Færsluflokkur: Bloggar
25.6.2025 | 12:05
Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni
(Þá er komið hásumar og tími til kominn, að senda þennan þátt, Hús dagsins, í sveit líkt og börnin forðum. Dagsetningin 25. júní hefur orðið fyrir valinu hjá mér en þar er um að ræða afmælisdag Húsa dagsins. Við berum niður á Skipalóni, en þar vorum við einnig stödd fyrir réttu ári síðan. Svo liggur leið okkar væntanlega að mestu um Eyjafjarðarsveit).
Skipalón stendur yst og vestast í víðlendri og aflíðandi hlíð norður af Moldhaugahálsi, á brún lágrar brekku upp af ósum Hörgár, austanmegin ár, nokkurn veginn beint á móti Möðruvöllum. Næstu bæir eru Hlaðir að sunnan og Gásir austan við og á jörðin merki að þeim jörðum en við Hörgá í vestri og sjávarmál í norðri. Nafnið kann að benda til þess, að þarna hafi áður verið skipgengt, þegar mögulega hefur verið hægt að sigla að staðnum. upp eftir Hörgá. Frá hlaðinu á Skipalóni eru rúmir 14 kílómetrar í miðbæ Akureyrar, sé farið austur um Dagverðareyrarveg um félagsheimilið Hlíðarbæ. Örlítið lengri leið er um sama veg austanmegin um Hlaðir og að Moldhaugahálsi. Heimreiðin heim að Skipalóni er um 450 metrar frá Dagverðareyrarvegi.
Á Skipalóni standa tvö hús frá fyrri hluta 19.aldar. Annars vegar er það Lónsstofa, sem reist var árið 1824 og er því orðin 200 ár og hins vegar er Smíðahúsið, en það er byggt árið 1843. Það reisti bóndinn, timburmeistarinn og skipasmiðurinn, Þorsteinn Daníelsson, sem bjó á Skipalóni og var löngum kenndur við staðinn. Líkt og nafnið bendir til, var húsið reist sem smíðaverkstæði.
Smíðahúsið á Skipalóni er einlyft timburhús með háu risi og stendur það á lágum steingrunni. Snýr það N-S og stendur um 10 metrum austan við íbúðarhúsið á staðnum, Lónsstofu. Allt er það klætt timbri, slagþil á veggjum og rennisúð á þaki. Húsið tjargað en gluggar eru málaðir. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum og smærri gluggar með fjórum rúðum á rishæð. Grunnflötur er 12,76x6,63m.
Frá Skipalóni og Þorsteini Daníelssyni, ásamt ábúendatali Skipalóns síðustu tvær aldirnar var sagt nokkuð ítarlega í greininni um Lónsstofu en Þorsteinn Daníelsson var fæddur hér í nóvember 1796. Hann nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi vorið eftir. Sumarið 1821 giftist Þorsteinn, Margréti Þorláksdóttur frá Skriðu. Fluttust þau til Akureyrar, en Þorsteini þótti ekki við hæfi að bjóða eiginkonu sinni upp á búsetu í torfbænum, sem þá var á Lóni, en hugði á uppbyggingu þar, ef hann settist þar að. Fáeinum árum síðar flytjast þau Þorsteinn og Margrét að Lóni, en þar höfðu Þórður, bróðir Þorsteins og kona hans, Wilhelmína Lever, búið ásamt þeim Daníel og Guðrúnu í fáein ár, en ekki fest þar yndi. Skemmst er frá því að segja, að Þorsteinn reisti þar timburhús, Lónsstofu, sem enn stendur árið 1824, og var næstu áratugina ansi iðinn við húsbyggingar. Þau Þorsteinn og Margrét bjuggu miklu rausnarbúi á Skipalóni í nærri 60 ár og komust til mikilla efna. Gekk Þorsteinn ætíð undir nafninu Danielssen og Margrét ævinlega kölluð Lónsmaddaman. Voru þau orðlögð fyrir metnað og snyrtimennsku og réðu t.d. ekki til sín hjú, nema gengið væri úr skugga um, að fólkið væri ekki lúsugt en slíkt var landlægt.
Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur fyrir mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og gerði sömu kröfur til annarra og sín sjálfs. Sumarið 1843 hefur eflaust verið nokkuð annasamt hjá hinum annálaða dugnaðarmanni, því auk þess að reisa eigið smíðahús á hlaðinu heima var hann við kirkjubyggingu á Bakka í Öxnadal. Hefur þetta eflaust bæst ofan í hefðbundin bústörf. Það var almennt talið, að Þorsteinn hafi ekki dvalið á Bakka þegar kirkjusmíðin stóð yfir, heldur riðið fram og til baka á hverjum degi. Löngum þótti ýmsum ástæða til þess að draga þetta í efa, einfaldlega vegna þess hve leiðin er löng, 25 kílómetrar, og þannig hafi Þorsteinn riðið 50 kílómetra dag hvern til kirkjusmíði. Kristmundur Bjarnason (sbr. 1961: 259) telur hins vegar enga ástæðu til að ætla, að þetta sé ósatt, því Þorsteinn var með eindæmum árrisull, var t.a.m. oft mættur til Akureyrar klukkan sex á morgnana. (Þá má geta sér þess til, að Margrét Lónsmaddama hafi væntanlega þurft að vakna á sama tíma, ef ekki fyrr, til þess að laga kaffi handa Þorsteini).
Það er ekki óalgengt, raunar algengara en ella, að byggingarár húsa frá miðri eða fyrri hluta 19. aldar séu óviss og heimildum um slíkt beri ekki saman, eða þær hreinlega ekki til staðar. Í tilfelli Smíðahússins er þetta hins vegar nokkuð skýrt. Á fjöl, ofan inngöngudyra stendur einfaldlega Th. Dsen Bigde Þettad Pakkhús Ár 1843 eða Þorsteinn Danielsen byggði þetta pakkhús árið 1843. Skýrara verður það ekki. Sjálfur hefur Þorsteinn kallað húsið pakkhús þegar hann byggði það. Á sínum tíma hefur húsið verið eitt stærsta tré- og járnsmíðahús á landinu auk þess sem það þjónaði sem nokkurs konar félagsheimili fyrir hreppinn og getur Kristmundur Bjarnason þess, að þarna hafi verið haldnar óteljandi brúðkaupsveislur með harmonikuspili, drykkju og dansi (Kristmundur Bjarnason 1961:258). Þá mun Skipalónsbóndinn af og til sjálfur hafa staðið fyrir skemmtunum í húsinu, sérstaklega á efri árum (mögulega þegar dró úr starfsþreki og um fór að hægjast í smíðunum).
Mjög ítarlega lýsingu er að finna á smíðahúsinu í ævisögu Þorsteins Daníelssonar: Grindin er úr plönkum, og eru stoðir aðeins milli fótstykkis og lausholts, en sperrur koma yfir stoðir. Standklæðning er aðeins að utan úr breiðum borðum og eru naglfest að ofan og neðan, þ.e.a.s. í fótstykkjum og lausholt og síðan á jaðrana, og er allt neglt með heimagerðum nöglum. Þessu mikla timburhúsi er skipt í tvennt: norðari hlutinn var í senn geymsla og trésmíðaverkstæði, en syðri hlutinn járnsmíðaverkstæði. [
] Í Pakkhúsinu [smíðahúsinu] liggur stigi upp á smiðjuloftið. Þar var matarlegt um að litast. Tröllaukinn skógur af hangikjöti og hákarli blasti við augum, harðfiskur í stöflum, en rúllupylsur og annað góðgæti eins og ávextir á trjám. Annar stigi var upp á efra loftið. Þar var æðardúnsgeymsla og auk þess voru þar geymd öll áhöld, sem við hann voru notuð og svo vefstóll og ull (Kristmundur Bjarnason 1961:257-258). Þá getur Kristmundur þess, að skotgat hafi verið á þilinu að vestan, þar sem gripum var slátrað með þeim hætti, að skotmaður stóð utan þils og skaut gripinn gegnum gatið. Mun þetta hafa verið öryggisráðstöfun. Einhverjar sagnir eru um, að Þorsteinn hafi smíðað skip í pakkhúsi sínu, en það þykir ólíklegt, vegna þess hve hurðir eru mjóar og ekkert sem bendir til þess, að breiðari dyr hafi verið til staðar. En vel má vera, að Þorsteinn hafi smíðað smærri árabáta í húsinu.
Þorsteinn Daníelsson lést árið 1882, 86 ára að aldri og hafði þá verið ekkill í rúmt ár, en Margrét lést 1881. Systursonarsonur Þorsteins og alnafni hans, Þorsteinn Daníelsson, tók við jörðinni og bjó þar til æviloka árið 1941. Mögulega hefur hann nýtt pakkhúsið til smíða en síðar þjónaði húsið sem geymsla og hlaða. Höfundur veit ekki til þess, að búið hafi verið í smíðahúsinu en ekkert útilokað, að slíkt hafi hent sig á þeim rúmu 180 árum sem húsið hefur staðið. Í brunabótamati árið 1918 er Lónsstofu lýst ásamt torfbæ, sem stóð á bænum en einhverra hluta vegna, virðist ekki minnst á smíðahúsið. Um miðja 20. öld eignaðist Iðnminjasafnið Smíðahúsið, er safninu hafði verið ánafnað húsið, þegar ríkið seldi Skipalónsjörðina. Það gæti hafa verið árið 1948, þegar síðustu ábúendur, Snorri Pétursson frá Blómsturvöllum og Sigurbjörg H. Kristjánsdóttir frá Gásum hófu hér búskap. Hvort þau eignuðust jörðina strax og þau hófu búskap (1948) er höfundi ókunnugt um en þau eru alltént eigendur jarðarinnar árið 1970 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:209). Í október árið 1962 var Minjasafnið á Akureyri nýlega stofnað. Þá komu fram hugmyndir um, að flytja Smíðahúsið á lóð þess við Aðalstræti, en það reyndist ekki raunhæft. Kannski hefur hugmyndin verið sú, að koma því fyrir þar sem nú stendur Minjasafnskirkjan. Árið 1976 rann Iðnminjasafnið undir Þjóðminjasafnið (sbr. Þór Magnússon 1984:211) og hefur Smíðahúsið verið í vörslu þess frá þeim tíma. Skipalónsbændur höfðu þó áfram afnot af húsinu fyrir hlöðu. Á árunum eftir 1985 fóru fram hinar ýmsu endurbætur á Smíðahúsinu, innan jafnt sem utan, og hafði m.a. hinn kunni hagleiksmaður Sverrir Hermannsson, veg og vanda af þeim.
Smíðahúsið á Skipalóni var friðlýst samkvæmt aldursákvæði Þjóðminjalaga þann 1. janúar 1990. Það virðist í góðri hirðu enda þótt nokkrir áratugir séu liðnir frá gagngerum endurbótum og mun útlit þess nokkurn veginn upprunalegt. Þessi skemmtilega húsasamstæða á Skipalóni er til mikillar prýði á skemmtilegu bæjarstæði, nokkurs konar útverðir Hörgárdals austanmegin. Að ekki sé minnst á gífurleg menningarverðmæti og mikið minjagildi í húsunum. Kannski er Smíðahúsið eitt elsta húsið sem enn stendur hérlendis, byggt sérstaklega sem iðnaðarhús? Lónsstofu bíða miklar og kostnaðarsamar viðgerðir en húsið hefur verið í steypukápu (forskalað) í hartnær heila öld. Það er og þakkarvert að Skipalónsbændur hafi varðveitt þessi merku hús frá fyrri helmingi 19. aldar; einhvers staðar hefðu þessi hús eflaust verið jöfnuð við jörðu og nýmóðins hús reist í staðinn. Ekki hefur verið búið á Skipalóni í tæp 30 ár en húsakosti og jörð haldið við, tún, um 13 hektarar eru t.d. nytjuð frá nágrannabæjum.
Fyrir réttu ári síðan setti höfundur fram hugmyndir um í hvað Skipalónshúsin gætu nýst. Kannski gæti þarna verið byggðasafn, mögulega útibú frá Nonnahúsi, þar sem Skipalón er sögusvið einhverra sagna hans. Þá væri svo sannarlega hægt að setja upp safn um Þorstein Daníelsson, mögulega einhvers konar byggingarminjasafn. Gistiheimili í Lónsstofu og samkomusalur í Smíðahúsinu? Kannski myndi einhver vilja búa þarna? Ef til vill væri möguleiki á einhvers konar veitingarekstri í Smíðahúsinu og þá aftur matarlegt um að litast þar þó ólíklegt sé, að þar yrði skógur af hákarli og hangikjöti og rúllupylsur eins og ávextir á trjám. En hver veit. Staðsetning og umhverfi býður eflaust upp á mikla möguleika. Nú er þessi grein farin að minna mun meira á fasteignaauglýsingu heldur en söguágrip og látum hér staðar numið. Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. júní 2024.
Heimildir:
Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps: Virðingabók 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990 II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Þór Magnússon. 1985. Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1984. Í Árbók hins íslenska fornleifafélags, 81. árg. bls. 193-213.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2025 | 17:52
Hús dagsins: Nonnahús (Aðalstræti 54)
Hvert er frægasta hús Akureyrar? Það gæti mögulega verið Nonnahús en Jón Sveinsson, Nonni, sem vart þarf að kynna fyrir lesendum er með víðfrægari íslensku rithöfundum og hafa bækur hans verið þýddar á yfir 40 tungumál. Nonnahús lætur ekki mikið yfir sér, bakhús við Aðalstræti, norðan Minjasafnsins en hefur löngum notið mikilla vinsælda gesta, hvaðanæva af úr heiminum, sem lesið hafa sögur Nonna. Auk fjölmargra annarra, sem heimsótt hafa Akureyri, að ógleymdum heimamönnum. Um er að ræða æskuheimili Nonna, sem telst Aðalstræti 54. Aðalstræti 54, sem hér eftir verður kallað Nonnahús í þessari grein til einföldunar enda þótt um sé að ræða tímabil fyrir tíð Nonna eða löngu áður en heitið festist við húsið. Þangað fluttist Nonni sjö ára gamall frá Möðruvöllum árið 1865 ásamt foreldrum sínum og systkinum en húsið er líklega byggt rúmum áratug fyrr. Skráð byggingarár hússins er 1849 en að öllum líkindum er það um fjórum árum yngra.
Í Húsakönnun árið 1986 segir [...]sennilegt er að Páll Magnússon hafi byggt manna fyrstur á þessari eign og talið að hann hafi reist húsið árið 1849 (Hjörleifur Stefánsson 1986:98). Þessi kenning er nokkuð hæpin. Því sá Páll Magnússon sem um ræðir, söðlasmiður og síðar bóndi og hreppstjóri á Kjarna, var fæddur árið 1833 og því aðeins sextán ára þegar hann mun hafa átt að reisa húsið. Að sextán ára strákur hafi reist timburhús um miðja nítjánda öld er kannski ekkert útilokað þó ólíklegt sé, en það sem tekur eiginlega af öll tvímæli um að þessi kenning standist, er einnig sú staðreynd, að á þessum tíma var Páll Magnússon búsettur hjá foreldrum sínum að Auðbrekku í Hörgárdal (sbr. manntal 1850). Enda er það svo, að þegar birt var uppfærð Húsakönnun 2012 er talið nokkuð óyggjandi, að húsið hafi Jósep Grímsson, gullsmiður reist árin 1853 eða 1854.
Nonnahús er einlyft timburhús, bindingshús með háu risi og miðjukvisti að framan. Stendur það á lágum steingrunni. Á bakhlið er viðbygging með einhalla þaki og smár kvistur á þekju. Slagþil er á veggjum, pappa- og þilklæðning á þaki en bárujárn á þaki viðbyggingar. Sexrúðupóstar eru í gluggum og yfir kvistglugga, þríhyrndur bjór. Undir mæni á suðurstafni er lítið fuglahús. Grunnflötur framhúss er 10,34x4,77m en viðbyggingar á bakhlið 5,78x4,32m.
Jósef Grímsson, sem líkast til reisti Nonnahús árið 1853, var fæddur árið 1825, líklega á Munkaþverá fremur en Dvergsstöðum, en foreldrar hans fluttu á síðarnefnda bæinn frá hinum fyrrnefnda, árið sem Jósep fæddist (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:405). En þar sem hann var fæddur tiltölulega snemma árs (3. mars) er líklegra en hitt, að þau hafi flust yfir Eyjafjarðará þegar strákurinn var nokkurra vikna eða mánaða. Jósep átti heima á ýmsum bæjum við Eyjafjörð, var skráður sem vinnupiltur á Stokkahlöðum árið 1845 og vitað er að hann kom til Akureyrar árið 1852 og er búsettur í þessu húsi ásamt fjölskyldu sinni árið 1855 (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa, 2012). Eiginkona Jóseps var Ingibjörg Þorvaldsdóttir, frá Ytra Krossanesi. Jósep og Ingibjörg áttu hér heima til ársins 1858 en þá keypti húsið téður Páll Magnússon. Ári síðar fékk Páll leyfi bygginganefndar til að rífa burtu torfstofu, áfasta suðurenda húss, sem var á bakvið íbúðarhús, eða vestan við það, að sunnanverðu og lengja það sem nam lengd (þykkt) stofunnar. Þá ætlaði hann að [...] setja aptur stafn af timbri og þekja viðbót þessa með torfi eins og hinn partinn af húsinu (Bygg. nefnd. Ak. 1859: nr. 12). Af þessu má ráða, að húsið hafi verið með torfþaki í upphafi en óljóst hvað átt er við með húsi, bakvið eða vestan við íbúðarhúsið. Greinarhöfundur áætlar, að hér sé um að ræða viðbygginguna vestan við, sem fengið hafi endanlegt lag við þessar framkvæmdir. Ekki eru nein mál á þessum framkvæmdum. Þá fylgir ekki sögunni, hvort miðjukvistur hafi verið settur á um svipað leyti eða hvort hann hafi verið frá upphafi. Miðjukvistir af þeirri gerð sem sést á Nonnahúsi voru ekki algengir um miðja 19. öld. Ekki er getið fleiri bókana Bygginganefndar um Nonnahús (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa 2012).
Páll Magnússon hugðist starfrækja verslun í húsi sínu en eitthvað mun það hafa gengið brösuglega og seldi hann húsið fáeinum árum síðar. Árið 1863 er Wilhelmína Lever eigandi hússins. Tveimur árum síðar eignaðist húsið Sveinn Þórarinsson, amtskrifari á Möðruvöllum í Hörgárdal. Kona hans var Sigríður Jónsdóttir og börn þeirra Björg, Jón, Sigríður Guðlaug, Ármann og Friðrik. Bræðurna Jón og Ármann þekkja sjálfsagt ekki bara margir Íslendingar heldur einnig margir á meginlandi Evrópu og víðar í heiminum. Hér er nefnilega um að ræða þá Nonna og Manna, sem m.a. birtust á sjónvarpsskjáum landsmanna fyrir tæpum 40 árum. Það er e.t.v. til um marks um heimsfrægð Nonna að þeir þættir voru framleiddir í Þýskalandi og þar komu fram víðfrægir leikarar af mörgum þjóðernum. Jón Sveinsson eða Nonna þarf vart að kynna fyrir lesendum en hér var hann búsettur í fimm ár eða þar til honum bauðst, 12 ára gömlum, að flytjast til Frakklands til náms, með styrk frá frönskum aðalsmanni. Til latínuskólans í Amiens komst hann þó ekki fyrr en ári síðar, vegna stríðsátaka í Evrópu, en í millitíðinni dvaldist hann í Danmörku. Þar tók hann upp kaþólska trú og eftir latínuskólanámið gekk hann í reglu jesúíta. Nonni hóf kennslu við kaþólskan skóla í Danmörku en nam heimspeki, guðfræði og bókmenntir í nokkrum löndum og tók prestsvígslu á Englandi árið 1892, eftir guðfræðinám þar. Fékkst hann við kennslu og prestskap næstu áratugina en eftir 1912 lagði hann kennsluna á hilluna og fékkst að mestu við ritstörf, en fyrsta bók hans kom út 1913. Var hann m.a. búsettur í Þýskalandi og Hollandi. Hann var víðförull mjög og auk þess að kynna bækur sínar, hélt hann fyrirlestra um æskuslóðir sínar við Eyjafjörðinn en þær voru honum alla tíð mjög kærar. Bækur hans voru að mestu byggðar á bernskuminningum hans, svo ætla mætti, að þeir sem sóttu fyrirlestra hans, hafi kannast við staðhætti úr sögum Nonna. Hefur eflaust verið kærkomið. Nonni heimsótti Akureyri árið 1930 og var þá gerður að heiðursborgara bæjarins. Nonni lést 16. október 1944, réttum mánuði fyrir 87 ára afmæli sitt, í sprengjuvarnarbyrgi undir sjúkrahúsi í Köln. Var þá síðari heimsstyrjöldin í algleymi og fór Köln ekki varhluta af henni. Tveimur dögum fyrr gerðu Bandamenn t.d. umfangsmikla loftárás á borgina undir nafninu Operation Hurricane.
Af Sveini og Sigríði er það að segja, að Sveinn Þórarinsson lést árið 1869 úr sullaveiki. Eftir hann liggja mjög greinargóðar dagbækur sem þykja ómetanlegar heimildir um daglegt líf alþýðufólks á 19. öld. Sveinn hélt dagbækur þessar allt frá 15 ára aldri og fram í andlátið, en síðast færði hann í dagbók 29. júní 1869. Árið 2023 hlaut Minjasafnið á Akureyri styrk frá Nýsköpunarsjóði íslenskra námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og hafði Una Haraldsdóttir veg og vanda af verkefni þessu. Má nálgast brot úr þessum merku heimildum í greinaflokki á akureyri.net. en birting þeirra var hluti þessa verkefnis. Hér skulum við grípa í skrif Sveins frá júnímánuði 1869, en það vor og snemmsumar gengu slík harðindi yfir, að júníhret áranna 2024 og 2025 verða hjóm eitt í þeim samanburði: 14. júní. Norðan stormur með hríð og kulda [...] 15. júní. Norðan frostbruna stormur og loft bakka-fult eins og á þorra væri...Kýr látnar út um stund í dag, þær sem heylausar eru. 16. júní. Suðvestan gola hlý og bjartviðri [...] í dag færðist ísinn út fjörðinn móts við Höfða. 17. júní. Sunnan gola og hlýtt veður [...] Rigndi um kvöldið í fyrsta skipti í vor [ath. að þetta er 17. júní og fram að því hafði öll úrkoma verið snjór!] Eg lá lengst af degi afllaus og næringarlaus í rúminu, hafði ekkert til matar nema bragð af saltfiski og steikt roð og til vökvunar ramt brúðbergsvatn. Ísinn er að mestu rekinn út í fjarðarkjaft. (Steindór Steindórsson (Sveinn Þórarinsson) 1993:42) Tæpum mánuði eftir þessi skrif, eða 16. júlí, var Sveinn allur.
Sumarið eftir andlát föður síns hélt Nonni utan, sem fyrr segir. Ármann bróðir hans hélt nokkrum árum síðar einnig til náms í sama skóla í Frakklandi en hann lést aðeins 23 eða 24 ára gamall, árið 1885. Sigríður móðir þeirra hélt til Vesturheims, þar sem hún lést árið 1910. Um Sigríði Jónsdóttir segir Halldór Laxness: Hver sem virðir fyrir sér ljósmynd Sigríðar úr Vogum á blómaskeiði ævi hennar geingur þess ekki dulinn, að myndin er af glæsilegum kvenskörungi eins og einlægt hafa verið á Íslandi, og ekki í fornsögunum einum; þó stundum kannski ekki nema ein og ein á öld (Steindór Steindórsson (Halldór Laxness) 1993:42). Þá getur Halldór þess, að hann hafi haft ljósmyndina af Sigríði, þegar hann skapaði Úu í Kristnihaldi undir jökli.
Á áttunda og níunda áratug 19. aldar voru eigendur hússins þeir Edilon Grímsson og síðar Pétur Sæmundsen faktor. Árið 1886 eignaðist húsið Davíð Sigurðsson, trésmíðameistari og verslunarmaður frá Kristnesi í Garðsárdal. Hann kom að byggingu fjölmargra timburhúsa m.a. margra við Aðalstræti, íbúðarhússins að Grund og kirkjunnar að Einarsstöðum í Reykjadal og vann nokkuð með Sigtryggi Jónsson frá Espihóli, m.a. við byggingu Gagnfræðaskólans á Akureyri. Árið 1896 reisti Davíð sér nýtt íbúðarhús framan við Nonnahús, sem nú er Aðalstræti 54 (Zontahúsið). Auk starfa við húsasmíði fékkst Davíð einnig við líkkistusmíði og var verkstæði hans í þessu húsi, nánar tiltekið í suðurhlutanum. Árið 1916 var húsið virt til brunabóta og lýst svona: Íbúðarhús, gamalt einlyft á kjallara með háu risi. Kjallari óhólfaður sundur. Á gólfi 2 stofur og forstofa undir framhlið, við bakhlið 1 stofa eldhús og búr. Á lofti 1 íbúðarherbergi og 4 geimsluherbergi. Áfast við bakhlið hússins er geimsluskúr (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.25). Þrír ofnar og ein eldavél voru í húsinu. Húsið var sagt 10x4,7m á breidd og 4,4m hæð og á því 10 gluggar. Bakbygging var sögð 3,8x2,5m og 2m á hæð, með pappaklæddu þaki en að öðru leyti var húsið, veggir, jafnt sem þak, timburklætt.
Enda þótt hluti hússins væri verkstæði eða geymsla voru þar einnig íbúðarrými og búið var í húsinu fram undir miðja 20. öld. Davíð Sigurðsson átti húsið til dánardægurs árið 1948 en þá eignaðist húsið Sigríður, dóttir Davíðs. Þá var húsið að verða 100 ára gamalt og illa farið og jafnvel stóð til að rífa það. En úr varð, að Sigríður Davíðsdóttir færði Zontakonum húsið að gjöf. Hófust þær handa við að safna munum, tengdum Nonna, auk þess sem þær stóðu fyrir endurbyggingu hússins í sem upprunalegasti mynd. Voru þær framkvæmdir unnar eftir teikningum Stefáns Jónssonar arkitekts. Framkvæmdum þessum lauk árið 1957 og 16. nóvember það ár, á 100 ára afmæli Jóns Sveinssonar, var safnið um Nonna opnað með viðhöfn. Það mun hafa verið næsta fáheyrt á þessum tíma, að gömul hús væru endurbætt í upprunalegri mynd og verður þetta því að teljast sérlega aðdáunarvert framtak hjá Zontakonum. Ekki er síður aðdáunarvert, að þær björguðu mörgum verðmætum, sem nú prýða Nonnahús, frá glötun og stóðu vaktina í Nonnahúsi og önnuðust viðhald þess áratugum saman. Eða allt til ársloka 2007, að þær færðu húsið Akureyrarbæ til umsjónar. Nú heyrir Nonnahús undir Minjasafnið á Akureyri. Nonnahús var friðlýst í A-flokki þjóðminjalaga árið 1978 og aldursfriðað 12 árum síðar. Um Nonnahús segja þær Ragnheiður Gestsdóttir og Ragnheiður Hansdóttir: Mikill fjöldi erlendra gesta hefur komið í Nonnahús. Fólk frá Evrópu, sem leitaði athvarfs í bókum hans í hildarleik styrjaldanna á síðustu öld, hlýddi á fyrirlestra hans eða hitti hann persónulega, silfurhærða öldunginn með bláu augun. Þetta fólk kemur í pílagrímsferð og gengur þar um með tárin í augunum. Nonnahús er helgur staður (Ragnheiður Hansdóttir, Ragnheiður Gestsdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017: 63).
Við skulum aðeins dvelja við þá staðreynd, að til stóð að rífa Nonnahús um miðja síðustu öld. Greinarhöfundur fær stundum að heyra, að honum og hans skoðanasystkinum sé mikið í mun að vernda fúaspýtur og kofa þegar andæft er niðurrifi eldri húsa. Við getum rétt sem snöggvast ímyndað okkur hversu fátækari bærinn væri af menningarverðmætum, ef þess háttar sjónarmið hefðu fengið að ráða í tilfelli Nonnahúss!
Meðfylgjandi myndir eru teknar 16. febrúar 2025.
Fyrir réttu ári síðan nefndi höfundur þá hugmynd að mögulega væri sniðugt, að loknum endurbótum á Lónsstofu á Skipalóni, að innrétta þar einhvers konar safn, jafnvel útibú frá Nonnahúsi en ein af frásögnum Nonna nefnist einmitt Á Skipalóni. Það væri þó hæglega hægt koma upp veglegu safni um Skipalónsbóndann sjálfan, hagleiksmanninn og athafnamanninn Þorstein Daníelsson. Í næstu Hús dagsins grein ber okkur aftur niður á Skipalóni þar sem umfjöllunarefnið er Smíðahús Þorsteins...
Heimildir
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 11, 18. júní 1859. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Pdf-skjal á slóðinni⯠https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is. Einnig leitað fanga á wikipedia.org.
Bloggar | Breytt 21.6.2025 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2025 | 09:40
Hús dagsins: Aðalstræti 50
Flestir þekkja húsið Sigurhæðir, hús þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar en það reisti hann árið 1903 og átti þar heima til dánardægurs, 1920. Sigurhæðir voru ekki hans fyrsta heimili á Akureyri, því hingað fluttist hann árið 1887. Kom hann sér þá fyrir í 38 ára gömlu húsi við Aðalstræti, sem áður hafði gegnt hlutverki prentsmiðju. Og öðrum 38 árum - og einni öld betur síðar - stendur umrætt fyrsta heimili þjóðskáldsins á Akureyri enn, og er nr. 50 við Aðalstræti. Það sem heita má óvenjulegt í tilfelli Aðalstrætis 50 er, að það er vitað með nokkurri vissu hvenær það er byggt, en það er á huldu hver byggði!
Aðalstræti 50 er einlyft timburhús, bindingshús, með háu og bröttu risi og stendur á lágum steingrunni. Á bakhlið er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og inngönguskúr á framhlið með tröppum að gangstétt. Á þekju að framanverðu eru tveir smáir kvistir, annar smærri en hinn. Sexrúðupóstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og slagþil á veggjum. Grunnflötur hússins er 12,29x7,64m. Upprunalega er húsið aðeins 4,25m á breidd, en viðbygging á bakhlið er 3,39m. Inngönguskúr á framhlið er 2,25x2,20m. Á Aðalstræti 50 má finna, líklega smæstu glugga á húsi á Akureyri en þeir eru á hliðum inngönguskúrs. Greinarhöfundur áætlar, að þeir gætu verið á stærð við A4-blað (29x21cm) eða jafnvel enn smærri.
Sem fyrr segir var Aðalstræti 50 orðið 38 ára þegar Matthías Jochumsson fluttist þangað. Reyndar hlaut það ekki númerið 50 við Aðalstræti fyrr en tveimur áratugum síðar. Það var árið 1849 að Björn Jónsson, verslunarmaður og fyrrum bóndi keypti húsið nánast fullbyggt á uppboði. Hver það var sem hóf byggingu hússins, og missti svo á uppboði er ekki vitað (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa, 2012). En Björn keypti húsið og lauk við byggingu þess. Ári síðar, þegar manntal var tekið, var Björn Jónsson, titlaður hvorki meira né minna en verzlunar- og þjóðarfulltrúi búsettur í húsi nr. 40 á Akureyri verslunarstað. Ásamt honum áttu í heima húsi 40 kona hans, Anna Árnadóttir frá Syðri-Reistará, börn þeirra Magnús og Þorgerður, tökupilturinn Jón Jónsson og systkinin Jakobína og Ari Arabörn sem voru vinnufólk hjá fjölskyldunni. Það er ekki víst, að hús nr. 40 sé Aðalstræti 50, Björn var líkast til búsettur nyrst í bænum á þessum árum enda þótt hann ætti þetta hús; nánar um það rétt á eftir. Björn Jónsson var fæddur að Hólum í Hjaltadal árið 1802, uppalinn m.a. í Auðbrekku í Hörgárdal (Manntal 1816) þar sem faðir hans, Jón Jónsson frá Grenjaðarstað var sóknarprestur. Björn hafði fengist við verslunarstörf, búskap og gegnt ýmsum embættisstörfum þegar hann fluttist til Akureyrar. Hann var bóndi á Möðruvöllum í Hörgárdal (1835) og síðar í Dunhaga í sömu sveit og árið 1845 var hann factor í Höndlunarstað Hvanneyrarsóknar, sem er væntanlega Siglufjörður. Á 40 árum mun Björn hafa átt [...] heimili á hálfum tug bæja við Eyjafjörð (Jón Hjaltason 1990:129). Það mun hafa verið árið 1847, að Björn og fjölskylda hans fluttu til Akureyrar (sbr. Jón Hjaltason 1990:118). Björn mun hafa keypt húsið með það fyrir augum koma þar fyrir prentsmiðju en samkvæmt Jóni Hjaltasyni (1990:122) var hann búsettur nyrst í bænum, þar sem hann gegndi verslunarstörfum í umboði Þórðar Daníelssonar. Það er því óvíst, að hús nr. 40 sé Aðalstræti 50.
Það var einmitt sama ár og Björn keypti húsið og lauk við það, að hann fór fyrir stofnun félags um að koma á fót prentsmiðju, sem þjóna myndi Norður- og Austuramti. Hafði þá landsfjórðungurinn verið án prentsmiðju í rúma hálfa öld, er Hólaprentsmiðja var lögð niður árið 1799. Prentsmiðjuna átti að kaupa frá Danmörku og kaupverðið áætlað 1600 dalir. Skemmst er frá því að segja að hugmyndum þessum var almennt vel tekið og á rúmum tveimur árum náðist að safna fyrir prentsmiðjunni. Þann 14. apríl 1852 fékkst konungsleyfi fyrir prentsmiðjurekstri. Var það enginn annar en Jón Sigurðsson, þá skjalavörður í Kaupmannahöfn, sem gekk frá kaupum á prentverkinu fyrir hönd prentsmiðjufélagsins. Og það var um sumarið 1852, að prentsmiðjan, pappír og annar búnaður kom á land á Akureyri og var komið fyrir í húsi Björns Jónssonar. Bauð hann félögum sínum í prentsmiðjunefndinni húsið til leigu og voru þeir ekki á einu máli um þá ráðstöfun, en sættust þó á það. Þóttu þeim húsið óhentugt (sbr. Jón Hjaltason 1990:122) og má geta sér til, að það hafi mögulega vaxið þeim í augum, hve húsið var mjótt. En í upphafi var húsið aðeins rúmir 4 metrar á breidd. Nú var prentsmiðjan komin undir þak og þá var aðeins eftir að ráða prentara. Til þeirra starfa var ráðinn Helgi Helgason, sem þá var yfirprentari einu prentsmiðju landsins (fram að stofnun prentsmiðju Björns og félaga), Landsprentsmiðjunnar. Og í ársbyrjun árið 1853 hóf fyrsta blaðið, sem prentað var hér, göngu sína og hét það Norðri. Ritstjóri þess var téður Björn Jónsson, fyrsta árið í samvinnu við Jón Jónsson, alþingismann á Munkaþverá. Hér hefur aðeins verið stiklað á mjög stóru um upphaf prentsmiðjureksturs á Akureyri en áhugasömum er bent á afar ítarlegan kafla í 1. bindi Sögu Akureyrar (bls. 117-133) eftir Jón Hjaltason.
Því er stundum ranglega haldið fram, að Steinhúsið við Norðurgötu, sem gengur undir nafninu Gamla Prentsmiðjan, hafi verið fyrsta prentsmiðja bæjarins en það er aldeilis ekki svo, því sú prentsmiðja var stofnsett um 30 árum síðar. Það býður svo kannski upp á enn frekari misskilning, að stofnandi þeirrar prentsmiðju hét einmitt líka Björn Jónsson! Þegar rætt er um Prentverk Björns Jónssonar er átt við prentsmiðju Björns yngri. Umrædd prentsmiðja, sem Jón Sigurðsson keypti í umboði prentsmiðjunefndar Björns eldri og félaga í Danmörku og lét flytja til Akureyrar, gekk undir nafninu Prentsmiðja Norður og Austurumdæmis. Það fór nú reyndar svo, þegar fram liðu stundir (1879), að Björn Jónsson yngri keypti prentverkið af þeirri prentsmiðju.
Björn Jónsson mun hafa flust í prentsmiðjuhúsið við Aðalstræti árið 1853. Gegndi hann stöðu ritstjóra Norðra til ársins 1856 að Sveinn Skúlason tók við ritstjórastöðunni og prentsmiðjunni. Þremur árum síðar flutti hann prentverkið í hús sem hann hafði keypt af Wilhelmínu Lever. Ekki var sá flutningur um langan veg, því umrætt hús var næsta hús sunnan við Björn. Sveinn var nokkuð stórhuga, byggði við m.a. við húsið, en rekstur Norðra og prentsmiðjunnar gekk illa og fór það svo, að Sveinn varð gjaldþrota og prentsmiðjureksturinn í hættu. Fór það þó svo, að fyrrum prentsmiðjustjórinn, Björn Jónsson, tók aftur að sér reksturinn og á stofnári Akureyrarkaupstaðar, 1862, fluttist prentverkið aftur í hús Björns Jónssonar. Nú hóf göngu sína nýtt blað, Norðanfari, en Sveinn Skúlason taldi sig eiga Norðranafnið. En Björn lét það ekki á sig fá, heldur hóf einfaldlega útgáfu nýs tímarits, sem bar nafnið Norðanfari. Björn sá um Prentsmiðju Norður- og Austurumdæmis til ársins 1875 en þá tók Skapti Jósepsson við henni. (Björn átti raunar ekki prentverkið, heldur félagið um prentsmiðjuna). Ætla mætti, að þá hefði Björn ákveðið að láta af störfum, enda orðinn 73 ára gamall. En svo var nú aldeilis ekki, því Björn stofnsetti sína eigin prentsmiðju; Prentsmiðju Norðanfara og hélt áfram ritstjórn og útgáfu þess blaðs. Síðasta tölublað Norðanfara var prentað 29. ágúst 1885. Hafði þá blaðið og reksturinn verið í járnum og Björn reynt að höfða til áskrifenda, sem virtust af lokaorðum í blaðinu að dæma, þó nokkrir hafa trassað að greiða áskrift, að gera upp útistandandi skuldir. Helst vildi hann fá greitt í peningum eða innskrift í reikning í verslunum fjórðungsins. Einnig getur hann þess, að honum sé kærkomin borgun í hvítri eða mislitaðri ull, vel þveginni og þurrkaðri, harðfiski, vel verkuðu smjöri og kjöti, mör og slátri helst úr veturgömlu, sauðum og geldum ám. Grípum niður í síðustu orð Norðanfara: Vegna þess, að hjer ónefndur maður, hafði boðið mjer í brjefum til mín, að taka að sjer blaðið Nf. og prentsmiðjuna, og jeg gefi honum kost á því, og í fullri von um að þetta myndi verða, útvegaði jeg mjer eigi pappír í sumar til áframhalds blaðinu, en þar eð maður þessi virðist alveg horfinn frá fyrirætlan þessari neyðist jeg til að hætta fyrst um sinn við útgáfu blaðsins, vegna þess og líka skuldanna. En vinnist mjer aldur og heilsa og jeg fái grynnt á skuldum mínum, er ekki ólíklegt að Norðanafari hefji göngu sína á ný.
Akureyri, 29. ágúst 1885.
Björn Jónsson
Af þessu má ráða, að þrátt fyrir allt var hinn aldni og skuldugi ritstjóri ekki af baki dottinn hvað blaðaútgáfu varðaði. En Birni auðnaðist hins vegar ekki að leggja frekari stund á þá iðju því hann lést 20. júní 1886, rúmum mánuði eftir 84 ára afmælisdag sinn. Af Prentsmiðju Norður- og Austurumdæmis er það hins vegar að segja, að hana keypti Björn Jónsson yngri árið 1879. Það er dálítið athyglisvert, í ljósi þess að prentsmiðjureksturinn hafði löngum verið erfiður og skuldir miklar, að undir prentsmiðju sína reisti Björn yngri eitt stærsta hús Oddeyrar á þeim tíma. Og það steinhús, hlaðið úr blágrýti, sem gera má ráð fyrir að hafi verið mikið dýrara en hefðbundið timburhús. Og við andlát Björn Jónssonar eldri keypti alnafni hans einnig prentverk Norðanfara.
Árið 1887 fluttist hingað séra Matthías Jochumsson er hann réðist sem sóknarprestur á Akureyri. Hann mun hafa byggt við húsið til vesturs um leið og hann fluttist hingað inn. Ekki er að finna byggingaleyfi fyrir þeirri framkvæmd en sagt að Matthías hafi fengið nágranna sinn, Jón Christian Stephánsson, til að annast bygginguna (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa 2012). Þess má geta, að í viðbyggingu lét hann innrétta veglegan vínskáp og er hann enn til staðar í húsinu, þó ekki sé þar geymt vín (sbr. Anna Guðný Sigurgeirsdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017: 59). Árið 1897 fékk Matthías leyfi til að endurbyggja skúr eða fjós norðan við hús sitt. Árið 1903 fluttist Matthías Jochumsson í nýtt og veglegt hús sitt, Sigurhæðir, skammt sunnan og ofan Torfunefs. Hingað fluttist þá og eignaðist húsið Kristján Árni Nikulásson. Hann er titlaður löggæslumaður í manntali 1903 en mun auk þess að vera lögregluþjónn hafa verið söðlasmiður. Árið 1903 búa þau hér, Kristján Nikulásson, kona hans María Jónsdóttir, átta börn þeirra og vetrarstúlka, Jónína Jónsdóttir. Auk þeirra eru hér tvær konur, líklega leigjendur, þær Guðrún Davíðsdóttir húskona og Guðlaug Helgadóttir saumakona.
Árið 1916 var Aðalstræti 50 virt til brunabóta. Þá var því lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús á lágum steingrunni með háu risi. Kjallari undir litlum parti af húsinu. Áfast við bakhlið hússins er skúr að stærð 12,2x3m. Á gólfi við framhlið eru 3 herb. og forstofa. Við bakhlið eldhús og búr og eitt herbergi. Á lofti 2 herbergi og geymsla (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.26). Að grunnfleti var húsið sagt vera 12,2x4,4m og 4,4m hátt. Veggir voru timburklæddir, þak pappaklætt og 20 gluggar á húsinu, fjórir ofnar og tvær eldavélar í húsinu. Reykháfar voru taldir of þunnir og sagðir 2 rör í gegnum loft og þekju. Að auki stóðu á lóðinni geymsluhús og fjós, sem munu hafa verið rifin um 1944 þegar Þórður Friðbjarnarson eignaðist húsið (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:99).
Kristján Nikulásson lést árið 1917 og eignaðist sonur hans, Jón Björn Kristjánsson húsið. Árið 1924 eignast húsið Sigurpáll Jónsson. Árið 1925 fékk hann leyfi til að breikka skúr vestan við hús sitt um 1 metra og hækka hann, á þann hátt, að þak yrði jafnhátt og á vesturhlið framhúss (sbr. Bygg.nefnd Ak. 1925: nr.572). Þar gæti verið kominn geymsluskúr, sem stendur vestan við hús en samkvæmt Fasteignaskrá er byggingarár hans 1925. Hvort að hann sé að einhverju leyti byggður upp úr byggingum, sem Matthías reisti um 1897 er óvíst en af orðalagi bygginganefndar má ótvírætt ráða, að skúrinn hafi þegar verið risinn. Ekki er ósennilegt, að Sigurpáll hafi einnig sett á húsið steinblikk en sú klæðning, sem var móðins á 4. áratug 20. aldar var á húsinu fram undir aldamót 2000. Um svipað leyti eða síðar gæti gluggum hafa verið breytt, settir í þá einfaldir þverpóstar í stað margskiptra pósta. Sú aðgerð kallast því lítt geðfellda nafni að augnstinga hús.
Árið 1942 eru tvær fjölskyldur búsettar í Aðalstræti 50. Annars vegar téður Sigurpáll Jónsson, kona hans Þorgerður Björnsdóttir og sonur þeirra, Jón Arinbjörn. Í sömu íbúð er búsettur Ólafur Árnason, mjólkurfræðingur frá Húsavík, sem líklega hefur verið leigjandi hjá þeim. Á móti þeim Sigurpáli og Þorgerði búa þau Þórður Friðbjarnarson smiður og Anna Sigurgeirsdóttir. Hann var Skagfirðingur, fæddur á Keldum í Sléttuhlíð en hún var frá Helluvaði í Mývatnssveit. Ásamt þeim er nýfæddur sonur, sem hlaut nafnið Sigurgeir Bernharð og bróðir Önnu, Jón Sigurgeirsson, lögregluþjónn. Þórður varð síðar minjavörður og gegndi Minjasafninu á Akureyri frá stofnun þess árið 1962. Árið 1944 er Þórður orðinn eigandi hússins og er skemmst frá því að segja, að núverandi eigandi hússins er sonardóttir Þórðar, Anna Guðný Sigurgeirsdóttir. Á árunum kringum 2000 stóð hún fyrir gagngerum endurbótum á húsinu með það að markmiði, að færa það sem næst upprunalegu útliti, m.a. skipti út þverpóstum fyrir sexrúðugluggu og steinblikk vék fyrir slagþili. Auk mikilla framkvæmda innanstokks. Ekki er hægt að segja annað, en að þessar endurbætur hafi heppnast virkilega vel. Kristín Aðalsteinsdóttir tók viðtal við Önnu í mars 2016 í tengslum við bókina Innbær. Húsin og fólkið: Ég [Anna] er oft spurð hvernig sé að búa í þessu gamla húsi. Ég þekki ekki annað, hér hef ég átt heima alla ævi, 54 ár. Húsið heldur mjög vel utan um mig og hér er mjög góður andi. Þetta er fjölskylduhús, afi minn og amma keyptu húsið 1942, pabbi er fæddur hér, ég er hér upp hjá ömmu og afa. Mér fannst gott að ala börnin mín uppalin í húsinu og nú njóta barnabörnin þess að koma hingað (Anna Guðný Sigurgeirsdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017: 59). Fjölskylduhús segir Anna Guðný, en það er í raun tilfellið með flest þessi elstu húsa Aðalstrætis, að þau hafa gengið milli kynslóða frá fyrri hluta 20. aldar. Það hlýtur að bera því ótvírætt vitni, að fólki líður einstaklega vel í þessum geðþekku húsum, en Anna Guðný minnist þarna einnig á góðan anda.
Aðalstræti 50 er sérlega geðþekkt og fallegt hús og til mikillar prýði. Endurbætur á því fyrir aldarfjórðungi hafa lukkast stórkostlega og nostrað hefur verið við smáatriði t.d. hlaðinn reykháf. Þá hafa hinir örsmáu gluggar í forstofuskúrnum verið látnir halda sér, einhverjum hefði eflaust þótt lítið mál að fella þá undir slagþil. Umhverfi hússins er líka einstaklega skemmtilegt, lóðin er vel gróin og í góðri hirðu og líkt og víðar á þessum slóðum væri jafnvel hægt að tala um landareign, því lóðin er meira en 3000 fermetrar og nær langleiðina að Kirkjugarðinum. Áberandi er mjög gróskumikill og stæðilegur silfurreynir fast sunnan við stafn hússins. Norðan við húsið er brunnur, sem líklega er frá svipuðum tíma og húsið var byggt. Hann fannst við endurbætur á lóðinni um 2001 og var við það tækifæri mokað upp úr honum og hann gerður upp með álíka glæsibrag og húsið sjálft. Var það hinn valinkunni hagleiksmaður Hólmsteinn Snædal, sem mestan veg og vanda hafði að þeirri framkvæmd. Er þetta eini af 16 brunnum Innbæjarins, sem varðveist hefur. Brunnurinn hlaut viðurkenningu Húsverndunarsjóðs árið 2016. Aðalstræti 50 var friðað í B-flokki þjóðminjalaga árið 1978, í hópi fyrstu húsa bæjarins, sem friðlýst voru. Árið 1990 var húsið svo aldursfriðað skv. lögum frá 1989. Hvort brunnurinn sé friðaður sem slíkur er greinarhöfundi ókunnugt um, en það ætti hann svo sannarlega að vera. Húsið myndar skemmtilega heild ásamt næsta nágranna sínum, Aðalstræti 52 og eru þessi hús einkar áberandi frá þjóðveginum fram Eyjafjörð og að flugvelli, handan Innbæjartjarnar. Það væri hreinasta stórslys ef skipulagsyfirvöldum hugkvæmdist einhvern tíma, að byggja stórhýsi á þessum slóðum austan Aðalstrætis eða vestan Drottningarbrautar og skyggja þannig á þessa einstöku götumynd!
Myndirnar af Aðalstræti 50 eru teknar 15. ágúst 2009 og 16. febrúar 2025 en einnig fylgir mynd, sem sýnir þátttakendur í Trjágöngu Skógræktarfélags Eyfirðinga virða fyrir sér silfurreyninn mikla, 31. ágúst 2014. Myndin af Steinhúsinu, Gömlu Prentsmiðjunni í Norðurgötu á Oddeyri er tekin 19. júní 2022.
Heimildir
Björn Jónsson. 1885. Háttvirtir og heiðviðru kaupendur Norðanfara Í Norðanfara, 59.-60. tbl. 24. árg. 29. ágúst.
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 11, 28. júní 1859. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 572, 1. sept. 1925. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni⯠https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.
Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. Í landi Eyrarlands og Nausta 8901862. Akureyri: Akureyrarbær.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.
Prentsögusetur. 2016-25. Veflægt gagnasafn Prentsöguseturs, slóðin https://prentsogusetur.is/
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2025 | 00:38
Hús dagsins: Aðalstræti 46; Friðbjarnarhús
Árið 1840 var einu sinni sem oftar tekið manntal á Íslandi. Þá var nafnið Akureyri hvergi að finna í þeim skrám, en hins vegar er þar minnst á Eyjafjarðar höndlunarstað og þar skráðir íbúar í 23 húsum, sem númeruð eru frá 34 til 56. Í húsi nr. 56 er búsettur Ingimundur Eiríksson, 31 árs járnsmiður. Aðrir íbúar húss númer 56 er kona hans, Margrét Jónsdóttir, 33 ára, tvö ung börn þeirra, Anna Kristín (3 ára) og Erlendur Hjörtur (2 ára) og vinnukona þeirra, Björg Magnúsdóttir, 19 ára. Hvert þetta hús nr. 56 er, er greinarhöfundi ekki alveg ljóst. Árið 1860 er húsið sem löngu síðar (1906) hlaut númerið 44 við Aðalstræti, skráð númer 56. Það er hins vegar ekki öruggt, að um sé að ræða, sama húsið. Árið 1849 fékk Ingimundur úthlutað lóð undir smiðju og íbúðarhús og þar er um að ræða næstu lóð sunnan við umrætt hús. Tveimur árum síðar seldi hann þessar eignir öðrum járnsmið og sá var úr Öxnadal og hét Steinn Kristjánsson. Síðar eignaðist sonur hans, Friðbjörn, húsið og það kennt við hann æ síðan.
Ingimundur Eiríksson var úr Reykjavík, nánar tiltekið frá Rauðará. Hvenær hann flutti til Akureyrar (eða verslunarstaðar Eyjafjarðar) liggur ekki fyrir nákvæmlega, en árið 1835 er hann lærlingur hjá Skapta Skaptasyni járnsmið í Stöðlakoti í Reykjavík. Fimm árum síðar er hann, sem fyrr segir, búsettur í Eyjafjarðar höndlunarstað ásamt fjölskyldu sinni, í húsi nr. 56. Hins vegar, eru þau Ingimundur, Margrét og börn skráð í hús nr. 51 þar sem heitir Akureyri, áður Eyjafjarðar höndlunarstaður árið 1845. Hvort hér sé um að ræða núverandi Aðalstræti 44, sem þá hafði fengið nýtt númer, en endurheimt númerið frá 1840 síðar, er ómögulegt að segja. Sú tilgáta, að Ingimundur hafi reist Aðalstræti 44 um 1840 og reist sér ný hús síðar á næstu lóð sunnan við, gæti þannig verið hæpin. Raunar er jafnvel talið að Aðalstræti 44 hafi verið reist nærri 1854-57 af Bjarna Gunnarssen eða Kristjáni Tómassyni. Fimm árum síðar er Ingimundur og fjölskylda búsett í húsi númer 62. Þar er væntanlega um að ræða húsið sem Ingimundur reisti ári fyrr. Í grein undirritaðs um Aðalstræti 44 kom fram, að Friðbjarnarhús hafi verið reist upp úr smiðju en það mun vera rangt: Það var íbúðarhús Ingimundar, ekki smiðjan, sem síðar varð Friðbjarnarhús. Leiðréttist það hér með. Upprunalega hefur húsið líkast ekki verið óáþekkt t.d. Aðalstræti 44 og Aðalstræti 62 en vitað er, að það var smærra að grunnfleti og risið væntanlega brattara. Árið 1851 keypti Steinn Kristjánsson, járnsmiður og bóndi á Geirhildargörðum í Öxnadal, nýleg hús Ingimundar Eiríkssonar. Um var að ræða íbúðarhús, smiðju og fjós úr torfi. Íbúðarhúsið virðist hafa verið byggt úr torfi að hluta. Löngum var raunar talið að húsið væri byggt árið 1856 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:92).
Friðbjarnarhús er einlyft, portbyggt timburhús með háu risi og stendur á steingrunni. Kjallari er undir hluta hússins, nánar tiltekið norðurhlutanum. Á húsinu er stór miðjukvistur sem nær þvert yfir þekju hússins og stendur hann umtalsvert hærra en mænir þess. Á bakhlið hússins, nánar tiltekið norðvestanmegin, er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og er bakhlið hennar að einhverju leyti grjóthlaðin. Sexrúðupóstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og listasúð á veggjum. Grunnflötur hússins er 11,18x5,02m en viðbygging er 6,12x3,96m.
Þann 18. júní 1859 heimilaði hin tiltölulega nýstofnaða (2 ára) bygginganefnd Steini Kristjánssyni að rífa eldhús úr torfi og skipta út torfveggjum fyrir timburveggi. Eða eins og segir orðrétt í bókun byggingarnefndar: Frá tómthúsmanni Steini Kristjánssyni dags. 13. þ.m. hvar hann lætur í ljós, að hann vilji rífa eldhús sem stendur á bak við eða fyrir vestan íbúðarhúsið og vill hann, eptir því sem hann hefur ýtarlega skýrt frá taka burtu tvo torfveggi frá húsinu og byggja þá aptur úr timbri, nefnilega vegginn milli húsanna sem og byggja eldstó og reykháf úr tígulsteini (Bygg. nefnd. Ak. 1859: nr.11). Af þessu má ráða, að stafnar íbúðarhússins hafi upprunalega verið torfveggir og sambyggt húsinu eldhús úr torfi að vestan. Enda þótt ekki sé minnst á það í þessari bókun mun Steinn hafa lengt hús sitt til norðurs. Mögulega hefur sú framkvæmd verið innifalin í niðurrifi eldhússins vestan við. Ekki er getið neinna mála á húsinu fyrir eða eftir breytingar en höfundi þykir óskaplega freistandi að áætla, að nyrstu tveir gluggarnir og beint strik niður af norðurenda kvistsins (sem líklega kom þó löngu síðar) marki nokkurn veginn skil upprunalegs húss og viðbyggingar frá 1859. Gengur þá út frá því, að útidyr séu á upprunalegum stað og hafi verið nokkurn veginn fyrir miðju hússins í upphafi.
Steinn og kona hans, Guðný Kráksdóttir, sem var Skagfirðingur, uppalin á Keldulandi í Silfrastaðasókn, áttu hér heima alla sína tíð frá því þau fluttust hingað árið 1851. Síðustu áratugina voru þau í skjóli sonar síns, Friðbjarnar bóksala og bókbindara, og tengdadóttur Guðnýjar Jónsdóttur, yfirsetukonu. Guðný Kráksdóttir lést 1887 en Steinn Kristjánsson árið 1896. Friðbjörn Steinsson var sem fyrr segir bóksali og bókbindari en einnig mjög ötull við ýmis embættis- og félagsstörf. Hann sat í bæjarstjórn Akureyrar áratugum saman og sat lengi í bygginganefnd, var bókavörður Amtsbókasafnsins og meðal stofnenda handiðnaðarmannafélagsins, framfarafélagsins, jarðræktarfélagsins, iðnaðarmannafélagsins, auk þess var hann sóknarnefndarmaður og meðhjálpari (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005:19). Það sem e.t.v. hefur haldið nafni Friðbjarnar Steinssonar á lofti framar öðru er stofnun fyrstu I.O.G.T. Goodtemplara stúkunnar, stúku nr. 1, í ársbyrjun 1884. Fór stofnfundurinn fram hér, á heimili Friðbjarnar, nánar tiltekið í kvistinum.
Ekki mun húsið hafa fengið núverandi útlit með breytingunum 1859 heldur mun risið hafa verið hækkað upp (byggt undir það port) og kvisturinn mikli verið gerður síðar. Hvenær þær breytingar voru gerðar og/eða hvort þær voru gerðar samtímis virðist ekki liggja fyrir. Þá er viðbygging norðvestan á húsinu einnig síðari tíma viðbót. Nafn Steins kemur aðeins einu sinni fyrir í bókunum Bygginganefndar og það er framangreind framkvæmd árið 1859 og ekki er heldur að sjá neinar bókanir hjá bygginganefnd þar sem Friðbjarnar er getið, varðandi breytingar á húsi hans. Það gerðist einstöku sinnum, að eiginkonur húsráðenda ættu samskipti við bygginganefnd vegna framkvæmda. Í örfáum tilvikum, við vinnslu þessara greina hefur höfundur ekki fundið byggingaleyfi til handa þeim, sem vitað er að áttu eða byggðu húsin, en
síðar fundið bygginga- eða framkvæmdaleyfi skrifuð á eiginkonur viðkomandi. En hvorug þeirra nafna og tendgamæðgna, Guðnýjar Kráksdóttur og Guðnýjar Jónsdóttur er nefnd hjá bygginganefndinni. Því er ekki ljóst nákvæmlega hvenær þessar breytingar voru gerðar. Það liggur hins vegar fyrir, að núverandi útlit, portbyggt ris, kvist og viðbyggingu hefur húsið fengið árið 1916, þegar því er lýst í skýrslu Brunabótafélagsins. Ef höfundur ætti að giska á eitthvert líklegt tímabil hvað þessar breytingar varðar má nefna, að á árunum 1880-90 fóru portbyggð ris mjög að tíðkast á timburhúsum og um svipað leyti voru byggðir miklir kvistir t.d. á Aðalstræti 66 (1880) og Aðalstræti 42 (1890). Þeir eru þó frábrugðnir kvistinum á Friðbjarnarhúsi að því leyti, að þeir skaga út fyrir húshliðina og eru í raun nokkurs konar viðbyggingar. Í grein frá 1961 um stofnun Góðtemplarareglunnar, er fullyrt, að stofnfundur Góðtemplareglunnar árið 1884 hafi farið fram í kvistinum (sbr. án höf 1961:7). Þar sem sá fundur fór fram í blábyrjun þess árs, 10. janúar, hefur kvisturinn verið reistur í síðasta lagi sumarið eða haustið 1883.
Í brunabótamati árið 1916 er húsinu lýst sem einlyftu timburhúsi með kvisti og háu risi, timburklætt með járnklæddu þaki. Á gólfi þ.e.a.s neðri hæð voru þrjár stofur og forstofa að framanverðu en eitt herbergi og gangur að aftanverðu. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og gangur. Á bakhlið var sagt vera áfast geymsluhús með skúr á bakvið og þar eldhús og þrjú geymslupláss (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr.27). Árið 1916 stóð einnig annað íbúðarhús á baklóðinni og smiðja, en þau hús eru nú löngu horfin.
Friðbjörn Steinsson lést árið 1918, áttræður að aldri. Eftir lát hans eignaðist Guðný, ekkja hans, húsið en árið 1922 er Jón Jónatansson á Öngulsstöðum orðinn eigandi hússins. Guðný átti þó heima hér til dánardægurs, en hún lést í október 1926, tæplega 93 ára að aldri. Á þessum árum virðist húsið, samkvæmt manntölum skiptast í a.m.k. fjögur íbúðarrými, og oft 15-20 manns, 3-4 fjölskyldur búsettar hér samtímis. Árið 1929 er Sigurður nokkur Halldórsson, daglaunamaður skráður fæddur, í apríl 1898 í Brekkukoti í Sveinsstaðahreppi, á meðal leigjenda í Aðalstræti 46. Hann er hér búsettur ásamt móður sinni, Sólveigu Guðmundsdóttur, Einari Halldórssyni bróður sínum og sjö ára tökubarni, Steingerði Theódórsdóttir, sem fædd var á Uppsölum í Öngulsstaðahreppi. Fimm árum síðar, eða 1934, er Sigurður orðinn eigandi hússins en frá 1942 er húsið skráð eign Björns Halldórssonar. Fjölskylda þessi átti þó heima hér áfram, Sólveig Guðmundsdóttir, Halldór Hjálmarsson, bræðurnir Hafsteinn og Sigurður ásamt tökubarninu Steingerði. Greinarhöfundur gat ekki séð, að umræddur Björn Halldórsson, sem ekki er skráður til heimilis hér væri einn barna Sólveigar og Halldórs. Það er einnig athyglisvert, að árið 1944 hafa enn orðið eigendaskipti, en Sigurður Halldórsson er hér enn búsettur ásamt fjölskyldunni, væntanlega sem leigjandi. Hafsteinn er þá ekki búsettur hér. Sá sem eignaðist húsið árið 1944 hét Matthías Matthíasson. Tveimur árum síðar eignast Hafsteinn Halldórsson húsið og árið 1947 er hann fluttur hér inn. Árið 1954 flyst Hafsteinn Halldórsson til Reykjavíkur og þá mun Júlíus Halldórsson hafa eignast húsið (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:91). Og þrátt fyrir föðurnafnið var Júlíus heldur ekki bróðir Hafsteins og Sigurðar. (Ath. höfundur lagðist ekki í ítarlegar ættfræðirannsóknir en gat eftir því sem hann komst næst ekki annað séð, en að synir Halldórs Hjálmarssonar og Sólveigar Guðmundsdóttur, hafi aðeins verið fjórir; Sigurður, Hafsteinn, Einar og Guðmundur). Þess ber að geta, að í Húsakönnun Hjörleifs (1986:91) eru mun fleiri nefndir sem eigendur hússins, m.a. Guðmundur Guðmundsson og Jónas Kráksson (mágur Steins Kristjánssonar). Þar gæti verið, að húsið hafi einhvern tíma skipst í nokkra eignarhluta eða bakhús, sem löngum stóðu á lóðinni, eigi þar hlut að máli.
Árið 1961, nánar tiltekið þann 25. september, festu Góðtemplarar kaup á húsinu með það að augnamiði, að gera það að safni. Gefum ónefndum blaðamanni Einingar, málgagni templara þann 1. desember 1961, orðið: Góðtemplurum var það merkisviðburður að hinn 25. sept. sl. gekk góðtemplarareglan frá kaupum á Friðbjarnarhúsi, Aðalstræti 46, Akureyri. í þessu húsi var stofnuð fyrsta stúkan á íslandi, st. ísafold nr. 1, 10. jan. 1884. Húsið minnir því á merkisviðburð og dýrmætar minningar eru tengdar því. Sunnudaginn 15. okt. sl. blakti góðtemplarafáninn fyrir hlýjum sunnanvindi við Friðbjarnarhús. Þar var saman komið framkvæmdaráð stúknanna á Akureyri með blaðamönnum og fréttaritara útvarps. Setið var um stund við rausnarlega búið kaffiborð, sem nokkrar stúkusystur höfðu búið í kvistherberginu, þar sem stofnuð var stúkan ísafold fyrir tæpum 78 árum. Formaður framkvæmdaráðs, Jón Kristinsson bauð gesti velkomna og drap nokkuð á ýmsa þætti í störfum Reglunnar fyrr og síðar. Minnti á, að hugsjón góðtemplara- reglunnar átti snemma hljómgrunn í sál þjóðarinnar og að ýmsir mikilhæfir áhrifa- menn hafa sótt fram undir merkjum hennar bæði fyrr og nú. Þræðirnir frá litla kvistherberginu, sem áður var dagstofa Friðbjarnar Steinssonar, bóksala og bæjarfulltrúa hins trausta brautryðjanda og þrautseiga baráttumanns liggja nú víðs vegar um landið.[
] Húsi Friðbjarnar þarf að sýna allan sóma, sagði ræðumaður að lokum, svo að það geti verið bæjarprýði, og það skal jafnan vera lýsandi tákn og minnisvarði, er hvetji alla ísl. góðtemplara til samstarfs og sóknar að settu marki. (Án. höf. 1961:7). Fáeinum árum síðar hófust endurbætur á húsinu en umsjón með þeim hafði hinn valinkunni hagleiksmaður og Innbæingur,
Sverrir Hermannsson. Var húsið með þeim fyrstu, þar sem Sverrir kom að endurgerð, en hann varð síðar annálaður fyrir störf sín við endurbyggingu gamalla timburhúsa. Árið 1977 var húsið friðlýst í A-flokki en þar var um að ræða nokkurs konar alfriðun (B-flokkur tók til ytra byrði húsa), eftir þjóðminjalögum frá 1969. Árið 1990 var friðlýsing hússins að heita má ítrekað, þegar það var friðlýst samkvæmt aldursákvæði laga frá 1989. Húsið var allar götur frá 1961 minjasafn Góðtemplara. Á árunum 2003-2009 stóð reglan fyrir umfangsmiklum endurbótum á húsinu, eftir teikningum Finns Birgissonar
Þann 28. október 2009 tók sá sem þetta ritar saman stuttan pistil um Friðbjarnarhús undir yfirskriftinni Hús dagsins, hér á þessum vettvangi. Svo skemmtilega vildi til, að daginn eftir kom fram í Svæðisútvarpi Norðurlands, sem þá var og hét, að Góðtemplarareglan hygðist afhenda Akureyrarbæ, Friðbjarnarhús, og skyldi það vera í umsjón Minjasafnsins. Hefur húsið verið í umsjón Minjasafnsins æ síðan en skömmu eftir að Akureyrarbæ áskotnaðist húsið fékk annað safn þar inni; leikfangasafn Guðbjargar Ringsted. Var það í júlí 2010, sem Guðbjörg opnaði dyr Friðbjarnarhúss fyrir almenningi til að berja augum einstakt safn hennar, af leikföngum, sem hún hafði safnað áratugum saman. Og nú hefur Friðbjarnarhús unnið sér sess í hugum bæjarbúa sem leikfangasafnið. En það eru ekki einungis leikföng sem eiga skjól í hinu geðþekka húsi sem reykvíski járnsmiðurinn Ingimundur Eiríksson byggði fyrir nærri 180 árum, því eftir sem áður er þar minjasýning á munum Góðtemplara. Sýninguna á munum templara er að finna á rishæðinni.
Það þarf vart að fjölyrða um það, hvað Friðbjarnarhús, sem er í sérlega góðri hirðu, er til mikillar prýði í umhverfinu en það stendur líka skemmtilega, nokkuð hátt á barðbrún götunnar og er sérlega áberandi. Lóð hússins er afar víðlend, sögð 4050 fermetrar í Húsakönnun Hjörleifs og er hún vel gróin og prýdd ýmsum trjágróðri. Neðsti hluti lóðarinnar er stallaður og stendur húsið á öðrum stallinum. Á neðri stalli stendur forláta ljósastaur, sem mun vera frá 1896 og sá eini sinni tegundar á Akureyri (sbr. Hjörleifur Stefánss 1986:91). Kúpullinn á staurnum er þó næsta nýlegur, en hann hefur prýtt staurinn frá því um eða fyrir 2000. Efri hluti hinna víðlendu lóða, eða jafnvel landareigna, við Aðalstræti er svo að heita má einn samfelldur skógur og er lóð Friðbjarnarhúss þar engin undantekning.
Meðfylgjandi myndir eru teknar í einmuna vetrarblíðu þann 16. febrúar 2025, en einnig fylgir með sumarmynd sem undirritaður tók 15. ágúst 2009. Meðfylgjandi eru einnig myndir af söfnum Friðbjarnarhúss teknar 10. júlí 2011 og 13. júní 2022.
Heimildir
Án höfundar. 1961. Góðtemplararegla kaupir Friðbjarnarhús. Í Einingu (ritstj. Pétur Sigurðsson) 12. tbl. 19. árg. 1.desember.
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 11, 18. júní 1859. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Hjörleifur Stefánsson. 1986.â¯Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn.
Sigurþór Sigurðsson. Bókbindarar á Akureyri 1. hluti. Í tímaritinu Prentarinn 2.tbl. 25. árg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2025 | 17:07
Hús dagsins: Eyrarlandsstofa
Í samhengi við Íslandssöguna er saga þéttbýlis á Akureyri ekkert sérlega löng en kannski ekkert sérlega stutt í samanburði við aðra þéttbýlisstaði landsins. Það var ekki fyrr en seint á 18. öld að vísir að þorpi tók að myndast á Akureyri, smárri eyri undir Búðargilinu, þar sem kaupmenn einokunarverslunarinnar höfðu haft aðsetur. Þegar leið á 19. öldina fór byggðin að teygja sig suður eftir fjörunni undir snarbröttum höfðanum og einnig risu hús í Búðargilinu. Hinar miklu lendur upp af gilinu norðanverðu og snarbrattri brekkunni í sjó fram út að Oddeyri og Glerá, ásamt Oddeyrinni sjálfri, var í raun eins og hver önnur bújörð í Hrafnagilshreppi. Eða öllu heldur, það svæði VAR bújörð í Hrafnagilshreppi, en átti sá hreppur merki við Glæsibæjarhrepp um Glerá. Umrædd bújörð var Stóra-Eyrarland, kallað svo til aðgreiningar frá bænum Eyrarlandi handan fjarðar, utarlega í Öngulsstaðahreppi.
Stóra-Eyrarland. Kostir, kynjar og örnefni
Jörðin Stóra-Eyrarland (hér eftir ýmist nefnd Eyrarland eða Stóra-Eyrarland) á sér aldalanga sögu og munu elstu heimildir um hana, svo vitað sé, vera frá því snemma á 15. öld en væntanlega er jörðin miklu eldri. Kannski var hún byggð fljótlega eftir landnám Helga magra? Síðar byggðust hinar ýmsu hjáleigur og smábýli úr Stóra-Eyrarlandi og enn síðar íbúðahverfi úr löndum þeirra býla. Stóra-Eyrarlandi tilheyrði gjörvallur Glerárdalur sunnanmegin og landamerki jarðarinnar líkast til mestallur farvegur Glerár, frá upptökum til ósa, því Oddeyri tilheyrði Stóra-Eyrarlandi. Þá tilheyrðu jörðinni hólmar við ósa Eyjafjarðarár, kenndir við Eyrarland, Barð og Hamarkot. Að sunnan lá jörðin að Naustum þar sem merkin lágu um Búðargil. Hér að framan segir mestallur farvegur Glerár, en ekki allur, því utar á lendum þessum milli Glerár og Nausta var jörðin Kotá. Sú var þó jafnan nokkurs konar fylgijörð Stóra-Eyrarlands og eigendur oftar en ekki þeir sömu, en sjálfstæð jörð engu að síður. Merki Kotár og Eyrarlands virðast, af lýsingum að dæma, hafa verið nokkurn veginn þar sem nú er Þingvallastræti. Að austanverðu lá Kotá að landi Hamarkots, mögulega á svipuðum slóðum og nú er gatan Byggðavegur. Bæjarhús Stóra-Eyrarlands stóðu nokkurn veginn þar sem nú er bílastæði norðan Sjúkrahússins.
Af örnefnum í landi Eyrarlands má nefna Eyrarlandslaut sem mun nú í Lystigarðinum, Eyrarlandsholt, sem er nokkurn veginn þar sem nú er syðri hluti Byggðanna, Verkmenntaskólinn og Teigarnir. Ofan Eyrarlandsholts eru svokallaðir Smáhólar og stendur Bónusverslun Naustahverfis nokkurn veginn við rætur þeirra, og um þá liggur Miðhúsabraut. Golfvöllur bæjarins er að hluta í svokölluðum Miðhúsaflóa og sunnar eru Miðhúsamýrar. Þá erum við komin að landi Nausta. Ofar eru Miðhúsaklappir(sjá mynd), þar sem gæðingar akureyrskra hestamanna og fáeinar kindur fjárbænda bæjarins eiga sín skjól í Breiðholtshverfi. Heitir svo þar Breiðamýri ofan og vestan við. Ofan Breiðumýrar rís há og brött fjallshlíð, Fagrahlíð. Hinar hömrum girtu fjallshlíðar undan Súlumýrum og norður að Glerárdalsöxl kallast svo einu nafni Eyrarlandsháls. Þrátt fyrir nafnið liggur Eyrarlandshálsinn að mestu í landi Nausta og Kjarna. Norðan og ofan Eyrarlandsholts, þar sem nú er Lundarhverfi kallast svo Viðarholt eða Krossholt (áður Krossholt sbr, Eiríkur Eiríksson 1978
:61) og út við Glerá, Réttarhvammur og Réttarhvammsmelur. Á þessum slóðum tekur land Kotár við. Ef við færum okkur svo aftur nær bæjarhúsum Stóra-Eyrarlands kemur fyrir örnefnið Undirvöllur, aflíðandi norður af brúnum Búðargils, þar sem nú liggur efri hluti Spítalavegar og Tónatröð. Þessi örnefnakafli má e.t.v. heita nokkur útúrdúr en greinarhöfundur telur nauðsyn að halda á lofti og benda á þau örnefni sem til staðar eru í bæjarlandinu, þótt og kannski einmitt vegna þess, að sum hver séu horfin undir þéttbýli eða ummerki þeirra afmáð. Framangreint er að sjálfsögðu ekki tæmandi upptalning á örnefnum í landi Stóra-Eyrarlands.
Stóra-Eyrarland var jafnan talin mikil kostajörð og bændur þar oft vel stætt fólk. Við eigendaskipti upp úr miðri 17. öld var jörðin, ásamt Kotá, metin á 100 hundruða og fram á 18. öld var hér hálfkirkja eða bænhús. Hundruð var forn jarðaverðmatseining, þar sem 1 hundrað jafngilti einu kýrverði eða 120 álnum vaðmáls. Meðaljörð var löngum talin um 20 hundruð. Úr Stóra-Eyrarlandi voru löngum byggðar hjáleigur; ber þar helst að nefna Barð, sem stóð steinsnar norðan bæjarins, á brún Barðsgils, og Hamarkot sem stóð nokkurn veginn þar sem nú er Ásvegur 26. Hjáleigan Miðhús (sjá mynd af svipuðum slóðum) var farin í eyði þegar jarðabók var fyrst tekin saman árið 1712. Miðhús var hálfgert heiðabýli, stóð hátt ofan Eyrarlandsbæjar, líklega skammt neðan þar sem nú er hesthúsahverfið Breiðholt (Örnefnakort LMÍ staðsetur Miðhús um 150 metra austan Blesagötu í Breiðholtshverfi). Þá voru þrjár smáar hjáleigur í landi Eyrarlands sem nefndust Veisa, Gata og Svíri. Ekki liggur fyrir hvar þessi býli stóðu. Af hinni fornu kostajörð stendur aðeins eitt mannvirki eftir, Eyrarlandsstofa. Hún stendur raunar ekki á sínum upprunalega stað en hún stóð spölkorni sunnar og ofar en hún er nú.
Lýsing Eyrarlandsstofu
Eyrarlandsstofa er einlyft timburhús með háu risi og stendur á lágum steingrunni. Það er væntanlega grindarhús eða bindingshús og mun byggt úr eik að einhverju leyti. Allt er húsið timburklætt, slagþil á veggjum og rennisúð á þaki. Sexrúðupóstar eru í gluggum. Grunnflötur er 9,59x5,42m.
Tilurð Eyrarlandsstofu tilgátur um byggingarár og smiði Oddeyri úr Eyrarlandi
Á Stóra-Eyrarlandi virðist löngum hafa verið tvíbýlt. Á 18. og 19. öld má ráða, að þar hafi oftar en ekki setið einn aðalbóndi eða eigandi og einn eða tveir húsmenn. Árið 1829 flytja að Eyrarlandi hjónin Magnús Thorarensen (1804-1846) og Gertrud Thyrrestrup (1805-1864). Hann var sonur Stefáns Thorarensen, amtmanns á Möðruvöllum og var Magnús fæddur þar og uppalin. Gertrud var, eins og nafnið bendir til, dönsk, en var þó ekki fædd ytra heldur í Reykjafirði á Ströndum en faðir hennar, Christen Tyrrestrup, var kaupmaður þar. Gertrud var löngum nefnd Geirþrúður Thorarensen og verður það nafn notað hér eftir í þessari grein. Samkvæmt ábúendatali í Eyfirðingum bjuggu þau fyrstu fjögur árin á móti þeim Elíasi Friðrikssyni og Lilju Ólafsdóttur en á næstu árum sátu ýmsir að Eyrarlandi á móti þeim þá Magnúsi og Geirþrúði, sem voru eigendur jarðarinnar. Þau Magnús og Geirþrúður fluttu að Eyrarlandi í torfbæ sem þar stóð frá fornu fari. Í grein sinni Uppi á brekkunni bjó einnig fólk sem birtist í tímaritinu Heima er bezt segir Eiríkur Eiríksson: [ ]maddama Geirþrúður hefur ekki látið sér lynda slíkan húsakost [þ.e. torfbæinn], hún var vön honum betri í föðurgarði (Eiríkur Eiríksson 1978:60). Því hafi Magnús staðið fyrir byggingu timburhúss með eikarloftum, það er Eyrarlandsstofu. Ef Magnús Thorarensen lét byggja Eyrarlandsstofu vandast málið nokkuð hvað varðar skráð byggingarár hennar. Eyrarlandsstofan er nefnilega sögð byggð 1848 en Magnús lést 1846!
Eyrarlandsstofa hefur löngum verið talin verk Þorsteins Daníelssonar frá Skipalóni. Það má hins vegar færa rök fyrir því, að ólíklega hafi Þorsteinn Daníelsson sjálfur komið að smíði stofunnar árið 1844. Við hljótum að gera ráð fyrir, að húsgrindum hafi almennt verið komið upp að sumarlagi á þessum árum. Sumarið 1844 er hins vegar nánast óhugsandi, að Þorsteinn hafi staðið sjálfur að smíði Eyrarlandsstofu. Hvernig getur höfundur fullyrt svo? Jú, sumarið 1844 lagði Þorsteinn Daníelsson nefnilega nótt við dag, svo að segja bókstaflega, við kirkjusmíði á Munkaþverá. Gekk vinnuharkan svo fram af smiðum hans, að þeir fundu í meira lagi útsmogna leið til þess að ginna hann af svæðinu, svo þeir fengju rétt aðeins að kasta mæðinni (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). Það er því ólíklegt, að Þorsteinn hafi á sama tíma byggt stofu á Eyrarlandi. En samkvæmt Eiríki Eiríkssyni (sbr. 1978:60) var það ekki Þorsteinn sem byggði stofuna heldur snikkarinn Magnús Elíasson, þá búsettur á Naustum. Hann var einmitt sonur Elíasar Friðrikssonar, sem hér bjó fyrstu ár þeirra Magnúsar Thorarensen og Geirþrúðar, samhliða þeim. Það má hins vegar vera, að Þorsteinn Daníelsson hafi hannað og sagt fyrir um byggingu stofunnar. Við getum kannski ímyndað okkur, að gamni okkar, að Magnús hafi getað verið hinn rólegasti við byggingu Eyrarlandsstofu sumarið 1844, meðan hönnuðurinn var að píska kirkjusmiði áfram á Munkaþverá.
Kannski var smíði Eyrarlandsstofu ekki lokið að fullu fyrr en 1848 enda þótt byggingin hafi hafist 1844. En þá var Geirþrúður Thorarensen orðin ekkja, því Magnús lést, sem fyrr segir árið 1846. Við arfskiptin var jörðin talin 52 hundruð, þar af var Barð 5 hundruð og Hamarkot 12 hundruð. Verðmatið var 1470 ríkisbankadalir. Kotá fylgdi, eins og löngum áður, með arfinum eftir Magnús og var metin á 20 hundruð. Árið 1850 seldi Geirþrúður, Birni Jónssyni verslunarstjóra, Oddeyrina úr landi Eyrarlands. Björn mun hafa keypt eyrina með hagsmuni Akureyringa í huga en ekki voru menn mjög trúaðir á Oddeyrina sem byggingaland fyrir kaupstað. En framsýnn var Björn, því nokkrum árum síðar voru byggð hús á eyrinni og árið 1866 var hún lögð undir Akureyrarkaupstað. Eyrarlandsjörðin lá hins vegar undir Hrafnagilshrepp um áratugaskeið eftir það.
Af Geirþrúði Thorarensen
Árið 1860 er Geirþrúður og tvær vinnukonur hennar, Helga Guðmundsdóttir og Margrét Hallgrímsdóttir, búsettar í Eyrarlandsstofu. Sonur hennar, Kristján (Christen) Sæmundur Thorarensen, kona hans, Friðrika Thorarensen, börn og vinnukona eru hins vegar búsett í torfbænum og eru þau bændur á jörðinni, en Kristján fékkst einnig við trésmíðar. Geirþrúður var vellauðug. Enda þótt Oddeyrarsalan hafi gefið henni töluvert í aðra hönd munaði e.t.v. minnstu um þann gjörning, því Geirþrúður erfði auk Eyrarlands töluverða fjármuni eftir mann sinn og ekki síður foreldra sína og systur. Alls námu þessi auðæfi um 15.300 ríkisdölum. Geirþrúður var ekki aðeins auðug heldur barst hún mikið á og hélt löngum veglegar veislur í Eyrarlandsstofu. Misjafnt orð fór af veislum þessum, þar sem mikið var svallað og þegar upp komu sögur um möguleg hjúskaparbrot Eyrarlandsekkjunnar og gifts manns sem átti heima á bænum gerðust þær raddir háværar, að svipta þyrfti hina svallsömu ekkju sjálfræði. Gifti maðurinn, Jóhann Guðmundsson, er skráður skilinn í manntali árið 1855. Þá hóf Geirþrúður samband við mann að nafni Jóhann Jakob, sem sendur hafði verið hreppaflutningum frá Kaupmannahöfn, en var þeim neitað um hjónavígslu en bjuggu í óvígðri sambúð. Jóhann Jakob er hvorki að finna í manntali 1855 né 1860.
Það var árið 1861 sem Geirþrúður, mögulega ríkasta kona landsins, var svipt sjálfræði. Mun tengdasonur hennar, sr. Daníel Halldórsson, hafa verið helsti hvatamaður að koma sjálfræðissviptingu Geirþrúðar til leiðar. Fjárráð tengdamóðurinnar fékk hann þó ekki, þau komu í hlut Bernhard Steincke verslunarstjóra (sbr. Minjasafnið á Akureyri). Heldur snautlegt, hvernig komið var fyrir hinni vellauðugu ekkju á Stóra-Eyrarlandi. (150 árum síðar heiðruðu bæjaryfirvöld þó hana og minningu hennar með því að nefna götuna Geirþrúðarhaga eftir henni). Ekki varð Geirþrúði langra lífdaga auðið eftir þetta, en hún lést í október 1864, tæplega 59 ára að aldri. Um líferni og veislugleði Eyrarlandsekkjunnar verður hvorki dæmt hér, né heldur ásetning og hug tengdasonar hennar í þessum gjörningi. Hins vegar má spyrja sig, hvort karlmaður í sömu stöðu og Geirþrúður var, hefði hlotið sömu örlög!
Stóra-Eyrarland undir Akureyri Rýnt í manntöl og önnur gögn
Næstu áratugina voru ýmsir ábúendur á Stóra-Eyrarlandi, í Eyrarlandsstofu sem og í torfbænum. Eignarhald jarðarinnar var á höndum téðs Daníels Halldórssonar, sem einnig átti Kotá. Árið 1893 verða mikil vatnaskil í sögu Stóra-Eyrarlands og raunar byggðasögu Akureyrar þegar bæjarstjórn Akureyrar samþykkti, að kaupa jörðina, ásamt Kotá, af Daníel. Var kaupverðið 13.600 ríkisdalir. Jörðina keypti Akureyrarbær gagngert til þess að eiga land undir húsbyggingar og einnig fyrir smærri grasbýli og beitarlönd. Á landinu voru auk þess miklar mógrafir. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti hérlendis, að bæjarstjórn keypti landsvæði sérstaklega til að byggja íbúðarhús (sbr. Guðmundur, Jóhannes, Kristján 1993:662). Ári síðar var byggt íbúðarhús á Torfunefi í Eyrarlandslandi og árið 1895 reisti amtmaður sér bústað í hvammi nokkurn veginn beint niður af Eyrarlandsbænum. Ári síðar var Stóra-Eyrarland lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.
Enda þótt örlög Stóra-Eyrarlands, sem framtíðar byggingarlands Akureyrarkaupstaðar, hafi verið ráðin strax árið 1893, var stundaður búskapur þar áfram um áratugaskeið. Bærinn ráðstafaði helmingi landsins til uppbyggingar en helmingurinn skyldi leigður bónda. Árið 1898 var reist nýtt sjúkrahús á Undirvelli og árið 1904 reis stærsta timburhús bæjarins, Gagnfræðaskólinn, skammt norðan bæjarins og honum fylgdi vitaskuld víðlend lóð úr túni Eyrarlands. Trjáplöntun hófst einnig á nokkrum hekturum norðan bæjarins árið 1912 og er þar kominn Lystigarðurinn. Eyrarlandsjörðinni var á næstu áratugum skipt í mörg erfðafestulönd og risu þar hin ýmsu grasbýli auk þess sem bæjarbúar beittu þar búfénaði. Byggingasaga grasbýla og síðar þéttbýlis á Eyrarlandsjörðinni er önnur saga og efni í sérstakan pistil, og hann ekki stuttan, svo við skulum láta staðar numið af henni hér og einblína á Eyrarlandsstofu.
Sá bóndi sem fékk Stóra-Eyrarland til ábúðar hét Jón Helgason, fæddur í Leyningi í Saurbæjarhreppi árið 1863, og stundaði þegar þetta var, búskap á Jódísarstöðum í Öngulsstaðahreppi. Jón og eiginkona hans, Anna Kristín Tómasdóttir, fædd á Hallgilsstöðum í Arnarneshreppi voru hins vegar ekki búsett í Eyrarlandsstofu á sínum búskaparárum, heldur í gamla torfbænum. Svo virðist sem stofan hafi í raun verið undanskilin í kaupum bæjarins á jörðinni, því ábúandi Eyrarlandsstofu á árunum 1888 til 1905, Stefán Stefánsson Thorarensen, er skráður eigandi hennar í manntölum á fyrstu árum 20. aldar. Árið 1903 er búið í þremur íbúðarrýmum í Eyrarlandsstofu. Stefán, sem var barnabarn Magnúsar og Geirþrúðar Thorarensen, fluttist til Vesturheims árið 1905. Þá eignast Sigtryggur Jónsson, snikkari frá Espihóli Eyrarlandsstofu og leigir hana út. Ýmsir eiga hér heima næstu árin en árið 1910 flytja í Eyrarlandsstofu þau Baldvin Hálfdán Benediktsson frá Steðja á Þelamörk og Kristín Sigríður Guðmundsdóttir frá Öxnhóli í Hörgárdal. Þau teljast ábúendur hér skv. Eyfirðingum. Hér er þó eilítill fyrirvari; í manntali 1910 eru þau skráð nokkuð skýrt og greinilega til heimilis í Eyrarlandsstofu. Árið 1911 eru hins vegar þrjár opnur í manntalsbók bæjarins helgaðar Eyrarlandi, Jón Helgason og fjölskylda á einni, Baldvin, Sigríður og börn þeirra á annarri en Eyrarlandsstofa er sérstaklega tilgreind og þar eru aðrir íbúar. Í einni af þremur íbúðum Eyrarlandsstofu býr Ingibjörg Jónasdóttir saumakona ásamt sonum sínum Guðmundi og Eggert. Stofan er þá í eigu Sigtryggs Jónssonar en tveimur árum síðar er Ingibjörg orðin eigandi hússins.
Árið 1916 er Stóra-Eyrarland tilgreint á tveimur stöðum í manntali. Þá eru þeir Baldvin og Jón skráðir þar ásamt fjölskyldum sínum, hvorugur þeirra þó titlaður bóndi. Akureyrarkaupstaður er þá skráður eigandi beggja Eyrarlandanna. Eyrarlandsstofan virðist þar ekki meðtalin, heldur er skráð nafnlaust hús í eigu Ingibjargar Jónasdóttir. Ingibjörg Jónasdóttir er skráð fyrir eignarhaldi Eyrarlandsstofu í skýrslum brunabótafélagsins það ár. Þá er Eyrarlandsstofu lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft með háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi 2 stofur og eldhús. Á lofti 1 herb. og geimsla [svo] (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 94). Húsið úr timbri, veggir og þak timburklætt, 9,4x5,4m á grunnfleti og 5,2m hátt, á því sex gluggar og tveir kolaofnar og eldavél innandyra.
Sem fyrr segir virðist Eyrarlandsstofan hafa verið aðskilin eign frá Eyrarlandsjörðinni, var lengst af í einkaeign enda þótt bærinn ætti jörðina og önnur bæjarhús. Árið 1919 eignast Sveinn Bergsson sjómaður stofuna og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni og þá virðist stofan verða einbýli. Árið 1925 er eigandi skráður Jón Guðmundsson og 1931 er Guðmundur Jónsson skráður eigandi að Eyrarlandi timburhúsi. Nú skyldu lesendur ætla, að þessir menn hafi verið feðgar en það voru þeir ekki: Guðmundur þessi var sonur Jóns Helgasonar, sem 35 árum fyrr hafði gerst ábúandi á þeim jarðarparti Eyrarlands, sem bærinn ætlaði honum. Jón og Anna Kristín voru þá flutt úr gamla bænum og í timburhúsið. Jón er í manntali sagður stunda landbúnað en búskapi lauk á Stóra-Eyrarlandi um 1940. Af gamla bænum á Eyrarlandi er það að segja, að hann var jafnaður við jörðu árið 1949. Jón Helgason lést árið 1956 og mun hafa búið á Stóra- Eyrarlandi, sem þá var aðeins Eyrarlandsstofa, til dánardægra (er allavega skráður þar til heimilis á dánartilkynningum blaða). Þremur árum fyrr hafði nýtt Fjórðungssjúkrahús verið tekið í notkun og farið að þrengja nokkuð að Eyrarlandsstofunni. Áfram var þó búið þar um nokkurra ára skeið en síðar komst húsið í eigu sjúkrahússins, sem nýtti það sem skrifstofuhúsnæði, þar sótti starfsfólk m.a. launin sín.
Eyrarlandsstofa í Lystigarðinn
Þegar fram liðu stundir þótti ljóst, að Eyrarlandsstofan yrði að víkja. Einhverjir töldu eflaust fara best á því að rífa hana en einnig komu fram hugmyndir um, að Lystigarðurinn fengi hana til umráða. Það var svo á bæjarráðsfundi í lok nóvember 1983, að ákveðið var að flytja Eyrarlandsstofu í Lystigarðinn. Grunnar undir stofuna og nýtt áhaldahús höfðu verið steyptir haustið 1985, samhliða, en einhverjar vöflur voru um það, hvort flytja ætti stofuna eða byggja nýtt hús eftir nýjum teikningum af henni, en ári síðar lá niðurstaðan fyrir: Eyrarlandsstofa skyldi flutt. Það var svo í síðari hluta janúarmánaðar 1987, að Eyrarlandsstofunni var komið fyrir á nýjum grunni, inni í Lystigarðinum. Var hún í kjölfarið endurbætt með miklum glæsibrag. Endurbæturnar voru gerðar eftir teikningum Þorsteins Gunnarssonar arkitekts (sem margir þekkja eflaust einnig sem farsælan leikara) og tóku aðeins tæpa sex mánuði, eftir að húsið var komið á nýja staðinn. Hefur húsið æ síðan þjónað sem kaffi-og skrifstofuaðstaða fyrir starfsfólk Lystigarðsins auk þess sjálfsagða hlutverks hennar, að vera augnayndi fyrir gesti garðsins.
Eyrarlandsstofa var friðlýst 1. janúar 1990. Niðurstaða þess, hvernig staðið var að varðveislu og endurbyggingu Eyrarlandsstofu, hlýtur að teljast til mikillar fyrirmyndar. Enda þótt húsið hafi verið flutt um einhverja tugi metra, stendur það engu að síður enn og nokkurn veginn á réttum stað, því hún er steinsnar frá bæjarstæði Stóra-Eyrarlands. Niðurrif ætti alltaf að vera allra síðasta úrræði þegar í hlut eiga gömul og sögufræg hús og jafnvel þótt flutningur sé niðurstaðan er það margfalt skárri kostur, en að afmá húsin af yfirborði jarðar. Þá er það einnig kostur, að húsinu var fundið hlutverk og er í daglegri notkun. Því það er eitt að endurbyggja og varðveita gömul hús en í kjölfarið þarf að nota þau og halda þeim við. Það er sérlega dýrmætt, að enn standi mannvirki frá þessari merku jörð, sem drjúgur hluti þéttbýlis Akureyrar sunnan Glerár er byggður úr. Hefði Eyrarlandsstofan verið rifin, lifði eflaust ekkert af hinni fornu kostajörð í bæjarlandinu annað en örnefni.
Myndirnar ef Eyrarlandsstofu eru teknar 26. mars 2025 utan sumarmyndin, sem tekin er 9. ágúst 2011. Myndirnar af Miðhúsaslóðum eru teknar 29. apríl 2017.
Heimildir:
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Eiríkur Eiríksson. 1978. Uppi á brekkunni bjó einnig fólk. Í Heima er bezt 2. tbl. 28. árg. 1. feb.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar
Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. Í landi Eyrarlands og Nausta 8901862. Akureyri: Akureyrarbær.
Kristmundur Bjarnason.1961.Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni.Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt 26.5.2025 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2025 | 14:36
Hús dagsins: Aðalstræti 62
Í upphafi þessa árs setti höfundur sér það markmið í umfjöllun þessari, að taka fyrir tvö elstu hús bæjarins, sem bæði eiga stórafmæli í ár, og í kjölfarið elstu hús bæjarins í aldursröð eftir það. En það er reyndar ekki svo einfalt að ákvarða þá röð. Á öllum húsum eru vitaskuld skráð byggingarár en stundum er allur gangur á því hvort þau standist. Í einhverjum tilfellum er útilokað, að sá sem vitað er að byggði húsið, hafi byggt húsið það ár. Þá flækir það málin enn frekar, að það er ekki endilega vitað með óyggjandi hætti hver byggði húsin. Þannig getur t.d. byggingarár, sé það vitað með vissu, útilokað möguleika á húsbyggjanda og öfugt. Það eykur enn á flækjustigið, að í einhverjum tilfellum hafa hús verið flutt annars staðar frá. Þess er sjaldnast getið sérstaklega og sé svo, fylgir ekki sögunni hver byggði hið flutta hús og hvenær. Svona álitamál eru algeng þegar í hlut eiga elstu hús Akureyrar.
Aðalstræti 62 er látlaust, snoturt og geðþekkt hús sem stendur sunnarlega við Aðalstræti í skógi vöxnum hvammi neðst undir Skammagili. Það er talið nokkuð víst, að Hallgrímur Kristjánsson hafi reist húsið sem skráð er með byggingarárið 1846. Á því er einn hængur: Það er vitað með vissu, að Hallgrímur Kristjánsson flutti ekki til bæjarins fyrr en 1849 og mun að öllum líkindum ekki hafa byggt húsið fyrr en 1855 (sbr. Jón Hjaltason 1990:174). En gæti hann hafa flutt hingað á lóðina tæplega áratugs gamalt hús? Það er í sjálfu sér ekki útilokað enda þótt engar heimildir séu fyrir því, svo höfundur viti til.
Aðalstræti 62 er einlyft timburhús, bindingsverkshús, á steyptum grunni (skriðkjallara) með háu risi. Á framhlið er smár kvistur með einhalla, bröttu þaki og á bakhlið er inngönguskúr. Í gluggum eru sexrúðupóstar, steinblikk á veggjum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er 9,56x6,14m og skúr á bakhlið er 2,47x3,19m.
Hallgrímur Kristjánsson gullsmiður, sem mun hafa reist húsið var fæddur árið 1818 á Þönglabakka í Fjörðum í S-Þingeyjarsýslu. Árið 1835 er hann til heimilis á Glæsibæ og fimm árum síðar er hann titlaður silfursmiður á prestsetrinu á Syðri Bægisá en faðir hans, sr. Kristján Þorsteinsson, var þá sóknarprestur þar. Svo vill til, að prestssonurinn á Syðri Bægisá kvæntist prestsdóttur, Ólöfu Einarsdóttur Thorlacius, haustið 1844 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:330) en Ólöf var dóttir séra Einars Thorlacius í Saurbæ. Árið eftir hófu Hallgrímur og Ólöf búskap á Stokkahlöðum í Hrafnagilshreppi. Þar bjuggu þau til ársins 1849 er þau fluttu til Akureyrar. Sú staðreynd útilokar eiginlega, að Hallgrímur hafi byggt Aðalstræti 62, árið 1846. Hann mun hins vegar hafa flust á þessar lóðir, því árið 1849 kaupir hann torfhús af Grími Laxdal, sem þá hafði nýlega reist Aðalstræti 66 (það númer og götuheiti kom reyndar ekki til fyrr en rúmlega hálfri öld síðar). Í manntali 1850 eru þau Hallgrímur Kristjánsson og Ólöf Einarsdóttir skráð í húsi nr. 63, í Akureyri verzlunarstað . Árið 1856 fékk Hallgrímur Kristjánsson leyfi til veitingareksturs og er jafnvel talið að hann hafi reist sér nýtt hús í tengslum við þann rekstur (sbr. Jón Hjaltason 1990:174). Og þar er um að ræða hús það, sem nú er Aðalstræti 62.
Hallgrímur Kristjánsson var ekki mörg ár í veitingarekstri því árið 1859 söðlaði hann um og gerðist kaupmaður og í manntali árið 1860 er hann skráður verslunarborgari . Hallgrímur bjó hér til æviloka, í ársbyrjun 1884, en þá eignaðist sonur hans Einar, húsið. Hann var raunar skráður eigandi hússins ásamt föður sínum árið 1881. Einar Thorlacius Hallgrímsson var lengst af verslunarstjóri Gránufélagsins. Hann var búsettur á Seyðisfirði áratugina kringum aldamótin 1900 en leigði þetta hús út. Á meðal leigjenda í húsinu var Magnús Júlíus Kristjánsson, verslunarmaður og síðar alþingismaður og ráðherra. Hann fékk árið 1899 leyfi til að reisa bakhús 9 x12 álnir að stærð. Bygginganefnd talar um, að Magnús fái að reisa bakhús við íbúðarhús sitt en væntanlega var Einar Hallgrímsson eigandi hússins. Magnús Kristjánsson var búsettur hér til ársins 1903 en það ár flyst í húsið Oddur Björnsson prentari og fjölskylda hans og áttu þau hér heima til ársins 1905, skv. manntölum. Fram til 1906 taldist þetta hús vera nr. 17 við Aðalstræti. Árið 1906 var núverandi númeraröð komið á og hlaut þá húsið númerið 62. Svo skemmtilega vill til, að sama ár fluttist Oddur Björnsson í annað hús, norðar við sömu götu og austanmegin hennar. Það hús hafði Kristján nokkur Sigurðsson byggt árið 1899 og samkvæmt gamla númerakerfinu var það númer 8. En viti menn, samkvæmt nýja númerakerfinu var þetta hús nr. 17; svo Oddur Björnsson prentari og fjölskylda fluttu úr einu Aðalstræti 17 í annað.
Sama ár og húsið hlaut hið nýja númer, 1906, flytjast hingað þau Jón Sigurðsson tómthúsmaður og Snjólaug Baldvinsdóttir. Tveimur árum síðar er Jón orðinn eigandi hússins, sem þá virðist skiptast í tvo eignarhluti því meðeigandi Jóns að húsinu er Páll Hallgrímsson, sem þarna býr ásamt konu sinni, Guðnýju Kristjánsdóttur. Nú kunna lesendur að spyrja sig, hvort Páll þessi hafi verið sonur Hallgríms Kristjánssonar, sem byggði húsið og bróðir Einars, sem átti það til 1907. Svo er ekki. Páll Hallgrímsson var fæddur að Jórunnarstöðum í Saurbæjarhreppi og skráður m.a. á Steinsstöðum í Öxnadal (1850) og Miklagarði í Saurbæjarhreppi (1855) á sínum uppvaxtarárum. Hann var bóndi á Möðrufelli í Hrafnagilshreppi frá 1877 til 1907 er hann fluttist hingað. Sex árum síðar fluttist hann hins vegar aftur í Hrafnagilshrepp, nánar tiltekið á Ytra-Gil, þar sem sonur hans hóf búskap.
Árið 1916 er Jón Sigurðsson eigandi hússins ásamt Stefáni Stefánssyni, en sá síðarnefndi er ekki búsettur hér. Síðla það ár heimsóttu matsmenn Brunabótafélags Íslands, Jón, Snjólaugu og son þeirra Þorvald, sem þá eru ein skráð íbúar hússins og tóku saman eftirfarandi lýsingu: Íbúðarhús, einlyft á lágum grunni með háu risi, lítill skúr við bakhlið. Á gólfi 2 herbergi við framhlið við bakhlið eitt herb.[ergi] eldhús og búr. Á lofti 2 herbergi og 2 geimslu herbergi (Brunabótafélag Ísl. 1916: nr. 17). Brunabótamatsmenn mældu húsið 9,4x6m, hæð hússins 5,6m. Veggir eru timburklæddir og þakið pappaklætt timburþak og í húsinu 1 kolaofn og 3 eldavélar.
Förum nú hratt yfir eigendasögu hússins á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldar; Árið 1920 eignast Jón Guðlaugsson eignarhluta Stefáns Stefánssonar og ári síðar er Þorvaldur J. Vestmann, bankagjaldkeri,orðinn eigandi hússins ásamt Jóni Guðlaugssyni. Jón Sigurðsson og Snjólaug Baldvinsdóttir eru þó enn skráð þar til heimilis. Árið 1922 er Jón Guðlaugsson á bak og burt í manntölum hér, en Þorvaldur J. Vestmann skráður einn eigandi. Hann er hér búsettur ásamt konu sinni, Margréti Aðalsteinsdóttur og barnungri dóttur, Þórlaugu. En fyrir hvað stóð J. í nafni Þorvalds J. Vestmann? Jú, nefnilega Jónsson, nánar tiltekið Jónsson Sigurðssonar og Snjólaugar Baldvinsdóttur. Stórfjölskylda þessi, sem var úr Svarfaðardal en var um árabil búsett í Kanada þar sem Þorvaldur fæddist, átti hér heimili til ársins 1930. Þá fluttust hingað þau Ármann Dalmannsson, búfræðingur og næstráðandi á Gróðrarstöð Akureyrar, frá Fíflholti í Mýrum og Sigrún Kristjánsdóttir frá Végeirsstöðum í Fnjóskadal.
Ármann Dalmannsson hafði flust til Akureyrar árið 1924 með það í huga, að starfa við íþróttakennslu en skólafélagi hans af bændaskólanum á Hvanneyri, Ólafur Jónsson, sem þá var nýráðinn forstöðumaður Gróðrarstöðvarinnar á Akureyri (og löngum kenndur við hana) réði hann til sín sem aðstoðarmann. Þar starfaði Ármann í tæpan aldarfjórðung uns hann söðlaði um og hóf störf hjá Skógræktarfélagi Akureyrar árið 1947. Um þær mundir var að hefjast stórmerkt verkefni hjá því félagi, nefnilega gróðursetning og trjárækt í landi Kjarna. Var Ármann þar, ásamt fleirum, ein helsta driffjöðrin og sinnti ræktun Kjarnalands af mikilli alúð áratugum saman, en hann lét af störfum hjá Skógræktarfélaginu árið 1968. Af þeim sem komu að ræktun Kjarnaskógar er einnig rétt að nefna Tryggva Þorsteinsson, skólastjóra og skátaforingja, en hann fór ótal ferðir ásamt sjálfboðaliðum til gróðursetninga í Kjarnalandi. Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar skógar að fornu og nýju eru þeir Ármann og Tryggvi sagðir frumkvöðlar Kjarnaskógar (sbr. Hallgrímur Indriðason og Aðalsteinn Svanur Sigfússon 2000:130). Óhætt er að segja að tæpum 80 árum eftir að Skógræktarfélag Eyfirðinga, undir forystu Ármanns Dalmannssonar og Tryggva Þorsteinssonar, hóf trjárækt í Kjarnalandi njóti Akureyringar allir, nærsveitungar og gestir, góðs af þessu framtaki, því umrædd ræktun er auðvitað hinn valinkunna útivistar- og náttúruperla, Kjarnaskógur. Auk starfs síns við hin ýmsu ræktunarstörf var Ármann virkur í hinum ýmsu félagsmálum, m.a. formaður Íþróttabandalags Akureyrar í 20 ár, kom að stofnun Skautafélags Akureyrar og gegndi formennsku í Jarðræktarfélagi Akureyrar og síðar Búnaðarsambandi Eyjafjarðar. Árið 1973 sendi Búnaðarsambandið frá sér mikið ritverk um byggðir Eyjafjarðar og var Ármann þar einn höfunda og formaður ritnefndar. Oft hefur höfundur vitnað í það verk hér, sérstaklega þegar skrifað er um hús á bújörðum í Eyjafirði.
Þau Ármann og Sigrún bjuggu hér allan sinn aldur frá 1930, hann lést 1978 og hún árið 1984. Dóttir þeirra Stefanía, og hennar maður, Baldur Sigurðsson, bjuggu hér eftir þeirra tíð og gerðu m.a. gagngerar endurbætur á innra byrði hússins og undirstöðum árin eftir 1985-1988. Nutu þau m.a. liðsinnis hins valinkunna þúsundþjalasmiðs, Sverris Hermannssonar. Árið 2021 var húsið til sölu og lýsti þáverandi eigandi hússins, Sigurður Baldursson, endurbótunum svo, samkvæmt sölulýsingu á fasteignavefnum fastinn.is: Nýr sökkull var steyptur undir húsið og settir nýir olíubornir eikargólfbitar undir húsið með því að lyfta húsinu upp með lánstjökkum frá Vegagerðinni og gömlu bitarnir fjarlægðir, steypt ný sæti undir bitana og smíðuð ný grind í gólfið með einangrun, gólfið var á sama tíma lækkað til að auka lofthæð um þrjá þumlunga (um 7,5 cm) og sett ný gólfefni.
Einnig var nánast allt hreinsað innan úr húsinu milli 1985 og 1988, m.a. allar innréttingar, öll veggjar og loftaklæðning og skipt var um loftabitana og stigann og handriðið milli hæða og hluta innveggja. Veggir og loft voru svo klædd upp á nýtt með plötum og settur nýr panill í loftið í risinu á efri hæðinni. Nýir gluggar voru smíðaðir þar sem þurfti ásamt því að ný hurð var sett út á pall frá stofunni, ný bakdyrahurð og ný sérsmíðuð útidyrahurð. Ný eldhúsinnrétting sett og baðherbergið allt endurnýjað. Rafmagn gert nýtt. Hitaveita tekin inn og sett ný skólplögn út í götu.
Á sama tíma var hreinsað frá húsinu að utanverðu og endurnýjað ásamt því að tröppur að inngangi framan við húsið voru endursmíðaðar ásamt handriðinu (Sigurður Baldursson (Vilhjálmur Bjarnason), 2021).
Umræddur Sigurður Baldursson er sonur þeirra Baldurs Sigurðssonar og Stefaníu Ármannsdóttur. Hafði því húsið gengið milli þriggja kynslóða í tæp 90 ár þegar þetta var. Kristín Aðalsteinsdóttir heimsótti Sigurð í Aðalstræti 62 í júní 2016 og tók við hann viðtal í tengslum við bókina Innbær Húsin og fólkið. Hann lýsti stemningu í húsinu á uppvaxtarárum sínum: [
] Hér áður var hátíð á vorin þegar útsæðið var sett niður og aftur á haustin þegar tekið var upp. Amma var alltaf til staðar, hæg og stillt og bauð upp á kaffi, kakó og pönnukökur. Já, þetta voru skemmtilegar tímar þegar fjölskyldan öll (Sigurður Baldursson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017:69). E.t.v. er þetta nokkuð lýsandi fyrir stemninguna í húsunum við sunnanvert Aðalstrætið á árum áður. Á flestum lóðunum var umfangsmikil kartöflurækt og önnur rækt einnig og mörg þessara húsa voru nokkurs konar stórfjölskylduhús, sem gengið höfðu milli kynslóða frá öndverðri 20. öld.
Sem fyrr segir fóru fram algjörar endurbætur á innra byrði hússins fyrir um 40 árum síðan en hvað varðar ytra byrði hússins er nokkuð merkilegt, að þar mun húsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Ekki mun t.d. hafa verið byggt við húsið og gluggaskipan líklega nokkurn veginn óbreytt frá upphafi. Núverandi steinblikkklæðning mun hafa verið sett á húsið um 1930. Í Húsakönnun 1986 segir Hjörleifur Stefánsson að húsið sé [ ]meðal elstu húsa bæjarins og eitt fárra húsa, sem ekki hefur verið mikið breytt frá fyrstu gerð (Hjörleifur Stefánsson 1986:103). Höfum hins vegar í huga, að þegar Hjörleifur ritar þetta, eru framkvæmdir þeirra Baldurs og Stefaníu í þann veginn að hefjast.
Enda þótt ekki verði skorið endanlega úr um byggingarárið er Aðalstræti 62 eitt af allra elstu húsum Akureyrar. Aðalstræti 62 er sérlega geðþekkt, snoturt og látlaust og stendur á einstaklega skemmtilegum stað, neðst í Skammagili á víðlendri og gróinni lóð, sem nær langt upp í brekkurnar. Það má geta sér til, að frumkvöðull Kjarnaskógar, Ármann Dalmannsson, og hans fjölskylda eigi heiðurinn af þó nokkrum trjám í skógarlundinum, sem umlykur húsið. Aðalstræti 62 var friðlýst þann 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 23. október 2010, 17. júní 2022 og 16. febrúar 2025.
Heimildir:
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Hallgrímur Indriðason og Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Kjarnaskógur. Í Bjarni E. Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Bls. 128-143. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni  https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf
Jón Dalmann Ármannsson. 2000. Ármann Dalmannsson 1894-1978. Í Bjarni E. Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Bls. 58. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.
Matthías Eggertsson. Ármann Dalmannsson. Í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands. 75. árg. Vefslóð https://timarit.is/page/3119550#page/n0/mode/2up
Vilhjálmur Bjarnason (Sigurður Baldursson) 2018. Lýsing. Aðalstræti 62 á fasteignaauglýsingavefnum Fastinn. Sótt 5. maí 2024 á slóðina Aðalstræti 62, 600 Akureyri | Fasteignavefurinn Fastinn
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2025 | 12:45
Gleðilega páska
Óska öllum gleðilegrar páskahátíðar
Páskamyndin í ár er tekin um tvöleytið á föstudaginn langa, 18. apríl, og sýnir Súlutind, nánar tiltekið Ytri Súlu, horft með miklum (um 40x) aðdrætti frá Kjarnaskógi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2025 | 11:10
Hús dagsins: Minjasafnskirkjan (Aðalstræti 56)
GLEÐILEGA PÁSKA KÆRU LESENDUR.
HÉR ER FRÁSÖGN AF KIRKJU, SEM SEGJA MÁ, AÐ HAFI RISIÐ UPP- Á NÝJUM STAÐ.
E.T.V. VIÐEIGANDI Á PÁSKADAG.
Fyrsta kirkja Akureyringa reis þar sem nú er lóð Minjasafnsins á Akureyri, Aðalstræti 56, og hófst bygging hennar sama ár og bærinn hlaut kaupstaðarréttindi eða árið 1862. Byggingameistari hennar var Jón Chr. Stephánsson. Hann hefur ekki þurft að fara langt í vinnuna við kirkjusmíðina, því á þessum árum var hann búsettur í Aðalstræti 52 (götuheitið og húsnúmerið komu löngu síðar). Kirkjan var vígð 28. júní 1863 og þjónaði bæjarbúum í 77 ár en guðshús þetta var afhelgað, þegar nýja kirkjan í Grófargili var vígð 17. nóvember 1940. Örlög kirkjunnar voru þau, að hún var rifin um þremur árum síðar og einhvern tíma heyrði sá sem þetta ritar, að bændur úr nágrannasveitum hafi fengið viðinn úr henni; kirkjuna væri þannig að finna í pörtum víðs vegar í hlöðum, útihúsum og skemmum. Á þessum sama stað stendur þó engu að síður lítil og vinaleg timburkirkja, um 180 ára gömul, og hefur hún staðið hér í rúma hálfa öld. En hún var reist handan Eyjafjarðar árið 1846, nánar tiltekið á Svalbarði á Svalbarðsströnd.
Svalbarð stendur í aflíðandi brekku nokkurn veginn fyrir miðri Svalbarðsströnd, upp af samnefndri eyri, við rætur Vaðlaheiðar. Steinsskarð, þar sem gamli þjóðvegurinn liggur yfir heiðina er nokkurn veginn beint upp af Svalbarði. Frá Svalbarði eru um 13 kílómetrar til miðbæjar Akureyrar. Svalbarð var sagt byggt sextán vetrum fyrir kristni (þ.e. um 984) af Héðni hinum milda (sbr. Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson 1963: 132). Það var hins vegar ekki fyrr en um 400 árum eftir kristnitöku, eða á ofanverðri 14. öld, að Svalbarð varð kirkjustaður og var Svalbarðskirkja helguð Jóhannesi postula. Sú kirkja sem reis á Svalbarði árið 1846 leysti af hólmi torfkirkju frá 1752 (sögð 94 ára). Var um að ræða fyrsta timburhúsið, sem reis í Svalbarðsstrandarhreppi (sbr. Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson 1963: 150). Byggingameistari var Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni en einnig er Jón Gunnlaugsson frá Sörlastöðum nefndur sem kirkjusmiður.
Minjasafnskirkjan, áður Svalbarðskirkja, er timburhús með háu risi, bindingsverkshús með krossreistu þaki og stendur hún á steyptum grunni. Grunnflötur er 10,18x5,11m (lengdin er þannig nánast upp á centimetra, nákvæmlega tvöföld breiddin). Veggir og þak eru klæddir slagþili, á hvorri hlið eru þrír sexrúðugluggar en tólfrúðugluggi á vesturstafni. Öfugt við landlæga hefð, um að kirkjur snúi framhlið í vestur snýr framhlið kirkjunnar mót austri. Þar eru inngöngudyr og gluggi upp af henni. Þar ofan við eru tvær klukkur á ramböldum (reyndar var aðeins klukka til staðar í apríl 2025, sbr. meðfylgjandi mynd hér að neðan) Enginn turn er á kirkjunni en kross á mæni framhliðar. Önnur klukkan er upprunaleg, þ.e. fylgdi kirkjunni af Svalbarði en hin mun vera úr Miklagarðskirkju í Saurbæjarhreppi, sem aflögð var 1924. Af innanstokksmunum má nefna altaristöflu frá 1806 eftir Jón Hallgrímsson málara og ljósahjálm úr messing, sem ber ármerkið 1688. Hann er talinn einn mesti dýrgripur kirkjunnar og var áður í fyrirrennara kirkjunnar, þ.e. Akureyrarkirkju hinni eldri.
Þorsteinn Daníelsson var fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni og bjó þar mestalla sína ævi, utan fáein ár sem hann dvaldist á Akureyri og í Danmörku. En á síðarnefnda staðnum dvaldist hann veturinn 1819-20 nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið eftir. Prófstykki hans var saumakassi úr mahogany með inngreiptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og gerði sömu kröfur til annarra og sín sjálfs. Í ævisögu Þorsteins Daníelssonar segir Kristmundur Bjarnason svo frá: Árið 1846 smíðar Danielsen enn eina kirkju, Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd. Kirkjan er reist á hlöðnum steingrunni. Hún er 10,20 metrar á lengd en 5,75m á breidd. Svipar henni mjög til annarra kirkna, er Danielsen hefur smíðað, en öllu fátæklegri. Sperrur eru 5 x 5 [ 5x5 tommur], og eru þær tappaðar í mæninn og skammbitar í sperrurnar. Þakið er skarklætt og þar ofan standklætt. Kirkjan stendur á hlöðnum grjótgrunni, og var með hornstögum, sem fest voru í stóra steina einn í hverju horni. Veggirnir eru standklæddir. Að utan eru borðin sérlega breið, allt í 30cm með strikuðum hornum (Kristmundur Bjarnason 1961:263).
Ekki fer mörgum sögum af vígslu Svalbarðskirkju en í september árið 1847 vísiteraði sr. Halldór Björnsson á Eyjardalsá hana. Hann lýsti, eins og tíðkaðist í vísitasíum, kirkjunni í mjög löngu og ítarlegu máli. Grípum niður í frásögn hans: Kirkjan er byggð á næstliðnu ári af timburþaki, 15 álnir og 22 þumlungar að lengd, 7 7/12 alin að á hæð og 7 ½ alin á breidd; umhverfis til hliða og stafna með fullkomnu bindingsverki og alþiljuð með póstaþili. Þrjú sex rúða gluggafög eru á hvorri hlið og eitt tólf rúða gluggafag yfir altari. Kirkjan er í 5 stafgólfum hvar af 2 í kórnum. [
] Plægt fjalagólf er lagt í alla kirkjuna af óflettum borðum. Fyrir henni er hurð á sterkum járnum með samstemmdu snikkaraverki og skrá tvílæstri emð lykli og tveimur koparhönum. Til beggja stafna eru vindskeiðar skornar saman í horn að ofan. Aftur og fram til beggja hliða inní kirkjunni er listi með hvoldu striki að neðan negldur ofan á hliðfjala- og póstaendanan og borð yfir sem liggur á lausholtum út undir súðina. [
] Milli allra, nema stafnsperra, eru skammbitar. (Haraldur Þór Egilsson 2007: 175-177). Fullsmíðuð kostaði kirkjan 760 ríkisdali og 76 skildinga. Laun Þorsteins Daníelssonar voru þar af 96 ríkisdalir og 24 skildinga en allra annarra smiða og sögunarmanna, samanlagt 84 ríkisdalir og 24 skildingar.
Líklega hefur mjög verið vandað til verka og viðhaldi sinnt af alúð mest alla tíð kirkjunnar á Svalbarði, því ekki fer sögum af leka eða fúa eða öðrum skemmdum, sem stundum vildu hrjá timburkirkjur 19. aldar. Hvassviðri gátu líka verið skæðir óvinir timburhúsa, sérstaklega kirkna, en Þorsteinn Daníelsson mun hafa verið annálaður fyrir frágang húsa sinna þannig, að aldrei skekktust þau eða fuku. Ýmsar breytingar og framkvæmdir voru auðvitað gerðar á kirkunni í áranna rás, árin 1885-1888 var t.d. smíðað í hana loft fyrir orgel og um svipað leyti var hún hvítmáluð. Hafði hún verið bikuð fram að því. Þá var kirkjan krosslaus fyrstu 27 árin, en árið 1873 var settur á hana kross eftir ósk prófasts. Einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar var kolaofni komið fyrir í kirkjunni, en ekki vitað nákvæmlega hvenær það var. Það var allavega nokkru fyrr en 1935 en þá var minnst á viðgerðir á reykháfi. Þegar Svalbarðskirkja varð 100 ára, árið 1946 er ekki ósennilegt, að sóknarbörn hafi verið farið að lengja eftir endurnýjun á guðshúsi sínu. En það var árið 1952 að bygging nýrrar kirkju hófst. Um var að ræða veglega steinsteypta kirkju eftir Bárð Daníelsson og var hún vígð á uppstingningadag (30. maí) árið 1957. Áfram stóð hins vegar hin gamla kirkja en gerðist nokkuð hrörleg.
Fimm árum eftir að aldargamla guðshúsið á Svalbarði lauk hlutverki sínu eða 1962 var Minjasafn stofnsett á Akureyri. Samhliða því komu upp hugmyndir um nokkurs konar húsasafn og hugmyndir uppi um að fá kirkju á safnasvæðið við Aðalstræti. Þá hlaut nú að vera upplagt, að fá kirkju á hið upprunalega kirkjustæði. Hér má segja að hafi komið til lögmálið um framboð og eftirspurn: Minjasafn Akureyrar vildi gamla kirkju og Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti þurfti að flytja kirkju, sem því hafði verið gefin. Æskulýðssambandið hafði haft á því hug, að flytja kirkjuna austur á Vestmannsvatn en það talið ógerningur vegna örðugleika við flutning (sbr. Pétur Sigurgeirsson 1972:404). Var það haustið 1963, að sambandið samþykkti að gefa safninu kirkjuna. Það tafðist hins vegar nokkuð að fá kirkjuna flutta, m.a. vegna biða á samþykki sóknarnefndar og Akureyrarbæjar. Það var svo í lok október 1970 að hin 124 ára Svalbarðskirkja lagði af stað í ferðalag á vörubílspall yfir fjörðinn og á sinn nýja stað í Innbænum. Var það Þórður H. Friðbjarnarson, þáverandi safnstjóri Minjasafnsins, sem hafði veg og vanda af framkvæmdum þessum. Hafði hann einnig umsjón með nauðsynlegum endurbótum, sem fram fóru á kirkjunni ásamt Kjartani Magnússyni smiði og bónda á Mógili en Þorsteinn Gunnarsson arkitekt annaðist ráðgjöf og teikningar við endursmíðina. Meðal annars var pantaður var sérstakur viður og koparnaglar frá Svíþjóð til endurbótana, sem tóku um tvö ár og lauk síðla árs 1972.
Þann 10. desember 1972 var gamla kirkjan frá Svalbarði vígð á nýjum stað við Aðalstrætið og hafði hún einnig hlotið nýtt nafn, Minjasafnskirkjan. Var það sóknarprestur Akureyrar, sr. Pétur Sigurgeirsson sem annaðist vígsluna en auk hans flutti predikun sr. Birgir Snæbjörnsson og viðstaddir voru einnig prestar úr nágrannasóknum. Hófst athöfnin með skrúðgöngu frá Kirkjuhvoli (Aðalstræti 58, hús Minjasafnsins). Þá var einnig flutt sérstakt vígsluljóð, sem Kristján frá Djúpalæk samdi sérstaklega, í tilefni vígslunnar (sjá hér að neðan). Minjasafnskirkjan hefur verið nýtt til ýmissa athafna, m.a. brúðkaupa, skírna og tónleika, þar er stundum messað auk þess sem Minjasafnið nýtir kirkjuna til ýmissa nota og viðburða. Kirkjan hefur notið fyrsta flokks viðhald undir umsjón Minjasafnsins og virðist í eins góðri hirðu og frekast er unnt. Minjasafnskirkjan sómir sér vel á þessum stað, í jaðri Minjasafnsgarðsins og kallast skemmtilega á við nágranna sinn norðanmegin, Nonnahús. Er hún jafnvel talin falla betur að umhverfi sínu en fyrirrennari hennar hefði gert og virðist allt eins geta hafa staðið þarna alla tíð (sbr. Haraldur Þór Egilsson 2007:174). Kirkjan stendur eins og nokkur krúnudjásn við aðkomuna að Minjasafninu enda í raun safngripur. Minjasafnskirkjan var friðlýst þann 1. janúar 1990. Myndirnar af Minjasafnskirkjunni eru teknar 8. apríl 2025 en myndirnar sem teknar eru inni í kirkjunni eru teknar 17. júní 2022. Myndirnar af Svalbarði og Svalbarðskirkju eru teknar 3. nóvember 2019.
Vígsluljóð Minjasafnskirkju
Þú gamla, lága guðshús,
sem gestum opnar dyr,
enn leið í djúpri lotning
er lögð til þín sem fyr.
Vor önn er yndisvana,
vor auður gerviblóm,
því heimur, gulli glæstur,
án guðs, er fánýtt hjóm.
Fyrr gestur göngumóður
við grátur þínar kraup.
Margt tár í þögn og þjáning
á þessar fjalir draup.
Hér æskan ljúf, í auðmýkt,
sín örlög Guði fól.
Hér skyggðu þyngstu skuggar.
Hér skein og björtust sól.
Þú varst hin milda móðir.
Þín miskunn allra beið.
þú veittir hjálp og hugdirfð
að halda fram á leið.
Það ljós, er lýðum barstu,
um langa vegu sást.
Þú enn ert vonum viti.
Þín vegsögn engum brást.
Og kæra, aldna kirkja,
í kyrrþey beiðstu þess,
að yngjast, endurvígjast,
og öðlast fyrri sess.
Enn bljúg, í hljóði beðin,
er bæn í fangi þér.
Hið gamla, lága guðshús
vor griðastaður er.
Kristján frá Djúpalæk
Heimildir:
Haraldur Þór Egilsson. 2007. Minjasafnskirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 173-197. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.
Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson. 1963. Byggðir og bú. Aldarminning búnaðarsamtaka Suður- Þingeyinga í máli og myndum. Búnaðarsamband Suður Þingeyinga gaf út.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni Húsakönnun - Fjaran og Innbærinn 2012. Endurskoðun könnunar frá 1982 og deiliskipulags frá 1986
Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Pétur Sigurgeirsson. 1972. Minjasafnskirkjan á Akrureyri. Í Heima er bezt 12. tbl. 22. árg. bls. 404-405. Slóð: Heima er bezt - Nr. 12 (01.12.1972) - Tímarit.is
Bloggar | Breytt 23.4.2025 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2025 | 15:25
Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan
Áður en lengra er haldið: Hrafnkell Marinósson, eigandi Aðalstræti 66, hafði samband við undirritaðan í kjölfar síðastliðins pistils og langaði að koma eftirfarandi á framfæri:
- Styrkurinn frá Húsfriðunarsjóði við endurbætur á húsinu dugði fyrir teikningum Finns Birgissonar en ekki beint til neinna framkvæmda. Þær voru að öllu leyti einkaframkvæmd fjölskyldunnar.
- Skorsteinninn var nýlega endurhlaðinn og svo skemmtilega vill til, að sá sem annaðist þá framkvæmd var Jón Grímsson Laxdal afkomandi Gríms Laxdal (sem byggði húsið) Jón endurhlóð skorsteininn síðastliðið sumar (2024). Skorsteinninn er endurhlaðinn úr upprunalega steininum.
- Viðbyggingin að vestan er bókastofa reist til minningar um Magnús Jónsson og Eufemiu Ólafsdóttur þar sem vantaði pláss fyrir bækur frá Magnúsi.
- Þá heitir eiginkona Hrafnkels Hlín Ástþórsdóttir (ekki Ásbjörns) og amma hans hét Eufemia (var kölluð Ebba). Það hefur verið leiðrétt og biðst höfundur velvirðingar, en þakkar jafnframt Hrafnkeli Marinóssyni fyrir veittar upplýsingar.
Aðalstræti 66a
Sunnarlega við Aðalstrætið taka vegfarendur eftir því, að gangstéttin tekur vinkilbeygju og rammar þar inn bílastæði að sunnanverðu, m.a. framan við Minjasafnið. Sveigir stéttinn framfyrir lítið hús, sem skagar að götunni út frá lóðinni við Aðalstræti 66 og stendur þarna gangstéttarbrúninni. Er hús þetta einstaklega snoturt og vinalegt, bárujárnsklætt lágreist með háu risi og smáum sexrúðugluggum. (Gaman að geta þess, í ljósi þess hversu áberandi smátt húsið er, bjó þarna um áratugaskeið maður sem nefndur var Jón Sigurðsson stóri, uppi á árunum 1834 til 1914). Um er að ræða Aðalstræti 66a sem einnig hefur gengið undir nafninu Smiðjan. Hús þetta er um 175-180 ára gamalt en byggingarár þess nokkuð á reiki, eins og gjarnt er með elstu hús bæjarins.
Skráð byggingarár Aðalstrætis 66a er 1845 en mögulega er húsið örlítið yngra. Árið 1845 var eigandi þessa lóðar Grímur Laxdal bókbindari og veitingamaður og hafði hann nokkru fyrr (1842-43) reist sér íbúðar- og veitingahús á lóðinni. Í virðingu á húsum hans árið 1848 er hvergi minnst á þetta hús en það er reyndar heldur ekki gert í virðingum áratugum síðar. Árið 1851 kaupir Indriði Þorsteinsson gullsmiður hús Gríms og lóð og ekki ósennilegt, að hann hafi reist smiðju á sama tíma. Í virðingu árið 1892 er húsið sagt um 35 ára. Greinarhöfundi þykir nokkuð freistandi að áætla, að Indriði Indriðason hafi reist þetta hús sem smiðju einhvern tíma á 6. áratug 19. aldar, kannski 1851. Í virðingu árið 1892 er húsið sagt um 35 ára, sem gefur byggingarár nærri 1857. Að ákvarða eða sannreyna byggingarár húsa frá þessum (miðri 19. öld og þaðan af fyrr) er oftar en ekki snúið. En hafi húsið verið reist árið 1845 er nokkuð víst, að þá hefur Grímur Laxdal reist það, mögulega í tengslum við bókbandsiðnina eða veitingareksturinn.
Aðalstræti 66a er einlyft timburhús með háu risi. Sunnan og vestan við er einlyft viðbygging með einhalla aflíðandi þaki og er sá hluti hússins úr steini. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak og margskiptir, sex og níurúðupóstar í gluggum. Grunnflötur eldri hluta hússins er 6,50x5,35m og viðbyggingar 9x5,8m. Húsið er mjög lágreist og stendur þétt við gangstéttarbrún og lætur nærri, að vegfarendur geti teygt sig þaðan í þakbrúnir hússins.
Indriði Þorsteinsson gullsmiður, sem að öllum líkindum reisti húsið sem smiðju, var úr Fnjóskadal og hafði stundað þar búskap og gullsmíði þar á Víðivöllum áður en hann fluttist til Akureyrar. Indriði var fæddur 1814 og kom fyrst fram í manntölum 1816 og þá er hann skráður sem tökubarn á Hálsi í Hálssókn í S-Þingeyjarsýslu. Eiginkona Indriða Þorsteinssonar var Þóra Andrea Nikolína Jónsdóttir, fædd í Kaupmannahöfn árið 1813. Faðir hennar, séra Jón Jónsson helsingi frá Möðrufelli var þar við nám en móðir hennar var dönsk, Helena Andrea Olsen. Árið 1824 fluttist fjölskyldan að Möðrufelli til föður Jóns, séra Jóns Jónssonar lærða. Ástæða þess, að Jón, faðir Þóru, var nefndur helsingi hefur væntanlega verið tvíþætt; annars vegar vegna þess að hann lærði í skóla á Helsingjaeyri og hins vegar til aðgreiningar frá föður sínum, séra Jóni Jónssyni lærði. Þóra A.N. Jónsdóttir sendi árið 1858 frá sér eina fyrstu matreiðslubók sem gefin var út á íslensku. Nefndist hún Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. og var höfundarnafnið Þ.A.N. Jónsdóttir.
Indriði og Þóra áttu heima í Aðalstræti 66 í tvo áratugi eða til ársins 1872, er Akureyrarbær keypti húsið til skólahalds. Það fylgir ekki sögunni, að Smiðjan hafi fylgt með í kaupunum en einhvern tíma eignaðist húsið Jón nokkur Sigurðsson, nefndur Jón Sigurðsson stóri. Mögulega hefur Indriði selt honum smiðjuna samhliða því, að hann seldi bænum íbúðarhúsið. Hann var úr Hrafnagilshreppi, fæddur á Grísará og uppalinn m.a. á Hömrum, Kroppi og Klúkum (sbr. Stefán Aðalsteinnsson 2019: 212). Jón Sigurðsson var trésmiður en hafði einnig fengist við sjómennsku og búskap. Líklega var það Jón sem innréttaði húsið sem íbúðarhús en hússins er þó ekki getið í virðingum árið 1878 og 1882. Árið 1890 eru Jón Sigurðsson og kona hans, María Guðmundsdóttir úr Reykjavík skráð til heimilis á nr. 9 á Akureyri, en hús Sigurðar Sigurðarson (Aðalstræti 66) er nr. 8.
Árið 1893 var ár mikilla landvinninga fyrir hinn rúmlega þrítuga Akureyrarkaupstað. Festi bæjarstjórnin þá kaup á jörðinni Stóra-Eyrarlandi sem náði yfir drjúgan hluta þeirra miklu lenda er lágu ofar brekkunni ofan kaupstaðarins. Jörðina hugðist bærinn nýta til að eiga land fyrir húsalóðir og grasbýli. Sama ár var Jón Sigurðsson trésmiður í húsi nr. 9 í umræddum kaupstað einnig í landvinningum, þó smærri væru í sniðum. Fékk hann keypta 55 faðma viðbót við lóð sína, gegn því, að léti hana af hendi til húsbyggingar, yrði þess óskað (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:106). Ekki fylgir sögunni í hvaða átt þessir 55 faðmar, eða tæpu 92 metra (miðað við að 1 faðmur sé 167cm) lóðarstækkun var, en væntanlega hefur það verið til suðurs.
Jón Sigurðsson átti hér til dánardægurs árið 1914 en eftir það eignaðist Axel Schiöth húsið. Hann virðist hafa leigt húsið því árið 1915 eru búsettir hér leigjendur, tvær fjölskyldur, 10 manns. Ekki hefur verið sérlega rúmt um þau Hóseas Jónsson, Sigríði Bjarnadóttur og fjögur börn þeirra annars vegar og Svein Helgason, Svövu Magnúsdóttur ráðskonu hans og tvö börn þeirra því þá voru a.m.k. tveir áratugir í viðbygginguna. Framangreint fólk hefur þann 24. nóvember 1916 tekið á móti matsmönnum Brunabótafélags Íslands, sem rituðu skilmerkilega lýsingu á herbergjaskipan hússins. Aðalstræti 66a er í skýrslu brunabótafélagsins sagt einlyft timburhús með háu risi, 6,3x4,8m að grunnfleti, 4,4m á hæð og með 9 gluggum. Á hæð voru þrjú herbergi, eldhús og búr en eitt herbergi og geymsla í risi. Einn kolaofn var í húsinu og gat höfundur ekki betur séð, en að eldavélarnar hafi verið tvær; nokkuð vel í lagt í ekki stærra húsi. Mögulega hefur önnur eldavélin verið í risinu enda þótt eldhúss sé ekki getið þar. Árið 1918 er Oddur J. Thorarensen orðinn eigandi hússins og býr þar ásamt konu syni, Ingileif Jónsdóttur og syni, Eyþóri.
Viðbygging við húsið er sögð byggð 1934 en greinarhöfundur fann ekki byggingaleyfi fyrir henni frá þeim tíma, í bókunum Bygginganefndar. Húsið kemur hins vegar tvisvar sinnum fyrir í fundargerðum nefndarinnar, á 3. og 4. áratug 20. aldar. Annars vegar var það þann 5. desember árið 1927, að þáverandi eigandi, Kristján Tryggvason, sótti um að fá steypa grunn undir húsið og reisa skúr norðan við það. Fékk Kristján leyfi til að steypa grunn undir húsið en var ekki leyft að byggja umræddan skúr þar sem stígur lá norðan við (sbr. Bygginganefnd Akureyrar 1927: nr.604). Sjö og hálfu ári síðar, eða á sumarsólstöðum 1935 afgreiddi Bygginganefnd annað erindi, varðandi Aðalstræti 66a. Þá var það Freidar Johansen, norskur matreiðslumaður, eiginmaður Mörtu Jóhannsdóttur, eiganda hússins á þessum árum, sem sótti um að fá að flytja húsið á lóðinni og byggja það upp á 1,0 metra háum steyptum grunni. Ekki var honum heimilað þetta, bygginganefndin vildi ekki leyfa það, að húsið yrði byggt upp á lóðinni vegna skipulagsmála.
Árið 1937 fluttu í húsið þau Magnús Jónsson bifreiðarstjóri og Eufemía Ólafsdóttir. Þau eignuðust síðar (1945) Aðalstræti 66 og reistu nýtt íbúðarhús, Aðalstræti 68 árið 1952. Það er skemmst frá því að segja, að líkt og Aðalstræti 66 hefur húsið haldist innan sömu fjölskyldu allar götur síðan og núverandi eigendur hússins eru þau Ragnhildur Sverrisdóttir og Steinar Sigurðsson, en Ragnhildur er dótturdóttur þeirra Magnúsar og Eufemíu. Í bókinni Innbær húsin og fólkið eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur segir Ragnhildur svo frá: [ ] hér eru mínar rætur. Hér er auk þess reitur fjölskyldunnar, mamma [Auður Magnúsdóttir, AÐalAðalstræti 68] er í næsta húsi. Þegar ég var barn gat ég alltaf hlaupið til ömmu og afa, það gat Sverrir sonur okkur líka gert sem var ómetanlegt. Við Steinar erum samtaka í því að halda húsinu við og höfum gaman af því. Við höfum gjörbreytt öllu hér inni og erum alltaf að breyta og bæta. Við reynum að láta allt njóta sín sem best og gerum allt eins vel og hægt er (Ragnhildur Sverrisdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2016: 79).
Það þarf svo ekki fleiri vitnanna við; það blasir við hverjum þeim sem leið eiga um Innbæinn að þau Ragnhildur og Steinar hafa svo sannarlega gert allt eins vel og hægt er. Húsið er í afbragðs góðri hirðu og sómir sér einstaklega vel á þessum skemmtilega stað, skagandi fram á gangstéttarbrún undir miklu tré, sem greinarhöfundur sýnist að sé silfurreynir. Aðalstræti 66a er sérlega geðþekkt og snoturt hús, eins og flest húsin á þessum bletti undir skógi vöxnu Skammagili. Það er og skemmtilegt að vita til þess, að mörg þessara húsa við Aðalstræti hafa haldist innan sömu ætta áratugum saman, þrjár eða jafnvel fjórar kynslóðir. Í raun ekkert ósvipað og gengur og gerist á mörgum bújörðum. (Raunar eru lóðirnar við Aðalstrætið margar hverjar svo stórar, að tala mætti um örjarðir eða landareignir). Aðalstræti 66a eða Smiðjan var friðlýst þann 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 16. febrúar 2025 og 15. ágúst 2009.
Heimildir:
Bygginganefnd Akureyrar. Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 604, 5. des. 1927. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 749. 21. júní 1935 Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Hjörleifur Stefánsson. 1986.â¯Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn.
Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni⯠http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbærinn Saga hús og fólk. Akureyri: Höfundur gaf út.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt 14.4.2025 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2025 | 14:16
Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús
Eitt margra gilja Akureyrarbrekknanna er Skammagil. Það liggur sunnanvert í Naustahöfða og liggur um norðurbarm þess snarbrött og hlykkjótt leið frá Nonnahúsi eða Minjasafni upp að elsta hluta Kirkjugarðs Akureyrar á Naustahöfða. Gilið er að mestu skógi vaxið og er þar um að ræða trjágróður sem tekið hefur mikinn vaxtarkipp sl. 2-3 áratugi. Þau hafa hins vegar staðið í um eða yfir 18 áratugi, elstu húsin neðan Skammagils, við sunnanvert Aðalstræti. Eitt þeirra er Aðalstræti 66. Þar er mögulega um að ræða eitt fyrsta veitingahús Akureyrar
Um Aðalstræti 66 segir Steindór Steindórsson: Það hefur lengi verið hald manna að Bertel Holm Borgen, sýslumaður Eyfirðinga, hafi reist húsið. En það er á misskilningi byggt. Sýsluskjöl sanna svo ekki verður um villst að Grímur Laxdal bókbindari og veitingamaður byggði það árið 1843 (Steindór Steindórsson 1993:47). Steindór telur jafnframt að húsið hafi í upphafi verið sniðið að veitingarekstri Gríms, en hann hafði fengið veitingaleyfi, árið áður. Að öllum líkindum er húsið byggt ári fyrr eða 1842 og það rímar ágætlega við það, að í maí það ár, fékk Grímur veitingaleyfi. Hann hefur að öllum líkindum ekki tvínónað við það, að reisa hús fyrir veitingarekstur. Ekki fylgir sögunni hvort einhver byggingarmeistari hafi verið yfir byggingunni en á þessum árum voru þeir Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni og Ólafur Briem á Grund mikilvirkastir í slíkum byggingum. Það eru þó engar heimildir, svo höfundur viti til, fyrir því að annar þeirra hafi komið að byggingu þessa húss. Hins vegar voru Grímur Laxdal og Ólafur Briem góðir vinir og vitað að Ólafur smíðaði oft fyrir Grím.
Aðalstræti 66 er einlyft timburhús, bindingshús, með háu og bröttu risi og miðjukvisti eða útskoti, sem skagar nokkuð út fyrir framhlið. Í lýsingum segir, að burðarviðir hússins séu 5x5 tommu bitar og húsgrindin 7 bita/sperrufög að breidd (sbr. Finnur Birgisson 1993:15). Á bakhlið er einlyft viðbygging með aflíðandi þaki og tveir smáir kvistir. Húsið er klætt láréttri timburklæðningu, sexrúðupóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er 9,50x6,91m, bakbygging 2,32x 2,55. Kvisturinn, sem er 3,25 að lengd, skagar 83 cm út fyrir framhlið. Flatarmál hússins er 154,8 m2 og rúmmál um 336 m3 , skv. teikningum Reynis Kristjánssonar.
Grímur Grímsson Laxdal, sem byggði húsið, var fæddur í október 1801. Í Eyfirðingum (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1582) er Grímur sagður fæddur í Reykjavík 10. október en aðrar heimildir segja, að hann muni hafa verið fæddur á Hofi á Skagaströnd (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005:17). Kirkjubækur Hofssóknar á Skagaströnd taka hins vegar af því allan vafa, að Grímur var fæddur á Hofi í Skagaströnd. Þar er hann sagður fæddur 11. október en aðrar heimildir segja 11. október. (Skv. ábendingu frá Jóni Benediktssyni, 29. mars 2025 í athugasemd á vefsíðunni arnorbl.blog.is). Hann var hins vegar búsettur á svæðinu, sem nú kallast Höfuðborgarsvæðið, hluta barnæsku sinnar og fram á fullorðinsár. Árið 1816 var hann stjúpbarn í Hvammkoti, í Reykjavíkursókn. Næstu árin er Grímur að öllum líkindum í vinnumennsku en vitað er, að 1829 eða 1830 hefur hann nám í bókbandi hjá Eggert Eyjólfssyni í Skildinganesi. Um svipað leyti kynntist hann Hlaðgerði Þórðardóttur í Reykjavík. Hún var fædd árið 1804 og var frá Hvammi undir Eyjafjöllum. Ekki festu þau þó yndi syðra heldur gengu þau í hjónaband haustið 1831 í öðrum Hvammi, en sá var í Eyjafirði. Kom flutningur þessi raunar ekki til af góðu, því foreldrar Hlaðgerðar höfðu meinað Grími að kvænast dóttur þeirra. Ekki sættu þau sig við þetta, heldur struku norður á þeirra einu eign, brúnni hryssu, gengu í hjónaband og hófu í kjölfarið búskap að Dvergsstöðum í Hrafnagilshreppi (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005: 17). Grímur fékkst við bókband samhliða búskapnum. Árið 1835 fluttust Grímur og Hlaðgerður til Akureyrar, eða höndlunarstað Eyjafjarðar og munu fyrst hafa reist torfhús á lóð þar sem nú er Aðalstræti 38. Árið 1843 kaupir Ari Sæmundssen lóðina og húsakost af þeim en þau flytja í syðsta timburhús Fjörunnar Þar er um að ræða húsið sem Grímur hafði reist fyrir veitingarekstur og varð síðar kennt, ranglega, kennt við Bertel Holm Borgen sýslumann (sbr. Jón Hjaltason 1990:173).
Það var í maí 1842 að Grímur Laxdal fékk leyfi amtsins til að selja ferðafólki næturgistingu, mat og drykk. Segir Jón Hjaltason í Sögu Akureyrar (1990:99) að þá hafi bærinn eignast sinn fyrsta veitingamann. Leyfið var bundið verðlagsskrá amtsins sem var á þá leið, að brennivínsstaup kostaði 2 skildinga, kaffibolli 6 skildinga, rúmgisting 8 skildinga, máltíð 10 skildinga og stórt glas af rommpúnsi 12 skildinga (sbr. Steindór Steindórsson 1993:46). Það er dálítið skemmtilegt að skoða þessa verðskrá, m.a. að matur er dýrari en gisting og kaffibollinn er þrefalt dýrari en brennivínsstaupið. Auk veitingarekstursins ráku þau Grímur og Hlaðgerður nokkurs konar sjúkrahótel og skutu skjólshúsi yfir fólk sem beið þess að fá inni hjá héraðslækninum. Steindór Steindórsson telur að jafnvel hafi hús sem þau reistu, sem síðar varð Aðalstræti 64, verið reist fyrir sjúklingana. Það má ímynda sér, að þröngt hafi verið um veitingareksturinn, sjúklingana og fjölskylduna en á þessum tíma áttu þau fimm börn. Hér er ekki ólíklegt, að þeirra sjöunda barn, Eggert Laxdal hafi fæðst í febrúar 1846, en hann var síðar verslunarstjóri hjá Gudmannsverslun og er elsta hús bæjarins, Laxdalshús, kennt við hann. Grímur Laxdal og fjölskylda hans bjuggu hér í innan við áratug en árið 1850 reistu þau nýtt hús undir Búðargili, sem síðar varð Aðalstræti 6. Þangað fluttu þau árið 1851 en hingað fluttist nýr eigandi, Indriði Þorsteinsson gullsmiður frá Víðivöllum í Fnjóskadal. Hann átti húsið í tvo áratugi og var húsið löngum nefnt Indriðahús eftir honum. Það er líklegt að hann hafi fljótlega eftir að hann eignaðist húsið, reist smiðju á lóðinni, sem nú er Aðalstræti 66a. Árið 1872 seldi Indriði Akureyrarbæ húsið sem nýtti það til skólahalds og var skóli bæjarins hér til húsa í fimm ár. Skólinn var á neðri hæð en á efri hæð bjuggu þurfalingar á vegum bæjarins. Eitt árið voru íbúar loftsins þeir Jón háleggur, Fjöru-Páll, Friðfinnur Kærnested, Jón askur, Jón Reinholt, Björn vasi, Indriði tindur og Jón mæða. Við getum gert okkur í hugarlund að sambúð íbúa loftsins og skólabarna hlýtur oft á tíðum að hafa verið nokkuð skrautleg en ekki fer neinum sögum af því, að vandræði hafi hlotist af. Skólinn var þó ekki marga vetur hér, því árið 1877 fluttist hann í Hafnarstræti 7, þar sem áður hafði verið Havsteensverslun. Jafnframt því að vera sérlegt skólahús bæjarins gegndi húsið hlutverki nokkurs konar félagsheimilis, þar sem fram fór söngur, dans og skemmtanir. Eftir að skólinn fluttist úr húsinu bjuggu oft margar fjölskyldur hér samtímis, jafnvel 6-8, eða um eða yfir 30 manns!
Árið 1880 keypti húsið Sigurður Sigurðsson járnsmiður frá Hæringsstöðum í Svarfaðardal. Hann gerði umtalsverðar breytingar á húsinu, m.a. byggði hann kvistinn mikla fyrir miðri framhlið og breytti gluggum en upprunalega munu gluggar hússins hafa verið tvíbreiðir miðað það sem nú er, þ.e. tólf smárúður. Þá mun Sigurður hafa fyllt grind hússins af steypu, steypt í binding, sem kallað er. Rúmum 110 árum síðar kom í ljós, að það var eftir á að hyggja ekki mjög hyggilegt, því í ljós kom að burðarviðir neðri hæðar og gólfbitar voru ónýtir vegna fúa. Steypan í bindingsverkinu [ ]olli meinsemdinni með því að halda stöðugt raka að grindarviðnum (Finnur Birgisson 1993:15). Sigurður reisti einnig smiðju sunnan við húsið, sem nú er löngu horfin. Við kaup Sigurðar á húsinu mun hafa verið á því sú kvöð, að hann leigði bænum helming loftsins sem íbúðarrými fyrir þurfalinga. Það fylgir þó ekki sögunni, hvort kvisturinn mikli hafi verið með í þeim samningi, en hann jók umtalsvert rými þessarar rishæðar, þar sem gólfflötur mælist tæpir 65 fermetrar og drjúgur hluti ómanngengur undir súð. Sigurður Sigurðsson var, að sögn Steindórs Steindórssonar (1993:47) einn fremsti iðnaðarmaður bæjarins og sérhæfði sig m.a. í landbúnaðarverkfærum. Plógar, sem Sigurður framleiddi, þóttu t.d. henta íslenskum hestum betur en hinir innfluttu.
Sigurður Sigurðsson seldi húsið árið 1917, Árna Friðrikssyni. En skömmu áður, nánar tiltekið í nóvember 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins Sigurð og skrifuðu niður eftirfarandi lýsingu á húsinu (ath. orðrétt stafsetning og upptalning): Íbúðarhús einlyft á lágum steingrunni, með kvisti og háu risi lítill skúr við bakhlið. Á gólfi, við framhlið 2 herbergi við bakhlið 1 herb. Eldhús og búr. Á lofti 3 íbúðarherbergi og geimsluherbergi [svo]. Lengd 9,5m breidd 7,2m hæð 4,6m tala glugga 15 (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 15). Þrjú íbúðarherbergi á lofti ríma ágætlega við það, að húsið skiptist yfirleitt í þrjú íbúðarrými á 2. og 3 áratug 20. aldar. Árið 1920 búa t.d. 18 manns í húsinu, 4-8 manna fjölskyldur ásamt vinnufólki. Eigandi þá er Axel Vilhelmsson. Næstu áratugi eru eigandaskipti nokkuð tíð, en þegar Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar er gefin út á bók árið 1986 er sami eigandi frá 1945. Þar var um að ræða Magnús Jónsson (d.1992), sem var innfæddur Innbæingur, fæddur árið 1909 í Lækjargötu 9. Hann var lengst af vörubílsstjóri, keyrði lengst af hjá Stefni og var einn af stofnendum Nýju bílastöðvarinnar, sem síðar varð Stefnir. Magnús og kona hans, Eufemía Ólafsdóttir, byggðu nokkrum árum síðar, eða 1952, nýtt íbúðarhús á lóðinni, Aðalstræti 68. En húsið Aðalstræti 66 og lóðin, sem kalla mætti landareign, svo víðlend sem hún er, var áfram í eigu fjölskyldu Magnúsar.
Það var árið 1992 að Kolbrún Magnúsdóttir (Jónssonar) réðist í endurbætur á húsinu eftir teikningum og forskrift Finns Birgissonar. Þá var spurning, hvort færa ætti húsið í upprunalegt útlit frá tíð Gríms Laxdals, sem hefði þá falið í sér niðurrif á kvistinum mikla, eða hvort miða skyldi við breytingarnar frá 1880 (sbr. Finnur Birgisson 1993:15). Niðurstaðan var, augljóslega, sú að halda kvistinum. Húsfriðunarnefnd styrkti þessar framkvæmdir, sem upphaflega miðuðu að því að endurnýja glugga og þak en urðu að allsherjar endurnýjum burðarvirkis. Þannig hrökk styrkur Húsfriðunarnefndar rétt rúmlega aðeins fyrir hönnun endurbótana. Rúmum tveimur áratugum síðar var enn ráðist í endurbætur á húsinu og m.a. byggt við það til vesturs eftir teikningum Reynis Kristjánssonar. Þar voru að verki þau Hrafnkell Marinósson og Hlín Ástþórsdóttir, en Hrafnkell er sonur Kolbrúnar Magnúsdóttir og þannig barnabarn Magnúsar Jónssonar. Í mars 2016 lýstu þau framkvæmdunum í viðtali við Kristínu Aðalsteinsdóttur: Ég varð að taka húsið í gegn þegar mamma eignaðist það. Það var mikilvægt að búa mömmu stað. Þá var talað um hrakvirði hússins eins og húsið væri einskis virði. Síðan eru liðin 20 ár og vinnan svo mikil að því verður varla lýst með orðum. Það jók á erfiðið að búið var í húsinu á meðan það var endurbyggt. En við sjáum ekki eftir neinu. Endurbygging sem þessi felur í sér ákveðna hugsjón sem hefur menningarlegt gildi að okkar mati (Hrafnkell Marinósson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017: 77). Þegar viðtalið er tekið eru framkvæmdir við viðbyggingu þó væntanlega ekki hafnar, það er í mars 2016 en teikningar Reynis Kristjánssonar eru dagsettar í nóvember það ár. Viðbyggingin var reist sem bókastofa, til minningar um þau Magnús Jónsson og Eufemíu Ólafsdóttur, þar sem m.a. vantaði pláss fyrir bækur frá Magnúsi. Þess má líka til gamans geta, að skorsteinninn, sem setur skemmtilegan svip á húsið, var endurhlaðinn sumarið 2024 úr steinum upprunalegs skorsteins. Að þeirri framkvæmd kom einmitt Jón nokkur Laxdal, afkomandi Gríms Laxdals (skv. tölvupósti Hrafnkels Marinóssonar til höfundar 1. apríl 2025).
Aðalstræti 66 er sérlega geðþekkt og snoturt hús og hefur líkast til alla tíð fengið gott viðhald. Það er hluti einstaklega skemmtilegrar húsatorfu undir Skammagili, sem er umföðmuð gróðri og myndar, ásamt Minjasafnsgarðinum, sem er spölkorn norðan við, sérlega yndislega heild gamalla húsa og gróskumikils trjágróðurs. Það er raunar sem nýtt eftir endurbætur sl. áratuga og viðbyggingin frá 2016 skerðir ekki heildarútlit eða yfirbragð hússins á nokkurn hátt. Kvisturinn mikli gefur húsinu sérstakan svip eða karakter, það var sannarlega rétt ákvörðun að mati greinarhöfundar, þegar endurbygging hússins hófst árið 1992, að leyfa kvistinum að halda sér. Aðalstræti 66 var friðlýst skv. Þjóðminjalögum 1. janúar 1990. Í Húsakönnun 2012 fær húsið m.a. þessi einkunnarorð: Húsið á sér ef til vill merkilegri sögu en flest önnur hús í fjörunni og er gott dæmi um hús sem hefur í gegnum tímann gegnt margskonar hlutverki (Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: 61).
Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2015 og 16. febrúar 2025.
Heimildir:
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Finnur Birgisson. 1993. Tvö gömul hús á Akureyri. Í Alþýðumanninum, sérblaði með Alþýðublaðinu, 193. tbl. 74. Árg., 17. desember, bls. 15.
Hjörleifur Stefánsson. 1986.Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn.
Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær og höfundur gáfu út.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.
Sigurþór Sigurðsson. Bókbindarar á Akureyri 1. hluti. Í tímaritinu Prentarinn 2.tbl. 25. árg.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt 9.4.2025 kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.7.): 0
- Sl. sólarhring: 27
- Sl. viku: 328
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 213
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar