Hús dagsins: Ráðhústorg 7

Ráðhústorg 7 reisti Axel Kristjánsson kaupmaður frá Sauðárkróki árin 1929-35. P1190969Snemma árs 1929 fékk hann  lóð vestast á SA- horni byggingarreits nr. 40. Lóðin er 12x16m og veitt á bráðabirgða, en rúmum tveimur árum síðar er honum leyft að reisa íbúðar- og verslunarhús, þrílyft með kvisti á framhlið, 10+12,15x11m að stærð, byggt úr steinsteypu og steinlofti. Fylgir sögunni, að Axel þurfi ekki að ljúka við allt húsið það sumarið (1931) nema þann sem snýr að Ráðhústorgi en verði að ljúka við húsið um leið og þess yrði krafist. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Var fyrsta hæð hússins þá þegar risin, en á mynd sem tekin er á sumardaginn fyrsta 1929 (Steindór Steindórsson 1993:182) má  sjá, að neðri hæðir Ráðhústorgs 7 og 9 eru risnar  Húsið varð raunar aldrei nema tveggja hæða, en fullbyggt mun húsið hafa verið 1935., en húsunum var frá upphafi ætlað, að mynda randbyggingu meðfram torginu, í samræmi við Aðalskipulag frá 1927. Þessi röð, sem byggðist á árunum 1929-1942 samanstendur raunar af alls fimm húsum, því sunnan Ráðhústorgs 7 standa Skipagata 1,5 og 7. (Af einhverjum ástæðum er engin Skipagata 3). Árið 1998 bættist síðan en við þessa röð þegar Skipagata 9 reis, en það hús er nokkuð frábrugðið hinum eldri.

Ráðhústorg 7 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Grunnflötur hússins er fimmhyrningslaga, framhlið meðfram götu snýr til vesturs og norðvesturs, og aðliggjandi hús áföst norðaustanvið og sunnan við. Á efri hæð eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, sem gefur byggingunni ákveðinn svip.

Ráðhústorg 7 hefur alla tíð verið verslunar- og skrifstofuhús, en einnig hefur verið búið þar. Síðla árs 1931 fluttist útibú Landsbankans hingað og var hér í rúma tvo áratugi. til húsa, (sjá mynd hér). Þá var Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO einnig með aðsetur í húsinu. Annaðist bifreiðastöðin akstur m.a. til Dalvíkur og Húsavíkur auk „lengri og skemmri ferða“. Sumarið 1933 lögðu áætlunarferðir Bifreiðastöðvar Steindórs til Reykjavíkur upp frá BSO. Á stríðsárunum var Breska hernámsliðið með skrifstofu í Ráðhústorgi 7, Hirings and complaints office. Þeirri skrifstofu var ætlað að annast kvartanir, skaðabótakröfur eða samningamál um leigu varðandi setuliðið. Fór þriggja manna nefnd fyrir þessari skrifstofu, dr. Kristinn Guðmundsson (síðar utanríkisráðherra), Stokes major og captain Clive Morris.  Það yrði nokkuð langt mál að telja allar þær verslanir og skrifstofur sem verið hafa í húsinu, en þó skal hér tæpt á nokkrum þeirra.  Margir muna eflaust eftir húsgagnaverslun Jóhanns Ingimarssonar, Örkinni hans Nóa, en Jóhann var ævinlega kallaður Nói. Þá var Saumastofa Gefjunar í húsinu  á 6. og 7. áratugnum. Var hún opnuð skömmu fyrir jólin 1955, og starfrækt þarna í rúman áratug. Aftur hófst verslun með fatnað í Ráðhústorgi 7 þegar þar var opnuð verslunin Perfect, og hafa hér verið tískuverslanir síðustu árin. Á 1. áratug 20. aldar var starfræktur í Ráðhústorgi 7, sportbarinn Ali.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Nú eru tvö rými á götuhæð, í nyrðra rými er tískuvöruverslunin Didda Nóa en í syðra rými veitingastaðurinn Serrano. Á efri hæðum eru skrifstofur. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 624, 31. jan. 1929. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 668, 6. ágúst 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 429
  • Frá upphafi: 420129

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband