Hús dagsins: Strandgata 9,11 og 13.

Í síðustu færslu á miðvikudaginn var fjallaði ég um stórhýsið Strandgötu 3 og Strandgötu 7. En síðarnefnda húsið er hluti af torfu timburhúsa frá 1907 sem liggja milli Geislagötu og Glerárgötu og því liggur beinast við að fjalla um hin þrjú húsin 9, 11 og 13. Þessi hús eru reist á grunni mikilla stórhýsa sem brunnu í Oddeyrarbrunanum  18.október 1906. Þar eyðilögðust þrjú stærstu hús Oddeyrar og ef ekki Akureyrar allrar, en allt voru þetta nýreist hús á þrem eða fleiri hæðum. Þar sem þessar myndir eru teknar 2007 eru húsin öll á 100.aldursári þarna. Fyrir ca. 12-15árum voru öll þessi hús að niðurlotum komin ef svo mætti segja, en voru öll tekin í gegn árin 1997-2003 og líta nú frábærlega út og eru til mikillar prýði  í innkeyrslu Miðbæjarins.

p2110020.jpg

Strandgata 7 sjá síðustu færslu. Hér á myndinni sést húsið raunar mun betur.

Strandgata 9: Er þriggja hæða húsið fyrir miðju. Byggt af manni að nafni Kolbeinn Árnason og hafði Alþýðuflokkurinn lengi aðsetur í húsinu. Verslanir voru í kjallara en íbúðir á efri hæðum. Að morgni  25.apríl 1998 kviknaði í húsinu og skemmdist það  nokkuð. Ég var einmitt á  sunnudagsgöngu þarna framhjá þegar það gerðist.  Þá hafði húsið staðið yfirgefið í nokkurn tíma. Á næstu tveimur árum var húsið allt byggt upp frá grunni og nú eru þarna 4 íbúðir á 2. og 3. hæð og verslun Tölvulistans og hárgreiðslustofa á 1. hæð. Fáeinum misserum eftir að endurgerð hússins lauk  heyrði ég eldri konu í strætó segja frá því að hún hefði búið í Strandgötu 9 fyrir 60 árum og það hefði aldrei litið betur út en núna. 

Strandgata 11 Hvíta tvílyfta húsið til hægri. Þarna var lengi vel vélsmiðja og vélaverkstæði sem hét Mars og mun hafa verið fyrsta vélsmiðja á Akureyri. Yfirmaðurinn þar hét Óskar Sigurgeirsson. Neðri hæðin hefur alla tíð verið iðnaðar- og síðar verslunarrými en íbúð eða skrifstofur á efri hæð. Nú er rekin á neðri hæð hamborgarastaðurinn DjGrill en íbúð á efri hæð. Leiðrétting 10.11.: Var að blaða í 4.bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason. Þar sá ég í myndatexta að vélsmiðjan Mars var ekki í þessu heldur í steinhúsi á baklóð hússins, Strandgötu 11b. Það hús stendur enn og var þar rekin fiskbúð um áratugaskeið og flestir þekkja það hús einfaldlega sem Fiskbúðina.

Strandgata 13 stendur á horni Glerárgötu og Strandgötu og er stundum kallað Horngrp2100010.jpgýti eða Hornskekkja vegna sérkennilegar lögunnar sem sést vel á þessari mynd. Var þetta íbúðarhús lengst framan af en þetta var einnig hótel eða gistiheimili um árabil. Haustið 1997 var þetta hús farið að láta á sjá. Þá var ráðist í umfangsmikla framkvæmd á húsinu en því var lyft um tæpa tvo metra og steyptur undir það nýr kjallari.  Í kjölfarið var svo ráðist í endurbyggingu á efri hæðum hússins og var henni lokið að mestu 1999. Í kjallaranum hefur síðan verið veitingarekstur en fasteignasala og skrifstofur eru á efri hæðum.  Eins og áður segir eru öll þessi hús byggð 1907.

Myndirnar í þessari færslu eru teknar í febrúar 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ekki alveg sammála þér um fiskbúðina í Strandgötu 11b.   Ég held að þegar Vélsmiðjan Mars flutti burtu (rann hún ef til vill inn í Vélsmiðjuna Odda, sem starfaði neðar í Strandgötunni,  þar sem Vélsmiðjan er til húsa í dag ?)  hafi húsið verið nýtt fyrir Gúmmíviðgerð KEA í allmörg ár.  Sú starfsemi fluttist út á Óseyri,  sennilega upp úr 1980.  Þá loks kom fiskbúð í húsið.

Logi (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 20:09

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

 Þakka kærlega fyrir þessa ábendingu. Fór þarna mjög hratt yfir sögu en hafa skal það sem sannara reynist. Fiskbúðin var líklega ekki nema 15-20 ár í húsinu þ.a. áratugaskeið er kannski heldur djúpt tekið í árinni.  Fiskbúðin var meira segja að ég held aðeins í hluta af húsinu, hinn hlutin var örugglega  verkstæðisrými.

Kveðja, Arnór

Arnór Bliki Hallmundsson, 12.11.2009 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 424
  • Frá upphafi: 417793

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 237
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband