Húsaannáll 2022

Kannski má segja, að ákveðin kúvending hafi orðið í umfjöllunum mínum um söguágrip eldri húsa á Akureyri og nágrenni á árinu 2022. Sá sem skoðar þessa vefsíðu aftur að árdögum sér væntanlega, að ólíku er saman að jafna, hvort um ræðir pistla, skrifaða árin 2009 eða ´10 eða árin 2021-22. Kemur þar ýmislegt til. Ég hafði löngum lofað sjálfum mér því, að ef ég væri búinn að fjalla um hús hér, þá væri ég búinn að því. Það yrði óvinnandi vegur, að ætla að endurrita pistla um húsin eða uppfæra hina eldri. En að því kom, að ég gat ekki setið á mér lengur hvað þetta varðaði. Ég var nokkuð spurður að því, hvort ég væri búinn að taka fyrir hin og þessi hús, sem var yfirleitt tilfellið. Hins vegar þóttu mér þau skrif næsta hjákátleg, í samanburði við þau sem hafa tíðkast hér sl. 4-5 ár, svo mér fannst varla hægt að benda á þau. Ekki það, að ég skammist mín fyrir þessar fyrri umfjallanir en þær mega heita börn síns tíma. Þá hefur mér, eins og gefur að skilja, áskotnast hinar ýmsu heimildir til viðbótar á þessum 10-13 árum, stundum leiðréttingar á einhverju sem var rangt, auk margs sem mig langar að koma á framfæri. Þá var og mikil hvatning til þessara endurskrifa, að ég fór í samstarf við akureyri.net og þar birtast flestir þeirra nýju pistla, sem ég birti hér.  Þar hef ég og fengið góðar viðtökur og það eru þær, sem og vitneskjan um það, að fjöldi fólks hefur að þessum skrifum mínum gagn og gaman sem ævinlega hvetja mig áfram í þessari vegferð. Og hún mun svo sannarlega halda áfram á komandi ári og árum. Það mun að öllu jöfnu líða lengri tími á milli pistlanna en það kemur einfaldlega til af því, að lengri umfjöllun er lengur í smíðum. 

Fyrri hluti ársins var að mestu helgaður húsum við Eyrarveg á Oddeyrinni, auk þess sem ég brá mér "fram eftir" og fjallaði um fyrrum félagsheimili hreppana, sem saman mynda Eyjafjarðarsveit. Það var svo um miðjan júní, sem ég tók upp á því, að endurskrifa um eldri hús bæjarins, lengri og ítarlegri pistla og þau hús tekin fyrir af svo að segja af handahófi, líkt og í upphafi þessarar vefsíðu. 

JANúAR

12. jan. Eyrarvegur 1-3  (1939)

16. jan. Eyrarvegur 2      (1945)

20. jan. Eyrarvegur 2a    (1950)

29. jan. Eyrarvegur 4      (1947)

FEBRúAR

3. feb. Eyrarvegur 5-7  (1939)

7. feb. Eyrarvegur 5a-7a (1947)

10. feb. Eyrarvegur 6      (1942)

13. feb. Eyrarvegur 8      (1942)

17. feb. Eyrarvegur 9-11  (1943)

20. feb. Eyrarvegur 10    (1942)

25. feb. Eyrarvegur 12    (1943)

MARS

8. mars Eyrarvegur 13-15  (1943)

14. mars Eyrarvegur 14    (1943)

22. mars Eyrarvegur 16    (1943)

27. mars Eyrarvegur 17-19  (1942

31. mars Freyvangur (fyrrum félagsheimili Öngulsstaðahrepps) (1957)

APRÍL

6. apríl Eyrarvegur 18    (1943)

12. apríl Eyrarvegur 20    (1943)

19. apríl Eyrarvegur 21-23  (1942)

27. apríl Eyrarvegur 25-27   (1947)

30. apríl Eyrarvegur 25a-27  (1947)

MAÍ

4. maí Laugarborg (fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps) (1959)

10. maí Eyrarvegur 29    (1943)

18. maí Þinghúsið á Hrafnagili (1924)

21. maí Eyrarvegur 31    (1945)

27. maí Eyrarvegur 33    (1954)

30. maí Sólgarður (fyrrum félagsheimili Saurbæjarhrepps) (1934)

JÚNÍ

3. júní Eyrarvegur 35    (1943)

10. júní Eyrarvegur 37    (1949)

15. júní Strandgata 7 (1907)

25. júní Norðurgata 17; Gamla prentsmiðjan, Steinhúsið (1880)

JÚLÍ

1. júlí Norðurgata 2 (1897)

10. júlí Norðurgata 11 (1880)

21. júlí Strandgata 23 (1906)

30. júlí Lækjargata 6 (1886)

ÁGúST

8. ágúst Lundargata 2 (1879)

18. ágúst Hafnarstræti 18; Thuliniusarhús (1902)

SEPTEMBER

2. sept. Lundargata 15 (1898)

17. sept. Lækjargata 2b (1871)

30. sept. Lækjargata 4 (1870)

OKTÓBER

12. okt. Lækjargata 2 (1894)

23. okt. Lækjargata 2a (1840)

NóVEMBER 

7. nóv. Aðalstræti 6 (1851)

18. nóv. Strandgata 27 (1876)

DESEMBER

1. des. Strandgata 49; Gránufélagshúsin (1873)

15. des. Hafnarstræti 49 (1895)

 

Á árinu 2022 tók ég fyrir 45 hús á aldrinum 63-182 ára. Yngst var Laugarborg í Eyjafjarðarsveit, byggð 1959 en elst var Lækjargata 2a, Frökenarhús, annað elsta hús Akureyrar, byggt 1840. Svo skemmtilega vill til, að meðaltal byggingarára er 1922 svo "Hús dagsins" á árinu 2022, voru að meðaltali nákvæmlega 100 ára gömul. 

Að sjálfsögðu eru á þessum útreikningum miklir fyrirvarar, enda tölfræði þessi fyrst og fremst hugsuð til gamans. Þar ber fyrst og fremst að nefna, að oft eru byggingarár húsa frá 19. öld nokkuð á reiki og getur skeikað um einhver ár. Stundum er einfaldlega ekki hægt að slá því föstu, vegna skorts á skýrum heimildum. Og hvenær telst hús byggt ? Já, þið lásuð rétt; þetta getur verið vafa undirorpið. Eitt slíkt dæmi eru Gránufélagshúsin. Hér að ofan og almennt er miðað við að byggingarár þeirra sé 1873. En sá hluti hússins, sem reistur var þá, er úr viðum húss sem reist var á Vestdalseyri árið 1850. Húsið var vissulega tekið niður og nýtt hús byggt úr viðunum. Annar hluti hússins, sem reistur var á þessum stað árið 1876 er að öllum líkindum hús sem byggt var í Skjaldarvík árið 1835. Það mun hafa verið tekið niður og reist aftur í nokkurn veginn sömu mynd. Hvert er þá raunverulegt byggingarár Gránufélagshúsanna? Er það 1835, 1850 eða 1873? (Eða e.t.v. 1878, þegar miðhlutinn var reistur og húsið fékk í grófum dráttum núverandi lag. Látum það bara liggja milli hluta hér...en ef við miðum við byggingarár Gránufélagshússins við byggingu Skjaldarvíkurhússins á sínum upprunalega stað telst húsið það annað elsta á Akureyrar (eða deilir 2.-3. sætinu með Gamla Spítalanum). 

Á nýju ári hyggst ég halda uppteknum hætti og birta nýja og ítarlegri pistla um eldri hús Akureyrar og e.t.v. víðar. Kannski tek ég einhverjar yngri götur fyrir með skipulögðum hætti. Það kemur bara í ljós...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 228
  • Sl. viku: 619
  • Frá upphafi: 419710

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 497
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband