Hús dagsins: Strandgata 19

Innan bæjarmarka Akureyrar standa, svo höfundur viti til, 12 hús frá árabilinu 1880-1890. Svo vill til, að helmingur þeirra, sex að tölu er byggður 1886! Mætti þá ætla, að nokkur uppgangur hafi verið í bænum það ár og mikið byggt miðað við önnur ár? Það er reyndar ekki svo einfalt. Einhver þeirra húsa sem byggð voru á þessu árabili hafa brunnið eða verið rifin og einnig er það svo, að byggingarár húsa sem byggð voru á þessum tíma þarf í einhverjum tilfellum að taka með fyrirvara. Á milli Strandgötu og Glerárgötu vill svo til, að standa þrjú hús af téðum „1886 árgangi“ Akureyrarhúsa í röð. Eitt þeirra er Strandgata 19, sem margir kannast við undir nafninu Brattahlíð. Einhverjum kynni að þykja það sérkennilegt nafn á húsi á marflatri eyri en ástæða þeirrar nafngiftar verður rakin síðar í greininni...20240121114120_IMG_1425

Strandgötu 19 reisti norskur skipstjóri að nafni Jon Jacobsen, sem bygginganefnd Akureyrar kallaði reyndar upp á íslensku Jón Jakobsson, þegar hún bókaði lóðamælingu og byggingaleyfi fyrir hann þann 10. maí 1886. Húsið Jons skyldi 12 álnir að lengd og 10 álnir á breidd og lóðamörk 10 álnir vestan við hús Þórðar Brynjólfssonar og „[...] í rjettri línu með því og öðrum húsum í strandgötunni“ (Bygg.nefnd Ak. nr. 72, 1886). Þarna er talað um strandgötuna með litlum staf en nafnið Strandgata kom ekki til fyrr en um aldamót 1900. Í Manntali árið 1890 eru öll hús á Oddeyri kennd við eigendur eða húsbændur og þetta hús því einfaldlega kallað Hús Jóns Jacobsen, Oddeyri. Þá búa í húsinu, auk Jóns, kona hans, Katrín Guðmundsdóttir Jacobsen og þrjár ungar dætur þeirra, Anna, Emma og Dagmar. Ári síðar eignuðustu þau soninn Jakob Lúther.

Strandgata 19 er tvílyft timburhús á lágum steinkjallara og með lágu, aflíðandi risi. Að norðan, þ.e. bakhlið, er tvílyft viðbygging eða bakálma og er hún með lágu einhalla þaki mót austri. Austanmegin á bakhlið er einlyft bygging, einnig með einhalla þaki en þak hennar hallar til norðurs, líkt og á framhúsinu. Framhlið hússins er klædd sléttri klæðningu, nánar tiltekið lökkuðum spónaplötum en á stöfnum er listasúð á neðri hluta en lárétt panelklæðning á efri hluta. Undir gluggum efri hæðar er listi eða skrautband meðfram neðri gluggalínu. Á neðri hæð eru síðir „verslunargluggar“  en einfaldir, lóðréttir póstar í flestum öðrum gluggum. Undir rjáfrum eru tígullaga smágluggar. Grunnflötur  framhúss er 8,21x6,38m, vestri útbygging 4,43x3,21m og sú eystri 3,78x3,21m (skv. uppmælingarteikningum Loga Más Einarssonar). 20240121114052_IMG_1424

Jón Jacobsen mun hafa verið fæddur árið 1854 í Noregi. Á Íslandi virðist hann fyrst hafa alið manninn í Hrísey en þaðan mun hann hafa komið til Akureyrar árið 1883. Mögulega hefur hann kynnst konu sinni, Katrínu Sesselju Guðmundsdóttur (1862-1943) á Hríseyjarárunum, en hún var árið 1880 vinnukona á Stóru – Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Katrín mun hafa verið úr Húnavatnssýslu, sögð fædd í Bergsstaðasókn, en skráð sem niðursetningur á Tyrfingsstöðum í Skagafirði árið 1870. Þau flytja til Akureyrar árið 1883 og þremur árum síðar byggja þau þetta hús á Oddeyri. Höfðu þau þá eignast tvær dætur, Önnu í febrúar 1884 og Emmu í september 1885.  Þau hafa væntanlega verið nýflutt í nýja húsið þegar sú þriðja, Dagmar, fæddist í ársbyrjun 1887.  Jón Jacobsen mun hafa flust til Noregs árið 1898 skv. islendingabok.is. Hefur hann þá væntanlega verið alfarinn, því ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hann eftir það dánardagur hans ekki skráður á téðri Íslendingabók. Kannski hefur Jón aðeins ætlað sér á vertíð til Íslands en ílengst og dvölin orðið hátt í tveir áratugir. Hvort Katrín fylgdi manni sínum til Noregs fylgir ekki sögunni en alltént er hún búsett á Akureyri árið 1901, húskona í Strandgötu 19a. Þar er hún skráð gift en enginn eiginmaður búsettur þar. Þannig mætti ætla, að þau hafi aldrei slitið samvistum þó hann flytti af landinu og hún yrði eftir. Árið 1901 búa þau Jakob Lúther og Dagmar hjá móður sinni, sú síðarnefnda titluð „veik“ í manntali. Emma var þá orðin vinnukona á Möðruvöllum í Hörgárdal, en elsta dóttirin, Anna Salbjörg hafði látist aðeins 12 ára gömul, árið 1896.  Og þann 4. mars 1902, réttum tveimur mánuðum eftir fimmtánda afmælisdag sinn, lést Dagmar Jacobsen, mögulega af umræddum veikindum. Af börnum þeirra Jóns og Katrínar Jacobsen komust þannig aðeins tvö til fullorðinsára. Jakob Lúther fluttist til Noregs árið 1906 og á Íslendingabók segir að hann hafi siglt um öll heimsins höf. Hann fluttist til Bandaríkjanna 1919 en ekki liggja fyrir upplýsingar um dánardægur hans. Emma, sem lést árið 1950, mun hafa flust austur til Norðfjarðar, er skráð þar sem húsfreyja árið 1930.

(Sem fyrr segir er Katrín Guðmundsdóttir og tvö börn hennar skráð til heimilis að Strandgötu 19a árið 1901. Það er ekki víst að um sé að ræða þetta hús, þar sem númeraröðin við götuna var með öðrum hætti og jafnvel nokkuð óskipulögð. Sem dæmi um þetta má nefna, að hús Snorra Jónssonar er sagt nr. 23 árið 1901 en ári síðar er það nr. 19. Þá er númeraröðin orðin samræmd og þá er fyrrum hús Jóns Jacobsen orðið Strandgata 9).

Árið 1902 eignast húsið Lúðvík Sigurjónsson. Hann var fæddur og uppalinn á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu. Bróðir hans var Jóhann skáld, sem kannski er þekktastur fyrir leikrit sín um Fjalla Eyvind og Höllu sem og Galdra- Loft. Lúðvík gerði nokkrar breytingar á húsinu, sem í upphafi var einlyft með háu risi. Á Þorláksmessu 1904 var Lúðvík heimilað að byggja 5 álna kvist á su20240121113141_IMG_1418ðurhlið hússins og setja dyr á vesturstafn og byggja upp að þeim tröppur. Kvistinn byggði hann hins vegar ekki, því í febrúar 1905 sækir hann um og fær leyfi til að byggja „eina lofthæð ofan á hús sitt“ og gera má ráð fyrir, að efri hæðin hafi risið það ár. Fékk þá húsið það lag sem það nú hefur. (Þess má reyndar geta, að skráð byggingarár hússins virðist miðast við þessar breytingar).  Svipmót hússins er í raun ekki ósvipað húsum sem standa við Hafnarstræti 31-41 en þau risu einmitt á árabilinu 1903-06. Hvort að sú hönnun hafi verið höfð til hliðsjónar við stækkum Strandgötu 19 (nr. 9 árið 1905) er alls óvíst og þarf raunar ekki að vera, en gaman að skoða þetta í samhengi. Síðla árs 1906 fékk Lúðvík að reisa viðbyggingu norðan við húsið, 5 álnir að breidd og 3,5-4 álnir að hæð (lægri að framan, m.ö.o með hallandi þaki). Árið 1906 vildi einnig svo til að faðir Lúðvíks, Sigurjón Jóhannesson bóndi á Laxamýri, þá orðinn 73 ára, ákvað að bregða búi og flytja til Akureyrar. Reisti hann sér hús í bakgarði sonar síns og það sem kannski var sérstakt við það, var að bakhúsið var mikið stærra og íburðarmeira en framhúsið! Um var að ræða eitt af stærri einbýlishúsum Oddeyrar, timburhús í norskum sveitserstíl, sem þá var það allra veglegasta í húsabyggingum. Nefndi Sigurjón húsið að sjálfsögðu Laxamýri. Árið 1911 eignast Egill, bróðir Lúðvíks húsið, en sá síðarnefndi býr þar áfram. Þremur árum síðar er skráður til heimilis í húsinu Brynjólfur Stefánsson skósmiður. Og árið 1915 er Brynjólfur orðinn eigandi hússins.

Í árslok 1916 var Strandgata 19 virt til brunabóta og þá sagt tvílyft íbúðar- og verlsunarhús með lágu risi og stórum skúr við bakhlið. Á neðri hæð voru tvær sölubúðir, skósmíðaverkstæði og vörugeymsla. Á efri hæð voru alls fjórar stofur, eldhús og forstofa. Kjallari var óinnréttaður. Húsið var timburklætt og pappi á þaki. Á húsinu var einn skorsteinn og 20 gluggar en mál voru sögð 8,2x6,3m og hæð 6,9m. Gerð var athugasemd um það, að skorsteinsveggir væru of þunnir í lofti og þekja ójárnvarin (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr.165).IMG_0077

Brynjólfur mun hafa stundað iðn sína hér og um 1920 hefur hann almennan verslunarrekstur  í húsinu. Mögulega hefur hann tekið við rekstri af Lárusi Thorarensen, sem virðist hafa verslað hér á 2. áratug 20. aldar, auglýsir m.a. „dýrtíðarkol“ árið 1918. (Eða réttara sagt, Bjargráðanefnd úthlutaði kolunum og þau mátti nálgast hjá Lárusi).  Verslun sína kallaði Brynjólfur, Bröttuhlíð og birtist það heiti fyrst á prenti vorið 1920. Í fyrstu virðist hann hafa verslað með skófatnað, leðurvörur og annað álíka en árið 1922 býður hann til sölu hinar ýmsu vörur, auk skófatnaðar m.a. sápur, hnífa, borðbúnað, leirtau, kaffi, sykur og sveskjur og auglýsir Bröttuhlíð sem heildverslun. Árið 1927 hækkar Brynjólfur vestari hluta bakálmu hússins. Fékk hann framkvæmdaleyfi gegn því, að hann byggði eldvarnarvegg (steyptan, gluggalausan vegg) að norðan og járnklæddi vesturstafn. Teikningarnar að þeim breytingum gerði Gunnar Guðlaugsson trésmiður í Lundargötu 10. Hann var einnig mikill frumkvöðull í skátastarfi hér í bæ.P6220124

   Við þessar byggingaframkvæmdir Brynjólfs mun húsið hafa fengið að mestu það lag sem það hefur nú. Ef við förum nú leifturhratt yfir sögu þessarar aldar sem liðin er frá upphafsárum verslunar Brynjólfs Stefánssonar er skemmst frá því segja, að alla tíð síðan hefur verið einhvers konar verslun eða þjónusta á neðri hæð hússins en íbúð á þeirri efri. Brattahlíðarnafnið mun aðeins hafa verið á versluninni um nokkurra ára skeið á 3. áratug sl. aldar en nafnið festist á húsið og í hugum margra kallast Strandgata 19 ætíð Brattahlíð enn í dag. Árið 1927 tilkynnir Brynjólfur, að hann hafi opnað nýja verslun, Verzlunina Oddeyri þar sem Brattahlíð var áður. Um áratug síðar opnar Pöntunarfélag Verkamanna, verslun þarna en virðist staldra stutt við.  Brynjólfur Stefánsson átti hér heima til dánardægurs, síðla árið 1947. Á meðal verslana sem starfræktar hafa verið í Strandgötu 19, miðað við auglýsingar í blöðum má nefna Verslunina Skeifuna sem þarna er auglýst 1956 og Óskabúðina sem m.a. er auglýst þarna árið 1964 og mun hún hafa verið við lýði fram undir 1977. Árið 1978 er gullsmíðastofan Skart þarna til húsa og greinarhöfundur man eftir myndbandaleigu í húsinu um 1990. Síðasta áratug eða svo hafa verið starfræktar hárgreiðslustofur á neðri hæðinni og þegar þetta er ritað hárgreiðslustofan Hárið þar til húsa.  Í Húsakönnun 1990 er Strandgata 19 sögð hafa varðveislugildi sem hluti af heild og árið 2020 hlýtur húsið hátt varðveislugildi og skorar hátt á öllum mælikvörðum þess, að því undanskildu, að skúrbyggingar á bakhlið teljast spilla heildarmynd (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021: 47). Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað og götumynd Strandgötu flokkast einnig sem varðveisluverð heild. Strandgata 19 er svo sannarlega til mikillar prýði í einni tilkomumestu götumynd bæjarins.

Myndirnar eru teknar 22. júní 2011 og 26. febrúar 2023. Og þar sem Strandgata 19 var máluð og yfirfarin að utan sumarið 2023 þótti mér ófært annað en að taka nýjar myndir af húsinu og þær eru teknar 21. janúar 2024. 

 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 72, 10. maí 1886. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 282, 23. des. 1904, nr. 287, 25. feb. 1905 og nr. 322, 27. nóv. 1906. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 591, 8. apríl 1927. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is


Hús dagsins: Munkaþverárkirkja

Sunnarlega við neðstu rætur Staðarbyggðarfjalls stendur hið valinkunna höfuðból Munkaþverá. Eins og nafnið gefur til kynna dregur bærinn nafn sitt annars vegar af munkum og Þverá efri, sem rennur í Eyjafjarðará þar steinsnar frá, hins vegar. Í daglegu tali margra er nafn bæjarins yfirfært á ána og jafnframt  hið hrikalega hamragil, sem hún fellur um, kallað Munkaþverárgil. Að Munkaþverá standa reisuleg bæjarhús, m.a. ríflega aldargamalt steinsteypt íbúðarhús en litlu norðar og vestar er kirkja staðarins, timburkirkja frá árinu 1844. Er hún umlukin ræktarlegum trjálundi sem prýðir kirkjugarðinn umhverfis hana. Frá Munkaþverá eru um 18 kílómetrar til Akureyrar.IMG_1191

Sögu jarðarinnar Munkaþverár má rekja til landnámsaldar en þar mun fyrstur hafa búið Ingjaldur sonur Helga magra. Hét bærinn framan af Þverá efri, en það segir sig sjálft að engir voru hér munkarnir fyrr en eftir kristnitöku. Þó á helgihald sér lengri sögu á Þverá efri, en þar reisti téður Ingjaldur hof til heiðurs frjósemisgoðinu Frey. Kirkja mun hafa risið á Þverá efri fljótlega eftir kristnitöku árið 1000. Nokkuð öruggt mun teljast, að klaustur hafi verið stofnað að Þverá efri árið 1155. Mögulega hefur heitið Munkaþverá fest sig í sessi við, eða skömmu eftir, klausturstofnun. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem stóð fyrir stofnun klaustursins. Öldum saman var starfrækt klaustur að Munkaþverá og var það löngum vellauðugt, líkt og klaustrin voru almennt. Um miðja 15. öld átti Munkaþverárklaustur um 40 jarðir og á öndverðri sextándu öld voru þær um 60 (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:199).  Klaustrið var starfrækt til siðaskipta eða í tæp 400 ár en klausturhúsin og klausturkirkja munu hafa staðið áfram þó ástand þeirra hafi nokkuð hnignað. Sveinn nokkur Torfason sem átti Munkaþverá á 18. öld gerði endurbætur á klausturhúsunum og endurbyggði klausturkirkju, sem fauk 1706. Síðasta klausturbyggingin mun hafa staðið fram yfir aldamótin 1800 en margar eyddust í eldsvoða um 1772. Munu byggingar klaustursins hafa staðið framan við þar sem þáverandi bæjarhús, nokkurn veginn þar sem nú er trjálundurinn sunnan kirkjunnar og klausturkirkjan á svipuðum stað og núverandi kirkja.  Það er hins vegar ekki fullljóst, hvort miðaldabyggingarnar hafi staðið á sama stað og byggingarnar á 18. öld. Fyrir áhugasama um ítarlegri umfjöllun um sögu Munkaþverárklaustur bendir höfundur á 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands en einnig er saga klaustursins rakin nokkuð ítarlega í Eyfirðingabók sr. Benjamíns Kristjánssonar. En víkjum nú að núverandi Munkaþverárkirkju, sem byggð er aðeins fáeinum áratugum eftir að síðustu klausturbyggingar Munkaþverár hurfu sjónum.

Forveri núverandi Munkaþverárkirkju var timburkirkja sem Sveinn Torfason reisti árið 1706 eða 1707 eftir að klausturkirkja frá miðöldum skemmdist í óveðri. Sú var orðin ansi hrörleg í nóvember árið 1843, svo mjög, að prestur neitaði að messa þar lengur en til næsta vors af því ástIMG_1188and hennar væri hreinlega orðið hættulegt (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:203). Og næsta vor, nánar tiltekið í lok maí var kirkja þessi rifin og um sumarið reis ný kirkja og byggingameistari var hinn valinkunni timburmeistari, Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni.

Þorsteinn Daníelsson var fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni í utanverðum Hörgárdal og bjó þar lengst af. Hann nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið eftir. Prófstykki hans var saumakassi úr mahogany með inngreiptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Þorsteinn var mikilvirkur smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn reisti margar kirkjur og íbúðarhús, auk þess að smíða báta og skip. Á Akureyri standa a.m.k. tvö hús Þorsteins, Minjasafnskirkjan við Aðalstræti (upprunalega reist á Svalbarði árið 1846) og Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum (talin byggð 1844 eða ´48) en Þorsteinn reisti einnig Möðruvallakirkju í Hörgárdal. Á Hofi í fyrrum Arnarneshreppi stendur tæplega 200 ára gamalt hús Þorsteins, sem kallast Hofsstofa, byggð 1828, og á Skipalóni reisti Þorsteinn smíðahús árið 1843 sem enn stendur. Eitt fyrsta hús Þorsteins var Lónsstofa á Skipalóni, byggð árið 1824 og á því 200 ára afmæli í ár! Mun það annað hús Eyjafjarðarsvæðisins á seinni öldum (klukknaport framan Möðruvallakirkju frá 1781 er hæpið að flokka sem hús) til þess að ná 200 ára aldri en nærri þrír áratugir eru síðan Laxdalshús náði þeim mjög svo virðulega aldri. (Það verður svo ekki fyrr en 2035 að fjölgar í hópi tveggja alda gamalla húsa á Akureyrarsvæðinu er Gamli Spítalinn og Skjaldarvíkurstofa (talin hluti Gránufélagshúsanna) fylla 200 árin). 

Það er til nokkuð skilmerkilega skrásett hvenær byggingaframkvæmdir hófust á Munkaþverárkirkju en svo vill til, að það var nánast upp á dag 100 árum fyrir lýðveldisstofnun; grunnurinn var hlaðinn 18. og 19. júní 1844 og hann frágenginn um miðjan júlí. Fullbúin var kirkjan síðsumars og var vígð sunnudaginn 15. september. Þetta þótti nokkuð mikill byggingarhraði enda sagt að „vinnuharka Danielsen [en svo var Þorsteinn Daníelsson jafnan nefndur] og eftirrekstur hafi keyrt fram úr öllu hófi, og unni hann hvorki sér né öðrum svefns né matar” (Kristmundur Bjarnason 1961:261).  Munu smiðir hafa skotið á fundi þegar þeim ofbauð svefnleysið og vinnuharkan og rætt hvað þeir gætu gert til þess að fá stundarhvíld. Segir sagan, að einn hafi tekið upp á því að látast sofna og þegar Þorsteinn kom að honum, hafi hann sprottið upp og sagt hafa dreymt að andskotans amtmaðurinn þeysti að Lóni á Rauð sínum. Við þetta hafi Þorsteini brugðið og riðið þegar íIMG_1187 stað heim að Lóni, en af þessu mætti ráða, að Þorsteinn hafi verið trúaður á drauma og mjög var hann hræddur um konu sína gagnvart Grími amtmanni (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262).  En væntanlega hafa smiðir geta slakað á meðan Þorsteinn var í burtu þann daginn. Þorsteinn hefur pískað sína menn grimmt áfram við smíði Munkaþverárkirkju, enda þekktist ekkert sem hét vinnulöggjöf, lögboðin matarhlé eða hvíldartími.  Annað var þó aldeilis uppi á teningnum hjá Ólafi Briem við byggingu Saurbæjarkirkju hálfum öðrum áratug síðar, þar sem þess var gætt, að kirkjusmiðir fengju nóg af brennivíni til hressingar við vinnuna!

Munkaþverárkirkja er einlyft timburhús með háu risi og stendur á hlöðnum grunni. Veggir eru klæddir slagþili og bárujárn er á þaki. Á mæni er ferstrendur turn með innsveigðu pýramídalaga þaki og er það klætt skarsúð. Á turninum er ekki kross, heldur vindhani með fangamarki Kristjáns konungs áttunda. Þrír gluggar eru á hvorri hlið, fjórir á kórbaki og þrír á framhlið; tveir sitt hvoru megin við inngöngudyr og einn undir rjáfri. Í flestum gluggum eru sexrúðupóstar. Þá er smár gluggi á turni. Á suðurhlið er kvistur, nokkurn veginn á miðri þekju. Samkvæmt vefsíðu Minjastofnunar er grunnflötur Munkaþverárkirkju 13,33x6,94m og Kristmundur Bjarnason segir hana 6,10 m á hæð að mæni. (Greinarhöfundur giskar á, að hæð upp að toppi turns sé eitthvað nærri 9 metrum).

Tveimur mánuðum eftir vígslu kirkjunnar, 16. nóvember 1844 vísiterar prófastur, H. Thorlacius kirkjuna og lýsir henni m.a. á eftirfarandi hátt: Hún er að lengd 20 ¼ alin þar af er lengd framkirkjunnar inn að kórs skilrúmi 13 álnir. Breidd hennar er 10 ¼ alin, hæð hennar frá gólfi upp á efri bitabrún 4 álnir, 10 þumlungar, frá efri bitabrún upp í sperrukverk 5 álnir, 10 þumlungar. Í framkirkjunni eru, fyrir utan krókbekk og þverbekk framan við kórs skilrúmið 18 sæti, eins og í kórnum er umhverfis tilhlýðilegir bekkir. […] Húsið er umhverfis að bindingsverki, klætt utan með slagborðum og panel, standþil grópað að innan með tvöföldu þaki, súðþak að innan. Í kirkjunni allri er vel lagt þilgólf á þéttum aurstokkum, festum í fótstykki á hvörju [svo] húsið hvílir. […] Upp af fremri burst kirkjunnar er byggður upp fagur turn með stöng þar upp af, á hvörri [svo] leikur vindhani úr látúni, járnbryddur, gagnhöggvinn með fangamerki vors allra mildasta konungs Kristjáns áttunda. Uppi í turninum eru IMG_1186kirkjunnar tvær góðu, gömlu klukkurnar á nýjum rambhöldum með nýjum járnumbúnaði (Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:204). Vísitasíulýsingin er auðvitað mikið lengri og ítarlegri en hér er stiklað á því stærsta. Hún tekur þó af öll tvímæli um það, að turninn hefur verið á kirkjunni frá upphafi svo og vindhaninn en turnbyggingar voru ekki algengar á íslenskum kirkjum fyrir miðja 19. öld.

Fljótlega virðist sem borið hafi á leka í kirkjunni, nánar tiltekið í gegnum turn meðfram turnstöng, en árið 1849 var „duglegur timburmaður” sagður að störfum að gera við lekann og kirkjan bikuð  ásamt neðri hluta turnsins. Árið 1861 var kvisturinn settur á þak suðurhliðar. Leki virðist hafa verið nokkuð þrálátt vandamál á tjörguðum kirkjuþökum (og væntanlega öðrum slíkum þökum) 19. aldar. Þegar áratugirnir líða virðast fúi og leki fara að verða nokkuð til vandræða, en árið 1887 var þakið, að turninum undanskildum járnvarið. Í vísitasíu árið 1900 er ytra byrði kirkjunnar sagt „stórgallað af fúa, sömuleiðis turninn, en [kirkjan] að öðru leyti vel stæðileg“ (Guðrún, Stefán, Gunnar 2008:209). Um 1911 var ofn settur í kirkjuna en á næsta áratug er mikið rætt um framtíð kirkjunnar á Munkaþverá. Skal gert við hana eða einfaldlega byggð ný kirkja? Um 1920 leggur prófastur  til að klæðning sé endurnýjuð og um leið skuli vindhani fjarlægður og járnkross settur í staðinn. Mögulega hefur það þótt stinga í augu, að nýfengnu fullveldi og sjálfstæði í bígerð, að á kirkjunni væri merki Danakonungs. En vindhaninn prýðir kirkjuna enn!  Árið 1924 er skráð í vísitasíu, að söfnuður hafi beinlínis gefist upp á hinu áttræða guðshúsi og vilji byggja nýtt á „hentugri og fallegri stað“. Felur biskup þá húsameistara að gera teikningu að nýrri 170-180 manna kirkju en fátt um svör. Það vildi nefnilega svo til, að Munkaþverárkirkja átti hauk í horni þar sem var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins. Guðjón Samúelsson vildi nefnilega endilega halda í hina gömlu timburkirkju og bauð fram ráðgjöf sína til viðgerðar kirkjunni, svo hún yrði „söfnuðinum fyllilega samboðin”.  Söfnuðurinn samþykkti þetta, en vildi þó eiga teikningar að nýju kirkjunni í bakhöndinni. Viðgerð fór fram um 1932 og tveimur árum síðar var lagt rafmagn í kirkjuna til lýsingar (sbr. Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:212). Sama ár, þ.e. 1934, var kirkjan einnig virt til brunabóta og segir í matslýsingu m.a. að í kirkjunni, sem mælist 13,3x6,9m að grunnfleti og 6,3m há,  sé kolaofn  með járnpípu í steinsteyptri kápu og leirrör uppúr þakinu  í stuttri múrpípu. Haft er á orði, að vel sé um þetta búið og hafi svona verið í mörg ár og ekki komið að sök (sbr. Björn Jóhannsson, 1934). Sjálfsagt er þarna átt við hvort tveggja brunavarnir og leka.

 Á aldarafmælinu 1944 fóru einnig fram gagngerar endurbætur á kirkjunni, sem hafði nokkuð látið á sjá þrátt fyrir viðgerðirnar áratug fyrr. Steypt var utan um grunnhleðslu og kirkjan máluð að innan hátt og lágt auk nokkurra breytinga og endurnýjunar að innanverðu. Til málningarvinnunnar var ráðinn hinn valinkunni málarameistari Haukur Stefánsson. Nokkrum árum fyrr hafði prófastur mælt með því, að ekki aðeins yrði sökkullinn múrvarinn heldur kirkjan öll múrhúðuð (forsköluð) að utan  (sbr. Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:212). Til allrar lukku varð ekkert úr því, en nú er vitað að „forskölun” er einn versti óvinur gamalla timburhúsa. Hins vegar var kirkjan klædd asbestplötum árið 1955 en þeirri klæðningu var skipt út fyrir slétt járn skömmu síðar. Árið 1985 fóru fram gagngerar endurbætur á Munkaþverárkirkju eftir forskrift arkitektanna Stefáns Jónssonar og Grétars Markússonar en sá síðarnefndi mældi upp kirkjuna og gerði að henni teikningar. Umsjón með þessum framkvæmdum, sem færðu hina þá 140 ára kirkju nokkurn veginn til upprunalegs horfs sá Tryggvi HjIMG_1190altason á Rútsstöðum II.  Fjórum áratugum síðar virðist kirkjan, sem í sumar á 180 ára afmæli, í prýðis góðu ásigkomulagi, hefur eflaust hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð síðan.

Munkaþverárkirkja var friðlýst skv. ákvæði þjóðminjalaga árið 1990. Hún er elst kirknanna sex í Eyjafjarðarsveit og mun þriðja elsta varðveitta timburkirkja landsins (sbr. Guðrún, Stefán og Gunnar 2007:216), á eftir Knappsstaðakirkju í Stíflu (1840) og Bakkakirkju í Öxnadal, sem aðeins er árinu eldri, eða byggð 1843. Munkaþverárkirkja mun rúma um 160 manns í sæti og í henni er reglulega helgihald og athafnir. Líkt og allar hinar fimm kirkjur Eyjafjarðarsveitar er hún sérleg prýði og perla í umhverfi sínu. Þá er umhverfi hennar einstaklega geðþekkt, en umhverfis hana er nokkuð víðlendur og vel hirtur kirkjugarðuIMG_1196r, prýddur miklum trjágróðri. Skammt norðan kirkjunnar stendur áhaldahús, sem byggt hefur verið í stíl við kirkjuna. Sunnan kirkjunnar, þar sem talið er að klaustrið hafi staðið á miðöldum er stytta af Jóni biskupi Arasyni eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Styttan var gerð 1954 og vígð formlega í ágúst 1959. Kirkjan, gróskumikill kirkjugarðurinn og bæjarhús Munkaþverár mynda sérlega fallega, órofa heild í fagurri sveit. Myndirnar eru teknar þann 7. október 2023.

Hér með lýkur yfirferð undirritaðs um kirkjur Eyjafjarðarsveitar. Greinum þessum er auðvitað aðeins ætlað að stiklað á stóru og kannski vildu einhverjir sjá meira kjöt á beinum” þessara umfjallana. Þeim skal bent á 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands (sjá heimildaskrá). Þar er rakin ítarlega byggingarsaga kirknanna, auk þess sem sagt er frá innra skipulagi þeirra, gripum, munum og -öðru slíku.

Heimildir: Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007. Munkaþverárkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 197-241. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Ýmsar upplýsingar af vef m.a. minjastofnun.is, esveit.is o.fl.


Húsaannáll 2023

Kannski má segja, að ákveðin kúvending hafi orðið í umfjöllunum mínum um söguágrip eldri húsa á Akureyri og nágrenni á árinu 2022. Sá sem skoðar þessa vefsíðu aftur að árdögum sér væntanlega, að ólíku er saman að jafna, hvort um ræðir pistla, skrifaða árin 2009 eða ´10 eða árin 2021-22. Kemur þar ýmislegt til. Ég hafði löngum lofað sjálfum mér því, að ef ég væri búinn að fjalla um hús hér, þá væri ég búinn að því. Það yrði óvinnandi vegur, að ætla að endurrita pistla um húsin eða uppfæra hina eldri. En að því kom, að ég gat ekki setið á mér lengur hvað þetta varðaði. Ég var nokkuð spurður að því, hvort ég væri búinn að taka fyrir hin og þessi hús, sem var yfirleitt tilfellið. Hins vegar þóttu mér þau skrif næsta hjákátleg, í samanburði við þau sem hafa tíðkast hér sl. 4-5 ár, svo mér fannst varla hægt að benda á þau. Ekki það, að ég skammist mín fyrir þessar fyrri umfjallanir en þær mega heita börn síns tíma. Þá hefur mér, eins og gefur að skilja, áskotnast hinar ýmsu heimildir til viðbótar á þessum 10-13 árum, stundum leiðréttingar á einhverju sem var rangt, auk margs sem mig langar að koma á framfæri. Þá var og mikil hvatning til þessara endurskrifa, að ég fór í samstarf við akureyri.net og þar birtast flestir þeirra nýju pistla, sem ég birti hér.  Þar hef ég og fengið góðar viðtökur og það eru þær, sem og vitneskjan um það, að fjöldi fólks hefur að þessum skrifum mínum gagn og gaman sem ævinlega hvetja mig áfram í þessari vegferð. 

Þessi formáli fylgdi Húsaannál 2022 í fyrra og á einnig við fyrir árið 2023. En á liðnu ári hélt ég þessari vegferð áfram, tók fyrir eldri hús bæjarins í lengra og ítarlegra máli. Það krefst meiri heimildavinnu og yfirlegu og fyrir vikið urðu pistlarnir færri, stundum aðeins 2-3 í hverjum mánuði. Ég er eiginlega kominn aftur í það skipulag, eða skipulagsleysi, sem einkenndi þessa umfjöllun fyrstu árin, að taka húsin fyrir nokkurn veginn tilviljunarkennt, svo stundum er einnig dálítill tími í umhugsun, hvað verður næst. Í sumar ákvað ég svo, að "senda Hús dagsins í sveit" og frá maílokum til septemberbyrjunar voru gömul hús í Eyjafjarðarsveit til umfjöllunar. Það er nefnilega ekki aðeins innan þéttbýlismarka Akureyrar, sem finna má gömul og áhugaverð hús. Næsta sumar hyggst ég endurtaka þennan leik og fara þá e.t.v í fleiri áttir en "frameftir". Í Hörgársveit leynist til dæmis hús, sem á 200 ára afmæli í ár! Það verður "Hús dagsins" 25. júní nk. en þá verða einnig liðin 15 ár síðan þessi vegferð hófst. Þessi umfjöllun um Eyjafjarðarsveitarhúsin var ekki ákveðin fyrirfram heldur kom raunar til af því, að í kjölfar umfjöllunar um Grundarkirkju þótti mér einsýnt að fjalla um íbúðarhús staðarins frá upphafi 20. og lokum 19. aldar. Og þá, eins og svo oft á áður á þessum vettvangi leiddi einfaldlega eitt af öðru. Og á aðventunni tók ég fyrir  kirkjur Eyjafjarðarsveitar, eina á hverjum sunnudegi, en þær eru alls sex að tölu. Pistill um þá sjöttu birtist svo á morgun, á þrettándanum. 

Hér eru "Hús dagsins" á árinu 2023: 

JANúAR

5. janúar Hríseyjargata 1; Steinöld (1903)

19. janúar Lundur (1925)

FEBRÚAR

2. febrúar Ós; Skólahús Glerárþorps í Sandgerðisbót (1908)

14. febrúar Gránufélagsgata 39-41; Sambyggingin (1929)

24. febrúar Strandgata 17 (1886)

MARS

10. mars Lundargata 6 (1897)

20. mars Fróðasund 10a (1877)

30. mars Grundargata 6 (1903)

APRÍL

7. apríl Strandgata 35 (1888)

21. apríl Lundeyri í Glerárþorpi (1946, rifið 2023)

30. apríl Hafnarstræti 88; Gamli bankinn (1900)

MAÍ

11. maí Hafnarstræti 86; Verslunin Eyjafjörður (1903)

28. maí Grundarkirkja (1905)

JÚNÍ

9. júní Grund II (1893)

17. júní Grund I (1910)

28. júní Möðrufell (1920)

JÚLÍ

7. júlí Saurbær (1927)

19. júlí Kaupangur (1920)

ÁGÚST

3. ágúst Leifsstaðir (1928)

19. ágúst Hvassafell (1926)

SEPTEMBER

9. september Litli-Hvammur (1916)

27. september Gamla Gróðrarstöðin á Krókeyri (1906)

OKTóBER

13. október Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107) (1897)

27. október Grundargata 3 (1885)

NÓVEMBER

15. nóvember Brekkugata 3 (1903)

DESEMBER

3. desember Saurbæjarkirkja (1858)

10. desember Hólakirkja (1853)

17. desember Möðruvallakirkja (1848)

24. desember Kaupangskirkja (1922)  

Alls voru "Hús dagsins" 28 að tölu á árinu 2023, 16 hús á Akureyri og 12 í Eyjafjarðarsveit. Tæplega öld skilur að yngsta húsið, Lundeyri, og það elsta, Möðruvallakirkju en fyrrnefnda húsið var reyndar rifið sl. vor, "Hús dagsins" greinin því einhvers konar minningargrein. Meðaltal byggingarára er 1902 og meðalaldur "Húsa dagsins" á árinu 2023 því 121 ár. 


Nýárskveðja

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.laughing

IMG_1353

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þakka innlit og athugasemdir hér á þessari síðu og einnig þakka ég kærlega fyrir góðar viðtökur á bókum undirritaðs en þær voru tvær á síðasta ári;

oddeyri_forsíða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Oddeyri Saga hús og fólk, þar sem ég er meðhöfundur ásamt Kristínu Aðalsteinsdóttur

Brýrnar yfir Eyjafjarðará_sýnishorn_forsíða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

og Brýrnar yfir Eyjafjarðará.

(Minni jafnframt á, að nóg er til af báðum bókunum, og hægt að fá eintak hjá mér en bækurnar fást einnig í Pennanum Eymundsson- "Brýrnar" skilst mér að séu reyndar aðeins fáanlegar, utan Akureyrar, í útibúinu Austurstræti) 

Nýársmyndin að þessu sinni er tekin rétt fyrir klukkan 2  í dag í syðstu og yngstu byggðum þéttbýlis Akureyrar; á mörkum Naustahverfis og Hagahverfis, í dag við Naustagötu og horft fram Eyjafjörðinn.  Geislar nýársólar ná aðeins að gægjast gegnum skýjaþykknið. Til vinstri eru fjölbýlishús við Davíðshaga en vinstra megin sést í Naust II en fjær sést í (frá vinstri) Kaupangssveitarfjall, Garðsárdal nokkurn veginn fyrir miðri mynd og hægra megin við hann er Staðarbyggðarfjall, sveipað skýjabólstrum.  

Gleðilegt nýtt ár. 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 209
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 151
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband