerðri gerð íbúðarhúsa fimmta áratugs 20. aldar, eða eins og segir í Húsakönnun 2016 „Einfalt hús undir vægum einkennum funksjónalisma.“ (Minjasafnið, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 92). Í sömu húsakönnun er húsið metið með miðlungs eða fjórða stigs varðveislugildi. Húsið er í mjög góðri hirðu og lóðin gróskumikil og vel hirt. Fremst á lóð ber mikið á stæðilegum reynitrjám. Myndin er tekin þann 27. október 2019

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 886, 3. okt 1941.  Fundur nr. 912, 29. maí 1942.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 428
  • Frá upphafi: 417797

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 239
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband