Hús dagsins: Lundur

Bæjarland hins upprunalega Akureyrarkaupstaðar afmarkaðist af smárri eyri undir Búðargili, þ.e. Akureyri, og mjórri landræmu í fjörunni sunnan við. Upp úr miðri 19. öld komst Oddeyrin undir lögsagnarumdæmið og var þar komið heilmikið undirlendi. Í ört stækkandi kaupstað horfðu menn eflaust einnig upp fyrir brúnir brekknanna miklu, en þar voru fleiri ferkílómetrar aflíðandi landsvæðis sem aldeilis mætti nýta til ræktunar og uppbyggingar. Varð það úr, að Akureyrarbær keypti Stóra Eyrarland árið 1893 og lagði undir lögsagnarumdæmi sitt þremur árum síðar. Yfirlýstur tilgangur með kaupunum var einmitt að útvega bæjarbúum svæði til húsbygginga og landbúnaðar (Sbr. Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:662). Þannig komst ysti hluti þessara miklu lenda, sem nú kallast einfaldlega Brekkan, undir bæinn. Löngu síðar hafði bærinn tryggt sér þrjár næstu jarðirnar sunnan við Stóra Eyrarland; Naust, Hamra og Kjarna. Á fyrri hluta 20. aldar voru margar smærri bújarðir og grasbýli byggð á Brekkunni. Eitt þeirra sem mest kvað að, með stærri kúabúum Eyjafjarðarsvæðisins og síðar búfjárræktarstöð, var Lundur. Þar standa enn vegleg bæjarhús sem Jakob Karlsson reisti árið 1925 en mögulega hyllir senn undir endalok þeirra.  P1141030

 

Það var árið 1922 sem þeir Friðgeir H. Berg, Gísli R. Magnússon og téður Jakob Karlsson fengu 20 hektara erfðafestuland á svokölluðum Flóa eða Krossholti. Um var að ræða móa og mýrlendi en þeir félagarnir settu það ekki fyrir sig, því þeir höfðu afnot af hinum annálaða Þúfnabana. Tryllitækið mikla braut á endanum 60 dagsláttur lands í Flóanum, en það munu vera nálega 20 hektarar.  

Á fundi Bygginganefndar þann 26. mars árið 1925 afgreiddi bygginganefnd Akureyrar leyfi Jakobs Karlssonar og meðeiganda hans fyrir húsbyggingu, íbúðar- og peningshúsi á erfðafestulandi þeirra í svonefndu Krossholti. Húsið átti að byggjast úr steini og var „vinkilbygging“; tvær álmur hornréttar hvor á aðra, austurálma 26,45x9m en norðurálma 22,10x9m.  

Fram kemur að húsið byggist samkvæmt framlögðum uppdrætti en sá uppdráttur hefur líkast til ekki varðveist, alltént er hann ekki aðgengilegur á kortagagnagrunni Akureyrar á map.is. En hver teiknaði Lund? Húsunum svipar að mörgu leyti til hugmynda sem Guðjón Samúelsson hafði um íbúðarhús til sveita á þessum árum.  Sótti hann þá fyrirmynd í danska búgarða, og birtast nokkrar slíkar teikningar í bók Péturs H. Ármannssonar; Guðjón Samúelsson húsameistari (2020), sem er sannkallað stórvirki. En er Guðjón Samúelsson hönnuður Lundar? Lundar er ekki getið í bók Péturs, svo því er til að svara, að líklega er það ekki raunin. Það gæti einnig verið, að hönnuður Lundar hafi verið Sveinbjörn Jónsson, löngum kenndur við Ofnasmiðjuna en hann teiknaði mörg hús á Akureyri og nærsveitum á þessum árum. Lundar er þó heldur ekki getið í ævisögu Sveinbjarnar. Önnur tilgáta um hönnuð Lundar gæti verið Tryggvi Jónatansson, en hann teiknaði einnig mörg hús á Akureyri á þessum árum og síðar.  Einnig gæti Jakob Karlsson hafa teiknað húsið sjálfur. Sannast sagna hefur greinarhöfundur ekki glóru um hver teiknaði Lund og eru þær upplýsingar raunar vel þegnar, lumi einhver lesandi á þeim 

Íbúðarhúsið á Lundi er einlyft steinhús með háu , gaflsneiddu risi og smáum kvisti á suðurhlið. Vestur úr húsinu er einlyft viðbygging með flötu þaki. Norðurálma, sem í upphafi var gripahús er ein hæð með háu risi auk tveggja gaflsneiddra kvista til norðurs, Þá er lítill kvistur á norðausturhorni, þar sem eru síðari tíma inngöngudyr, auk þess sem nýlegt „gluggastykki“ er u.þ.b. á miðri framhlið norðurálmu. Allar eru byggingarnar múrhúðaðar og þök bárujárnsklædd. Grunnflötur íbúðarhúss mælist skv. ónákvæmri mælingu á map.is u.þ.b. 9x10m auk viðbyggingar 8x6m en gripahúsálma mælist um 17x9m í N-S og 26x9m í A-V. Í Byggðum Eyjafjarðar 1970 er íbúðarhúsið sagt 653 rúmmetrar að stærð (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973: 247).  

Af þeim þremenningum, Friðgeiri, Gísla og Jakob virðist aðeins sá síðastnefndi hafa lokið við uppbyggingu býlisins. Mögulega hefur hann „keypt þá út“ eða þeir einfaldlega snúið sér að öðru. Framkvæmdir Jakobs Karlssonar uppi á Flóanum vöktu töluverða athygli og mun hann hafa þótt stórhuga. Margir lögðu þar hönd á plóg og mun Jakob hafa fengið mikið lið kvenna og unglinga til að reyta upp lyng og kjarrgróður þar sem hann hugðist rækta upp tún (Sbr. Jón Hjaltason 2004: 134). Kannski var þessi lyngleiðangur farinn sumarið 1925, en 6. ágúst það ár gerði dagblaðið Dagur uppbyggingu og ræktun Jakobs skil: „Landið [Jakobs Karlssonar] er í þann veginn að komast í góða rækt. Lætur Jakob nú í sumar byggja á landinu snoturt íbúðarhús, fjós, hesthús, haughús og hlöðu og súrheysgryfju í hlöðunni. Er öll byggingin úr steini. Er þarna að rísa upp laglegur búgarður, þar sem áður voru óræktarmóar. Mun Jakob hafa þarna sumarbústað“ (Í Degi, án höfundar, 32 tbl. 1927:127). Þarna hefur eflaust verið um að ræða einn veglegasta sumarbústað landsins á þeim tíma, húsið á pari við mörg stærri einbýlishús í kaupstöðum.  P1141035

Jakob Karlsson (1885-1957) hafði þegar þarna var komið sögu stundað verslunarstörf á Akureyri en sinnti ræktunar- og uppbyggingarstarfinu ofan Akureyrar af áhuga. Hann gegndi alla tíð sínum störfum við Eimskipafélagið og síðar Skipaútgerð Ríkisins og var auk þess umboðsmaður Olíuverslunar Íslands. Búskapurinn var þannig aldrei aðalstarf Jakobs, en hann hafði ætíð vinnuhjú. Ekki leið á löngu  uns Jakob, kona hans Kristín Sigurðardóttir, börn þeirra og foreldrar hennar fluttu búferlum úr Hafnarstræti 93 (hús sem kallað var Jerúsalem, brann árið 1945)  í sumarbústaðinn. Var það árið 1928, en þá eru þau í Manntali skráð til heimilis í „Búgarði Jakobs Karlssonar“  í Manntali. Heitið Lundur kemur fyrst fyrir í Manntali árið 1930. Nafnið Lundur mun tilkomið af því, að Kristín var fædd og uppalin að Lundi í Fnjóskadal (Sbr. Jón Hjaltason 2004: 134).  Búgarðurinn að Lundi var annálaður fyrir metnað og myndarskap búrekenda og var á tímabili stærsta kúabú í Eyjafirði (sbr. Steindór Steindórsson 1993: 152). Gefum Tryggva Emilssyni orðið: „[...]Var mér sagt að þúfnabaninn mikli hefði verið þar að verki og allt landið gert að flagi á skömmum tíma, jafnvel einu sumri. Á sama tíma hafist handa við byggingu búgarðs í norðurjaðri túnbreiðunnar, var það íbúðarhús, fjós fyrir milli 20 og 30 nautgripi, hesthús, hlaða og súrheysturnar, allt í stíl erlendra búgarða og var þetta þá ein vandaðasta bygging sem þá hafði risið undir Súlutindum“ (Tryggvi Emilsson 1977: 214). Getur Tryggvi þess einnig, að þau sextán ár sem hann hafi verið í nábýli við Lund hafi verið þar sömu vinnumenn og vinnukonur og þar hafi ríkt fyrirmyndar regla og stundvísi. 

 

Lundur var virtur til brunabóta í desember árið 1925 og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr steini, 9,5x9m, einlyft með háu risi á kjallara. Á gólfi (neðri hæð) voru 3 stofur, eldhús, forstofa og gangur. Á lofti voru 3 stofur, eldhús og forstofa og í kjallara 4 geymsluherbergi. Áfast við íbúðarhúsið var gripahús og heyhlaða úr steini, 34,5x9m, einlyft með háu risi á kjallara. Næst íbúðarhúsi var fjós fyrir 23 kýr, þar næst hesthús fyrir 6 hesta og heyhlaða fjærst (nyrst) fyrir 1000 hesta (hestur er forn mælieining fyrir hey, miðaðist við hestburð og jafngildir um 100kg.). Undir fjósi og hesthúsi var safngryfja og stórt pláss fyrir svörð við enda hesthússins. Þá var þess getið að í húsinu væri skólp, vatns- og rafleiðsla. (sbr. Brunabótafélag Íslands 1922-29: 141). Slíkt var aldeilis ekki sjálfgefið í íbúðarhúsum til sveita á þeim tíma, og raunar mörg hús í kaupstöðum án þeirra.  P1141026

Jakob Karlsson og Kristín Sigurðardóttir bjuggu hér myndarbúi allt til ársins 1949. Árið 1940 byggðu þau við íbúðarhúsið, einlyfta byggingu til vesturs. Árin 1949-52 virðist hafa verið tvíbýlt á Lundi en þá eru samtímis búsett þar þau Ásgrímur Stefánsson og Guðrún Adolfsdóttir annars vegar og hins vegar Þorvaldur Jónsson og María Stefánsdóttir. Frá 1952 til 1956 eru aðeins síðarnefndu hjónin skráð ábúendur að Lundi. Árið 1955 keypti Samband Nautgriparæktarfélaga í Eyjafirði, S.N.E., Lund. Einnig keypti sambandið jörðina Rangárvelli, rétt handan Glerár. Kallaðist býlið þá Búfjárræktarstöðin í Lundi. Var hin nýja búfjárræktarstöð formlega tekin í notkun 1. júní 1956 og var bústjóri fyrstu árin Ingólfur Lárusson frá Gröf í Kaupangssveit. Hófst enn á ný uppbygging á Lundi. ÁriP1141029ð 1958 reisti sambandið nýtt fjós fyrir 48 gripi og 2000 hesta heyhlöðu. Með tilkomu nýja fjóssins var eldra fjósið nýtt sem sæðingastöð, en sú hafði fram að því (1959) verið starfrækt að Grísabóli (þar sem nú er verslunarmiðstöðin Kaupangur). Nýbyggingar þessar voru reistar norðan eldri bygginga.  

Árið 1970 taldi bústofninn að Lundi eftirfarandi: 48 kýr, 83 geldneyti, 12 naut til undaneldis og hvorki meira né minna en 488 svín, auk sex hrúta og einnar ær. Svínin voru hýst á Rangárvöllum og nýtti S.N.E. einnig þá jörð. Þannig varð túnstærð Lundarbúsins alls 78,4 hektarar (Ármann, Eggert og Sveinn 1973: 247). En þá var þéttbýlið óðfluga að nálgast stórbýlið að Lundi og farið að þrengja nokkuð að. Árið 1974 lauk búrekstri að Lundi og ári síðar seldi nautgriparæktarsambandið öll húsin að Lundi. Áfram var búið í íbúðarhúsinu og hefur verið búið þar alla tíð síðan, munu þar nú tvær íbúðir. Í fjósunum voru síðar innréttuð verslunarrými. Fjósið og hlaðan frá 1958 standa enn og eru þar nú verslunarrými og samkomusalur, auk höfuðstöðvar og verslunar Rauða Krossins á Akureyri. Þar voru áður m.a. smíðaverkstæði, vídeóleigur og skyndibitastaðir  áratugina fyrir og um aldamótin.  

Áratug eftir að síðustu nautgripirnir yfirgáfu gamla fjósið á Lundi, eða 1984, komst húsnæðið í eigu Hjálparsveitar skáta. Keyptu þeir húshlutann af Snorra Friðleifssyni, byggingameistara, sem hafði innréttað þar smíðaverkstæði. Hann hafði áður selt skátunum húsnæði í Kaldbaksgötu á Oddeyri.  Þar innréttaði hjálparsveitin aðsetur sitt, fundaraðstöðu og stjórnstöð í austurálmu og vélageymslu í vesturálmu. Voru þær breytingar gerðar eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Það fylgir sögunni, að með fyrstu verkum Hjálparsveitarmanna, áður en endurbyggingin hófst, var að moka út nokkrum tonnum af kúaskít, 15-20 ára gömlum, eða frá síðustu árum Búfjárræktarstöðvarinnar. Nýtt húsnæði var formlega tekið í notkun í nóvember 1984 og var Hjálparsveit skáta þarna til húsa allt til ársins 2000. Hefur síðan ýmis starfsemi verið í þessu rými. P1141048 

Lundur og nærumhverfi hans eru til mikillar prýði í umhverfinu og í ágætri hirðu. Sunnan hússins er stór lóð og þar gróskumikil tré. Spölkorn (um 300m) suðvestan Lundar, nokkurn veginn á milli lóðar Mjólkursamlagsins og götunnar Daggarlundar rís Hestklettur, um 20 metra hár klettahamar, upp úr landinu. Er klettur þessi að mestu skógi klæddur og er þar m.a. um að ræða tré, sem Jakob Karlsson gróðursetti á sínum tíma. Eru þar m.a. reyni- og birkitré og þau elstu væntanlega meira en 75-80 ára gömul. Þegar greinarhöfundur fór í ljósmyndaleiðangur að Lundi um daginn brá hann sér einnig á Hestklett. Skógurinn var auðvitað í vetrarham, um miðjan janúar, en fyrir vikið sást kletturinn betur.  P1141038

Greinarhöfundur veit ekki til þess, að Lundur hafi varðveislugildi, en sögulegt gildi hans hlýtur að vera allnokkurt. Gömul býli í þéttbýli eru í eðli sínu merkar byggingar og setja oftar en ekki skemmtilegan svip á umhverfi sitt. Þá fylgja þeim oftar en ekki miklar og gróskumiklar lóðir. Greinarhöfundur hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að fyrrum býli í þéttbýli eigi að vera friðuð og er Lundur þar engin undantekning. Þá einkum og sér í lagi vegna sérstæðrar og áhugaverðrar sögu hans auk þeirrar staðreyndar, að nærliggjandi götur eru nefndar eftir honum. Þar má m.a. nefna Hrísalund, Tjarnarlund, Heiðarlund, Hjallalund og Furulund. Raunar má segja að hverfið dragi nafn sitt af hinu fyrrum stórbýli; sbr. Lundahverfi. En auðvitað hefur höfundur einnig skilning á því og veit, að ekki verða allar byggingar friðaðar eða varðveittar. Líkt og hjá Jakobi Karlssyni og félögum fyrir einni öld og Sambandi Nautgriparæktarfélaga þrjátíu árum síðar er nú enn einu sinni fyrirhuguð uppbygging á Lundi. Uppi eru nefnilega áform um byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðinni og Lundi þá gert að víkja. Gangi það eftir, munu vörpuleg sex hæða stórhýsi leysa af hólmi „eina vönduðustu byggingu“ sem á sinni tíð „hafði risið undir Súlutindum“. (Tryggvi Emilsson 1977: 214)  

Myndirnar eru teknar þann 14. janúar 2023. 

 

Heimildir: Ármann Dalmannson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar  

Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Akureyrarkaupstað 1922-29. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_3_virdingabok_1922_1929?fr=sMTZmNDQzODI5ODU 

Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 564, 26. mars 1925. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu 

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.  

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Jón Hjaltason. 2004. Saga Akureyrar IV bindi. Akureyrarbær. 

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.  

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur 

Tryggvi Emilsson. 1977. Baráttan um brauðið. Reykjavík: Mál og menning.  

Manntöl á manntal.is og greinar á timarit.is; sjá tengla í texta 

Umreikningur á hinum fornu mælieiningum landbúnaðarins, hestum og dagsláttum fengin af Vísindavefnum, sjá tengla í texta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0685
  • IMG_0776
  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 217
  • Sl. viku: 563
  • Frá upphafi: 419505

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 463
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband