Færsluflokkur: Bloggar

Nýárskveðja

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.laughing

IMG_1353

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þakka innlit og athugasemdir hér á þessari síðu og einnig þakka ég kærlega fyrir góðar viðtökur á bókum undirritaðs en þær voru tvær á síðasta ári;

oddeyri_forsíða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Oddeyri Saga hús og fólk, þar sem ég er meðhöfundur ásamt Kristínu Aðalsteinsdóttur

Brýrnar yfir Eyjafjarðará_sýnishorn_forsíða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

og Brýrnar yfir Eyjafjarðará.

(Minni jafnframt á, að nóg er til af báðum bókunum, og hægt að fá eintak hjá mér en bækurnar fást einnig í Pennanum Eymundsson- "Brýrnar" skilst mér að séu reyndar aðeins fáanlegar, utan Akureyrar, í útibúinu Austurstræti) 

Nýársmyndin að þessu sinni er tekin rétt fyrir klukkan 2  í dag í syðstu og yngstu byggðum þéttbýlis Akureyrar; á mörkum Naustahverfis og Hagahverfis, í dag við Naustagötu og horft fram Eyjafjörðinn.  Geislar nýársólar ná aðeins að gægjast gegnum skýjaþykknið. Til vinstri eru fjölbýlishús við Davíðshaga en vinstra megin sést í Naust II en fjær sést í (frá vinstri) Kaupangssveitarfjall, Garðsárdal nokkurn veginn fyrir miðri mynd og hægra megin við hann er Staðarbyggðarfjall, sveipað skýjabólstrum.  

Gleðilegt nýtt ár. 


Jólakveðja 2023

Óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. smile

 

jolakvedja_2023

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Að þessu sinni er jólamyndin tekin við óshólma Eyjafjarðarár, horft af Vesturbrú fram eftir. Mynd tekin 12. des. sl.)


Hús dagsins: Kaupangskirkja

Yngst kirknanna í Eyjafjarðarsveit, 101 árs þegar þetta er ritað, er Kaupangskirkja. Það er því e.t.v. táknrænt, að hún skuli vera byggð úr steini en að Saurbæjarkirkju undanskilinni, eru hinar fimm úr timbri. Það vill hins vegar svo til, að torfkirkjan í Saurbæ er yngri en allar timburkirkjur héraðsins frá 19. öld (Grundarkirkja er byggð í upphafi 20. aldar). Þegar greinarhöfundur greip í sitt helsta heimildarit við ritun þessara pistla; Kirkjur Íslands, margra binda ritverk um friðaðar kirkjur á Íslandi rak hann í rogastans, því Kaupangskirkju var ekki að finna í 10. bindinu, þar sem kirkjur Eyjafjarðarprófastsdæmis eru til umfjöllunar. Þetta á sér hins vegar eðlilegar skýringar; í „kirkjubókunum“ er aðeins fjallað um friðaðar kirkjur og Kaupangskirkja hafði einfaldlega ekki verið friðlýst þegar bókaflokkurinn var ritaður. Nú er Kaupangskirkja hins vegar aldursfriðuð, líkt og allar byggingar sem byggðar eru fyrir 1923.IMG_1279

Sögu Kaupangs má líklega rekja til upphafs búsetu manna í Eyjafirði, hvorki meira né minna. Skammt norðan bæjarins er Festarklettur, þar sem sagt er að Helgi magri hafi lagt skipi sínu að landi. Hét hann áður Galtarhamar og dregur væntanlega nafn sitt af gelti Helga, sem mun hafa verið bíldóttur. Sá mun hafa farist í á, sem rennur þar skammt frá, og þaðan komið nafnið Bíldsá. Segir í Landnámu, að Helgi magri hafi búið einn vetur á Bíldsá sem talin er sama jörð og Kaupangur er nú. Síðar er talið, að þarna hafi verið verslunarstaður eða kaupstefnur og nafnið Kaupangur til komið þannig (Brynjólfur Sveinsson, Guðrún María Kristinsdóttir 2000:60). Áin, sem rennur norðan Kaupangs heitir hins vegar enn Bíldsá og rennur hún um Bíldsárskarð.  Milli Kaupangs og miðbæjar Akureyrar eru tæpir 7 kílómetrar.  Hvenær kirkja reis fyrst í Kaupangi mun ekki ljóst, en Kaupangskirkju mun þó getið í Auðunnar máldaga árið 1318. Kaupangur er alltént með elstu kirkjustöðum landsins. Kannski hefur kirkja risið á Kaupangi ekkert mjög löngu eftir kristnitöku(?).

    Árið 1920 reisti eigandi Kaupangs, Bergsteinn Kolbeinsson,IMG_1281 þar veglegt steinhús. Þá stóð þar timburkirkja, sem talin var úr sér gengin. Mögulega hefur sú kirkja verið verk timburmeistara á borð við Þorstein Daníelsson og Ólafs Briem á Grund, en hennar er reyndar ekki getið í ítarlegu æviágripi hins síðarnefnda í Eyfirðingabók Benjamíns Kristjánssonar. En timburkirkjan í Kaupangi hefur væntanlega verið byggð á 19. öld og fyrirrennarar hennar verið torfkirkjur. En það mun hafa verið árið 1921 að söfnuður Kaupangskirkju leitaði til byggingafræðingsins Sveinbjarnar Jónssonar um hönnun á nýrri kirkju.

     Ólafsfirðingurinn Sveinbjörn Jónsson, var aðeinsP7100167 25 ára þegar þetta var, og hafði nýlega lokið námi í byggingafræðum í Noregi. Hann hafði árið 1919 fundið upp sérstakan hleðslutein, r-stein og smíðað sérstaka vél, sem steypti þessa steina. Þess má geta, að hún er varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Sveinbjörn var mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.  En Sveinbjörn tók sem sagt að sér að teikna og reisa nýja Kaupangskirkju og hana reisti hann að sjálfsögðu úr hinum nýstárlega r-steini. En r-steinninn var steyptur múrsteinn sem var í laginu eins og lítið  r.  Við hleðslu komu tveir fletir þvert, hvor á annan og mynduðu  vísaði „þverleggurinn“ inn í vegginn og var þannig hleðslan tvöföld. Þannig myndaðist holrúm milli „þverleggjanna“ sem einnig mynduðu einskonar burðarstoð. Í holrúmið var svo troðið einangrun. Oftast var þar um að ræða mó eða torfmylsnu.

    Það var ekki einasta, að byggingarefnið væri nýstárlegt heldur var útlit Kaupangskirkju nokkuð nýstárlegt miðað við það sem menn áttu að venjast; í stað turns fyrir miðju var turninn staðsettur á norðvesturhorni kirkjunnar. Gefur það kirkjunni mjög sérstakan svip en gera má ráð fyrir, að einhverjum kunni að hafa líkað þetta misjafnlega. Því væntanlega er íhaldssemi nokkur þegar kemur að kirkjubyggingum.IMG_1283

    Kaupangskirkja er steinhús með koparþaki. Á norðvesturhorni er turn með brattri, pýramídalagaðri spíru og kross upp á henni. Undir turni, þ.e. norðvestanmegin á framhlið eru bogalaga inngöngudyr en allir gluggar eru einnig bogadregnir. Á hvorri hlið, norður og suður, eru þrír gluggar, tveir smáir gluggar að kórbaki (bakhlið) og þrír smágluggar, sá í miðið hæstur, nokkurn veginn fyrir miðri framhlið. Á turni eru tveir smáir gluggar til norðurs og vesturs. Í turni Kaupangskirkju eru tvær klukkur, sú stærri 29cm í þvermál en sú stærri 36,5cm. Síðarnefnda klukkan ber merkinguna Ceres of Hull 1870, Leckie; Wood & Munro. Builders. Aberdeen. Er sú talin vera úr skipinu Ceres frá Hull á Englandi, sem smíðað var 1870 en fórst í Kattegat árið 1882 (sbr. Guðmundur Karl Einarsson án árs) Smærri klukkan er ómerkt og því lítið vitað um uppruna hennar. Á kortavef map.is mælist grunnflötur Kaupangskirkju 7x11m, P8090015turninn nærri 2x2m, ferningslaga.

      Þegar líða tók á 20. öldina tók tímans tönn að vinna á Kaupangskirkju, líkt og öllum mannanna verkum og sýnt þótti, að fara þyrfti í endurbætur á henni. Í þær var ráðist árið 1988, og var kirkjan endurvígð þá um sumarið. Var þá m.a. skipt um bekki, gólfið flísalagt og skipt um altari (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1082). Væntanlega hefur um svipað leyti,einnig verið farið í eitthvert viðhald að utanverðu. Var kirkjan endurvígð eftir endurbæturnar í ágúst 1988. Að ytra byrði er ekki annað að sjá, en að Kaupangskirkja hafi hlotið fyrirtaks viðhald þessa þrjá og hálfa áratugi sem liðnir eru frá endurbótum. Hún virðist alltént í mjög góðu ásigkomulagi að utan. Kaupangskirkja er sem fyrr segir yngsta kirkja Eyjafjarðarsveitar og segir það kannski sitthvað um meðalaldur þeirra, að hún er nýlega orðin aldargömul. Líkt og eyfirsku kirkjurnar allar er Kaupangskirkja mikil prýði og sérlegt kennileiti í fallegu umhverfi sínu og myndar ákaflega skemmtilega heild ásamt íbúðarhúsinu í Kaupangi. Þá er nokkuð myndarlegur trjágróður í kirkjugarðinum umhverfis kirkjuna og er það álit greinarhöfundar, að hann sé til prýði. Einhverjir kynnu þó eflaust að telja, að hann skyggði á glæsta kirkjubygginguna. Meðfylgjandi myndir eru teknar þann 12. desember 2023, myndirnar af Iðnaðarsafninu þ. 10. júlí 2011. Sumarmyndin af Kaupangskirkju er tekin 9. ágúst 2010.

Heimildir: Brynjólfur Sveinsson (Guðrún María Kristinsdóttir, myndatexti). 2000. Svæðislýsing. Í Bragi Guðmundsson (ritstj.) Líf í Eyjafirði bls. 59-94. Akureyri: Höfundar og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

EHB. Kaupangskirkja endurvígð. Í Degi, 31. ágúst 1988, sótt af timarit.is (sjá tengil í texta).

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Karl Einarsson. [Án árs] Kirkjuklukkur Íslands; Kaupangskirkja - Kirkjuklukkur Íslands. Sótt á Kaupangskirkja - Kirkjuklukkur Íslands

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.


Hús dagsins: Möðruvallakirkja

Á Eyjafjarðarsvæðinu eru tveir Möðruvellir. Hvort tveggja valinkunn höfuðból og kirkjustaðir. Möðruvellirnir eru annars vegar í Hörgárdal og hins vegar framarlega í Eyjafirði, í fyrrum Saurbæjarhreppi. Þar ber okkur niður að þessu sinni, en á Möðruvöllum í Hörgárdal fyrirfinnast svo sannarlega byggingar, sem verðskulda umfjöllun sem „Hús dagsins.“ Möðruvellir í Eyjafirði standa hins vegar sunnarlega undir Möðruvallafjalli, spölkorn frá Núpá, sem rennur úr Sölvadal í Eyjafjarðará. Lengi vel lá Eyjafjarðarbraut eystri um bæjarhlaðið, milli íbúðarhússins og gripahúsa en um 2005 var brautin færð norður og vestur fyrir og gamli vegurinn nýtist nú sem heimreið. Frá Akureyri eru um 25 kílómetrar að Möðruvöllum um Eyjafjarðarbraut eystri.  Á Möðruvöllum stendur timburkirkja frá 1848. Stendur hún austan og ofan íbúðarhússins og gömlu Eyjafjarðarbrautar, sunnan við fjárhúsin. Hana lét þáverandi eigandi Möðruvalla, Magnús Ásgeirsson, reisa.P5140987

Á Möðruvöllum hefur verið búið frá 10. öld en fyrsti ábúandi mun hafa verið Eyjólfur Valgerðarson, sonarsonur Auðuns rotins og Helgu Helgadóttur magra, sem námu land að Saurbæ. Eyjólfur var faðir Guðmundar ríka, sem var annálaður höfðingi Norðlendinga. Guðmundur ríki er talinn hafa staðið fyrir byggingu fyrstu kirkju á Möðruvöllum, en hann lést árið 1025. (Kannski eru nákvæmlega 1000 ár frá fyrstu kirkjubyggingu á Möðruvöllum þegar þetta er ritað). Fyrsti nafngreindi prestur að Möðruvöllum var Ketill Möðruvellingaprestur og mun hann hafa verið þar fyrir 1047. Svo ekki hefur liðið langt frá frá kristnitöku þar til kirkja reis að Möðruvöllum. (Nú veltir greinarhöfundur vöngum. Í ritgerð Benjamíns Kristjánssonar (1970:34-50) í Eyfirskum fræðum er sagt frá Katli presti Þorsteinssyni sem bjó að Möðruvöllum og var þar kirkjuprestur. Sá Ketill var langafabarn Guðmundar ríka, og er sagður hafa búið á Möðruvöllum frá því um 1100. Getur þar ekki verið um að ræða sama Ketil og sagt er frá í Kirkjum Íslands (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007:245) og kom að Möðruvöllum fyrir 1047 og nefndur var Möðruvallaprestur. Enda Ketill Þorsteinsson, sem síðar varð biskup, fæddur um 1075.  Þarna getur verið, að heimildum beri ekki saman, eða sem einnig er líklegt, að um sé að ræða tvo séra Katla, sem sátu staðinn með hálfrar aldar millibili. Einhver, höfundi fróðari um þessi mál, verður að skera úr um þetta). Árið 1318 var kirkjan á Möðruvöllum helguð heilögum Marteini. Í kaþólskum sið munu löngum hafa verið stafkirkjur á Möðruvöllum en eftir siðaskipti urðu bindingsverks- og torfkirkjur algengari. Árið 1769 var ein slík, þ.e. torfkirkja á Möðruvöllum. Í vísitasíu biskups níu árum síðar var hún m.a. sögð af 14 stöplum, undir sjö bitum og jafn mörgum sperrum, þiljuð í hólf og gólf. Guðshús þetta var 18,5 álnir að lengd og 8 álna breitt. Umrædd torfkirkja var orðin nokkuð hrörleg þegar líða tók á 19. öld. Árið 1840 segir prófastur að kirkjubóndi, Magnús Ásgrímsson, hafi í hyggju að endurbyggja kirkjuna. Eitthvað mun það hafa dregist því sex árum síðar  fær hún umsögnina: Hús þetta er sem fyrri vel um hirt en tekur mjög að fyrnast svo ei er þörf á endurbyggingu við fyrsta hentugleika“ (Agnes, Hjörleifur, Guðrún M., Guðrún, Gunnar 2007: 248). Og fyrsti hentugleiki var strax árið eftir; bygging Möðruvallakirkju hófst þá, sumarið 1847, og var byggingameistari Flóvent Sigfússon en auk þess komu að byggingu hagleiksmenn úr sveitinni, m.a. Ólafur Briem á Grund og Friðrik Möller á Möðruvöllum. Um vorið munu allir sóknarmenn hafa hafist handa við að draga grjót í grunninn, rífa gömlu kirkjuna, gera undirhleðslur og stétt. Þá fluttu þeir timbur á staðinn. Þann 10. júní 1847 er þess getið í vísitasíu að kirkjan sé „undir byggingu“ og verði líklegast ekki lokið fyrr en sumarið efP5140992tir.

Möðruvallakirkja er timburhús á steingrunni, 11,7x5,41m að grunnfleti. Veggir eru klæddir slagþili og bárujárn á þaki. Tvöfaldir sexrúðupóstar eru í gluggum hliða, tveir smærri gluggar á austurstafni (bakhlið) og annar slíkur undir rjáfri á framhlið. Smáturn með krossi er á framhlið kirkjunnar, en þar er um að ræða ferkantað krossstæði, á að giska 1,5m hátt, skreytt pílárum. Kirkjan er stöguð niður en fyrir hefur komið, að hún hafi verið hætt komin vegna hvassviðra.  Framan við Möðruvallakirkju stendur ekki síður stórmerkilegt mannvirki, klukknaport frá árinu 1781. Um er að ræða eitt elsta mannvirki á Eyjafjarðarsvæðinu, hálfum öðrum áratug eldra en elsta hús Akureyrar. Klukknaport þetta mun það eina sinnar tegundar sem varðveist hefur, en port af þessari gerð voru algeng við kirkjur víða um land.

Byggingameistari Möðruvallakirkju var sem fyrr segir, Flóvent Sigfússon. Hann var Hörgdælingur, fæddur árið 1801 í Hólkoti í þeim dal en bjó síðar í Glæsibæjarhreppi og Árskógsströnd m.a. Ytra-Krossanesi, Ósi og síðast Fagraskógi. Er hann byggði Möðruvallakirkju var hann búsettur í Kálfsskinni. Flóvent nam snikkaraiðn erlendis (væntanlega í Danmörku, í Kirkjum Íslands er aðeins sagt, að hann hafi haldið utan). Flóvent dvaldi á Skipalóni sem ungur maður og hefur þar eflaust fengið áhuga og komist upp á lag með smíðar. Því á Skipalóni bjó einhver annálaðisti húsasmiður og timburmeistari Eyjafjarðarsvæðisins, Þorsteinn Daníelsson. Flóvent var einmitt einn helsti samstarfsmaður Þorsteins lengi vel. Flóvent smíðaði árið 1840 timburkirkju á Knappstað í Stíflu og mun sú kirkja elsta varðveitta timburkirkja landsins.  Löngum var talið, að Möðruvallakirkja hafi verið hönnun Þorsteins Daníelssonar. Flest bendir þó til að Flóvent eigi heiðurinn af hönnun kirkjunnar, þar ber m.a. að nefna handverk og smíðisgripi sem sannarlega eru hans verk, m.a. pílárasettan turnstallinn og frágangur altaris. Þá sjást nokkur augljós líkindi með Knappsstaðakirkju og Möðruvallakirkju en kirkjan er heldur frábrugðin kirkjum, sem vitað er að Þorsteinn reisti (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsson, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:249). Auk Flóvents vann Friðrik Möller, smiður á Möðruvöllum, að stjórn byggingar og unnu þeir saman um sex mánaða skeið. Þá kom Ólafur Briem timburmeistari á Grund að byggingunni um 20 daga skeið.  Nokkuð glögglega hefur verið fjallað um Ólaf Briem í greinum um Saurbæjarkirkju og Hólakirkju en minna mun vitað um starfsferil Friðriks á Möðruvöllum (sbr. Agnes, Hjörleifur, Guðrún M., Guðrún og Gunnar 2007:248). Auk þeirra komu bændur af nærliggjandi bæjum að byggingunni um nokkra daga skeið, Páll á Helgastöðum, Sveinn á Æsustöðum og Benjamín á Björk í Sölvadal. Jón Sveinsson í Fjósakoti var við smíði í 25 daga. Alls var kostnaður við bygginguna 1172 ríkisdalir og 9,5 skildingar (sbr. Benjamín Kristjánsson 1970:46).

Fullreist var Möðruvallakirkja sumarið 1848 og var hún vísiteruð  þann 3. júlí það ár. Var henni lýst á eftirfarandi hátt: Hún er í lengd innan þilja 18 álnir, ½ þumlungi í fátt; breidd 8 álnir, ½ þumlungi í fátt; á hæð undir bita 3 álnir, 17 þumlungar og frá neðri bitabrún til mænis 4 álnir, 15 ½ þumlungar.[...] Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar. Húsið er umhverfis af bindingsverki klætt utan með slagborðum og allt þiljað innan með grópuðum standborðum [...] (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007: 249). Kemur þar einnig fram, að alls munu sextán baksláar sæti (kirkjubekkir), átta hvoru megin auk krókbekks undir stiga sem lá upp á „plægt loft [söngloft] með tilhlýðilegum tröppustiga með pílárum á innri hlið.“

Möðruvallakirkja hefur nokkrum sinnum fengið að kenna á veðurofsa. Án þess að greinarhöfundur þekki nokkuð til veðuraðstæðna þarna fremra má geta sér þess til, að stífir og ofsafengnir vindstrengir renni sér ýmist úr Sölvadalnum eða niður af Möðruvallafjallinu í ákveðnum áttum. En a.m.k. þrisvar á 19. öld skekktist kirkjan í hvassviðri. Fyrst var það 2. mars árið 1857 að tveir bitar færðust úr skorðum og hnikuðust upp af lausholtum, svo kirkjan skekkist. Þetta var lagfært þannig, að bitarnir voru festir  með járngöddum við lausholtin, gegnum bjálka sem festir voru utan á lausholtin. Þá mun kirkjan aftur hafa hnikast til í hvassviðri árið 1865 en eftir það rétt af og skorðuð með stórgrýti, sem dregið var að. Aftur skekktist kirkjan í roki árið 1885 og voru þá járnfestingar bættar og endurnýjaðar.  Það er nokkuð athyglisvert, að ári eftir að kirkjan skekktist í fyrsta skiptið, þ.e. 1858, var reist ný kirkja í Saurbæ, handan Eyjafjarðarár. Það þykir nokkuð sérstakt, að hún er torfkirkja en á þessum tíma höfðu byggingar slíkra kirP5140990kna að mestu lagst af. Ein kenning á því, hverju það sætti er sú, að torfhús þyldu vindálag betur en timburhús, sem var hættar var við að skekkjast eða hreinlega fjúka...

Um 1890 var kirkjan farin að láta nokkuð á sjá og þess getið í visitasíum. Gegnumgangandi höfðu verið nokkur vandræði með þak, stundum veggir og gólf en einnig voru rúður oft sprungnar. Sjálfsagt afleiðingar hvassviðra. Þó munu hafa verið hlerar fyrir suðurgluggum í upphafi. Í upphafi var kirkjan tjörguð en slíkt var æði viðhaldsfrekt, tjarga þurfti hús oft og reglulega til að halda svertunni og glansinum; best var að tjarga annað hvert ár ef vel átti að vera (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007: 250). Árið 1895 voru gerðar gagngerar endurbætur á kirkjunni, grunnur hækkaður og steinlímdur, þak endurnýjað og gert við fúaskemmdir. Þá var tjaran skafin af og kirkjan hvítmáluð. Tjaran hélt þó áfram að gera skráveifur, því það vildi bera á því, að tjöruleifar hitnuðu í sólskini og mynduðu svartar skellur í hvítri málninguna. Varð þetta þrálátt að því er virðist áratugum saman eftir málninguna.  Pappaþakið frá 1895 var tjöruborið og tjöruna þurfti oft að endurnýja en engu að síður var þakið hriplekt. Tjaran var nefnilega fljótt að tapa vatnsvarnareiginleikum sínum því í sólskini vill hún fara af stað. Þessa gætti sérstaklega á suðurhlið, á móti sól.  Þessa eðliseiginleika tjörunnar getum við eflaust séð nokkuð glögglega á háspennustaurum úr timbri. Þeir eru oftar en ekki svartflekkóttir og á þeim má greina misþykkar tjöruskellur. En væntanlega hafa þeir verið allt að því altjargaðir í upphafi. Og fyrst minnst er á háspennustaura má geta þess, að rafmagn var leitt í Möðruvallakirkju árið 1962. Væntanlega var rafmagnið nýtt til kyndingar líka, en frá árinu 1917 hafði kolaofn verið í kirkjunni. Hann hafði þó verið leystur af hólmi árið 1934 með olíufýringu en sú reyndist svo illa, að tólf árum síðar var henni skipt út fyrir gamla kolabrennarann.

Möðruvallakirkja hefur alla tíð verið bændakirkja þ.e. í eigu Möðruvallabænda.  Kannski sakna einhverjir þess, að í umfjöllun um kirkjur Eyjafjarðarsveit séu rakin ítarlega presta- og ábúendatöl staðanna. Það væri hins vegar efni í aðrar og enn lengri greinar því hér eru það fyrst og fremst kirkjurnar og þeirra saga sem er til umfjöllunar. Væri því e.t.v. borið í bakkafullan læk, að gera ítarlega grein fyrir ábúendasögu kirkjustaðanna á þessum vettvangi. Á 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1948 fóru fram gagngerar endurbætur á henni á vegum Möðruvallabænda, feðgana Valdimars Pálssonar og Jóhanns sonar hans. Fólust þær endurbætur m.a. í endurbótum á gólfi, lagfæringu trappa og afstúkun forkirkju. Þá var Haukur Stefánsson ráðinn til málningarvinnu innandyra. Haukur var löngum þekktur sem Haukur málari og var annálaður fyrir mikilfenglegar innanhússkreytingar, málverk og munstur m.a. á stigagöngum.

Þann 21. desember 1972 gekk yfir Eyjafjörð ofsarok og fór þá Möðruvallakirkja ansi illa og raunar miklu verr heldur en nokkurn tíma á 19. öldinni. Fauk hún um hálfa breidd sína til norðurs, skekktist og brotnaði. Á suðurhlið var kirkjan stöguð með kengjum við þrjú mikill björg en svo mikill var veðurofsinn, að miðbjargið lyftist, slóst undir kirkjuna svo gólfið skall á það með tilheyrandi skemmdum. Hefðu þessara grettistaka ekki notið við, hefði væntanlega ekki þurft að spyrja að leikslokum. Og ekki voru menn sammála um téð leikslok, eða möguleg ævilok Möðruvallakirkju. Þjóðminjavörður, Þór Magnússon hvatti til endurbyggingar og kirkjubændur voru áfram um endurbyggingu kirkjunnar. Söfnuðurinn vildi frekar nýja kirkju, mögulega á Syðra Laugalandi eða Hrafnagili, en endurbætur á þeirri gömlu. Þjóðminjavörður taldi varðveislugildi kirkjunnar og gripa hennar verulegt og beitti sér fyrir því, að Þjóðminjasafnið fengi að annast endurbygginguna. Árið 1976 hófust endurbætur kirkjunnar og stóðu þær yfir í ein sex ár. Steyptur var nýr grunnur og gert við allar skemmdir hvort sem þær voru að völdum ofviðrisins 1972, fúa eða elli. Umsjón með endurbótunum hafði Gunnar Bjarnason trésmiður en hinn annálaði húsasmíðameistari, Sverrir Hermannsson, kom einnig að verkinu. Árið 1982 taldist Möðruvallakirkja fullgerð að utan. Fimm árum síðar mættu þeir feðgar Guðvarður Jónsson og Snorri Guðvarðsson til Möðruvallakirkju og máluðu í hólf og gólf. Endurbætt Möðruvallakirkja var endurvígð á 140 ára afmælisárinu, 1988.P5140991

Ekki er annað að sjá, en að Möðruvallakirkja hafi frá þessum endurbótum hlotið hina bestu umhirðu og viðhald. Kirkjan sem slík er auðvitað sannkölluð perla og nokkurs konar safngripur en í henni er einnig margt gripa og muna sem margir hverjir eru einstakir. Þar ber helst að nefna altaristöflu frá 15. öld, alabastursbrík sem Benjamín Kristjánsson segir vera (1970:47) „einn hinn merkilegasti forngripur sem enn er í kirkju hér á landi.“ Klukknaportið framan við kirkjuna er einnig sannkölluð gersemi sem slíkt, og er sem fyrr segir, hið eina sinna tegundar, sem varðveist hefur. Þar hanga þrjár klukkur, framleiddar í Danmörku með ártölunum 1769, 1799 og 1867. Portið og kirkjan mynda einstaka órofa heild, ásamt hlöðnum garði umhverfis. Bæjarstæði og ásýnd Möðruvalla í umhverfinu er svo allt hið fegursta. Möðruvallakirkja var friðlýst 1. janúar 1990. Þá er klukknaportið  einnig friðlýst og hefur verið í umjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1962. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021.

Heimildir: Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsson, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason. 2007. Möðruvallakirkja í Eyjafirði. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 245-282. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

 Benjamín Kristjánsson. 1970. Eyfirðingabók II. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Ýmsar upplýsingar af m.a. timarit.is, manntal.is og minjastofnun.is.


Hús dagsins: Hólakirkja

Fremstu byggðir Eyjafjarðar kúra undir skjóli brattra hlíða, rúmlega 1000 metra hárra fjalla, Eyjafjarðardals og afdala hans. Skammt norðan við þar sem Torfufellsfjall klýfur Eyjafjarðardalinn eru geysileg framhlaup beggja vegna Eyjafjarðarár. Annars vegar eru það Leyningshólar vestan ár en austan ár og eilítið utar nefnast Hólahólar. Eru þeir kenndir við bæinn og kirkjustaðinn, sem standa við norðurjaðar hólanna. Hins vegar er bæjarnafnið Hólar væntanlega til komið vegna hólanna. Hólar standa við Hólaveg en þar er um að ræða 12 kílómetra veg sem tengir byggðina austanmegin ár (Austurkjálka) við Eyjafjarðarbraut vestri. Að bænum liggur um 80 metra heimreið en frá bæjarhlaðinu eru um 38 kílómetrar til Akureyrar.  Á Hólum stendur snotur timburkirkja sem á stórafmæli á þessu ári, 170 ára. Og til þess að setja þennan árafjölda í eitthvert samhengi má nefna, að frá áramótum til 17. júní, eru u.þ.b. 170 dagar. Og fyrst minnst er á þjóðhátíðardaginn má einnig nefna, að við lýðveldisstofnun var Hólakirkja 91 árs!

Á Hólum hefur verið búið frá Landnámsöld IMG_1169en þar mun fyrstur hafa búið Þorsteinn, bróðir Víga Glúms á síðari hluta 10. aldar. Á Hólum er talið, að kirkja hafi verið byggð á upphafsárum kristni hérlendis og þar hafi afkomendur téðs Þorsteins verið að verki. Mun sú kirkja hafa verið helguð Jóhannesi skírara. Elstu lýsingar á kirkju á Hólum eru frá 1729 og þar er Hólakirkja torfkirkja, þiljuð í hólf og gólf. Stærðar er ekki getið að öðru leyti en að hún er sögð með 8 sperrum, bitum og skammbitum, en Benjamín Kristjánsson (1970:114) telur ljóst, að hún hafi verið svipuð að stærð og núverandi kirkja. Þessa kirkju leysti ný af hólmi árið 1774 en hún var einnig þiljuð torfkirkja, 16 álnir milli stafnbita og 7,75 álnir á breidd.  Um miðja 19. öldina var hin 75 ára gamla torfkirkja orðin næsta hrörleg. Árið 1851 kallaði Hallgrímur Thorlacius, prófastur á Hrafnagili, eigandi kirkjunnar til þá Ólaf Briem, timburmeistara á Grund og Ólaf Egilsson á Gilsá til að meta ástand hennar. Og úrskurður þeirra var sá, að kirkjan væri ónýt og byggja þyrfti nýja. Og úr varð, að Ólafur Briem hófst handa við kirkjusmíði á Hólum haustið 1852 og fullbyggð var kirkjan árið 1853.

Hólakirkja er timburhús með háu risi. Stendur hún á lágum steinhlöðnum grunni. Á veggjum er timburklæðning, nánar tiltekið slagþil og bárujárn á þaki. Inngangur, klukkur  og kross eru á mæni vesturhliðar, með öðrum orðum snýr framhlið kirkjunnar til vesturs en fyrir því var löngum rótgróin hefð. Á bakhlið, eða kór, eru þrír gluggar, þar af einn undir rjáfri en þrír gluggar eru á hvorri hlið. Tveir smáir gluggar eru einnig á framhlið. Þá er kvistur á þaki suðurhliðar. Grunnflötur Hólakirkju er 10,58x5,90m.

Frá æsku og uppvexti Ólafs Briem (1808-1859) á Grund var sagt í greininni um Saurbæjarkirkju. Ólafur nam trésmíðar í Danmörku á árunum 1825-31 og kom heim að námi loknu og hóf vinnu við smíðar.IMG_1248 Hann reisti verslunar- og íbúðarhús víða á Norðurlandi auk þess sem hann stýrði byggingum eða vann við byggingar alls átta kirkna. Fáein hús Ólafs Briem standa enn, Saurbæjar- og Hólakirkja og hluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu á Akureyri mun vera Skjaldarvíkurstofa Ólafs Briem. Ólafur hafði verkstæði sitt á Grund og endurbætti þar nokkuð húsakost. Kirkju reisti hann á Grund árið 1842 en sú vék rúmum 60 árum fyrir núverandi kirkju. Þar var að verki annar stórhuga maður, Magnús Sigurðsson, löngum kenndur við Grund. (Svo vill reyndar til, að þegar barnungur Magnús Sigurðsson horfði um 1855 löngunaraugum frá Öxnafelli, austan Eyjafjarðarár, yfir að Grund og ákvað, að hann skyldi eignast þessa jörð er hann yrði stór, var eigandi og ábúandi Grundar einmitt Ólafur Briem). Ólafur gegndi ýmsum embættisstörfum, var m.a. hreppstjóri og auk þess tók hann þátt í hinum annálaða Þjóðfundi árið 1851. Var hann kjörinn þangað sem annar þingmaður Eyfirðinga, en einnig fór á fundinn Eggert, bróðir Ólafs, sýslumaður á Espihóli. Alls fóru níu manns úr Eyjafirði á Þjóðfundinn.  Ólafur Briem var annálaður fyrir kveðskap. Ein af mörgum vísna hans er eftirfarandi:

Þó hann rigni, þótt ég digni,

Þó að aldrei lygni meir,

áfram held ég alls óhrelldur

yfir keldur, mold og leir.

 

Síðar lagði Hannes Hafstein út af þessari vísu og hér má heyra hana í flutningi Guðmundar Óla Scheving.IMG_1171

Eins og gjarnt er um hagyrðinga brást Ólafur Briem oft við ýmsum aðstæðum og uppákomum með stökum. Hér má nefna tvennt. Eitt sinn er Ólafur var að flytja tilkynningu yfir kirkjugestum á Grund eftir predikun heyrði hann hrotur frá einum þeirra. Varð þá til þessi vísa:

Hvað mun bóndinn hafast að

um helgidaganætur,

hrotur sem á helgum stað

heyrast til sín lætur?

Mun sá sofandi hafa vaknað við vondan draum. Svo var það eitt sinn, er Ólafur var sem embættismaður að annast arfskipti vildi svo til, að meðal erfingja voru þrír prestar, sem rifust áberandi mest. Ekki fer sögum af málalokum en á einhverri stundu kvað ÓlafurIMG_1174 - afrit - afrit

Metur kæran Mammon sinn

margur hempugálginn,

í þeim nærir andskotinn

ófriðsemdar nálginn.

Ekki er ólíklegt, að margar vísur hafi heyrst við byggingarstörf Ólafs. Ólafur Briem lést 15. janúar 1859, nýorðinn fimmtugur en hann var fæddur 29. nóvember 1808.  

Sem fyrr segir lauk smíði Hólakirkju sumarið 1853 og 7. nóvember var hún vísiteruð í fyrsta skiptið. Var henni þar lýst á eftirfarandi hátt:

Guðshús þetta er milli þilja á lengd 16 álnir, 7 þumlungar, hvar af kórinn er af máli þessu 6 álnir og 5 þumlungar, á breidd 8 álnir og 3 kvartil; á hæð frá gólfi og upp undir bita 3 álnir og 11 þumlungar og frá neðri bitabrún í sperrukverk 4 ¾ alin, allt að innan mælt. Sperrur eru níu og jafnmargir bitar. Húsið er umhverfis af bindingsverki klætt að utan með slagborðum og að innan allt þiljað með plægðu pósta standþili. Þakið er tvöfalt, súðþak að innan en rennisúð að utan. [...] Í kirkjunni allri er nýtt þilgólf plægt á þéttum aurstokkum. Í framkirkjunni eru 7 baksláarsæti hverju megin fyrir utan tvo krókbekki, sem eru sinn á hvorri hlið,sömuleiðis sitt hverju megin í kirkjunni og myndar skilrúm milli kórs og kirkju bak þeim (Kristmundur Magnússon, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason 2007:100). Er kirkjan talin „yfir höfuð allt prýðilega byggð.“  Hins vegar leið ekki á löngu að ýmissa vankanta færi að gæta, t.d. vantaði tröppur og svo virðist sem það hafi dregist að tjarga kirkjuna til vatnsvarnar. Þó getur prófastur þess, að verið sé að tjarga kirkjuna árið 1856 en hvort því verki var ekki lokið eða tjörgunin ófullnægjandi því árin á eftir mælist prófastur enn til tjörgunar. Þá var þakleki þrálátur og virtist þar veiki hlekkurinn vera kvisturinn. Þá gerðist það ítrekað í ofsafengnum sunnanáttum, að rúður brotnuðu þegar möl og jafnvel grjót fauk á þær. Árið 1860 voru settir hlerar á suðurhliðina og tröppur við inngöngudyr og tveimur árum síðar var hún tjörguð (Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar 2007:111).

Hólakirkja er mögulega fyrsta upphitaða kirkjan hérlendis. Það var árið 1862 að settir voru í hana tveir vindofnar og þótti það aldeilis tíðindum sæta en kirkjur voru löngum óupphitaðar. Frá þessu var skýrt í Norðanfara: Það er sannarlega nýlunda og hér á landi dæmalaus, að sóknarpresturinn til Miklagarðs og Hóla í Eyjafirði, séra Jón Thorlacius* í Saurbæ, hefur nú í haust keypt til Hólakirkju, sem er af timbri, tvo vindofna, er hann hefur látið setja í hana, annan í kórinn en hinn í framkirkjuna, til þess að hita upp, þá messað er og kaldast þykir (úr Norðanfara; Benjamín Kristjánsson 1970:117). Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það hefur verið fyrir kirkjugesti til sveita, eftir margra kílómetra göngu eða ferð á hestbaki að sitja í frostköldum kirkjum: Allir, sem reynt hafa að sitja hér í kirkjum á vetrardag og ekki síst í hörku og harðviðrum, vita hvað það er kalt og næstum óþolandi. Og þegar menn koma þangað sveittir og illa til reika og norpa þar svona á sig komnir meira og minna aðsettir eða skjálfandi alla messugerðina út, er naumast að menn geti veitt athygli því, er presturinn prédikar, enda hafa vandkvæði þessi aftrað mörgum frá því að sækja kirkju á vetrum[...] (Úr Norðanfara; Benjamín Kristjánsson 1970:117-118). Vindofnar þessir yljuðu kirkjugestum Hóla í tæpa tvo áratugi en árið 1880 var skráð að þeir væru orðnir ónýtir. En það dróst aldeilis von úr viti, að gert yrði við þá eða fengnir nýir: Í tæplega hálfa öld stóðu ofnarnir ónýtir í Hólakirkju og hafa líklega verið orðnir eins og hvert annað húsgagn í kaldri kirkjunni þegar þeim var skipt út árið 1928! P8291009Af „hitamálum“ Hólakirkju er það að segja, að einn kolaofn kom í stað ofnanna frá 1862 og var hann notaður til ársins 1960 er hann var fluttur á Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumssonar á Akureyri og mun þar enn safngripur (sbr. Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar, 2007:112). Fjórum árum síðar var leitt rafmagn í kirkjuna og leysti það kolakyndinguna af hólmi.

Svo virðist sem þakleki og aðrir vankantar hafi verið þrálátt vandamál í Hólakirkju en árið 1883 fóru fram á henni endurbætur sem miðuðu m.a. að upprætingu leka, auk ýmiss annars. Þá var kirkjan máluð árið 1890 en hafði fram að því verið tjörguð. En tjöruleifar gátu gert skráveifur undir málningu sérstaklega í sólskini og hitum. Upp úr aldamótum voru viðraðar hugmyndir um að bárujárn kunni að vera endanleg lausn við leka og það var sett á um 1905. En ekki reyndist sú lausn algild, upprunalegar þakklæðningar, skarsúð og rennisúð hafa líklega verið orðnar skemmdar af fúa, svo timbrið hélt ekki þaknöglum og inn streymdi snjór í hríðarveðrum. Þakið virðist þó hafa haldið vatni eftir þessar aðgerðir. Næstu ár og áratugi fóru fram endurbætur á grunni, á 100 ára afmælinu 1953 vísiteraði biskup hana og sagði hana í mjög góðu ástandi. Segir m.a. að kirkjan „hafi aðdáanlega vel staðið af sér tímans tönn og er enn í ágætu ástandi nærri því eins og frá henni var gengið fyrir 100 árum. Hefur sér Hallgrímur ekkert til sparað að gera kirkjuna sem bezt úr garði, og var smíði hennar öll hin vandaðasta bæði traust og snotur“ (Benjamín Kristjánsson 1970:116). Þetta kann að virðast í mótsögn við það sem fram kemur hér að framan, að kirkjan hafi verið sílekandi og hvorki haldið vatni né vindi! En höfum í huga, að fyrrgreind upptalning nær yfir 100 ára tímabil og kirkjan orðin 30-50 ára þegar þessir vankantar fara að láta á sér kræla. Og höfum einnig í huga byggingarefni, verkþekkingu og byggingartækni þess tíma. Auk þess var öllum viðgerðum og viðhaldi sinnt mjög samviskulega og árið 1953 hafði sökkull nýlega verið endurbættur. Hversu vel sem hús eru byggð nagar þau tímans tönn; um fjörutíu árum síðar var ástand Hólakirkju talið mjög bágborið og vart orðið við fúa í fótstykki, burðarviði og klæðningu. Var þá kallaður til hinn annálaði húsasmíðameistari Sverrir Hermannsson en hann á heiðurinn af endurbótum margra gamalla timburhúsa á ofanverðri 20. öld.

Skemmst er frá því að segja, að á árunumIMG_1172 1991-95 var kirkjan endurnýjuð nánast gjörsamlega frá grunni- og raunar grunnurinn líka því í viðgerð fólst einnig viðgerð á sökkli. Umsjón með framkvæmdum hafði sem fyrr segir, Sverrir Hermannsson, eftir forskrift og teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Árið 1991 var byrjað á norðurhlið kirkjunnar, suðurhlið og gaflar voru endurnýjaðir árið eftir og 1993 var komið að þakinu. Árið 1995 voru kirkjutröppur endurnýjaðar og kirkjan máluð að utan (sbr. Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar, 2007:117-118). Þá var hún máluð að innan 1997 og þar var að verki Snorri Guðvarðsson málarameistari, sem löngum hefur sérhæft sig í málun gamalla kirkna. Allar endurbætur Hólakirkju í lok síðustu aldar voru unnar þannig, að sem mest væri nýtt af gömlu efni sem hægt var. Þá má geta þess, að raflagnir og rafmagnstafla voru einnig endurnýjaðar en mikilvægi þess skal aldeilis ekki vanmetið þegar í hlut eiga gamlar timburkirkjur. Því ef eitthvað kemur upp á í gömlum og úr sér gengnum raflögnum í meira en 150 ára gömlum timburhúsum þarf víst ekki að spyrja að leikslokum.

Nú er ekki annað að sjá, en hin aldna timburkirkja að Hólum sé sem ný, enda nokkuð stutt frá gagngerum endurbótum og kirkjunni ævinlega vel við haldið. Kirkjan, sem er fremsta kirkja Eyjafjarðar, nýtur sín einstaklega vel á snotru bæjarstæðinu og kirkjugarðurinn umhverfis hana er einnig til prýði. Ræktarleg reyni- og birkitré standa vörð um hið 170 ára gamla guðshús, kannski þykir einhverjum, að þau skyggi á hana en af þeim er engu minna prýði en kirkjunni sjálfri. Samkvæmt vefsíðu Eyjafjarðarsveitar rúmar Hólakirkja 120 manns í sæti og er bændakirkja sem þýðir að hún er eign bænda, væntanlega Hólabænda. Hólakirkja var friðlýst 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 29. ágúst 2020 og 7. október 2023.

*(Nú gæti einhver lesandi staldrað við séra Jón Thorlacius í Saurbæ, árið 1862. Kom það ekki fram í greininni um Saurbæjarkirkju, að Einar Thorlacius hafi setið í Saurbæ á þessum tíma? En hér er ekki um að ræða nafnarugling hjá undirrituðum, enda þótt mörg fordæmi séu fyrir slíku, heldur var það svo á þessum tíma, að tveir prestar, feðgarnir Einar Thorlacius (1790-1870) og Jón Einarsson Thorlacius (1816-1872), sátu í Saurbæ. Væntanlega hefur Jón verið tekinn að mestu við prestskapnum, enda Einar faðir hans kominn yfir sjötugt þegar þetta var).  

 

 

Heimildir:

Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Benjamín Kristjánsson. 1970. Eyfirðingabók II. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristinn Magnússon, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason. 2007. Saurbæjarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 105-137. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

 

Ýmsar upplýsingar af m.a. timarit.is, manntal.is og minjastofnun.is.


Hús dagsins: Saurbæjarkirkja

Á komandi aðventusunnudögum (eða helgum) hyggst ég birta umfjöllun um kirkjur Eyjafjarðarsveitar eina af annarri. Þær eru hins vegar sex en aðventusunnudagarnir fjórir. Grundarkirkju tók ég fyrir fyrr í sumar. Hyggst ég fara hringinn frá vestri, fram og út að austan. Þannig hefst umfjöllunin við Saurbæ, þá eru það Hólar, næst Möðruvellir og loks Kaupangskirkja. Munkaþverárkirkja verður svo fyrsta „Hús dagsins“ á nýju ári, mögulega á nýársdag en sú kirkja á stórafmæli, 180 ára, á hinu nýja ári 2024.

Fremstur hinna þriggja hreppa, er sameinuðust undirP6131000 nafni Eyjafjarðarsveitar fyrir rúmum þremur áratugum, var Saurbæjarhreppur. Dregur hann nafn sitt af Saurbæ, sem stendur undir miklum hálsi norður af Hleiðargarðsfjalli, sem mun kallast Saurbæjarháls. Á „Saurbæjartorfunni“ standa m.a. byggingarnar Sólgarður, félagsheimili Saurbæjarhrepps sem byggt var í áföngum frá 1934, 1954 og 1980 en hýsir nú Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Stendur Sólgarður fast við Eyjafjarðarbraut vestri. Bæjarhús Saurbæjar standa á hól nokkrum ofan Sólgarðs og þar er um að ræða veglegar byggingar frá 1927 og síðar, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Í þeim húsakynnum hefur Búsaga, samtök um búnaðarsögusafn, komið sér fyrir og þar leynast margir dýrgripir úr sögu búvéla 20. aldar. Nýjasta rós í hnappagat þessa geðþekka staðar við mynni Eyjafjarðardals er svo kýrin Edda, stórvirki eldsmiðsins Beate Stormo í Kristnesi en henni var komið fyrir á hólbrún norðan Sólgarðs í ágústbyrjun 2023. En krúnudjásn Saurbæjartorfunnar hlýtur þó að vera kirkjan, torfkirkja frá miðri 19. öld. Stendur hún framan eða austan við bæjarhús Saurbæjar og nefnist umræddur hóll einmitt Kirkjuhóll. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu við Saurbæjarkirkju eru tæpir 29 kílómetrar.  

     Sögu Saurbæjar má rekja til landnáms en þar mun hafa búið Helga, dóttir Helga magra og maður hennar Auðun rotinn. Hversu snemma Saurbær varð kirkjustaður liggur ekki nákvæmlega fyrir en þar reis klaustur eftir miðja 12. öld. Sjálfsagt mætti skrifa mikið ritverk um sögu kirkjustaðarins og klaustursins að Saurbæ en hér látum við hana liggja milli hluta og hefjum umfjöllun á 19. öld. Það var árið 1822 að séra Einar Hallgrímsson Thorlacius kom að Saurbæ og hóf þar prestsskap og sat þar í nærri hálfa öld. (Kristján Eldjárn segir reyndar, að sr. Einar hafi komið að Saurbæ árið 1823). Kirkjubyggingin á Saurbæ þegar séra Einar kom að staðnum var torfkirkja með timburþiljum, reist um 1794. Sjálfsagt hefur Einari þótt tími kominn á nýja kirkju þegar leið á hinu löngu embættistíð hans, en ekki verður ráðið af heimildum að sú frá 1794 hafi verið orðin hrörleg enda þótt suðurveggur hafi verið farinn að fyrnast, skv. visitasíu árið 1856 (Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason, 2007:287). En þótt ekki væri endilega aðkallandi þörf á nýrri kirkju ákvað sr. Einar engu að síðar að reisa nýja kirkju um þetta leyti og réði til byggingarinnar Ólaf Briem timburmeistara á Grund.

Saurbæjarkirkja er torfhús með timburstöfnum, en veggir grjóthlaðnir P8111000neðst og með klömbruhnausum efst og torf á þaki. Á suðurhlið er smár kvistur. Á stöfnum er slagþil, lóðrétt timburborð og þrír smáir sexrúðugluggar á framhlið, tveir sitt hvoru megin dyra og einn ofan þeirra. Tvær klukkur hanga á framhlið, önnur með gotnesku lagi, 32cm í þvermál og tíu árum eldri en kirkjan sjálf. Stærri klukka, 40 cm í þvermál er með síðrómönsku lagi, með einfaldri strikun efst og neðst. Hún mun ævaforn, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason (2007:301) telja hana vart yngri en frá 14. öld eða lokum þeirrar 13. Með öðrum orðum, stærri bjallan utan á Saurbæjarkirkju gæti verið meira en 700 ára gömul; frá svipuðum tíma og Íslendingasögurnar voru ritaðar eða skömmu eftir Sturlungaöld! Undir norðausturhorni kirkjunnar mun vera steyptur kjallari frá því um 1960. Timburhluti Saurbæjarkirkju, þ.e. kirkjan að frátöldum torfveggjum er 9,63x5,33m en torfveggir eru 10,8m að lengd og skaga því um tæplega 60cm út fyrir timburstafnana hvoru megin. Torfveggur sunnanmegin er 1,7m á breidd en norðurveggur 2,2m. Alls er því grunnflötur Saurbæjarkirkju að viðbættum torfveggjum 10,8x9,23m.

Byggingameistari Saurbæjarkirkju var Ólafur Briem timburmeistari á Grund. Hann var fæddur á Kjarna í Eyjafirði þann 29. nóvember 1808. Hann fluttist barnungur að Grund í Eyjafirði ásamt foreldrum sínum, Gunnlaugi Briem sýslumanni og Valgerði Árnadóttur. Hann sýndi ungur tilhneigingar til smíða og hagleiks og faðir hans, sem hafði í bernsku ætlað sP8110999ér að verða myndhöggvari, vildi gefa syni sínum tækifæri til þess að þroska þessa hæfileika sína. Sendi hann bréf til ekki ómerkari manns en Bertels Thorvaldsen og leitaðist eftir því, að hann tæki Ólaf til náms í höggmyndalist. En Thorvaldsen var þá búsettur í Róm og þangað var nokkuð örðugt um póstsendingar fyrir 200 árum síðan. Ekki er vitað, hvort Bertel fékk nokkurn tíma bréfið en það varð úr, að Ólafur var sendur til náms í trésmíði til Danmerkur. Þangað sigldi hann tæplega 17 ára gamall, haustið 1825. (Nú gætu gárungar lagt saman tvo og tvo og fengið þá niðurstöðu, að hefði Ólafur numið höggmyndalist hjá Thorvaldsen stæði kannski ekki kirkja þarna heldur myndastytta).

Smíðanáminu lauk Ólafur árið 1831 og fluttist þá heim aftur og hóf störf við smíðar. Settist hann að á Grund og bjó þar allan sinn aldur eftir það. Hann kvæntist Dómhildi Þorsteinsdóttir árið 1838. Ólafur hafði smíðaverkstæði á Grund og mun hafa bætt nokkuð húsakostinn, hann byggði t.d. nýja kirkju þar árið 1842. Hana reif annar stórtækur Grundarbóndi, Magnús Sigurðsson, eftir 1905 er hann hafði reist hina veglegu kirkju er þar stendur nú. En Ólafur stýrði eða kom að byggingum fjölda kirkna og timburhúsa m.a. flestallra kirkna í Eyjafirði, Hrafnagili, Miklagarði, Grund, Hólum og Möðruvöllum (aðeins tvær síðasttaldar standa enn) auk Hvanneyrarkirkju á Siglufirði, á Þóroddsstað í Kinn og Draflastöðum í Kinn (sbr. Benjamín Kristjánsson 1968:113-118).  Þá reisti einnig verslunarhús í kaupstöðum. Í Skjaldarvík reisti hann veglega stofu (íbúðarhús) árið 1835. Það hús flutti Gránufélagið á Oddeyri árið 1876 og mun það vera austasti hluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:255). Ólafur Briem lést í byrjun árs 1859, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann reisti Saurbæjarkirkju. Ólafur mun koma nokkuð við sögu í næstu pistlum um kirkjur Eyjafjarðar.

Það mun vera nokkuð nákvæmlega skráð hvernig vinnu vP8291014ar háttað við smíði kirkjunnar en að henni komu ýmsir lærlingar, snikkarar og ýmsir sóknarmenn úr hreppnum lögðu einnig til sjálfboðavinnu. Þá var ráðinn maður, sérstaklega til torfhleðslu. Launuð vinna mun hafa verið 218 dagsverk en sjálfboðavinna um 60 dagsverk. Alls hljóðaði reikningurinn upp á 633 ríkisdali og auk vinnunnar var þar fæði og hressing til handa vinnumönnum, auk kaffis og brennivíns „eftir venjunni“ og brennivín „til svölunar undir púlinu“ fyrir þá sem óku grjóti og timbri til kirkjunnar (sbr. Kristján Eldjárn 1964:15). Af þessu má ráða, að ekki skorti kirkjusmiði brennivín meðan á vinnu stóð!

Það kann að þykja dálítið sérstakt, að Saurbæjarkirkja sé torfkirkja þegar það er haft í huga að hún er yngst 19. aldar kirknanna í Eyjafirði og reist af byggingameistara, sem sérhæfði sig í timburhúsabyggingum. Þegar leið á 19. öld var það almennt svo, að timbrið ætti að taka við af torfinu. En þetta mun eiga nokkrar skýringar. Mögulega gæti það hafa verið nýtni; norðurveggur eldri kirkjunnar frá 1794 var nýtilegur og mun hann að einhverju leyti vera uppistaða núverandi kirkju. Þá gæti íhaldssemi sr. Einars Thorlacius hafa haft áhrif,  hann hafði verið prestur í meira en 40 ár og kominn á efri ár. Þá er ein athyglisverð kenning reifuð í Kirkjum Íslands: „Þá er hugsanlegt að hrein skynsemi hafi ráðið ferðinni [að byggja úr torfi] en kirkjan stendur berskjölduð uppi á hæð þar sem vindur getur orðið sterkur. Þegar þannig háttar til er mikið öryggi af torfklæðningu“ (Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:297). Löngu síðar reyndi einmitt á þetta. Haustið 1900, nánar tiltekið þann 20. september, gekk annálað ofsaveður yfir Norðurland. Þá gerðist það, að nýtt þinghús Saurbæjarhrepps, sem reist hafði verið úr timbri fremst á Kirkjuhólnum fauk af grunni, lenti á kirkjugarðsveggnum og brotnaði í spón (sbr.  Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:836).  Hafi þeir sr. Einar og Ólafur Briem ákveðið að reisa kirkjuna með torfveggjum sem vörn gegn ofsaveðri, má segja að þarna hafi komið á daginn, að þeir höfðu lög mæla. Voru þeir reyndar báðir löngu látnir þegar þetta gerðist. Af þinghúsmálum Saurbæjarhrepps er það að segja, að úr viðum hússins sem fauk var reist nýtt þinghús á sama stað. Það var rifið um 1934, þegar reist var nýtt samkomuhús úr steinsteypu austan og neðan hólsins. IMG_0927 

Elsta lýsing á Saurbæjarkirkju er frá því hún var nýbyggð, nánar tiltekið 25. ágúst 1858. Þá vísiteraði prófasturinn Guðmundur E. Johnsen hina nýbyggðu kirkju. Visitasíuskýrslan er mjög löng og írtarleg en hér eru nokkrar glefsur: Kirkja þessi, sem er torfkirkja, er að lengd 14 ½ alin, þar af er kórinn 5 ¾ alin; á breidd er hún 7 álnir, 13 þumlungar; á hæð frá gólfi og á efri bitabrún 3 álnir, 14 þumlungar, og er frá efri bitabrún til mænis 4 álnir, 1 þumlungur, allt mælt að innan. Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar hvíla á lausholtum yfir 18 stoðum. Húsið er byggt á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring og alþiljað að innan, bæði til hliða og á báðum stöfnum upp í gegn, með plægðu póstþili. [...] Bæði stafnþilin eru hið ytra af heilum borðum og venjulegum vindskeiðum. Fyrir kirkjunni er sterk vængjahurð á járnum, með járnlokum að ofan – og neðanverðu á öðrum vængnum að utan og innan eru strikaðir listar og yfir dyrunum að utanverðu er þríhyrningur einnig með listum allt um kring, sem er málaður með bláum lit, ásamt hurðinni og dyraumbúningnum að utan.

Að lokum segir prófastur: Yfir höfuð er smíðið á kirkjunni fagurt, sterkt og vandað. Suðurveggur hússins er nýhlaðinn upp af torfi og grjóti, en á ofan á hinn gamla norðurvegg, sem var eins góður og nýr, hefur verið hlaðið, eins og þak hússins útheimti. Húsið er og vel þakið og hellulagt og þilin bæði eru einu sinni bikuð (Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:289-290).

Prestsetur var Saurbær til ársins 1931 en ekki fann greinarhöfundur prestatal fyrir staðinn við fljótlega leit. Hér verður gerð tilraun til slíks tals: Sr. Einar Thorlacius lét af prestsembætti í Saurbæ, og prestskap yfirhöfuð, árið 1867 þá orðinn 77 ára og hafði þá þjónað í Saurbæ í um 45 ár. Saurbæ í Eyjafjarðarsýslu virðist ekki að finna í Manntali árið 1870 en árið 1872 sest þar að séra Jón Austmann. Gegndi hann embætti til ársins 1881. Þá tók við sr. Guðjón Hálfdánarson sem lést tveimur árum síðar. Eftir fráfall Guðjóns settist sr. Jakob Björnsson að í Saurbæ og sat þar rúm 30 ár, eða til 1916. Það er ekki að sjá í manntölum árin á eftir að nýr prestur setjist að í Saurbæ eftir að Jakob lét af störfum en hann er skráður sem „prestur emeritus.“  Saurbæjarprestakall hafði raunar verið lagt niður árið 1907 og lagt undir Grundarþing. Árið 1920 fluttist hins vegar í Saurbæ séra Gunnar Benediktsson.

Framangreindir prestar höfðu eflaust allir sinn hátt á viðhaldi kirkjunnar og hugmyndir um breytingar. Um 1880 koma t.d. fram hugmyndir um að rífa torfveggi og klæða veggina með timbri. Um svipað leyti var tekið niður klukknaport og klukkunum komið fyrir á núverandi stað, á vesturstafni kirkjunnar. Á þriðja áratug 20. aldar voru uppi hugmyndir um að reisa nýja kirkju úr steinsteypu en af því augljóslega  ekki. Þáverandi prestur, sr. Gunnar Benediktsson réðst hins vegar í byggingu veglegs prestseturs úr steinsteypu, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, og leysti það hús af hólmi torfbæ sem jafnframt var rifinn. Fáeinum árum eftir byggingu prestsetursins, eða árið 1931, fluttist Gunnar hins vegar í burtu. Var hann síðasti presturinn sem sat að Saurbæ.

Það mun hafa verið svo snemma sem á fjórða áratug 20. aldar að torfkirkjan í Saurbæ fór að vekja athygli þeirra, sem leið áttu um Eyjafjörð. Árið 1937 var t.d. nefnt í vísitasíu, að töluverður ferðamannastraumur sé til Saurbæjar að skoða kirkjuna (sbr. Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:293). Líkt og nærri má geta var „ferðamannaiðnaðurinn“ og ferðavenjur fólks þá, töluvert frábrugðnar því sem nú er. Orðið „ferðamannastaður“ hafði t.d. aðeins birst tvisvar í rituðu máli árið 1937 skv. timarit.is, en skemmtiferðir og ferðalög án hagnýts erindis voru lítt þekkt og ekkert endilega hátt skrifuð meðal almennings í bændasamfélagi fyrri tíma. Það var svo árið 1953 að biskup lagði fram formlega fyrirspurn til Þjóðminjavarðar; Kristjáns Eldjárn, um hvort hið opinbera hyggðist vernda kirkjuna sem forngrip og hvort hið opinbera væri tilbúið að kosta viðgerð kirkjunnar (Sbr. Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:294).

Á árunum 1959-60 fór fram viðamikil viðgerð á Saurbæjarkirkju, að innan jafnt sem utan á vegum Þjóðminjavarðar. Var þá m.a. steyptur kjallari undir norðausturhorn og farið í hinar ýmsu framkvæmdir á torfhleðslum. Þá voru vindskeiðar á stöfnum málaðar hvítar, sem setur nokkurn svip á kirkjuna en áður voru þær tjargaðar. Hönnuður og umsjónarmaður þessara framkvæmda var Sigurður Egilsson. Aftur voru gerðar endurbætur á kirkjunni árin 2002-2005 undir stjórn Haraldar Helgasonar, arkitekts á Þjóðminjasafninu. Saurbæjarkirkja hefur verið í umsjón og vörslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 1962 og hefur safnið tryggt kirkjunni fyrsta flokks viðhald og hirðingu alla tíð síðan. Saurbæjarkirkja er ein af fáum torfkirkjum landsins og nýtur friðunar sem slík en hún var friðuð árið 1990. (Raunar var hún friðlýst sem fornminjar árið 1959 en sú friðlýsing mun ekki hafa talist gild vegna formsatriða). Enn er kirkjan notuð sem sóknarkirkja, þar eru haldnar skírnir, brúðkaup og stundum messur. Einhverjum kann að þykja það ótrúlegt, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Eyjafjarðarsveitar rúmar kirkjan 60 manns í sæti. (Gildir kannski þar sama lögmál og félagsheimilið í Stuðmannamyndin Með allt á hreinu; sem var lítið að utan og stórt að innan). Saurbæjarkirkja er til mikillar prýði í fallegu umhverfi og svo sannarlega ein af perlum eða djásnum Eyjafjarðar. Hefur hún laðað að ferðamenn frá því löngu áður en ferðaþjónusta varð sú undirstöðuatvinnugrein, sem hún nú er. Myndirnar eru teknar 13. júní, og 29. ágúst 2020, 11. ágúst 2021 og 8. ágúst 2023.

Heimildir: Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007. Saurbæjarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 283-312. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristján Eldjárn. 1964. Á söguslóðum. Saurbæjarkirkja í Eyjafirði. Í Morgunblaðinu 177. tbl. 51. árg. 31. júlí 1964. Bls. 15. (af timarit.is)

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.


Hús dagsins: Brekkugata 3

Brekkugata 3 er vafalítið eitt af stærstu timburhúsum Akureyrar en það er alls fjórar hæðir og stendur á norðvesturhorni Ráðhústorgs. Við norðurenda hússins fer Brekkugatan að halla uppá við. Fá hús hefur verið byggt við jafn oft og Brekkugötu 3, en húsið hefur verið stækkað á flestalla kanta, til þriggja átta og upp á við.

IMG_1253

     Brekkugata 3 er  stórhýsi, þriggja hæða timburhús á steinsteyptum kjallara og  með lágu aflíðandi risi með broti (mansard).  Stigabygging er á bakhlið og þar er gengið inn á efri hæðir hússins en neðsta hæð er steinsteypt og þar er gengið inn frá götu. Verslunar- og þjónusturými er á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Húsið er allt bárujárnsklætt, bæði veggir og þak. Gluggar framhliðar eru heilir og póstlausir en annars eru krosspóstar í gluggum hússins. Á bakhlið hússins stendur einnig steinsteypt bakhús, Brekkugata 3b. Það hús er tvílyft steinsteypuhús með einhalla þaki en það var byggt í áföngum árin 1931-44.  Þessi hús, Brekkugata 3 og bakhúsið voru tengd saman með einlyftri tengibyggingu árið 1970. Grunnflötur framhússins, án útbygginga, er skv. teikningum Haraldar Árnasonar frá 2014 um 8,88x10,22m. Að vestan er viðbygging, 6,45x3,48 og útskot á norðurstafni, 4,50x1,85m. Á suðurhlið er viðbygging við jarðhæð, 3,15x13,30m. Grunnflötur bakhúss, u.þ.b. 12x10m, útskots til vesturs 3x6m og tengibygging er um 8x9m að grunnfleti (ónákvæmar mælingar afIMG_1255 map.is).

     Árið 1901 fluttist til Akureyrar 28 ára gamall Þjóðverji að nafni Heinrich Bebensee. Hann var klæðskeri eða skraddari og stundaði iðn sína í húsi Einars Jónssonar málara á Oddeyri (Norðurgata 9, síðar flutt á Fróðasund 11). En haustið 1902 fór Bebensee að huga að húsbyggingu. Þann 18. september það ár mældi bygginganefnd lóð fyrir hann norðan við „hús Jósefs smiðs.“ Var Bebensee heimilað að reisa hús, 14x10 álnir sem eru eitthvað nærri 6,3x8,8m, að grunnfleti, 5 álnir (rúmir 3 metrar frá lóðarmörkum Jósefs). Umrætt hús  „Hús Jóseps“ [Jóhannessonar] járnsmiðs, var þá nýrisið eða í byggingu. Það er í Manntali 1902 kallað Vesturgata 1 en varð ári síðar Brekkugata 1 og er það enn. Bebensee rak klæðskerastofu í húsinu og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni, en hann var kvæntur Guðbjörgu Bjarnadóttur (1879-1933) frá Illugastöðum í Laxárdal í Húnavatnssýslu. Guðbjörg tók upp ættarnafn eiginmanns síns, Bebensee.

    Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1903 en árið 1907 heimilaði bygginganefnd Hinrik Bebensee eftirfarandi: (ath. stafsetningu, orðrétt tilvitnun)

  1. a) Byggja viðbót við norðurstafn hússins, áframhald af framhlið hússins 3 ál.x 7 ál. , að því áskyldu að eldvarnargafl sje settur fyrir norðurstafn viðaukans. Glugga og dyraskipun á framhlið má breyta eptir framlagðri teikningu.
  2. b) Breiðka húsið um 6 ál. með því að byggja við bakhlið hússins skúr jafnháan þakskeggi. Stærð hans verði 6 x 14ál. (Bygg.nefnd. Ak 1907: nr. 328)

Við þessar breytingar mun þak hússins hafa fengið svipað lag og það hefur síðan, en húsið var enn aðeins tvílyft.  Á gamlársdag árið 1916 var húsið metið til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar og klæðskerahús, tvílyft með lágu risi og kjallara undir 2/3 af húsinu, eldvarnargafl við norðurstafn. Á gólfi (neðri hæð) við framhlið, þ.e. austamegin: ein stofa, klæðskerabúð og forstofa. Á gólfi við bakhlið þ.e. vestanmegin á neðri hæð:  Klæðaskurðarstofa, tvö herbergi og forstofa. Á lofti voru alls sex stofur, þrjár austanmegin og aðrar þrjár vestanmegin og í vesturhluta efri hæðar var eldhús og búr. Þrjár geymslur voru í kjallara. Við bakhlið var lítill skúr og viðbygging við norðurstafn, jafnhá húsinu. Í húsinu voru fimm kolaofnar og ein eldavél sem tengdust tveimur skorsteinum. Allt var húsið járnklætt, veggir jafnt sem þak. Mál hússins voru sögð 10,7x10,4m og 7,5m á hæð (sbr.  Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 197).IMG_1254

      Af Heinrich Bebensee er þá sorgarsögu að segja, að hann hvarf frá heimili sínu haustið 1921 og var talinn hafa drukknað. Á vordögum 2024 mun birtast ítarleg grein í Súlum, norðlensku tímariti um sögu Brekkugötu 3 og þar hyggst greinarhöfundur fjalla nánar um hvarf Heinrichs Bebensee.

      Eftir sviplegt fráfall Bebensee mun bróðir Guðbjargar, Sveinn Bjarnason, hafa tekið við húseigninni og árið 1923 tók hann til við að stækka húsið. Fékk Sveinn leyfi til að byggja upp 3. hæð hússins, með því skilyrði að eldvarnarveggurinn [frá 1907] yrði rifinn og steyptur oplaus veggur kæmi norður og vestur við útbyggingu. Mátti sá veggur ekki vera þynnri en 23 cm og nægilegt járn skyldi vera í steypunni. Á ljósmynd frá 1927 sést að húsið hefur það lag sem það hefur nú, orðið alls fjórar hæðir.

     Sveinn Bjarnason, sem starfaði um árabil sem framfærslufulltrúi Akureyrbæjar, átti allt húsið og leigði út íbúðir og herbergi. Á  meðal 25 íbúa Brekkugötu 3 árið 1930 er Karl Ottó Runólfsson, titlaður kennari. Karl (1900-1970) var einn af fremstu tónskáldum þjóðarinnar og er kannski þekktastur fyrir lagið Í fjarlægð . Sveinn Bjarnason stóð í miklum byggingarframkvæmdum að Brekkugötu 3 mestallan fjórða áratuginn, en árið 1931 reisti hann fyrsta áfanga bakhúss, Brekkugötu 3b. Árin 1935-37 átti hann í miklum samskiptum við Byggingarnefnd vegna bakhússins, hann vildi hækka húsið og ýmist nota viðbótarhæð undir iðnað og íbúðir. Árið 1944 byggir Sveinn enn við bakhúsið og líkt og í tilfelli framhússins tveimur áratugum fyrr, hækkaði hann húsið um eina hæð. Sú bygging var gerð eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar.  Á árunum 1969-70 gengur enn í garð „breytingaskeið“ á Brekkugötu 3 en þá mun hafa verið byggð tengibygging milli fram- og bakhúss, auk þess sem byggt var við framhúsið, einnar hæðar bygging til suðurs. Margvíslegar breytingar hafa þannig verið gerðar á Brekkugötu 3 gegnum tíðina. IMG_1257

    Húsið hefur hýst ýmsa verslunar-, veitinga-, og iðnaðarstarfsemi, allt frá því húsið var klæðskerastofa Bebensee hins þýska og yrði alltof langt mál að telja það upp hér. M.a. hófst starfsemi verslunar Tiger (nú Flying Tiger) á Akureyri um 2002.  Í húsinu hefur líka verið hárgreiðslustofa, saumastofa og Sparisjóður, svo fátt eitt sé nefnt.  Bakhúsið hefur lengst af verið vörugeymsla, verkstæði og einnig íbúð. Þar var einnig leiktækjasalur um hríð. Ljóst er að Brekkugata 3 er hús með langa og merka sögu að baki, þarna hafa vafalítið þúsundir manna starfað og búið í gegnum tíðina og fólk á öllum aldri sem á minningar um einhverja verslun eða starfsemi þarna. Sjálfsagt hafa fá hús í bænum tekið jafn miklum breytingum gegn um tíðina og Brekkugata 3. Á efri hæðum hússins eru nú nokkrar leiguíbúðir og Vistvæna búðin á götuhæð.

    Brekkugata 3 er stórt, stórbrotið og reisulegt hús og setur mikinn svip á hjartaP8180223 Miðbæjar Akureyrar, Ráðhústorg. Það er í góðri hirðu og til mikillar prýði og á bakvið það er gróskumikil lóð sem nær upp í brekkuna neðan Bjarmastígs. Þar stóð lengi vel ein elsta og merkasta stafafura landsins, en hún féll í ofsafenginni haustlægð seint í september 2022. Í Húsakönnun, sem unnin var um Miðbæjarsvæðið er það sagt hafa „[...]gildi fyrir götumynd Brekkugötu og Ráðhústorgs. Húsið er reisulegt og stendur á áberandi stað“ (Landslag arkitektastofa 2014:38).  Þá er húsið aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. ágúst 2015 og 14. nóvember 2023. Á myndinni frá 2015 sést stafafuran mikla vel.

 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðarbækur frá 1902-21, 1921-30, 1930-35, 1935-1941 og 1941-48. Fyrstu þrjár fundargerðir, viðvíkjandi Brekkugötu 3: nr. 237, 18. sept. 1902, nr. 328, 17. júní 1907 og nr. 535, 1. maí 1923. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær. Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Eyfirskar svipmyndir. Sólríkir haustdagar í fremri byggðum.

Ásamt því að viða að mér fróðleik og skrifa um gömul mannvirki eru hjólreiðar eitt mitt helsta tómstundagaman. Þar hef ég tök á því að sameina samgöngumáta, áhugamál og líkamsrækt. Einhvern veginn hef ég ekki náð tökum á því að fara í ræktina, það er hlaupa á brettum eða lyfta lóðum o.s.frv. í yfirbyggðum líkamsræktarstöðvum heldur fellur mér betur, að stunda mína hreyfingu utandyra. En ég hefði eflaust gott af hinu. Á góðviðrisdögum veit ég fátt betra en að stíga á fákinn og bruna af stað, helst eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þá er ævinlega stefnt fram í Eyjafjarðarsveit en fram að Hrafnagili liggur stórfínn göngu/hjólastígur og ágætt að komast á Eyjafjarðarbrautirnar af honum. Ég hætti mér sjaldan í hina áttina, þ.e. út með Kræklingahlíð og áleiðis til Dalvíkur (eða Reykjavíkur) en mér stendur nokkur stuggur af því að hjóla á þjóðvegi 1. Í þessum hjóltúrum er myndavélin ævinlega með í för en það er líka eitthvað, sem ég hef unun af, að taka myndir af umhverfinu. Í svona hjóltúrum sameinast þannig ótalmörg hugðarefni, hjólreiðar, ljósmyndun, líkamsrækt, húsa-og mannvirkjasaga (ég tek oft myndir af gömlum húsum og brúm á þessum ferðum) og náttúrufræði því Eyjafjarðarsvæðið er ríkt af hinum ýmsu náttúrufyrirbrigðum, sem vert er að gefa gaum. En hér koma nokkrar svipmyndir, flestar teknar á hjóltúrum um nærsveitir Akureyrar laugardagana 7. og 21. október sl. 

BYGGING LANDSINS- í bókstaflegri merkingu!

Ísland er myndað fyrir tilstuðlan eldvirkni síðustu 20 milljón ára eða svo. Elstu hlutar landsins eru Austfirðir og Vestfirðir en yngstu hlutarnir eru á Reykjanesskaga og við Kröflu. Eyjafjarðarsvæðið er talið um 7-10 milljón ára gamalt. Þar hefur verið óskapleg eldvirkni en það sést á því, að óvíða er að finna hærri fjöll, Tröllaskaginn nær mest rúmlega 1500 metra hæð í vestanverðum Eyjafirði, nánar tiltekið í hátindi Kerlingar. Hæð íslenskra fjalla ræðst  að mestu leyti af því, hversu mikið efni hefur hlaðist upp. 

IMG_1135

 IMG_1175

 

 

 

 

 

 

 

 

Kerling, séð annars vegar frá Finnastaðaá og hins vegar af Eyjafjarðarbraut eystri. Bærinn fyrir miðju á myndinni til hægri heitir Alda. Strýtulaga hnjúkurinn á myndinni til vinstri kallast Jómfrú. 

Þeir sem séð hafa klettabelti í fjöllum kunna að hafa veitt því athygli, að þau eru oftar en ekki í mörgum lögum. Mætti líkja þeim við lagköku (randalín) þar sem klettaböndin eru eins og botnarnir en malar- og jarðvegslög eins og sultan. Þarna er um að ræða hraunlagastafla frá myndun landsins. Á myndinni fyrir neðan má sjá allt að 40 slík lög frá efstu skriðum upp af fjallsbrúnum í fjallinu Tröllshöfða framarlega í Eyjafirði. Þarna er semsagt um að ræða hraunlög sem runnið hafa hvert ofan á öðru í fyrndinni. Á milli hvers gætu hafa liðið fáein ár en í flestum tilvikum eru líklega hundruð eða þúsundir ára milli hraunlaga. Á þeim tíma hefur myndast gróður og jarðvegur, sem síðan hefur orðið undir nýjum hraunum; þar eru komin millilögin. IMG_1232                                   IMG_1233

 

 

 

 

 

 

 

 

Þarna hefur verið gríðarleg framleiðsla á hraunum, sem hlaðið hefur upp meira en kílómetra þykkum stafla, mörg þúsund ferkílómetra að flatarmáli. Eldvirkni byggði upp en síðar kom að roföflunum, þar sem mest munaði um ísaldarjökla. Þeir skópu dali og firði og þegar stuðnings þeirra naut ekki við, áttu fjallshlíðar til að gefa sig. Þannig var það t.d. í tilfelli Möðrufellsfjalls:

IMG_1134

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í haustmorgunsólinni má mjög greinilega sjá hraunlagastaflann en aðeins á hluta fjallsins. Þannig er nefnilega mál með vexti, að fyrir einhverjum þúsundum ára var þarna ægilegt framhlaup sem "opnaði á" hraunlagastaflann sem þarna blasir við sem mikið hamrastál. Og það sem meira er, þetta hefur gerst tvisvar, því greina má aðra "hillu" eða skál ofar í fjallinu. Framhlaup þetta myndaði hólaþyrpingu, sem alsett er grettistökum og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957: 179-180) telur, miðað við athugun öskulaga, að neðra berghlaupið hafa átt sér stað fyrir 2500-3000 árum en það efra fyrir um 5-6000 árum.

ÝMISLEGT, EITT OG ANNAÐ

IMG_0924

 

 

 

 

 

 

 

 

Við Sólgarð stendur kýrin Edda. Hún er stórvirki þúsundþjalasmiðsins Beate Stormo í Kristnesi. Edda var flutt á þennan stað sl. sumar og er nú sérlegt kennileiti á þessum slóðum. Það var auðvitað ekki hægt annað, en að fá mynd af sér með henni þegar við Árni Már Árnason vorum á ferðinni um fremri byggðir Eyjafjarðar þ. 8. ágúst sl. 

IMG_1242

 

 

 

 

 

 

 

 

Horft af brúnni. Nánar tiltekið brúnni við Halldórsstaði, fremstu brú yfir Eyjafjarðará og jafnframt þá einu sem er á einkavegi. Halldórsstaðir er jafnframt eini bærinn í Eyjafirði, þar sem heimreiðin liggur yfir Eyjafjarðará. 

IMG_1240

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Horft NIÐUR af brúnni

IMG_1244

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Liðið haust hefur verið sérlega blíðviðrasamt. 21. október var veðrið líkt og á sumardegi en það er ekki sjálfgefið, að á þessum tíma árs viðri fyrir langhjólreiðar. (Það er reyndar ekki sjálfgefið yfir hásumarið heldur). Hér má sjá Hólavatn. Sumarbúðir KFUM og K nokkurn veginn faldar í trjágróðri nærri miðri mynd. 

IMG_1236

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef marka má skiltið, má finna Sprengisand þarna í skógarrjóðrinu laughing. Myndin er tekin við Hólsgerði, fremsta byggða ból Í Eyjafirði. Þangað eru 46 km frá Akureyri. Frá Hólsgerði eru líka um 290 kílómetrar til Selfoss! Það er, ef farið um Laugafell, Nýjadal, Skeið og Þjórsárdal. 

IMG_1237

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd er tekin við heimreiðina að Villingadal. Sú heimreið er líklega með þeim lengri á landinu en hún er rúmir 2 kílómetrar og liggur um syðstu hluta Leyningshóla. Áin fyrir miðri mynd er Torfufellsá, en til vinstri á mynd eru einmitt hlíðar Torfufellsfjalls. Snævi þakta fjallið í miðjunni mun vera Leyningsöxl en um hana klofnar Torfufellsdalur í Svardal í vestri (vinstra megin á mynd) og Leyningsdal í austri. Raunar heitir dalurinn Torfufellsdalur austanmegin og Leyningsdalur vestanmegin.

IMG_1160

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

VEGIR OG BRÝR

Fremsta brúin á Eyjafjarðarbraut eystri er yfir Torfufellsá. Þaðan eru 43 km til Akureyrar.

IMG_1163 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar það spurðist út, að ég hyggðist gefa út bók um brýr yfir Eyjafjarðará var ég mikið spurður, hvort Hólabrú yrði með. En í bókinni eru aðeins þær brýr, sem yfir ána liggja á því herrans ári 2023. Hólabrú var mjó göngubrú; hengibrú úr timbri, plankar með sem héngu á vírum á milli árbakkana á merkjum Ártúns og Skáldsstaða. Brúin var byggð 1948 en tekin niður skömmu eftir aldamótin. Enn standa uppi af henni tveir staurar á austurbakkanum. 

IMG_1157

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Elstu brýr yfir Eyjafjarðará, sem enn eru í notkun, eru jafngamlar, byggðar 1933. Um er að ræða Stíflubrú við Möðruvelli og Hringmelsbrú eða Bogabrúin við Sandhóla. Þessar myndir eru teknar 28. ágúst 2022.                                   

P8281034

P8281037

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Yfir eitt hrikalegasta gljúfur Eyjafjarðarsveitar, Munkaþverárgil, liggur hins vegar ein elsta, ef ekki allra elsta brú sem enn er í notkun á þjóðvegi. Hún er að stofni til frá 1913 en var endurbyggð 1958.                                

IMG_1184

IMG_1182

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Verðum við ekki að hlýða á "Bridge over troubled water" (Brú yfir ólgandi vatn) þeirra Simon og Garfunkel fyrst við erum að spá í þessar brýr). 

 

Og ætli það sé þá ekki ágætt að ljúka þessari myndasýningu með nokkrum myndum, sem teknar eru á Eyjafjarðarbraut vestri og Hólavegi, undir yfirskriftinni "Country Roads" (Sveitavegir) John Denver. 

IMG_1151 IMG_1231

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_1245IMG_1248

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þar sem þessi færsla er að breytast úr myndasýningu í einhvers konar útvarpsþátt er kannski allt í lagi að deila með lesendum lagi, sem mér þykir alveg óskaplega gaman að hlusta á, þegar ég er á ferðinni um sveitavegina; "Fugitive" flutt af Merle Haggard. Að hafa þetta lag í "Bluetooth" hátalara, hangandi á stýrinu í bland við niðinn af dekkjunum um Eyjafjarðarbrautirnar á 25-30km hraða er eiginlega ólýsanlegt! 


Hús dagsins: Grundargata 3

Sum hús hafa breyst meira en önnur gegnum tíðina. Grundargata 3 á Oddeyrinni tilheyrir líklega fyrrnefnda hópnum en tíðin sú slagar reyndar hátt í hálfa aðra öld í því tilfelli...

Grundargata 3 er eitt af elstu húsum Oddeyrar,20231027_154256 en það var reist 1885-86 af Einari Sveinssyni og Jónatan Jósepssyni. Það var mögulega síðla í ágúst árið 1885 að Bygginganefnd kom saman á Oddeyri í tilefni af beiðni Einars Sveinssonar um leyfi til að byggja hús á lóð sem hann hafði fengið fyrir norðan hús Ólafs Jónssonar. Dagsetningu vantar í þessa tilteknu fundargerð bygginganefndar, en næstu tveir fundir á undan eru skráðir 20. og 24. ágúst, 1885. Húsið átti að vera 12x9 álnir (u.þ.b. 7,6x5,7m), 10 álnir frá grunni að „úthýsi Ólafs“ og í beinni línu með íbúðarhúsi og hesthúsi hans að austan. Húsið átti að snúa frá norðri til suðurs. Á næstu árum og áratugum byggðust fleiri hús við götuna í þessari sömu „línu með húsi Ólafs“ og fékk sú gata nafnið Grundargata. Umrætt hús Ólafs Jónssonar brann til grunna árið 1908. 

Grundargata 3 er tvílyft timburhús, nyrsti hluti þess steinsteyptur, á lágum kjallara með lágu risi. Framhlið og stafnar eru múrhúðaðir en bárujárn á veggjum bakhliðar. Miðhluti hússins er eilítið inndreginn að aftan en síðari tíma viðbyggingar skaga örlítið út fyrir upprunalegan grunnflöt að aftan, útskot á suðurenda nokkru lengra. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki. 20231027_154314

Í upphafi var hús Einars Sveinssonar, síðar Grundargata 3, töluvert öðruvísi en nú og lag þess líkast til ekki óáþekkt næsta húsi, Grundargötu 5, (sem var reyndar byggt rúmum áratug síðar). Það er, einlyft timburhús á lágum kjallara með háu risi.  Einar Sveinsson hefur ekki átt húsið lengi, mesta lagi í fimm ár, en húsið var frá upphafi tveir eignarhlutar. Í Brunabótavirðingu frá 1917 er Jónatan Jósepsson, sem byggt mun hafa  norðurhlutann og bjó  þar lengst af í norðurhluta hússins, einnig sagður hafa byggt suðurhluta þess. Það gæti jafnvel verið, að Jónatan hafi keypt eða tekið við byggingaleyfi Einars eða framkvæmdinni.  Árið 1890 kallast húsið Jonathanshúsið og Edvaldshús og eru eigendur þess Jónatan Jósepsson, titlaður húsbóndi og „erfiðismaður“ í manntali og Edvald Jónsson húsbóndi og beykir. Sá síðarnefndi mun hafa átt suðurhlutann. Í téðu manntali árið 1890 búa alls fjórtán manns í Jónatanshúsinu og Edvaldshúsi á Oddeyri, fjölskyldur þeirra Jónatans og Edvalds. Þess má geta, að árið 1890 báru tveir íbúar hússins titilinn erfiðismenn, en auk Jónatans var Ágúst Jónsson, 26 ára húsmaður hjá Eðvaldi Jónssyni, einnig titlaður erfiðismaður.

Jónatan Jósepsson (1854-1931) var múrari og mun lengi hafa verið sá eini í bænum. Hann var fæddur og uppalinn á Hólum í Saurbæjarhreppi.  Á meðal barna Jónatans og konu hans, Jónínu Guðmundsdóttir (1854-1943) frá Akurseli í Kelduhverfi , var sonurinn Tryggvi. Hann var fæddur 15. apríl 1892, líkast til í þessu húsi. Tryggvi lærði múriðnina af föður sínum og hlaut meistararéttindi í þeirri iðn. Hann var einn af mikilvirkari húsateiknurum á Akureyri og á heiðurinn af mörgum húsum frá fyrri hluta 20. aldar m.a. á Oddeyri og neðri hluta Brekkunnar. Stór hluti Ægisgötunnar, heilsteypt röð einlyftra steinhúsa með valmaþaki og horngluggum, eru verk hans.20231027_154329 

Í byrjun árs 1913 fær þáverandi eigandi suðurhlutans, Steinn Jóhannsson leyfi til byggingar, jafnbreiða húsinu og 5 álnir að lengd. Ári síðar, eða snemma árs 1914, sækir Jónatan Jósepsson um að stækka sinn hluta til norðurs og sú viðbygging var úr steinsteypu. Bygginganefnd setur sem skilyrði, að Jónatan semji við „eiganda nábúalóðarinnar“ norðan við, þar eð viðbyggingin virðist ná inn á hana. Einnig setti nefndin það skilyrði, að ekki væru dyr, gluggar eða önnur op á norðurveggnum. Ekki liggja fyrir lýsingar, en ljóst að þessi viðbygging var tvílyft með lágu risi.

Í brunabótamati árið 1916 er suðurhluta Grundargötu 3 lýst á eftirfarandi hátt: Einlyftur með háu risi á lágum kjallara, lítill skúr áfastur við bakhlið, sameiginlegur með húshlutunum og geymsluskúr við suðurstafn. Á neðri hæð austanmegin (framhlið) voru stofa og hálf forstofa en vestanmegin eldhús og forstofa. Á lofti voru þrjú herbergi og gangur. Húsið sagt 6,9x5,7m að grunnfleti. Norðurhluti er metinn í tvennu lagi, annars vegar upprunalega húsið frá 1885 sem er sagt einlyft með háu risi og kjallara, innra skipulag nokkurn veginn það sama og í suðurhluta, nema hvað í risinu er aðeins eitt herbergi og gangur. Þessi hluti hússins er sagður 5,6x3,8m. Svo virðist, sem breidd norðurhlutans sé mæld meðfram götu (N-S) en breidd annarra hluta hússins þvert á götustefnu (A-V). Þetta sést á því,  að breidd suðurhlutans (5,7m) er nokkurn veginn jöfn lengd norðurhluta (5,6m). Steinsteypta viðbyggingin er sögð tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu með lágu risi á lágum kjallara, 6,3x3,7m. Þar voru ein stofa, austanmegin og vestanmegin eldhús og forstofa. Á efri hæð tvær stofur og gangur. (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 234 og 235).20231027_154358

Árið 1920 fær Jóhann Steinsson leyfi til að byggja við suðurhlutann, ekki kemur þó fram í hverju sú viðbygging felst en fram kemur í Húsakönnun 1995 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 93) að þá hafi suðurhlutinn verið hækkaður, væntanlega til samræmis við nyrsta hluta hússins. Þá skagar syðsti hluti hússins eilítið út úr bakhlið upprunalega hússins, líkt og nyrsti hlutinn. Síðar var miðhlutinn hækkaður og húsið múrhúðað. Á tímabili var hluti norðurhluta hússins með háu risi og smáum kvisti en væntanlega fékk framhlið hússins núverandi útlit um 1964. Þá voru gerðar breytingar á húsinu, sem var í eigu Magnúsar Albertssonar, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Kemur þar fram að sá hluti hafi áður verið ein hæð og ris en ekki fullkomlega ljóst, hvort sú breyting sé þegar orðin eða hvort breytingarnar felist í því, að umræddur hluti sé hækkaður. Í téðri Húsakönnun frá 1995 kemur reyndar fram, að eftir 1920 hafi húsið allt verið orðið tvílyft og fengið það lag sem það enn hefur. Á ljósmynd frá 1931 má hins vegar sjá, að örlítil sneið af framhliðinni, líklega suðurhluti rishæðar upprunalega hússins, er með háu risi og kvisti. Það er allavega nokkuð ljóst, að oft hefur verið prjónað við Jónatans- og Eðvaldshúsið, sem byggt var 1885 og myndar nú nokkurs konar kjarna í Grundargötu 3.

Vegna mikilla breytinga hlýtur húsið ekki hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020 en er engu að síður hluti varðveisluverðrar heildar. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, en elsti hluti þess er í hópi allra elstu húsa Oddeyrar. Grundargata 3 er dæmi um hús, sem tekið hefur miklum breytingum og verið byggt í mörgum áföngum á mörgum áratugum. Miklar viðbyggingar og breytingar frá upphaflegri gerð hafa að öllu jöfnu áhrif á metin varðveislugildi húsa og teljast þá sjaldnast til tekna. En óneitanlega er það svo, að margviðbyggð og margbrotin hús eru ekkert síður áhugaverð. Margar og miklar viðbyggingar segja vissa sögu og oft skapa síðari tíma viðbyggingar viðkomandi húsum sérstöðu og gera þau í raun einstök. Myndirnar eru teknar 27. október 2023.  

Grundargata 3

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tilgátuteikning höfundar af byggingaþróun „Jónatans-og Edvaldshúss" eða Grundargötu 3. Á teikningunni er vitaskuld allir mögulegir fyrirvarar, t.d. varðandi kvisti, gluggapósta og dyrarskipan. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 70, 1885 (ódagsett).  Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 374, 10. janúar 1913. Fundur nr. 387, 10. feb. 1913 Fundur nr. 476, 19. maí  1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

 


Hús dagsins: Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107)

Eftir síðustu grein um Gömlu Gróðrarstöðina hafði samband við mig Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ. Hann vann um tíma í Gróðrarstöðinni og ber húsinu vel söguna. Erindi hans var, að honum hafði áskotnast teikningar af Gróðrarstöðinni og koma því á framfæri að langafi hans, Guðlaugur Pálsson timbursmiður, hafi flutt inn efnið í húsið og stýrt byggingu þess. Þá muni nafn hans hafa sést letrað á fjalir inni í húsinu. Þannig var byggingameistari og mjög líklega hönnuður Gróðrarstöðvarinnar, Guðlaugur Pálsson. Þakka Jóni Birgi kærlega fyrir þessar ábendingar. En af Krókeyrinni færum við okkur á Oddeyrina...IMG_0037

Ránargata er ein  þvergatnanna sem gengur norður frá Eiðsvallagötu á Eyrinni.Liggur hún samsíða og vestan við Ægisgötu en austan við Norðurgötu. Ránargata tók að byggjast uppúr 1930 en flest húsin við hana voru byggð á fimmta og sjötta áratugnum. Húsin eru flest nokkuð svipuð, tveggja hæða steinsteypt hús með lágum valmaþökum. En hús nr. 13, sem stendur á horninu við Eyrarveg sker sig dálítið úr. Það er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti, járnklætt á steyptum kjallara. Grunnflötur er um 16x8,70m. Byggingalagi þess svipar raunar mjög til elstu húsa Oddeyrar t.d. við Strandgötu, Norðurgötu og Lundargötu. Enda er um að ræða hús frá því skömmu fyrir aldamótin 1900, um hálfri öld eldra en nærliggjandi hús. Og það er aðflutt, stóð áður við Hafnarstræti 107, þar sem nú er aðsetur Sýslumanns og áður Útvegsbankinn.

Ránargötu 13, áður Hafnarstræti 107, reistu þau Júlíus Sigurðsson bankastjóri og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir árið 1897. Þess má geta, að hún var systir Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns. Húsið byggðu þau við fjöruborðinu í krikanum milli Oddeyrar og Bótarinnar. Var það eitt af fyrstu húsum sem risu á hinu langa og illfæra einskismannslandi er í þá daga aðskildi Akureyri og Oddeyri. Ekki var um neitt byggingarleyfi að ræða, enda segir í Jónsbók, að bygging hafi hafist áður en landið var lagt undir kaupstaðinn, en það var árið 1896. Var þá land Stóra-Eyrarlands á Brekkunni lagt undir lögsögu Akureyrarkaupstaðar. Fram að því tilheyrði brekkan milli Akureyrar (Innbæjarins) og Oddeyrar Hrafnagilshreppi, kaupstaðarlandið þannig í raun tvær „hólmlendur“ inni í hreppnum. Það var hins vegar ekki fyrr en í febrúar 1897 að Júlíus keypti lóð milli Oddeyrar og Torfunefs með fyrirvara um nánari útmælingar. Það getur þó vel verið, að Júlíus hafi þegar hafið byggingu hússins árið áður enda þótt lóðin væri ekki í höfn formlega, en slíkt var ekkert einsdæmi. Á upphafsárum þéttbýlis á Oddeyri gátu meira að segja liðið nokkur ár frá því að hús var byggt og lóð var mæld út.   Það var svo 6. apríl sama ár að lóðin var mæld út, 15 faðmar norður-suður og 22 faðmar austur-vestur.  Söluverðið var 10 aurar á hverja fer-alin húsagrunns(63x63cm). Þá bættust við 10 aurar fyrir hvern faðm af annarri lóð, en höfum í huga að á þessum stað (þ.e. yst í Bótinni) var langt til næstu húsa árið 1897. Svo hæg voru heimatökin fyrir Júlíus, að stækka lóðina. Þá er rétt að geta þess, að ein alin er nálægt 63 centimetrum og faðmur var sagður 3 álnir (um 190cm). Þannig var lóð Júlíusar við Hafnarstræti 107 um 28x40m að stærð.

 Júlíus Sigurðsson (1859-1936), sem fæddur var á Ósi í Hörgárdal, namIMG_0035 skipasmíðar hjá Snorra Jónssyni en við stofnun Gagnfræðaskóla á Möðruvöllum settist hann þar á skólabekk. Fékkst eftir það við barnakennslu, samhliða smíðum en réðst til Benedikts Sveinssonar (síðar tengdaföður Júlíusar) sýsluskrifara árið 1889. Þá fluttist hann til Akureyrar árið 1893 og gerðist þar amtsskrifari og amtsbókavörður. Þegar útibú Landsbankans var opnað á Akureyri árið 1902 var hann ráðinn útibústjóri og gegndi því starfi í nærri þrjá áratugi. Mestallan þann tíma, eða frá 1904-1931 var bankaútibúið starfrækt í Hafnarstræti 107. Þegar húsið var virt til brunabóta í lok árs 1916 var það sagt „íbúðar- og bankahús“ einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara. Enda þótt húsið sé sagt bankahús er aðeins minnst á þrjár stofur og forstofur austanmegin (við framhlið) á neðri hæð, og tvær stofur, eldhús, búr og forstofu vestanmegin (við bakhlið). Væntanlega hefur útibúið verið starfrækt í einhverri stofanna. Á lofti voru alls sex herbergi, gangur og geymsla, en fimm geymslurými í kjallara. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var sagt járnklætt timburhús.

Þau Júlíus og Ragnheiður ræktuðu myndarlegan og gróskumikinn garð á suðurlóðinni og átti Ragnheiður fjós og dálítið tún í brekkunum bak við húsið og stundaði þar myndarbúskap og hafði karla í vinnu við hann. Það þótti dálítið sérstakt að konan sæi alfarið um búskapinn og segir Jón Sólnes (síðar ráðherra), sem vann um tíma í bankanum hjá Júlíusi, að Ragnheiður hafi yfirleitt ekki sést þegar hann heimsótti Júlíus. Hún var yfirleitt á kafi við bústörfin. Lýsandi fyrir það, var fleyg saga um tilsvar Júlíusar, þegar komið var nautið handa kúnum og hann einn heima við: „Nú hvur andskotinn, nautið komið og Ragnheiður ekki heima!“ (Jón G. Sólnes (Halldór Halldórsson skráði) 1984: 22).

Júlíus lést árið 1936 og tveimur árum síðar flutti Ragnheiður í nýtt hús, sem hún hafði reist ofan við fyrrum tún sitt, við Bjarmastíg. Eignaðist þá Útvegsbankinn húsið við Hafnarstræti 107. Í febrúar 1953 birtist auglýsing frá Útvegsbankanum í bæjarblöðunum, þar sem húseignin Hafnarstræti 107 er boðin til sölu til niðurrifs og flutnings af lóð. Í maímánuði sama ár færir Bygginganefnd Akureyrar til bókar, að Karl Friðriksson og Jón Þorvaldsson fái aðra lóð vestan Ránargötu frá Eyrarvegi suður.“ Einnig, að þeir fái að flytja á lóðina gamla Íslandsbankahúsið, Hafnarstræti 107, þar sem ætlunin er að „byggja það í sem líkustu formi og það er nú.“ Þurftu þeir að leggja fram teikningar, sem Jón Þorvaldsson gerði. Árið 1954 mun húsið hafa verið fullbúið á nýja staðnum. Nú ber heimildum raunar ekki saman, því í Sögu Akureyrar var það Árni Jakob Stefánsson sem kom að flutningi hússins ásamt Jóni Þorvaldssyni. Mögulega hefur Árni tekið við hlut Karls. En alltént voru Árni Stefán Jakobsson og fjölskylda hans búsett í húsinu eftir að það var orðið Ránargata 13. Húsið er nokkurn veginn í sömu mynd og þegar það stóð við Hafnarstræti nema hvað glugga- og dyraskipan hefur eitthvað verið breytt. En það er raunar ekki óalgengt þegar í hlut eiga hús á þessum aldri, óháð því hvort þau hafa verið flutt eða ekki. Í húsinu eru tvær íbúðir og mun svo hafa verið síðan húsið var flutt hingað.

Ránargata 13 er stórglæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Það setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt og nokkuð einstakt í götumyndinni enda miklum mun eldra hús og af allt annarri byggingargerð en nærliggjandi hús. Svo skemmtilega vill til, að gegnt húsinu, stendur langyngsta hús götunnar, Ránargata 14, sem byggt er 1985. Ránargata 13 er væntanlega aldursfriðað og hlýtur hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020.  Það er ætíð æskilegra, ef hús verða að víkja, að þau séu flutt heldur en að þau séu rifin. Hið stórmerka hús þeirra Júlíusar Sigurðarsonar og Ragnheiðar Benediktsdóttur, sem víkja þurfti fyrir nýbyggingu Útvegsbankans, stendur enn með prýði og glæsibrag, þökk sé þakkarverðu framtaki stórhuga manna fyrir 70 árum síðan. 

Myndirnar eru teknar þann 17. febrúar 2023. 

Heimildir

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020 (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-53. Fundur nr. 1168, 18. maí 1953. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Halldór Halldórsson (1984) Jón G. Sólnes; segir frá viðburðaríkri og stormasamri ævi. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.

Jón Hjaltason (2004) Saga Akureyrar 4.bindi: Vályndir tímar. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson (1993) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081
  • IMG_1520
  • IMG 1494

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 18
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 460
  • Frá upphafi: 419241

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 347
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband