Hús dagsins: Eyrarvegur 20

Eyrarveg 20 reisti Ágúst Brynjólfsson árið 1943. Hann fékk lóðina og leyfi til að reisa hús úr r-steini með járnklæddu timburþaki, 7,75x6,75m að stærð. Árið 1952 er risin þarna bílskúr, mögulega hefur hann risið á sama tíma og húsið, en ekki er á hann minnst í upprunalegu byggingaleyfi. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengileg á teikningavef map.is/akureyri en þar má finna teikningar Mikaels Jóhannssonar af teiknistofu KEA að viðbyggingu, dagsetta 13. maí 1952.

Eyrarvegur 20 er einlyft steinhús á lágum grunni,P6221012 með lágu valmaþaki, sléttum múr á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum eða með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Kjallari er undir hluta hússins, norðanmegin. Grunnflötur hússins er 9,20x12,70m en upprunalegra mála hússins var getið hér í upphafi og má hafa þau til samanburðar. Áfastur húsinu að austan er steyptur bílskúr og mun hann 3,45x5,85m.

Ágúst Jón Brynjólfsson járnsmiður (1909-1985) sem byggði húsið, eða alltént skráður fyrir byggingaleyfinu, var Reykvíkingur, nánar tiltekið af Bræðraborgarstíg. Hann hefur að öllum líkindum ekki búið hér um langa hríð, ef nokkuð. E.t.v. hefur hann aðeins byggt húsið sem verktaki og selt svo. Það tíðkaðist í einstaka tilfellum fyrir miðja öldina, að verktakar  byggðu hús og seldu, en hitt var algengara, að einstaklingar byggðu, eða stæðu fyrir byggingum eigin húsa. Á þessum tíma voru byggingafélög einnig nokkuð umsvifamikil, en drjúgur hluti Eyrarvegarhúsa er einmitt reist af einu slíku.  Heimilisfangið Eyrarvegur 20 kemur fyrst fyrir í dagblöðum í lok ágúst 1948 og þá býr þar  Stefán Halldórsson múrarameistari. Hann var kvæntur Brynju Sigurðardóttur frá Möðrudal á Fjöllum en Stefán var fæddur í Mývatnssveit og uppalinn á Húsavík. Stefán starfaði sem byggingameistari, m.a. hjá KEA en um árabil var hann húsvörður í Tónlistarskólanum á Akureyri. Á sama tíma starfaði Brynja þar við ræstingar. Bjuggu þau hér í um hálfa öld, eða til æviloka, en þau létust bæði árið 1996.

Í upphafi var húsið frekar smátt, eða aðeins um 50 fermetrar að grunnfleti, en Stefán og Brynja byggðu við húsið árið 1952, álmu til vesturs, 4,80x9,20m að stærð. Skagaði sú álma út úr húsinu til suðurs. Árið 2008 var svo byggt við húsið sunnanmegin, svo nú er grunnflötur hússins, að frátöldum bílskúr,  því sem næst ferhyrningslaga. Teikningarnar að þeirri viðbyggingu gerði Árni Gunnar Kristjánsson.

Eyrarvegur 20 er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Það hefur á síðustu árum hlotið gagngerar endurbætur og er frágangur allur hinn snyrtilegasti.  Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og gróskumikil og vel hirt, lóðin eru  til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 940, 16. apríl 1943, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 59
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 635
  • Frá upphafi: 420742

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 502
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband