Færsluflokkur: Bloggar
Einhver virtasti borgari Akureyrar á þriðja fjórðungi 19. aldar var vafalítið Bernhard Steincke, sem fór fyrir Gudmannsverslun. Honum var umhugað um mörg framfaramál samfélagsins og ekki aðeins umhugað, heldur kom hann miklu í verk og var sérleg driffjöður í hinum ýmsu menningar- og framfararmálum samfélagsins. Á meðal þeirra þjóðþrifa sem hann kom til leiðar var fyrsta sjúkrahús bæjarins. Var það fyrir tilstuðlan Steincke, sem eigandi téðrar Gudmannsverslunar, Friðrik Gudmann, kom upp spítala fyrir bæjarbúa. Það var árið 1873 og var sjúkrahúsið vígt formlega 1874. Sjúkrahúsið stóð við efri götu Akureyrar ( en þá skiptist byggðin einfaldlega í efra og neðra pláss ) og hlaut löngu síðar númerið 14 við götuna Aðalstræti. Hver sem á leið fram hjá Gamla Spítalanum eða Gudmanns minde sér þar nafn hússins á skilti ásamt byggingarári. Þar stendur hins vegar hvorki 1873 né 1874 heldur blasir ártalið 1835 við hverjum manni sem á leið þar um. (Þess má geta, að þetta ártal er líka fæðingarár þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar). Það vill nefnilega svo til, að húsið, fyrrum læknisbústaður bæjarins, var orðið 37 ára gamalt þegar þeir Gudmann og Steincke komu að því árið 1872.
Aðalstræti 14, eða Gamli Spítalinn, er nokkuð örugglega annað elsta hús Akureyrar. Það er byggt 1835 og er því 190 ára á þessu ári. Sá fyrirvari er á, að mögulega hafi einhver hús sem skráð eru yngri verið flutt annars staðar frá og verið þannig eldri en skráð byggingarár; jafnvel eldri en Gamli Spítalinn. Húsið er í raun tvö sambyggð hús, byggð með tæplega fjögurra áratuga millibili en byggt var við upprunalegt hús til norðurs. Suðurhlutinn, upprunalegt hús, er tvílyft timburhús, grindarhús eða bindingshús, með háu og bröttu risi og stendur á grjóthlöðnum undirstöðum. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum hússins, en á risi eru þrír smáir gluggar með fjórskiptum rúðum; einn undir rjáfri og tveir undir súðunum. Slagþil er á veggjum og bárujárn á þaki. Yfir útidyrum er þríhyrndur svokallaður bjór (nokkurs konar rammi eða mjótt skýli yfir dyrum). Grunnflötur suðurhluta er 11,43x6,95m. Suðurhlutinn er einnig úr timbri með háu og bröttu risi. Á framhlið norðurhluta, er langur kvistur með aflíðandi þaki, sem nær nánast meðfram allri þekjunni. Sexrúðupóstar eru í gluggum hússins, veggir klæddir listaþili og bárujárn á þaki. Á norðurstafni hússins er einlyft viðbygging með einhalla þaki og vestanmegin, þ.e. á bakhlið, eru svalir á annarri hæð. Grunnflötur norðurhluta hússins er 11,4x6,85m og viðbygging að norðan 4,25x1,57m.
Suðurhluta hússins, sem löngu síðar varð sjúkrahúsið Gudmanns minde og enn síðar Aðalstræti 14, reisti maður að nafni Baldvin Hinriksson Skagfjörð, árið 1835. Hann mun þó ekki hafa lokið við bygginguna heldur selt húsið óklárað, Eggerti Johnsen og sá mun hafa flust þangað árið 1836 þegar hann tók við stöðu héraðslæknis. Baldvin Hinriksson Skagfjörð var, eins og ættarnafnið kann að gefa til kynna, úr Skagafirði, en hann hafði stundað búskap og smíðar á Hafgrímstöðum í Tungusveit. Líklega var Baldvin þó fæddur á Gunnólfsá í Ólafsfirði, en Baldvin, sem fæddur var 25. febrúar 1799 er skráður þar til heimilis árið 1801. Árið 1835 er hann skráður í manntali sem kleinsmiður og borgari í Eyjafjarðarkaupstað en þá eru hvorki númer né opinber heiti á húsum bæjarins. Það er athyglisvert, að í manntali árið 1835 fyrirfinnst engin Akureyri, heldur er talað um Eyjafjarðarkaupstað. Um Baldvin Hinriksson segir Espólín lét byggja sér hús og seldi með hálfviðri, veslaðist síðan (sbr. islendingabok.is) og er þar væntanlega átt við húsbygginguna í Eyjafjarðarkaupstað. Baldvin er ekki að finna í manntölum fyrir árin 1840 og 1845 en árið 1850 er hann járnsmiður á Ytra Hóli í Höskuldsstaðasókn í Húnavatnssýslu. Baldvin Hinriksson Skagfjörð lést á jóladag 1853, réttum tveimur mánuðum áður en hann hefði orðið 55 ára. Svo virðist sem Baldvin hafi staðið sjálfur fyrir byggingu hússins, alltént eru ekki heimildir um aðra nafngreinda byggingameistara. Húsið er m.ö.o. hvorki verk t.d. Þorsteins Daníelssonar á Skipalóni né Ólafs Briem svo vitað sé, en þeir voru helstu timburmeistarar héraðsins á fyrri hluta 19. aldar. Það má þó vera ljóst að járnsmiðurinn úr Skagafirði hefur ætlað að reisa sér veglegt hús, mætti e.t.v. tala um hurðarás um öxl. Húsið var nefnilega tvílyft en það tíðkaðist almennt ekki þegar íbúðarhús áttu í hlut. Auk íbúðarhúss mun apótek hafa verið starfrækt í húsinu fyrsta árið. Húsið er eitt af fyrstu tvílyftu íbúðarhúsum á landinu, var jafnvel talið það fyrsta. Það er þó ekki alveg svo, því á Stykkishólmi stendur annað tvílyft hús, Norska húsið, sem reist er 1832, sem íbúðarhús. Það er þannig þremur árum eldra en Gudmanns minde. Eggert Johnsen eða Eggert Jónsson (1798 1855) var frá Melum í Hrútafirði. Hann var héraðslæknir Norðlendinga frá árinu 1832 og til dánardægurs en hann lést 29. júlí 1855, á 57 ára afmælisdegi sínum. Í Þjóðólfi segir svo frá, að hann hafi látist á Húsavík, verið vinfastur og valinkunnur maður og talinn góður læknir. Eftir fráfall Eggerts tók Jón Constant Finsen (1826 1885) við stöðu héraðslæknis. Hvort húsið hafi verið sérlegur læknisbústaður og fylgt stöðunni sem nokkurs konar hlunnindi fylgir ekki sögunni en ljóst að Finsen flutti í og eignaðist hús Eggerts. Hann hafði þó í hyggju að byggja sér nýtt hús.
Þann 29. maí 1857 kom Bygginganefnd Akureyrar saman í fyrsta skipti. Síðasta erindi þessa fyrsta fundar var eftirfarandi: Því næst var framlagt bréf frá læknir [svo] Finsen dags 10. þ.m. [10. maí 1857) hvar í hann tilkynnir, að hann vilji byggja íveruhús og að kaupmaður Havsteen hafi heitið honum nokkrum hluta af verzlunargrunni hans, en jafnframt hafi læknirinn munnlega látið í ljós að honum liggi ekki á útvísun hússtæðisins og var henni því frestað (Bygg.nefnd. Ak. 1857: nr.1). Ekkert virðist hafa orðið af þessari húsbyggingu. En Jón Finsen var ekki einasta einn af þeim fyrstu til að leggja fram erindi til Bygginganefndar Akureyrar heldur sat hann einnig í fyrstu bæjarstjórn Akureyrar. Sú var kjörin í bæjarstjórnarkosningum þann 31. mars 1863. Þær kosningar voru sögulega merkilegar að því leyti, að þar kaus kona í fyrsta skipti, Vilhelmína Lever, löngu áður en konur fengu kosningarétt. Jón Finsen gegndi stöðu héraðslæknis til ársins 1867 er hann fluttist til Randers í Danmörku. Hann lést í Danmörku árið 1885. Mun Jósep Skaptason hafa tekið við embætti héraðslæknis, en hann var búsettur að Hnausum í Húnavatnssýslu. Þá má nefna að Jón Finsen framkvæmdi, að öllum líkindum í þessu húsi, svæfingu á sjúklingi í aðgerð hérlendis, árið 1866. Var um að ræða unga stúlku og var hún svæfð með klóróformi (sbr. Girish Hirlekar 2006:145). Nafn þessa merka sjúklings í íslenskri lækningasögu liggur ekki fyrir svo höfundur viti til, né heldur við hvers kyns meini aðgerðin var.
Í eigendatali, sem birtist í Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar (1986:74), er eyða á árabilinu 1867 til 1873 og Friðrik Gudmann skráður eigandi árið 1873. Einhvern tíma á þessu árabili keypti Friðrik Gudmann húsið, þó líklega ekki fyrr en árið 1872. Í Sögu Akureyrar II. bindi segir svo: Allt þetta [gjafir Gudmanns til kirkjubyggingar áratug fyrr, 200 ríkisdali, til byggingar auk altaristöflu að verðmæti á þriðja hundrað rdl.] bliknaði þó hjá þeim tíðindum er spurðust út um mitt ár 1872; Gudmann hafði keypt læknishúsið svokallaða og gefið fyrir það 1750 ríkisdali. Ofan á þessa upphæð ætlaði hann að bæta 3250 ríkisdölum til að búa mætti húsið sem best fyrir hlutverk sitt; að verða annað hvort spítali eða hæli fyrir fátæka borgara kaupstaðarins (Jón Hjaltason 1994:212). Var það bæjarstjórnar að ákveða, hvorn kostinn skyldi velja. Verslunarstjóri Gudmanns, fyrrnefndur Steincke, mun hafa verið helsti hvatamaður í þessum gjörningi og þeim framkvæmdum sem þessari gjöf fylgdu. Bæjarstjórnin valdi þann kost að þiggja gjöf Gudmanns og að læknishúsið yrði gert að sjúkrahúsi. Það er ekki ósennilegt að viðbyggingin norðan við hafi verið reist sumarið 1873. Ekki er minnst á hana í fundargerðum bygginganefndar, raunar fundaði sú nefnd ekkert á bilinu 21. október 1872 til 24. júní 1874. En þess má geta, að meðal bygginganefndarmanna á þessu árabili var Bernard Steincke sjálfur. Við skulum grípa niður í frásögn dagblaðsins Þjóðólfs þann 27. október 1873: Í blaði þessu hjer að framan, er sagt frá því, að stórkaupmaður Fr. Gudmann í Kaupmannahöfn hafi keypt íbúðarhús læknis J. Finsens, er kostaði 1750 rd. Og gefið það til þess, að í því yrði stofnaður spítali hunda veikum mönnum; um leið hjet hann og a& bæta við gjöf þessa, svo að hún öll yrði 5000 rd. I þessu tilliti hefur hann sent hingað nú í sumar ýmis áhöld til spítalans, svo sem ofna, rúmstæði, rúmfatnað, íverufatnað, matar-áhöld, þvotta- og baðílát, vjelar og verkfæri og margt annað, sem hjer er ekki rúm til að lýsa, enda er sagt a& spítalastjórnin muni ætla sjer að gjöra það seinna ; öll hin nefndu áhöld, er sagt að hafi kostað 1350 rd. Þar að auki hefur hinn veglyndi mannvinur, látið endurbæta sjálft húsið og breyta ýmsri herbergja skipun í því, og ennfremur látið byggja nýtt timburhús norðan við fyrir svörð, hey, fjós o.fl. Eldra húsið er tvíloptað, en hitt loptlaust nema yfir fjósinu; bæði húsin eru til samans 36 al. á lengd og 10-11 al. á breidd.[ ] Þess er og skylt a& geta, a& hinn umsýslumikli nytsemdarmaður verzlunarstjóri B. A Steincke mun hafa átt góðann og mikinn þátt í því, að ofannefnd gjöf er komin svo fljótt og langt áleiðis, a& sjúklingar, er vilja komast á spítalann, geta með byrjun næsta mánaðar fengið þar inngöngu. Fyrrum hreppst varaþingmaður Páll Magnússon, sem var á Kjarna, hefur tekið að sjer spítalahaldið til 14. maí 1874 (án höf 1873: 126). Það er e.t.v. merkileg og skemmtileg tilviljun, að íbúðarhús Gudmannsverslunar og sjúkrahúsið sem hann lét innrétta skuli einmitt vera tvö elstu hús bæjarins á 21. öld. Sjúkrahúsið var innréttað þannig, að á efri hæð suðurhússins voru sjúkrastofur en íbúð læknis á þeirri neðri. Í norðurhúsi var m.a. líkhús og sem fyrr segir fjós og ýmis konar geymslurými. Á meðal nýjunga í hinum glæsta nýja spítala var baðhús, þar sem bæjarbúum gafst kostur á heitu sjóbaði fyrir tvær krónur og heitu baði fyrir eina krónu eða eina krónu og fimmtíu aura, eftir því hvaða dag farið var í bað. Steypibað kostaði fimmtíu aura. Gjaldskrá þessi var ákveðin í maí 1875. Árið 1880 kostaði steypibaðið 75 aura og aðeins í boði að baða sig á miðvikudögum og þurfti að panta með dags fyrirvara.
Enda þótt sjúkrahúsið hafi þótt hið veglegasta og sérlega vel búið var aldeilis annað uppi á teningnum rúmum tveimur áratugum síðar, þegar nýr héraðslæknir tók við þeirri stöðu af Þorgrími Johnsen. Um var að ræða Guðmund Hannesson og réðst hann til starfa árið 1896. Hinum unga lækni (Guðmundur var fæddur 1866 og var því þrítugur ) blöskraði mjög aðstæður og aðbúnaður í húsinu, sem orðið var 60 ára gamalt og byggt sem íbúðarhús. Sagði hann húsið stórum verra en flest privat hús og nefndi þar gluggaleysi, loftleysi, súg og ýmislegt annað, auk þess sem lækningatól voru flest úr sér gengin eða úrelt. Þá var því þannig háttað, að sjúkrarýmin voru á efri hæð hússins og mikið verk að koma sjúklingum upp þröngan og snúinn stiga. Það var því strax í janúar 1897 að Guðmundur lagði fram teikningar að nýju sjúkrahúsi. Guðmundur hafði lært lækningar og aðferðir sem voru gjörólíkar því sem tíðkast hafði, m.a. hjá forverum hans. Eitt dæmi um þetta var, að samkvæmt fyrri kenningum var ferskt loft talið óhollt veiku fólki og þá sérstaklega dragsúgur. Var því venjan, að allir gluggar væru lokaðir á sjúkrahúsinu með þeirri undantekningu, að ef einhver hafði dáið varð að af illri nauðsyn að opna rifu á gluggum þeirrar sjúkrastofu. Stóð börnum mikill stuggur af sjúkrahúsinu ef gluggi var einhvers staðar opinn; þá hafði einhver dáið. Eftir að Guðmundur Hannesson réðist til starfa voru gluggar hins vegar opnaðir hvort heldur einhver hafði dáið og því [ ] vissu börnin aldrei fyrir víst hvenær líkhúsið geymdi dautt fólki (Jón Hjaltason 2001: 129).
Árið 1899 lauk þar með aldarfjórðungs sögu Gudmannsspítala er sjúkrahúsið fluttist í vandaða nýbyggingu á svokölluðum Undirvelli norður af Búðargili. Akureyrarbær seldi húsið og kaupandi var Sigtryggur Jónsson timburmeistari frá Espihóli. Sigtryggur og fjölskylda hans hafa líkast til búið hér í rúmt ár en líkt og Jón Finsen rúmum fjórum áratugum fyrr hafði hann húsbyggingu í huga þegar hann flutti hingað. En ólíkt því sem varð hjá Finsen lækni varð af húsbyggingu Sigtryggs, því aldamótaárið 1900 reisti hann veglegt stórhýsi næst sunnan við hús sitt. Það hús stendur enn og er Aðalstræti 16. Árið 1902 eru alls 14 búsettir í húsinu, sem skráð er sem Aðalstræti 53 í manntali. Á næstu árum búa að jafnaði um 15-20 manns í húsinu í 5-6 íbúðarrýmum. Á meðal nafna sem sjást í manntölum þessi ár má nefna þau Valdemar og Soffía Thorarensen, Kristján Helgason og Helga Bjarnadóttir og Ólafur Tr. Ólafsson og Jakobína Magnea Magnúsdóttir. Þessi hjón eru öll búsett hér í manntali árið 1906 en þá er húsið komið með sitt endanlega númer, þ.e. Aðalstræti 14. Þess má geta, að síðasttöldu hjónin stóðu það ár í húsbyggingu við Spítalaveg. Sigtryggur átti húsið í rúma þrjá áratugi og í hans tíð var aðeins búið í suðurhúsinu, í norðurhlutanum hafði hann verkstæði og geymslur.
Seint í nóvember 1916 var Aðalstræti 14 metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Nyrðri hluti var einlyft íbúðarhús úr timbri, vegg og þak timburklætt, á lágum steingrunni. Á neðri hæð austanmegin (við framhlið) var mótorverkstæði, söðlasmíðaverkstæði og geymslupláss vestanmegin (við bakhlið). Gangur var einnig tilgreindur, ekki ólíklegt, að hann hafi verið fyrir miðju. Á efri hæð var eldhús og heygeymsla (m.ö.o. hefur hæðin að hluta til verið hlaða). Einn skorsteinn, sem tengdist fjórum kolaofnum, var á norðurhelmingi hússins, sem mældist 11,3x6,9m að grunnfleti og 6,3m á hæð og aðeins sex gluggar.Suðurhlutanum, þ.e. eldri hluta hússins var lýst svo: Áfast við ofantalið er tvílyft íbúðarhús með háu risi á lágum steingrunni. Á neðri hæð (gólfi) voru tvær stofur og forstofa með stiga upp á loft, austanmegin og vestanmegin var ein stofa og eldhús. Á efri hæð, sem kallaðist loft, voru tvö herbergi og forstofa austanmegin en vestanmegin eitt herbergi og eldhús. Efra loft, þ.e.a.s. rishæð var sagt ósundurþiljað og notað til geymslu. Fjórir kolaofnar og tvær eldavélar voru í húsinu. Grunnflötur norðurhússins var sagður 11,3x6,9m (eins og suðurhúsið) en hæðin 8,2 metrar. 21 gluggar voru á húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 48) Sigtryggur Jónsson var eigandi hússins árið 1916, og átti hann það til ársins 1934 er eignir hans voru seldar á nauðungaruppboði (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:75).
Eftir að Sigtryggur Jónsson missti eignir sínar árið 1934 leysti Landsbankinn húsið til sín og seldi það Oddi Pálma Sigmundssyni skipstjóra. Hann bjó sjálfur í suðurhúsinu en leigði íbúðir í norðurhlutanum. Einhvern tíma á bilinu frá október 1936 til hausts 1937 fluttu í húsið þau Leó Guðmundsson, bifreiðastjóri, fæddur í Holtsseli í Eyjafirði og Þóra Guðrún Friðriksdóttir, fædd á Þinghóli í Glæsibæjarhreppi. Þau munu hafa innréttað norðurhluta hússins sem íbúðarhús og eignuðust hann árið 1946 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:75). Bjuggu þau þar svo áratugum skipti. Á meðal barna þeirra var Reynir Örn, sem m.a. var þekktur fyrir ýmsar óhefðbundnar aflraunir og kallaður Reynir sterki. Í tíð þeirra Leós og Þóru, nánar tiltekið þann 6. apríl 1961 kviknaði í norðurhluta hússins og skemmdir urðu töluverðar. Var húsið endurbyggt með örlítið breyttu sniði í kjölfarið, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Þá vildi svo til, að tvisvar höfðu húsin á næstu lóð norðan við brunnið til grunna, annars vegar í desember 1901, þegar fjöldi húsa brann á einni nóttu. Hins vegar í nóvember 1955, þegar gamla Hótel Akureyri, stórhýsi á pari við Samkomuhúsið og Menntaskólann, brann til ösku. Það hús hafði verið byggt árið 1902, á grunni veitinga- og gistihúss sem brann 1901.
Suðurhlutinn var einnig innan sömu fjölskyldu drjúgan hluta 20. aldar en þar bjuggu þau Oddur Pálmi Sigmundsson og Jónína Guðrún Jónsdóttir ásamt bróðursyni Odds, Eiði Baldvinssyni. Oddur lést fyrir aldur fram í febrúar 1961 en Jónína og Eiður bjuggu áfram í húsinu í tugi ára eftir það. Eiður mun hafa búið hér fram yfir 1990 en Jónína fluttist á dvalarheimili árið 1988. Húsið var alla þeirra tíð í fyrirtaks umhirðu og hefur Hjörleifur Stefánsson orð á því í Húsakönnun (1986:75) að eigendur hafi sinnt viðhaldi þess af mikilli natni. Það þótti sérlega eftirtektarvert, hvað þeim hafði auðnast að halda vel í og varðveita innra skipulag og herbergjaskipan hússins sem væntanlega hefur verið óbreytt frá því að Gudmann og Steincke innréttuðu húsið sem spítala. Það var árið 1994 sem Húsafriðunarsjóður Akureyrar og Minjasafnið í samvinnu við Fjórðungssjúkrahúsið, Læknafélag Akureyrar og norðausturdeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga keyptu suðurhluta hússins . Ætlunin var að koma þar upp í lækningaminjasafni í fyllingu tímans, eftir endurbætur. Enda þótt ástand hússins hafi verið eins og best var á kosið tóku endurbæturnar um tvo áratugi, reyndar með hléum. Mikið kapp var lagt á að nýta og varðveita sem mest af hinu upprunalega og endurbætur því flóknar. Greinarhöfundur man eftir að hafa farið þarna inn í Sögugöngu um Innbæinn, líklega sumarið 2000, þar sem leiðsögumaðurinn, Hörður Geirsson, sýndi þátttakendum eldstæði mikið á neðri hæðinni. Mun það hafa fundist við framkvæmdir innandyra, þ.e. það hafði líkast til verið fellt inn í vegg við endurbætur Gudmanns og Steincke. Endurbótum á suðurhluta lauk um 2015 en ekki varð úr áformum um að opna þar lækningaminjasafn. Nú hefur Aflið, samtök fyrir þolendur ofbeldis aðsetur í húsinu. Af norðurhlutanum er það að segja, að hann er íbúðarhús og í honum tvær íbúðir. Á árunum 2020-22 fóru fram miklar viðgerðir á því húsi, m.a. klæðning utanhúss endurnýjuð og settir nýir sexrúðupóstar í glugga. Þannig hefur allt húsið nú hlotið gagngerar endurbætur og er frágangur alls hússins allur hinn snyrtilegasti og glæsilegasti. Teikningarnar að endurbættum norðurhluta gerði Gunnlaugur Björn Jónsson.
Gudmanns minde, þ.e. suðurhluti Aðalstrætis 14 var friðlýstur í B-flokki árið 1977 eftir þjóðminjalögum frá 1969. Um norðurhlutann gilda reglur um aldursfriðun frá árinu 2012, en sú bygging er frá árunum 1872-73. Hér er um að ræða eitt af merkari húsum bæjarins, hvort tveggja í menningarsögu og byggingarsögulegu tilliti að ekki sé minnst á, að húsið er sannkölluð bæjarprýði eins og raunar mörg önnur elstu húsa Innbæjarins. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 15. desember 2024. Mynd, sem sýnir framkvæmdir við norðurhluta er tekin 17. júní 2021 og myndin sem sýnir Gudmanns minde hvítmálaðan er tekin 5. júní 2006. Myndin af Norska húsinu á Stykkishólmi er tekin 13. júlí 2012.
Heimildir: Án höfundar. 1873. [Án titils] Þjóðólfur 27. október 46. 47. tbl. bls. 126
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 1, 29. maí 1857 Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Girish Hirlekar. 2006. Gudmanns Minde. Læknablaðið 92. árg. 2. tbl. bls. 145.
Hjörleifur Stefánsson. 1986.â¯Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinniâ¯
http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.
Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III. bindi. Akureyrarbær.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2025 | 22:54
Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)
(Hér birtist fyrsta Hús dagsins á árinu 2025. Elsta hús bæjarins á stórafmæli og einnig það næstelsta. Á næstu vikum og mánuðunum verður umfjöllunarefnið þannig elstu hús bæjarins, í aldursröð frá hinu elsta).
Í ársbyrjun 2025 stendur aðeins eitt hús á Akureyri, svo vitað sé, sem náð hefur 200 ára aldri: Laxdalshús, sem stendur við Hafnarstræti 11. Það er ekki aðeins elsta hús bæjarins, heldur það langelsta og hefur hvorki meira né minna en fjóra tugi ára fram yfir annað elsta hús bæjarins, sem byggt er 1835. Mögulega deilir það hús, Gamli Spítalinn, þó heiðrinum með öðru húsi, en í sumum heimildum er talið að austasti hluti Gránufélagshúsanna sé Skjaldarvíkurstofa, sem einnig er byggð 1835. Og fyrst minnst er á Gránufélagshúsin má nefna, að jafnvel er talið að vestasti hluti þeirra húsa, sé jafnvel enn eldri og raunar aðeins litlu yngri en Laxdalshús: Vestasti hluti Gránufélagshúsanna er reistur árið 1873 upp úr verslunarhúsum á Vestdalseyri, sem byggð voru þar árið 1850. Hins vegar er vitað, að einhver þeirra húsa sem stóðu á Vestdalseyri voru komin úr Framkaupstað á Eskifirði, byggð þar á fyrstu áratugum 19. aldar. Þar var fyrst byggt um 1804 og fram yfir 1830 og gæti það hús því hugsanlega verið frá því árabili. Ef Vestdalseyrarhúsið svokallaða er upprunalega úr Framkaupstað, gæti Gamli Spítalinn þannig aðeins verið í þriðja sæti yfir elstu bæjarins og vestasti hluti Gránufélagshúsanna í öðru sæti, og jafnvel orðinn 200 ára! Á fullyrðingunni hér í upphafi er þannig viss fyrirvari, því byggingarár elstu húsa bæjarins er nokkuð á reiki og mögulega hafa einhver þeirra húsa verið flutt annars staðar frá, hafa e.t.v. staðið í áratugi annars staðar áður, en þau voru reist hér. En það er hins vegar nokkuð óyggjandi, að Laxdalshús er allra húsa elst á Akureyri og árið 2025 á það 230 ára stórafmæli.
Forsaga tilurð verslunarstaðar Kyhnsverslun
Hin eiginlega Akureyri stendur undir Búðargili og hefur orðið til úr framburði Búðarlækjar. Öldum saman fór fáum sögum af eyri þessari, sem aðeins var örnefni í landi Nausta og Stóra-Eyrarlands en helsti verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. Sú höfn mun þó hafa spillst mjög af framburði Hörgár. Mun það hafa verið á 15. eða 16. öld sem farið var að notast við höfnina á Akureyri, en þar var hvort tveggja skjólgott og aðdjúpt. Seglskip áttu hins vegar erfitt með að sigla inn að fjarðarbotni vegna vinda, sem fjalllendi beggja vegna fjarðar skóp (sbr. Jón Hjaltason 1990:13). Það var hins vegar ákvörðun Danakonungs, þegar Einokunarversluninni var komið á, að Akureyri skyldi verða aðalhöfnin við Eyjafjörð. Það leið þó á mjög löngu þar til búseta hófst, kaupstefnur fóru fram á vorin og búðir aðeins opnar á sumrin. Ekki mun hafa verið um búsetu að ræða fyrr en um 1760 og 1777 var það lögbundið, að kaupmenn hefðu hér fasta búsetu (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:9). Og það var einmitt þá, sem fyrsta íbúðarhúsið reis á Akureyri en það byggði Friedrich Lynge, sérlegur Akureyrarkaupmaður hjá Konungsversluninni dönsku.
Þegar einokunarverslunin var afnumin árið 1787 voru eignir Konungsverslunarinnar seldar og kaupendur voru téður Lynge og annar kaupmaður að nafni Lauritzen. Lynge, sem var í senn síðasti einokunarkaupmaðurinn og fyrsti frjálsi kaupmaðurinn á Akureyri, keypti svo eignir Lauritzens árið 1794. En var Lynge einn um hituna í hinum nýfrjálsa kaupstað? Svo var nú ekki, því fleiri kaupmenn höfðu bæst í hópinn eftir einokunarafnám og meðal þeirra var Johan Peter Hemmert, sem fékk útmælda lóð undir verslunarhúsið árið 1792 norðan við þau kaupstaðarhús, sem fyrir voru. Fór hann fyrir verslunarfyrirtæki kaupsýslumannsins Georgs Andreas Kyhn, sem stóð í verslunarrekstri á Akureyri og Siglufirði. Mun Hemmert hafa stýrt verslun á síðarnefnda staðnum veturinn 1792-93. Var þetta í trássi við lög, sem kváðu á, um að enginn kaupmaður eða faktor mætti [ ]reka verslun á þurru landi í tveimur eða fleiri verslunarumdæmum (Jón Hjaltason 1990:42-43). En á einhvern hátt komst Kyhn upp með þetta fyrirkomulag þrátt fyrir vítur frá yfirvöldum. Látum það liggja milli hluta hér. Á vegum Hemmerts og Kyhnsverslunar risu krambúð og pakkhús sumarið 1793. Tveimur árum síðar fluttist Hemmert alfarinn til Siglufjarðar þar sem hann sinnti starfi faktors (verslunarstjóra). Sama sumar stóðu menn Georgs Andreas Kyhn í byggingarframkvæmdum á Akureyri; reisti þar íbúðarhús verslunarstjóra og sláturhús.
Nýráðinn verslunarstjóri, Ólafur Gíslason Waage, fluttist í nýreist íbúðarhús verslunarinnar haustið 1795. Hann var ekki sérlega ánægður með aðbúnaðinn. Íbúðarhúsið, sem reist hafði verið um sumarið, sagði hann [að] héldi hvorki vatni né vindi, ekki hefði verið lokið við skorsteininn og bindingurinn ber blasti við öllum er kæmu þar inn fyrir dyr (Jón Hjaltason 1990:45). Nú vill hins vegar svo til að umrætt hús, sem svo var lýst, stendur enn 230 árum síðar og það með glæsibrag, eitt verslunarhúsa Kyhnsversluna. Er þar komið hús það, sem u.þ.b. öld síðar og æ síðan kallast Laxdalshús.
Laxdalshús stutt lýsing Um grindarhús
Laxdalshús er einlyft timburhús með háu risi og stendur það á steyptum grunni. Það er allt klætt slagþili, veggir jafnt sem þak, og sexrúðupóstar í gluggum. Á suðurstafni eru tveir smærri gluggar á neðri hæð sem eru þrískiptir lóðrétt; hálfir sexrúðu-. Á miðri framhlið er smár kvistur fyrir miðri þekju en tveir slíkir á bakhlið. Grunnflötur hússins er 13,36x6,37m. Laxdalshús er grindarhús eða bindingsverkshús af svokallaðri dansk-íslenskri gerð, eldri. Sýnilegustu einkenni þeirra eru í grófum dráttum hátt og bratt ris og tiltölulega langur grunnflötur miðað við breidd og um er að ræða elstu gerð timburhúsa hérlendis, sem risu á upphafsárum kaupstaða. Oftar en ekki voru þessi hús dönsk að uppruna og jafnvel tilsniðin og tilhöggvin í Danmörku og sett saman hér af dönskum smiðum (sbr. Hörður Ágústsson 2000: 105). Helstu hlutar dæmigerðs grindarhúss eru aurstokkar eða fótstykki, gólfbitar, stoðir, skástoðir, skammtré, lausholt, syllur, sperrur og skammbitar. Stundum bættust svokallaðir skálkar við þessa upptalningu en þeir lögðust á sperruenda til að framlengja sperrur fram yfir gólfbita.
Í stuttu máli fólst byggingaraðferð grindarhúsa í því, að aurstokkar(fótstykkin) voru lagðir á undirstöður, læstir saman í hornum og bundnir saman af gólfbitum, sem lágu þvert yfir undirstöðurnar. Voru þessi undirstöðutré lögð í sand eða möl og húsin þannig, eðli málsins samkvæmt, kjallaralaus. Ofan á aurstokkana voru reistar stoðir og á milli þeirra skammtré. Efst í útveggjunum hvíldu syllur eða lausholt. Svo virðist sem þessi tvö hugtök eigi við um þennan sama hluta burðarvirkisins. Á skýringarmynd, sem birtist í bókinni Íslenskri byggingararfleifð, kallast biti þessi lausholt. Um lausholt segir Hjörleifur Stefánsson hins vegar: Milli stoðanna sem voru lárétt tré sem nefndust lausholt eða víxlar, stutt tré sem töppuð voru í stoðir beggja enda. Yfir og undir þeim opum í grindinni sem gluggar og dyr skyldu vera, voru lausholt (Hjörleifur Stefánsson 1986:29). Þessa skilgreiningu mætti skilja á þann veg, að lausholt séu nokkurn veginn sambærileg við skammtré milli stoða, nokkurs konar aukaskammtré fyrir glugga- og hurðabil. Í skýrslu Þjóðminjasafnsins um bæinn í Laufási kemur fram, að hugtakið sylla sé frekar notað í eldri úttektum á bæjarhúsum en síðar kallist sambærileg tré, lausholt. Munurinn er útskýrður þannig, að syllur standi upp á rönd, felldar í klofa yfir stoðunum (stoðirnar grópaðar inní trén) en lausholt hvíli flatt ofan á stoðunum (sbr. Guðrún Harðardóttir 2006:9). Síðara tilfellið eigi frekar við um bindingsverk. Í annarri skýrslu, Gamlir Byggingarhættir er svo einnig að finna skýringarmynd, þar sem lóðrétt tré milli stoða (sambærilegt við skammtré) er kallað lausholt (sbr. Sigríður Sigurðardóttir 2011:9). Hér skal ósagt látið hvort lausholt eða syllur séu í Laxdalshúsi eða hvað einstakir byggingarhlutar þess heita. En ofan á lausholtin eða syllurnar lögðust gólfbitar efri hæðar og á þeim hvíldu sperrur eða sperrukjálkar. Gólfbitar náðu jafnan út fyrir sperrur en stundum var fleygum, svokölluðum skálkum, skotið neðst, framan á sperrurnar og þeir látnir nema við enda gólfbita. Myndaðist þannig örlítið brot neðst í þakið. Skv. Herði Ágústssyni (2000:115) voru skálkar einna helst á innfluttum dönskum húsum. Það rennir stoðum undir, að Laxdalshús hafi verið tilhöggvið í Danmörku, því auk þess að vera reist fyrir danska aðila, er þak þess með greinilegu skálkalagi.
Akureyri 3 Lever feðgin Örlög Kyhns
Laxdalshús var lengst af í eigu kaupsýslumanna og verslana og íbúðarhús verslunarstjóra. Það er ekki ósennilegt, að fyrsti íbúi hússins hafi verið Ólafur Gíslason Waage verslunarmaður hjá Kyhn. Ekki dvaldist honum lengi í þeirri stöðu, eða í íbúðarhúsinu, því hann lést í mars 1797, aðeins 33, ára úr því sem sagt var þung brjóstveiki (sbr. Jón Hjaltason 1990:52). Við stöðu hans tók Einar Ásmundsson Hjaltested og fluttist í húsið ásamt konu sinni Guðrúnu Runólfsdóttur og nýfæddum syni þeirra, sem hlaut nafnið Ólafur. Í Manntali árið 1801 er Einar sagður bóndi á Akureyri 3 í Akureyrarkaupstað. Þannig hefur opinbert heiti þessa íbúðarhúss verslunarstjóra Kyhnsverslunar, sem síðar varð þekkt sem Laxdalshús við Hafnarstræti 11, verið Akureyri 3. En líkt og forveri hans í starfi sem og í ábúð Akureyrar 3 var Einar Ásmundsson Hjaltested ekki langlífur því hann fórst í skipsskaða síðla hausts 1802, 31 árs að aldri.
Eftir sviplegt fráfall Einars tók maður að nafni Hans Wilhelm Lever við stöðu verslunarstjóra Kyhnsverslunar. Hans, sem var systursonur Kyhns, fluttist eins og lög gerðu ráð fyrir, í íbúðarhúsið. Hans Lever er e.t.v. einna þekktastur fyrir það, að hafa byrjað að rækta kartöflur og kennt Akureyringum þau fræði. Einhvern tíma heyrði greinarhöfundur í sögugöngu um Innbæinn, að það hafi helst staðið kartöfluræktun Akureyringa fyrir þrifum í tíð Levers, að bæjarbúar átu jafnan útsæðið. Kartöflurækt Hans Levers fór norðanmegin í Búðargilinu, þar sem brekkurnar vissu mót suðri. Enn eru kartöflugarðar á svipuðum slóðum, rúmum tveimur öldum síðar. (Skyldi vera hægt að friða kartöflugarða?) Dóttir þeirra Hans Lever og Þuríðar Sigfúsdóttur var Wilhelmína. Hún var meðal valinkunnustu og virtustu borgara bæjarins á 19. öld og er mögulega þekktust fyrir að hafa kosið fyrst kvenna á Íslandi. Var það í bæjarstjórnarkosningum árið 1863, meira en hálfri öld áður en konur fengu kosningarétt. Hér má sjá mynd úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, sem farin var um Innbæinn fyrir um áratug. Er það Fanney Valsdóttir, sem þarna ávarpar þátttakendur, sem Wilhelmína Lever. Eins og fram kemur hér að framan fór Kyhn nokkuð á svig við íslensk verslunarlög á síðasta áratug 18. aldar og mun almennt hafa verið nokkuð slægur sem kaupsýslumaður. Það varð honum á endanum að falli, því árið 1808 var hann dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar vegna fjársvika. Munu þau mál hafa snúið að öðru en verslun hans hér. Hans Lever stýrði hins vegar versluninni eins og ekkert hefði í skorist og vissi mögulega ekkert af fangelsun verslunareigandans; landið var nefnilega einangrað frá umheiminum vegna Napóleonstyrjalda (sbr. Steindór Steindórsson 1993:100). Á þessum árum var Kyhnsverslun og húsakostur hennar í eigu margra erlendra fyrirtækja sem voru kröfuhafar Kyhns. Þeir skiptu sér ekki beint af verslunarrekstrinum en munu hafa falið Christian G. Schram, faktor á Skagaströnd, umsjón með henni. Réði hann Gísla Erlendsson sem verslunarstjóra en hann hafði verið verslunarþjónn hjá Lever. Árið 1814 tók við verslunarstjórastöðu, og ábúð íbúðarhússins, Hans nokkur Baggaöe og sama ár fór fram úttekt á húsakosti Kyhnsverslunar. Í norðurhluta neðri hæðar var faktorsíbúðin (faktor var verslunarmaður eða verslunarstjóri) sem var tvær stofur. Í miðju var eldhús og búr og tvö herbergi í suðurenda, eitt ætlað verslunarþjóni og annað ætlað beyki. Af öðrum húsum og mannvirkjum verslunarinnar má nefna krambúð (b. 1793), sláturhús (b.1795), mörbúð og sauðarétt (byggingarára mörbúðar og réttar ekki getið). Síðast en ekki síst er kamar sérstaklega tilgreindur í úttektinni (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:117).
Gudmannsfeðgar og Steincke
Einhvern tíma á bilinu 1814 - 1817 virðist Pachen og Co. hafa keypt verslunina og hún seld Kjartani Ísfjörð. Hann átti verslunina um mjög skamma hríð en Hjörleifur (1986:118) segir hann hafa selt verslunina samstundis. Kaupandi var Jóhann Gottlieb Guðmundsson Gudmann, snikkarasonur frá Grundarfirði. Gudmann var nokkurs konar eins manns verslunarveldi, hann stundaði verslun víða um land og hafði höfuðstöðvar sínar í Danmörku. Á Akureyri hóf hann að versla árið 1813. Eftir kaup Gudmanns á fyrrum Kyhnsverslun voru aðeins tvær verslanir á Akureyri, Gudmannsverslun og verslun J.L. Busch, sem starfrækt var í gömlu einokunarverslunarhúsunum. Og ekki leið á löngu þar til Gudmann keypti Buschverslun en það var árið 1822. Líkt og verslunareigendur fyrri tíðar átti Gudmann líkast til aldrei heimili í íbúðarhúsinu en það átti hins vegar verslunarstjórinn Andreas Daniel Mohr. Sá fór fyrir Gudmannsverslun í rúm 30 ár eða til ársins 1852.
Um svipað leyti kom að versluninni Dani að nafni Bernhard Steincke. Hann sinnti eftirliti með versluninni fyrir hönd eigenda en varð síðar verslunarstjóri. Á þessum árum var Johan Gudmann kominn á efri ár en sonur hans, Friðrik Gudmann, hafði löngum verið honum innan handar. Tók hann við verslun föður síns árið 1857 og réði Steincke sem verslunarstjóra árið 1863. Bernhard Steincke lét sig mjög varða hins ýmsu bæjar-, menningar- og framfaramál og varð fljótt mikils metinn. Hann beitti sér fyrir þilskipaútgerð, nýjungum og umbótum í landbúnaði og auðgaði mjög menningarlíf bæjarins: Hann kynnti m.a. sjónleikjahald (leiksýningar) fyrir bæjarbúum, starfrækti söngflokk og kenndi ungu fólki dans og gítarleik. Þá var honum mjög umhugað um að bæjarbúar fengju sjúkrahús og kom því til leiðar, að Friðrik Gudmann keypti fyrrum læknisbústað bæjarins og innréttaði sem sjúkrahús. Var það árið 1873. Sumarið 1874 var Akureyrarbæ svo fært húsið að gjöf og kallaðist það Gudmanns minde. Þá var Steincke fyrstur Akureyrarkaupmanna til að færa verslunarreikninga og bókhald á íslensku, löngu áður en það var lögfest. Segir Steindór Steindórsson (1993:101) svo um Steincke: Hann ávann sér fádæma vinsældir og svo mikið traust báru menn til hans að sagt var að bændur réðust naumast í að byggja sér fjárhúskofa nema bera það undir Steincke.
Laxdals þáttur Stórbrunar óbrynnishús og sjáandi
Steincke var frumkvöðull og framfarasinnaður maður og það var einnig eftirmaður hans hjá Gudmannsverslun, Eggert Laxdal. Hann fluttist í húsið 1875, er Steincke fluttist af landi brott, og tók við verslunarstjórastöðunni. Var húsið þá kennt við Eggert Laxdal og þar komið nafnið Laxdalshús. Það er athyglisvert, að í flestum tilfellum eru hús sem kennd eru við menn á annað borð, yfirleitt kennd við þá sem byggðu þau. Þegar Laxdal fluttist í samnefnt hús stóð húsið hins vegar á áttræðu! (Þess má ennfremur geta, að húsið var á 51. aldursári þegar Eggert Laxdal fæddist í febrúar 1846). Eggert sat m.a. lengi í bæjarstjórn og var einn stofnenda Framfarafélags Akureyrar árið 1879. Sá félagsskapur stóð að ýmissi fræðslu og fyrirlestrum, m.a. fyrir iðnnema. Eggert stýrði versluninni lengst af undir eignarhaldi Carls J. Höepfner en hann eignaðist verslunina árið 1879, er Friðrik Gudmann lést, aðeins fimmtugur að aldri. Kallaðist verslunin eftir það Gudmanns efterfölger.
Aðfararnótt 19. desember 1901 varð stórbruni á Akureyri og brunnu þó nokkur hús til ösku. Eins og gefur að skilja varð Laxdalshúsi bjargað en þó mun ekki hafa munað miklu. Eldurinn kom upp í veitingahúsinu og hótelinu Jensensbauk, sem stóð þar sem nú er Aðalstræti 12. Breiddist hann út með ógnarhraða til norðurs um hið svokallaða Efra pláss (Aðalstræti) en einnig brunnu syðstu hús Neðra pláss (Hafnarstræti 1 og 3). Á meðal húsa sem eyddust var fyrsta íbúðarhúsið sem reis á Akureyri, árið 1777 (íbúðarhús Lynges), sem nefnt er hér framarlega í greininni. Logn eða mjög hægur vindur var þessa nótt en þó gekk á með vestanhviðum sem feykti eldtungunum yfir götuna í Efra plássi sem nýlega hafði fengið nafnið Aðalstræti. En eldhafið vann á húsunum vestanmegin götunnar og brunnur, vatnsfötur og segl bæjarbúa máttu sín lítils. Neðst í Búðargili stóð Möllershús, þar sem nú er Aðalstræti 8. Það brann til kaldra kola og litlu munaði, að eldurinn næði þaðan yfir götuna í gömlu Mörbúðina á lóð Gudmannsverslunar. Það sem hins vegar mun hafa bjargað því húsi var tjörusandspappi, sem Eggert Laxdal hafði sett á húsið skömmu áður. Hefði eldurinn læst sig í Mörbúðina, hefði hann líklega gleypt öll húsin á verslunarlóðinni og þ.m.t. Laxdalshús. Norðan við Laxdalshús lá, og liggur enn, svokallaður Breiðigangur sem tengdi saman göturnar tvær. Hann var hins vegar ekki breiðari en svo, að eldurinn hefði þaðan átt greiða leið yfir í krambúðina, frá 1793, og vörugeymsluhús norðan við. Hefði þá líklega mestallur kaupstaðurinn norðan Fjörunnar brunnið til grunna!
Það er frá því að segja, að Eggert Laxdal hafði nokkru áður heimsótt aldraðan mann á Velli í Saurbæjarhreppi, Hallgrím Þórðarson. Hallgrímur, sem Eggert hafði þekkt árum saman vegna viðskipta við verslun Gudmanns, var talinn elliær en átti það til að segja fyrir um óorðna atburði. Taldi Hallgrímur sig hafa skilaboð að handan, nánar tiltekið frá Pétri Hafstein amtmanni, um að bærinn myndi brenna. Og það sem meira var, hann taldi að upptökin yrðu annað hvort í gamla sjúkrahúsinu eða hótelinu en það síðarnefnda varð raunin! Mun hann hafa stungið upp á vörnum við Laxdal sem var lítt trúaður á raus hins meinta sjáanda. En einhverra hluta vegna hafði hann fylgt ráðum hans og sagði hverjum sem verða vildi frá þessum dulrænu atburðum (sbr. Jón Hjaltason 2016:35). Hvort það var hagstæð vindátt, snarræði bæjarbúa eða ráð að handan sem björguðu Laxdalshúsi þessa desembernótt 1901, skal ósagt látið hér. Aðra desembernótt ellefu árum síðar, nánar tiltekið þann 15. desember, árið 1912, var einnig stórbruni aðeins fáeina metra frá Laxdalshúsi og aftur skall hurð, jafnvel enn nærri hælum, hvað Laxdalshús varðar. Þá voru það hins vegar vatnsdælur og búnaður hins nýstofnaða slökkviliðs sem bjargaði því sem bjargað varð. Kom eldurinn raunar upp í gömlu geymsluhúsi á vegum Gudmannsverslunar, norðan Breiðagangs. Stöðug dæling á vatni, auk járnplatna sem komið var fyrir til varnar á húshliðum og stöfnum, komu í veg fyrir að eldurinn bærist suður yfir Breiðagang eða vestur yfir Aðalstrætið. Varnaði því einnig, að eldhafi næði austur yfir Hafnarstrætið (sbr. Jón Hjaltason 2016:71), en þar stóð m.a. nýlegt og glæst stórhýsi Ottos Tulinius. Í þessum bruna eyðilögðust að mestu gömul geymslu- og vöruhús sem stóðu m.a. þar sem nú er ísbúðin Brynja og bílastæði norðan hennar.
Laxdalshús á 20. öld
Laxdalshús, sem fékk númerið 11 við Hafnarstræti á fyrstu árum 20. aldar var svo metið til brunabóta þann 1. desember 1916. Húsið var þá orðið 121 árs. Var því lýst svo: Íbúðarhús, einlyft á lágum steingrunni og [með] háu risi. Á gólfi undir framhlið 2 stofur og forstofa. Bakhlið: búr, eldhús og gangur 1 stofa. Á lofti 3 íbúðarherbergi 1 geymsluherbergi og gangur (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 55). Þak var pappaklætt og veggir timburklæddir og húsið sagt 12,8x6,3m að grunnfleti og á því 18 gluggar. Þrír kolaofnar og ein eldavél voru í húsinu.
Árið 1913 mun síðasti verslunarstjóri Gudmannsverslunar hafa flust úr húsinu. Var það Páll V. Jónsson, sem í manntali 1912 er titlaður verslunarstjóri á gamla kontórnum. Hafði húsið þá gegnt hlutverki verslunarstjórahúss í 118 ár. Húsið var selt Jóni Stefánssyni, ritstjóra og kaupmanni hjá J.V. Havsteen á Oddeyri, sem þarna bjó til ársins 1920. Jón átti húsið til ársins 1942 og leigði þar út íbúðarherbergi. Á teikningu Rafveitu Akureyrar frá því um 1922 sést að á hvorri hæð voru tvær stofur og eitt svefnherbergi, eldhús á neðri hæð ásamt búri og búr í risi. Um tuttugu árum síðar, eða síðla árs 1943 eignaðist Akureyrarbær húsið. Keypti bærinn húsið af Guðmundi Bergssyni póstmeistara, sem keypt hafði húsið af Jóni, en átti það aðeins í eitt ár. Þegar manntal var tekið í október 1943 er Guðmundur enn skráður eigandi hússins og 22 íbúar skráðir, þ.á.m. Guðmundur sjálfur og kona hans, Hrefna Ingimarsdóttir. Einhvern tíma á þessum áratugum voru settir nýmóðins gluggar með einföldum póstum, þakið járnklætt og sökkulsteypa endurnýjuð með steyptri kápu neðst á veggjum. Þegar leið að síðasta fjórðungi 20. aldar var ástand hins 180 ára timburhús orðið nokkuð bágborið. En þá hafði orðið almenn vakning í því málefni sem kallaðist varðveisla gamalla húsa og farið að friða hús. Grein um slíkt var að finna í Þjóðminjalögum árið 1969. Og það var samkvæmt þeirri grein, sem Akureyrarbær friðlýsti Laxdalshús í A-flokki haustið 1977. Þá var enn búið í húsinu í tveimur íbúðum.
Á næstu árum, þ.e. 1978-1984 fóru fram gagngerar endurbætur á Laxdalshúsi. Fyrir þeim framkvæmdum fór hin valinkunni smíðameistari Sverrir Hermannsson. Hann lýsti því í viðtali við Dag árið 1983 að hann hefði unnið fyrir ákveðna fjárveitingu á ári og að húsið hafi verið mjög illa farið. Endurnýja hefði þurft um 80 % en húsið friðað í A-flokki, svo engu mætti breyta og öll endurnýjun yrði að vera nákvæmlega í samræmi við upprunann. Studdist Sverrir m.a. við gamlar myndir við vinnu sína við Laxdalshús. Sverrir hafði einmitt ánægju af því að smíða upp gamalt eins og hann orðaði. Gefum Sverri orðið: Það er vel til þess fallið að byggja þessi gömlu hús upp til að varðveita þær byggingarðaferðir sem viðhafðar voru þegar þau voru byggð (Sverrir Hermannsson (Gísli Sigurgeirsson) 1983:6). Endurbótum lauk einmitt árið eftir að viðtalið við Sverri var tekið og í júní 1985 gerði Hjörleifur Stefánsson teikningar að hinu nýendurbyggða Laxdalshúsi, sem sjá má á kortagrunni Akureyrar. Þess má geta, að Sverrir var mikill safnari hina ýmsu hluta og eru það gripir hans sem eru til sýnis á Smámunasafninu í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit.
Laxdalshúsið hið endurbætta
Frá því að Sverrir Hermannsson og hans menn luku verkinu við þetta elsta hús bæjarins hefur það verið sannkölluð perla og bæjarprýði; Laxdalshús, íbúðarhús verslunarstjóra í meira en 100 ár, sem í upphafi kallaðist Akureyri 3 í manntölum og stendur við Hafnarstræti 11. Endurbætur hússins eru sérlega vel heppnaðar og bera vitni um einstakt handbragð og alúð þeirra smiða og byggingariðnaðarmanna, er þar voru að verki. Lóð Laxdalshúss er, eins og húsið sjálft, snyrtileg og í mjög góðri hirðu. Nánast frá upphafi vega hefur reynitré staðið framan við húsið en þar mun fyrst hafa verið gróðursett árið 1797 og stóð það tré framyfir 1920 er það féll vegna fúa og elli. Núverandi tré var líkast til gróðursett um svipað leyti og endurgerð hússins fór fram. Þá hefur húsinu og umhverfi verið mjög vel viðhaldið þessi 40 ár sem liðin eru síðan endurbótum lauk enda hefur nánast óslitið síðan einhver starfsemi. Það er nefnilega þannig, að hús eru ekki einungis safngripir, þau þurfa að vera í notkun á sama hátt og bátar þurfa að sigla; annars fúna þeir í naustum. Eftir gagngera endurgerð Sverris Hermannssonar var húsið innréttað sem veitingasalur og fyrir listsýningar og hefur að jafnaði verið slík starfsemi hér. Þegar þetta er ritað í ársbyrjun 2025 er sushiveitingastaðurinn Majó í Laxdalshúsi, sem opnaður var sumarið 2021. Rekstraðilar hússins eru þau Jónína Björg Helgadóttir og Magnús Jón Magnússon. Sú fyrrnefnda er myndlistarmaður og er hún einnig með vinnustofu sína í Laxdalshúsi. Þannig má segja, að Laxdalshús hýsi í senn, lyst og list, á 230 ára afmælisári sínu.
Meðfylgjandi myndir, sem sýna hinar ýmsu hliðar Laxdalshúss eru flestar teknar 15. desember 2024. Hér eru einnig myndir frá heimsókn þáverandi forsetahjóna, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reed, til Akureyrar 26. ágúst 2023 þar sem bæjarstjóri Akureyrar, Ásthildur Sturludóttir flytur ávarp. Einnig er mynd úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, en hún er tekin 18. júní 2015.
Hér að framan segir frá húsi, sem Gudmann og Steincke gáfu bæjarbúum sem sjúkrahús. Frá því segir í næsta pistli
Heimildir: Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Guðrún Harðardóttir. 2006. Laufás í Eyjafirði. Viðgerðir 1997-2002 Stofa, brúðarhús og dúnhús. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands og höfundur.Pdf-skjal aðgengilegt á 2006-1-Laufasskyrsla-loka-171106.pdf
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hörður Ágústsson. 2000. Íslensk byggingararfleifð I Ágrip af byggingarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.
Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær og höfundur.
Jón Hjalatson. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa.
Sigríður Sigurðardóttir. 2011. Gamlir byggingarhættir. Sauðárkrókur: Byggðasafn Skagfirðinga. Aðgengilegt á https://www.glaumbaer.is/static/files/Skjol/xiv-gamlar-byggingar.pdf
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Sverrir Hermannsson, viðtal tók Gísli Sigurgeirsson. 1983. Ég hef alltaf verið hrifinn af timburvinnu Dagur, 126. tbl. 9. nóvember. Sótt á timarit.is, á slóðinni https://timarit.is/page/2670028#page/n5/mode/2up
Ýmsar heimildir af m.a. timarit.is, islendingabok.is, manntal.is og herak.is
Bloggar | Breytt 13.1.2025 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2025 | 18:24
Nýárskveðja
Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.
Nýársmyndin að þessu sinni er tekin á Dalsbraut, sunnarlega í Lundarhverfi á Brekkunni, um 12-leytið í dag. Nýarssólin gyllir efstu brúnir og tinda Hlíðarfjalls, skíðahótelið á Skíðahótelinu líkt og áletrun listamanns, neðst í hægra horni. Risið er nokkuð lágt á sólinni, enda aðeins 11 dagar frá vetrarsólstöðum, 171 dagar í sólstöður á sumri. Mér reiknast til, að dagsbirtan vari nú 10 mínútum lengur en 21. des, svo allt er þetta í áttina; daginn hefur að meðaltali lengt um mínútu á dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2024 | 11:05
Hús dagsins: Norðurgata 4
Þann 22. mars árið 1897 afgreiddi bygginganefnd Akureyrar sameiginlegt byggingaleyfi til þriggja manna vegna bygginga við Norðurgötu. Gatan hét reyndar ekki Norðurgata þá og var eftir því sem greinarhöfundur kemst næst nafnlaus. Bygginganefnd talar einfaldlega um þvergötuna út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar (þá er nú Norðurgata ólíkt þjálla heiti). Þessir þrír voru þeir Þorvaldur Guðnason skipstjóri, Ólafur Árnason og Jón Jónatansson. Þorvaldur hafði rúmum áratug fyrr reist hús við sömu götu en hugðist nú reisa nýtt. Þeir síðarnefndu reistu eitt hús í sameiningu, sem skiptist í tvo eignarhluta.
Norðurgata 4 er einlyft timburhús á lágum steinkjallara og með háu portbyggðu risi og miðjukvisti að framan. Á bakhlið er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og stór kvistur með sams konar þakgerð og nær hann yfir drjúgan hluta þekjunnar. Mætti eiginlega segja, að risinu hafi verið lyft. Járn og steinblikk er utan á húsinu. Í flestum gluggum eru einfaldir þverpóstar í gluggum en á bakhlið eru einnig lóðréttir póstar. Grunnflötur hússins mælist nærri 9x11m, þar af er bakbygging um 4 metra breið.
Ólafur Árnason og Jón Jónatansson reistu semsagt húsið í sameiningu árið 1897. Byggingaleyfi þeirra var sem fyrr segir afgreitt samhliða byggingaleyfi Þorvalds Guðnasonar. Þorvaldur fékk að reisa hús, 9 álnir austan við þvergötuna út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar og 60 álnir frá Strandgötu. Gert var ráð fyrir að hús Þorvalds yrði 14x10 álnir að grunnfleti. Ólafur og Jón fengu að reisa sitt hús, 9 álnir norður af fyrirhuguðu húsi Þorvalds, en þeirra hús sagt 12x10 álnir með kvisti. Raunin hefur hins vegar orðið sú, að bæði húsin eru jafn löng og líkast til eru þau sama hönnun. Ekki liggja fyrir upprunalegar teikningar af húsunum ekki einu sinni víst að húsin hafi verið teiknuð yfirleitt en álitið að Snorri Jónsson hafi komið að hönnun og byggingu húsanna. Þetta sama sumar reisti Snorri einmitt stærsta hús Oddeyrar og líklega á allri Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, á horni Strandgötu og þvergötunnar út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar.
Ólafur Árnason var sjómaður, fæddur á Siglufirði, sagður í manntali 1901 fiskimaður á þilskipi og bát. Hann var kvæntur Guðlaugu Jónsdóttur, sem fædd var í Barðssókn í Norðuramti. Þau reistu norðurhluta hússins og bjuggu þar. Jón Jónatansson, sem reisti og átti suðurhlutann var Þingeyingur og hafði áður verið bóndi í Skriðulandi í Aðaldal. Þá hafði hann einnig verið í vistum á bæjum í Fnjóskadal og Aðaldal. Til Akureyrar flutti hann fyrir 1890 og árið 1901 er hann titlaður aukapóstur í manntali. Jón var kvæntur Guðrúnu Sesselju Jónsdóttur, sem einnig var Þingeyingur, nánar tiltekið úr Múlasókn.
Árið 1901 búa í húsinu 10 manns: Ólafur og Guðlaug í norðurhluta, Jón og Guðrún Sesselja ásamt börnum þeirra, Sigurborgu og Kristjáni, í suðurhlutanum. Þess má geta, að umræddur Kristján stofnaði rúmum áratug síðar Brauðgerð Kr. Jónssonar, síðar þekkt sem Kristjánsbakarí. Auk framangreindra voru tvær ungar konar, þær Valgerður Sigurðardóttir, 24 ára ógift, og Lilja Daníelsdóttir 26 ára ekkja, búsettar hér. Einnig búa hér ung hjón, Páll Markússon og Soffía Sigurlína Jónsdóttir ásamt Kristjáni, tveggja ára syni þeirra. Það kemur ekki fram í hvorum húshluta íbúar eru búsettur en væntanlega hafa konurnar og þriðja fjölskyldan leigt herbergi af Ólafi eða Jóni, mögulega í risinu. Páll Markússon var múrarameistari og kom að byggingu ýmissa húsa, m.a. fyrsta skólahúss Glerárþorps og Gefjunarhúsinu mikla á Gleráreyrum (síðarnefnda húsið var því miður jafnað við jörðu í ársbyrjun 2007 þegar Glerártorg var stækkað).
Jón Jónatansson flutti ásamt fjölskyldu sinni í nýreist hús við Grundargötu árið 1903 og bjó þar um nokkurt árabil. Svo vildi til, að alnafni hans, Jón Jónatansson járnsmiður hafði reist húsið og líklega selt nafna sínum það nýreist. Ólafur Árnason fluttist úr Norðurgötu 4 árið 1906 er hann reisti hús við Gránufélagsgötu. Árið 1906 voru eigendur hússins þær Þóra Guðnadóttir og Sigurveig Kristjánsdóttir. Þær eru skráðar fyrir húsinu öllu en virðast samkvæmt manntali búa í sama íbúðarrými, ásamt móður Sigurveigar, Björgu Guðmundsdóttur, Jóhönnu Hansdóttur vinnukonu og Kristjáni Þorgilssyni, smíðapilti. Þrjár íbúðir virðast í húsinu og í hvorri þeirra eru búsettar Vilhelmínur tvær, báðar titlaðar húskonur. Vilhelmína Ólafsdóttir deilir íbúðarrými með Steinunni Kristjánsdóttur sem einnig er húskona en nafna hennar Kristjánsdóttir býr hér með uppkomnum sonum sínum, Tryggva Jónassyni og Ármanni Björnssyni. Hvers notar höfundur hugtakið íbúðarrými en ekki bara íbúð? Það er einfaldlega vegna þess, að ekki liggur fyrir hvort um ræðir eitt herbergi eða íbúð. Sennilegra er, að hver íbúð hafi í raun aðeins verið eitt eða tvö herbergi, þegar í hlut á hús eins á borð við Norðurgötum 4. Í manntölum er ekkert slíkt gefið til kynna, heldur aðeins lárétt strik í upptalningu íbúa, þar sem um aðskilin íbúðarrými er að ræða. Á fyrstu áratugum 20. aldar eru að öllu jöfnu 2-3 fjölskyldur eða samleigjendur skráðir til heimilis í Norðurgötu 4 og raunar flestum húsum á Oddeyri.
Í árslok 1916 var Norðurgata 4 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, einlyft með porti, kvisti og háu risi á kjallara, lítill skúr við bakhlið. Á gólfi við framhlið 2 stofur og forstofa, bakhlið 2 eldhús. Á lofti 2 íbúðarherbergi, eldhús og forstofa. Kjallari skiptist í fernt. 1 skorsteinn (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.190). Húsið var sagt 7,4m á lengd, 6,3m á breidd og 6,3m á hæð og á því voru 13 gluggar. Veggir voru timburklæddir og þak járnvarið. 6 kolaofnar og 3 eldavélar voru í húsinu. Eigandi var Sigurveig Kristjánsdóttir (sbr. Brunabótafélag 1916: nr. 190). Elstu varðveittu teikningar að húsinu eru frá því um 1922, en þá var Rafveita Akureyrar tekin í gagnið og gerðar raflagnateikningar fyrir öll hús bæjarins. Þar er herbergjaskipanin nokkurn veginn í samræmi við lýsingu brunabótamatsskýrslunar, og sést, að gengið hefur verið inn í norðurhlutan um bakdyr inn í eldhús. Þá hefur verið smár kvistur á bakhlið og eldhús þar.
Árin 1936 og 1937 var byggt við húsið til austurs (þ.e. við bakhlið) Enda þótt um eina viðbyggingu virðist að ræða er það svo, að byggt var við húsið í tvennu lagi og meira segja var um tvær teikningar eftir tvo hönnuði að ræða. En það var árið 1936 sem Kristján Jónsson fékk að byggja við suðurhluta hússins, 3,70x4,20m að stærð. Byggingin yrði úr timbri ofan kjallara. Teikningarnar að viðbyggingu Kristjáns gerði Tryggvi Jónatansson. Ári síðar fékk Sigurveig Kristjánsdóttir að byggja við sinn hluta, þ.e. norðurhlutann, og sú bygging yrði 3,8x3,8m. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Halldór Halldórsson. Mismunurinn á þessum málum virðist koma til af því, að nyrðri eignarhlutinn er 40 cm mjórri en sá syðri. Mögulega hefur húsið verið járnvarið á sama tíma og byggt var við en það gæti hafa verið klætt eitthvað fyrr. Árið 1916 var húsið alltént timburklætt, sbr. Brunabótamat hér að framan. Líkast til hefur risinu verið lyft að aftan um svipað leyti og byggt var við. Rétt er að taka fram, að sá Kristján Jónsson sem átti suðurhluta hússins árið 1936 var ekki sá hinn sami og átti hér heima sem barn og gerðist síðar bakari. Sá Kristján Jónsson sem átti suðurhluta Norðurgötu 4 á þessum árum var bílstjóri og verkamaður. Hann fæddur árið 1897 (m.ö.o. jafnaldri Norðurgötu 4) í Baldursheimi í Svalbarðsstrandarhreppi en fluttist ársgamall í Ytra-Krossanes í Glæsibæjarhreppi. Kristján var systursonur téðrar Sigurveigar.
Sigurveig Kristjánsdóttir átti húsið eða hluta þess í meira en hálfa öld, eða til æviloka. Hún lést, 5. maí 1958 og vantaði þá tæpar fjórar vikur í 96 ára afmæli sitt, en hún var fædd 31. maí 1862 í Meðalheimi á Svalbarðsströnd. Kristján Jónsson var einnig búsettur hér til æviloka en hann lést árið 1965. Íbúafjöldi hússins gegnum tíðina skiptir eflaust hundruðum ef ekki þúsundum þótt eigendaskipti hafi ekki endilega verið mjög tíð. Enn er húsið tveir eignarhlutar og tvær íbúðir, eignahlutaskipti fyrir miðju og hefur svo verið frá upphafi enda þótt íbúðarrými hafi einhvern tíma verið fleiri.
Árið 2022 heimsótti Kristín Aðalsteinsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi prófessor, hana Sigrúnu Rögnu Úlfsdóttur sem þá hafði nýlega fest kaup á suðurhluta Norðurgötu 4, og ræddi við hana um húsið. Viðtalið við Sigrúnu Rögnu var tekið fyrir bók Kristínar og undirritaðs, Oddeyri Saga hús og fólk sem kom út 2023 (og er enn fáanleg). Sigrún hafði á orði, að henni hafi ekki litist sérlega vel á ástand hússins í upphafi en fann strax góðan anda í því, svo efasemdirnar dofnuðu. Þó var ljóst að ýmislegt þyrfti að framkvæma, breyta og bæta. Hún leigði húsið út á tímabili og leigjendur fundu einnig fyrir þessum góða anda enda þótt einhverjir létu einnig í ljós að ýmislegt væri fremur frumstætt. Gefum Sigrúnu Rögnu orðið: Ég nýt þess að taka eldhúsið og baðið í gegn. Næsta verkefni verður að taka til í stofunni, sem áður fyrr var svefnherbergi. Hér gildir að þora að rífa og komast að því hvað hægt er að gera. Ég varð til dæmis mjög ánægð þegar ég sá panelinn á veggjunum en áttaði mig fljótt á því að það yrði mikið verk að laga hann, það gustaði líka inn um hann og svo kom reiðingurinn í ljós (Sigrún Ragna Úlfsdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson) 2023:109). Sem fyrr segir varð Sigrúnu Rögnu tíðrætt um góðan anda í húsinu sem hún og leigjendur fundu fyrir. (Hver veit nema andi þeirra Jóns og Ólafs eða Sigurveigar Kristjánsdóttur og Kristjáns systursonar hennar, eða annarra af mörgum eigenda og íbúa hússins svífi þar yfir vötnum. Það skal ósagt látið hér).
Norðurgata 4 er látlaust en glæst hús og til mikillar prýði í umhverfinu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað og er hluti varðveisluverðrar heildar, sem húsaröðin við Norðurgötu er. Norðurgata 2 og 4 eru augljóslega nokkurs konar tvíburahús en kvistir, gluggar, halli á risi og hlutföll bera þess merki, að um sömu eða alla vega mjög svipaða hönnun er að ræða. Þessi tvö hús eru þó engu að síður gjörólík, m.a. vegna síðari tíma breytinga, en framhliðar þeirra eru sérlega samstæðar. Ysta húsið nr. 6, er örlítið frábrugðið þessum tveimur húsum, en það er reist ári síðar en nr. 2 og 4. Heildarsvipur þessarar öldnu þrenningar syðst við Norðurgötu er þó mjög samstæður og myndar skemmtilega sjónræna heild í þessari merku götu á Oddeyri. Í húsakönnun 2020 hlýtur Norðurgata 4 miðlungs varðveislugildi sem friðað hús í einstakri götumynd og varðveisluverðri heild (sbr. Bjarki Jóhannesson 2020:89). Meðfylgjandi myndir eru teknar á tæplega 20 ára tímabili; 21. janúar 2005, 28. ágúst 2010, 10. september 2013, 19. júní 2022 og 22. október 2024.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917.Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.â¯Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 140, 22. mars 1897. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 773, 27. apríl 1936. Fundur nr. 803, 13. ágúst 1937. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995. â¯Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:â¯https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson. 2023. Oddeyri Saga hús og fólk. Akureyri: höfundar gáfu út.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2024 | 15:35
Jólakveðja
Óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla
(Jólamyndin að þessu sinni sýnir eina af óshólmabrúnum yfir Eyjafjarðará á svonefndri Þverbraut og er myndin tekin 16. feb. 2024)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2024 | 15:45
Húsaáætlun 2025 (fyrstu mánuðina og fram á sumar)
Í fyrsta skipti í 15 ára sögu vefsíðunnar arnorbl.blog.is birti ég hér með HÚSAÁÆTLUN fyrir næsta misseri eða rúmlega það. En svo vill til, að á nýju ári eiga tvö elstu hús bæjarins stórafmæli en sléttir fjórir áratugir skilja að Laxdalshús og Gamla Spítalann sem verða 230 og 190 ára á komandi ári. (Skjaldarvíkurstofan, sem talinn er austasti hluti Gránufélagshúsanna er reyndar -heimildum ber ekki saman- talin jafnaldri Gamla Spítalans).
Af því tilefni er ætlunin að fyrsta hús á nýju ári verði Laxdalshús, þá Gamli Spítalinn eða Gudmanns Minde. Um öll þessi hús fjallaði ég á fyrstu árum síðunnar en nú er kominn tími á uppfærslu.
Í kjölfarið ætla ég svo að birta umfjallanir í elstu hús bæjarins í aldursröð (eða nokkurn veginn, stundum ber heimildum ekki saman) fram á vorið en líkt og börnin forðum verður umfjöllunin "send í sveit" með sumrinu og 25. júní, á 16 ára afmæli Húsa dagsins ætla ég að taka upp þráðinn á Skipalóni og birta umfjöllun um Smíðahúsið (Lónsstofu tók ég fyrir á afmælisdegi Húsa dagsins á þessu ári).
Að öllu jöfnu birtast 2-4 pistlar í mánuði svo áætlunin gæti verið á þessa leið:
JANúAR Laxdalshús, Hafnarstræti 11
Gamli Spítalinn, Gudmanns minde, Aðalstræti 14
FEBRÚAR Aðalstræti 52
Aðalstræti 44
MARS Aðalstræti 66
Aðalstræti 66b
Aðalstræti 62
APRÍL Eyrarlandsstofa
Nonnahús
MAÍ Aðalstræti 50
Aðalstræti 2
JÚNÍ Aðalstræti 40
Aðalstræti 42
25. JÚNÍ Smíðahúsið á Skipalóni
Sumar Gömul hús í sveitunum nærri Akureyri
(Á þessum lista ættu einnig að vera Aðalstræti 6 og Frökenarhús, Lækjargata 2a en stutt síðan ég tók þau fyrir nokkuð ítarlega)
Á þessari áætlun eru að sjálfsögðu allir hugsanlegir fyrirvarar og hún er auðvitað aðeins til viðmiðunar, vel gæti verið að önnur hús slæðist inn á milli ef svo ber undir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2024 | 18:18
Hús dagsins: Norðurgata 6
Gerum okkur nú, lesendur góðir, í hugarlund Oddeyri í febrúar 1898. Eyrin er væntanlega snævi þakin og mögulega ísilagðir pollar og lænur úr Gleránni (nema vera skyldi, að hafi verið hláka) þar víða og er þar mestur ósinn á Oddeyrartanga. Íbúðabyggðin á Eyrinni er að mestu bundin við fjörukambinn syðst, og teygir húsaröðin sig í átt að brekkunni neðan við Stóra - Eyrarland. Þar hafa á síðustu misserum risið nokkur hús, þar sem áður var illfær og brött brekka í sjó fram. Fyrstir reistu þeir Bjarni Einarsson Due Benediktsson íbúðarhús neðst í Grófargili árið 1894 en í kjölfarið reisti amtmaður sér bústað á miðju einskismannslandinu, milli byggðalaganna tveggja á Akureyri og Oddeyri. Löngu síðar reisti Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, sér veglegar höfuðstöðvar þar sem hús Bjarna og Due reis en amtmannshúsið stendur enn. Sumarið áður en hér er komið sögu, hefur Júlíus nokkur Sigurðsson og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir, systir athafnamannsins og skáldsins unga [33 ára á útmánuðum 1898] Einars, reist veglegt hús, nokkurn veginn í krikanum þar sem eyrin og brekkan mætast í flæðarmálinu, og kallast Bótin. (Nálega sex áratugum síðar var hús þetta flutt út á Oddeyri, á Ránargötu 13). En þetta sama sumar, 1897, reis líka eitt alstærsta hús kaupstaðarins við Strandgötuna á Oddeyri. Það reisti byggingameistarinn Snorri Jónsson. Hann á einmitt sæti í bygginganefnd bæjarins, sem þennan febrúardag bregður sér út á Oddeyrina að mæla fyrir tveimur hússtæðum við þvergötur, sem byggst hafa upp út frá Strandgötunni. Annars vegar fyrir Jón Guðmundsson skósmið og hins vegar Metúsalem Jóhannsson verslunarmann. Það er freistandi að áætla, að þeir hafi safnast saman á heimili Snorra og haldið svo af stað eftir þvergötunni sem liggur til norðurs, vestan við stórhýsi hans, þar sem þeir mæla út fyrra hússtæðið, ef marka má fundargerð.
Bygginganefndarmenn stika út frá Snorrahúsi út eftir götunni. Handan hennar á horninu er hús sem Jón Halldórsson reisti árið 1876 og var notað sem viðmið, þegar gata þessi var mæld út sumarið 1885. Þá voru reyndar þegar risin þrjú hús í götulínunni og fjögur, ef við teljum með hús sem reist var á grunni annars af tveimur fyrstu húsum Oddeyrar. Það var torfbær, sem reis árið 1858 en á grunni þess var reist timburhús um 1880. Ekki er leiðin löng að lóðinni, þar sem þeir ætla að mæla út fyrir húsinu. Þeir staðnæmast norðan við hús sem reist voru sumarið áður, líkast til eftir sömu forskrift Snorra. Syðra húsið reisti Þorvaldur Guðnason en það nyrðra Jón Jónatansson og Ólafur Árnason. Handan götunnar blasir við þeim hús, sem Snorri reisti um svipað leyti og hann settist að á Oddeyri tæpum tveimur áratugum fyrr. Og örlítið ofar við sömu götu er steinhúsið mikla, sem reist var um svipað leyti. Að öðru leyti blasir marflöt Eyrin við þeim með Eyjafjörðinn og Kaldbak í baksýn, þar sem þeir taka til við mæla út lóð og hússtæði fyrir Metúsalem Jóhannsson. Húsið yrði 14 álnir á lengd og 11 álnir á breidd og skyldi standa norður af húsi Jóns Jónatanssonar. Það fylgir reyndar ekki sögunni hvernig lóðinni var úthlutað, bygginganefnd er þarna að mæla út fyrir húsinu en ekki lóðinni. Það er ekki ósennilegt, að Metúsalem hafi fengið lóðina hjá landeiganda Oddeyrar, Gránufélaginu. En látum það liggja milli hluta. Ákváðu bygginganefndarmenn, að hús Metúsalems skyldi standa við fyrirhugaða þvergötu niður Oddeyrina.
Í þessum venju fremur langa formála eru fólgnar margar spurningar sem rétt er að svara. Umrædd gata út Oddeyrina fékk fáeinum árum síðar nafnið Norðurgata og téð hús Þorvalds annars vegar og Jóns og Ólafs hins vegar fengu númerin 2 og 4 við þá götu. Steinhúsið mikla varð Norðurgata 17 og eldra hús Snorra, Norðurgata 11. Stórhýsi Snorra var Strandgata 29. Það hús var rifið fyrir nálega 40 árum en hús Jóns Halldórssonar stendur enn, en þarfnast verulegra endurbóta eða endurbyggingar og hefur verið sótt um niðurrif þess. Um er að ræða Strandgötu 27.
Norðurgata 6 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti að framan og stendur það á háum steyptum eða hlöðnum kjallara. Veggir eru klæddir steinblikki, bárujárn á þaki og kjallaraveggir múrhúðaðir. Á miðri framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur að henni. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum hússins. Grunnflötur er nærri 9x7metrum sem rímar nokkurn veginn við álnirnar úr byggingarleyfinu frá 1898, ellefu álnir eru um 6,93m og fjórtán álnir 8,82m.
Metúsalem Jóhannsson reisti hús sitt árið 1898 og fékk tveimur árum síðar leyfi til að reisa skúr á baklóðinni. Árið 1901 er húsið kallað 8 Norðurgata. Geysistórt pakkhús, sambyggt Snorrahúsi hefur þá líkast til talist númer 2 við götuna. En þá eru búsettir á tæpum 160 fermetrum (skv. Fasteignaskrá) hússins, 20 manns. Þar ber helst að nefna þau Metúsalem Jóhannsson og konu hans Sigrúnu Sörensdóttur. Þau eiga ónefndan dreng, sem fæddur er 23. ágúst þetta sama ár, 1901. Þess má geta, að undir lok ársins 1901 eru tvö nýfædd börn hér til heimilis, fædd með mánaðar millibili upp á dag, en ónefnd stúlka Jóns Jónssonar Dalmann og Ingibjargar Jónsdóttur er fædd 23. september. Aðrir íbúar hússins eru hjú, leigjendur og einn er einfaldlega titlaður aðkomandi en það er hinn 35 ára Bergur Hreiðarsson. Þrír bera titilinn húsbóndi en það eru auk Metúsalems, téður Jón Dalmann og Ólafur Guðmundur Eyjólfsson. Af nýfæddu börnunum tveimur er það að segja, að drengurinn sem fæddist 23. ágúst hlaut nafnið Óli Vernharður og gerðist síðar útgerðarstjóri og stórkaupmaður í Reykjavík. Hann lést 1977. Dóttir þeirra Jóns Dalmann og Ingibjargar, sú er fædd var mánuði síðar, hlaut nafnið Karolína Andrea. Hún fluttist ung til Danmerkur og lést þar árið 1981. (Ári eftir að manntalið var tekið fluttust þau Metúsalem og Sigrún að Strandgötu. Þar byggði Metúsalem hús en áður en að því kom gerði hann sér lítið fyrir og flutti húsið sem fyrir stóð á lóðinni, Hauskenshús svokallað, um nokkra metra inn í þvergötuna sunnan við lóðina. Nýja hús Metúsalems brann til ösku í mars 1906 en aftur gerði hann sér lítið fyrir og byggði nýtt hús, enn stærra og glæstara. Þar er nú Strandgata 23 en Hauskenshús stendur einnig enn og er eitt af elstu húsum Oddeyrar).
Metúsalem Jóhannsson (1874-1941), kaupmaður var utan úr Glæsibæjarhreppi, uppalinn á Einarsstöðum. Hann var kvæntur Sigrúnu Sörensdóttur (1872-1915) en hún var úr Þingeyjarsýslum, skráð til heimilis að Vargsnesi í Þóroddsstaðasókn árið 1880. Metúsalem fluttist frá Akureyri um 1910 og stundaði hann verslun og útgerð víða um land, m.a. á Óspaksseyri og síðar í Reykjavík. Hann lést í Kaupmannahöfn árið 1941. Árið 1902 búa aðeins sjö manns í húsinu, Ólafur Eyjólfsson kaupmaður og fjölskylda hans. Ári síðar eða 1903 er eigandi hússins orðinn J. Norðmann, búsettur hér ásamt fjölskyldu sinni. J. Norðmann, sem fullu nafni hét Jón Steindór Jónsson Norðmann lést árið 1908 en ekkja hans, Jórunn erfði húseignina. Árið 1915 eignast húsið Ásgrímur Pétursson fiskmatsmaður og ári síðar er húsið orðið tveir eignarhlutar. Er þá Ásgrímur eigandi annars hluta hússins en Pétur sonur hans eigandi hins en alls búa 13 manns í þremur íbúðarrýmum það ár. Auk þeirra feðga er Tryggvi Guðmundsson og fjölskylda hans skráð hér til heimilis. Á næst síðasta degi ársins 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins húsið og var því lýst eftirfarandi:
Íbúðarhús, einlyft með kvisti, porti og háu risi á kjallara, skúr við bakhlið. Þak var járnklætt, sem og norðurstafn hússins. Á neðri hæð vestanmegin (gólfi við framhlið) voru tvær stofur og forstofa og austanmegin tvær stofur og eldhús. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og fjórar geymslukompur. Kjallara var skipt í fjórar geymslukompur. Tveir skorsteinar voru á húsinu, tengdir fjórum kolaofnum og eldavél. Grunnflötur hússins var 8,8x6,9m og hæðin 6,3m og fjöldi glugga 18 (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 188). Á lóðinni stóð einnig hey- og gripahús úr steinsteypu, 8,8x4,4m að stærð og 2,8m á hæð með pappaklæddu timburþaki. Þar gæti verið um að ræða hús sem Ásgrímur Pétursson fékk að reisa sumarið 1915, peningshús og geymsluhús úr steinsteypu á austurmörkum lóðar. Þessu húsi var breytt í íbúðarhús árið 1922 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson) og varð Norðurgata 6b. Eigendur beggja húseigna voru Sölvi Halldórsson og Guðrún Jónsdóttir. Norðurgata 6b var afmörkuð lóð, sem var raunar við Gránufélagsgötu, en húsið var rifið um 1996 og lóðin aftur lögð undir Norðurgötu rúmum áratug síðar.
Fram kemur í brunabótamati að aðeins norðurhlið hússins er járnklædd. Þegar það er haft í huga, að járnklæðningar timburhúsa voru í árdaga fyrst og fremst hugsaðar sem brunavörn; hvort heldur að eldur breiddist úr brennandi húsi í annað eða að eldur úr öðru húsi læsti sig síður í það næsta, er nokkuð sérstakt, að það var einmitt hliðin sem vissi frá næstu húsum, sem var járnklædd. Ekki aðeins að norðurstafninn sneri ekki að næstu húsum, heldur voru næstu hús því norðan við Norðurgötu 6 staðsett í Glerárþorpi! (Þ.e. ef dregin væri lína um Norðurgötu milli austurs og vesturs). Það var ekki fyrr en 1926, að byggt var austan við Norðurgötu. En mögulega hefur það einmitt ráðið þessum frágangi, norðurstafninn var auðvitað mjög áveðurs fyrir norðanáttum, þó nyti hann skjóls fyrir vestanáttum. Síðar, líklega á 3. eða 4. áratug 20. aldar voru veggir hússins klæddir með steinblikki. Eigandi þá hefur væntanlega verið Sölvi Halldórsson en hann átti húsið og bjó hér fram undir miðja öldina.
Það myndi líklega fylla heila bók og hana þykka að telja upp eigendur og íbúa hússins frá upphafi en á meðal þeirra má nefna Indriða Ragnar Sigmundsson frá Miðvík í Grýtubakkahreppi, sem hér var búsettur um árabil upp úr miðri síðustu öld. Indriði var vörubílsstjóri mestan sinn starfsaldur en hugkvæmdist í sjóróðrum á unga aldri uppfinning, sem hann fékk einkaleyfi á árið 2003, þá kominn á níræðisaldur. Um var að ræða svokallaða hringlínu, sem kannski mætti lýsa sem nokkurs konar veiðifæribandi sem stöðugt fer upp og niður og krækir í fisk á leiðinni. Á 2. áratug þessarar aldar bjuggu hér þau Perla Fanndal og Sigurvin Jónsson. Gerðu þau m.a. miklar endurbætur á lóðinni og voru þar með mikla hænsnarækt, eitt stærsta hænsna- og fuglabú innan þéttbýlismarka Akureyrar á sinni tíð og auk þess sinntu þau ýmissi ræktun í gróðurhúsi á lóðinni.
Húsinu hefur eflaust verið vel við haldið alla tíð og er í mjög góðri hirðu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað og er hluti varðveisluverðrar heildar, sem húsaröðin við Norðurgötu er. Húsið myndar einmitt mjög skemmtilega sjónræna heild ásamt næstu húsum sunnan við, en þau eru mjög sviplík að framan með miðjukvisti og inngöngudyr beint neðan við og glugga beggja vegna. Hlutföllin eru þó eilítið öðruvísi í nr. 6 en hinum tveimur, risið hærra og kvistur brattari auk þess sem það stendur á hærri grunni. En heildarsvipur þessarar öldnu þrenningar syðst við Norðurgötu er mjög samstæð. Í húsakönnun 2020 fær húsið hátt varðveislugildi sem friðað hús í einstakri götumynd og varðveisluverðri heild (sbr. Bjarki Jóhannesson 2020: 90). Myndirnar eru teknar 8. september 2013, 19. júní 2022 og 22. október 2024. Myndin sem sýnir Norðurgötu 2-4 er tekin 28. ágúst 2010.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021.â¯Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinniâ¯Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð.â¯Virðingabók 1916-1917.â¯Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 â¯Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsinsâ¯Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.â¯Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 159, 9. feb. 1898. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 415, 30. júlí 1915. â¯Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995.â¯Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:â¯https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf
â¯
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2024 | 23:06
Brúabókinni fylgt eftir
...með dagatali!
Já, ætli ég verði ekki að gangast við því, að þessi færsla sé hrein auglýsing.
En þannig er mál með vexti, að í fyrra gaf ég út bókarkornið "Brýrnar yfir Eyjafjarðará" og hlaut hún hinar ágætustu viðtökur. Það var svo þegar mér var litið á dagatal í desember í fyrra, að ég uppgötvaði möguleikann, sem felst í því að brýrnar yfir Eyjafjarðará eru nánast jafn margar og mánuðir ársins: Dagatal skyldi það vera!
Það var auðvitað of seint að gera nokkuð í því þá fyrir árið 2024 svo ég einsetti mér, að fyrir árið 2025 skyldi ég setja saman dagatal með myndum af brúm í Eyjafirði og myndirnar teknar í þeim mánuðum sem við á. Þannig að ég dreif mig að ljósmynda eina brú í desember 2023 til þess að eiga hana í tæka tíð. Svo fór ég í flestum mánuðum ársins að ná myndum fyrir hvern mánuð- myndirnar í bókinni eru t.d. flestar teknar í sumar og haustmánuðunum og margar brúamyndirnar í sömu mánuðum.
En hér birtist semsagt afraksturinn.
Dagatalið sel ég á 3000 kr.
Þá býð ég upp á pakkatilboð, dagatal og bók á 5000 kr. Fullt verð væri 6000 kr. en það er ekki bara bókin heldur er meðfylgjandi bók áritað eintak með handskrifuðum skilaboðum og auka fróðleiksmola. Engar tvær útgáfur af því handskrifaða er nákvæmlega eins, þó efnistökin séu í mörgum tilfellum svipuð.
Þennan varning sendi ég auðvitað hvert á land sem er að viðlögðu sendingargjaldi sem Pósturinn innheimtir eftir sinni verðskrá (Pósturinn rukkar semsagt þau gjöld- ekki ég).
Panta má hér á síðunni (athugasemd við færslu), gegnum póstinn hallmundsson@gmail.com eða í síma 864-8417, eftir kl. 16.
PS. Er ekki bara viðeigandi, að hér meðfylgjandi sé dagatalssöngur Neil Sedaka. Hann söng að vísu ekki um dagatalsbrýr heldur dagatalsstelpur í laginu "Calendar Girl"
Skemmtileg staðreynd: Þegar Neil Sedaka söng þetta lag inn á plötu (1961) voru elstu brýr yfir Eyjafjarðará, Hólmabrýrnar (á Þverbrautinni) 38 ára eða jafn gamlar og yngsta akbrúin, Leirubrú er núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2024 | 15:06
Hús dagsins: Lundargata 11
Þann 9. febrúar árið 1898 brá Bygginganefnd Akureyrar sér, einu sinni sem oftar, út á Oddeyri. Erindi hennar var að mæla út lóð undir tvö hússtæði. Annars vegar var mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar. Hins vegar mældi Bygginganefnd út fyrir húsi sem Jón Guðmundsson skósmiður ætlaði að byggja, 12 álnir á lengd og 9 álnir á breidd. Skyldi húsið vera norður af húsi Björns Ólafssonar (Lundargata 6) og í línu við norðurstafninn á húsi sr. Péturs Guðmundssonar (Lundargata 9).
Lundargata 11 er einlyft timburhús með háu, portbyggðu risi og miðjukvisti á framhlið. Á bakhlið er einnig kvistur og útskot og er þar um að ræða nýlegar viðbætur. Bárujárn er á þaki en á veggjum er steinblikk og það sem meira er, tiltölulega nýlegt steinblikk, sem er nokkuð einstakt en nánar um það hér síðar. Húsið mun 7,68x5,78m að grunnfleti. Útskot á bakhlið er 93 cm breitt og 5,40m að lengd (skv. teikningum Ólafs Jakobssonar).
Ekki virðist Jón Guðmundsson skósmiður, sem byggði húsið, hafa átt heima þar lengi því í Manntali 1902 er hann ekki sjáanlegur þar. Skiptist húsið þá í tvo eignarhluta og eigendur þeirra voru Finnur Björnsson skipstjóri og Jórunn Sigurjónsdóttir annars vegar og Guðmundur Helgason sjómaður og Kristín Guðmundsdóttir hins vegar. Svo sorglega vill til, að fáeinum mánuðum eftir að umrætt manntal var tekið, fórst Finnur Björnsson með skipi sínu, Oak, í mars 1903 við átjánda mann. Þess má geta, að bróðir Finns, Sigmundur Kristinn Björnsson, bóndi á Syðri-Hóli í Öngulsstaðahreppi, var langafi greinarhöfundar.
Af Jóni Guðmundssyni skósmiði er það annars að segja, að hann var fæddur árið 1858 (í manntölum er hann yfirleitt sagður yngri en á islendingabok.is er fæðingarárið 1858) og uppalin á Múla í Kirkjubólsþingi. Einhvern tíma á bilinu 1880-90 flyst hann til Akureyrar þar sem hann kvæntist Skagfirðingnum Sigurborgu Kristbjarnardóttur (1863-1923) en hún var árið 1880 vinnukona í svokallaðri Stóru Strandgötu á Oddeyri. Þau Jón og Sigurborg hafa ekki búið lengur en þrjú ár í húsinu við Lundargötu 11 en árið 1901 eru þau til heimilis í húsi nr. 4 við sömu götu. Fimmtán árum síðar, þ.e. 1916, reisti Jón Guðmundsson hús við Oddeyrargötu og hafði þá tekið upp ættarnafnið Ísfjörð. Eftir lát Sigurborgar, 1923, fluttist Jón til Siglufjarðar þar sem hann stundaði skósmíðaiðnina áfram meðan honum entist aldur og heilsa til. Jón Guðmundsson Ísfjörð lést á Siglufirði 8. október árið 1948,viku eftir níræðisafmæli sitt.
Árið 1917 var Lundargata 11 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, einlyft með porti, háu risi og kjallara. Á gólfi við norðurhlið eru 2 stofur og forstofa, við bakhlið eru tvö eldhús. Á lofti eru 3 íbúðarherbergi, eitt eldhús og geymsla. Kjallara er skipt í fjögur hólf og notaður til geymslu. Lítill skúr var við bakhlið. Grunnflötur er sagður 7,5x5,6m, hæð hússins 6,3m og 13 gluggar á húsinu. Veggir eru timburklæddir og járn á þaki. Einn skorsteinn er á húsinu og tengist hann tveimur kolaofnum og fjórum eldavélum. Eigandi árið 1917 var Jónasína Þorsteinsdóttir (sbr. Brunabótafélag Íslands 1917: nr.277).
Árið 1916 fluttu í húsið þau Þorsteinn Þorsteinsson, bróðir téðrar Jónasínu, og kona hans Ásdís Þorsteinsdóttir. Þau leigðu hjá Jónasínu. (Þess má geta, að tæpum áratug síðar reisti Jónasína mikið steinhús á baklóð hússins, sem varð Gránufélagsgata 19). Þorsteinn var einn af frumkvöðlum í hálendisferðum um Ísland og einn af stofnendum Ferðafélags Akureyrar. Þau áttu soninn Tryggva, en nafn Tryggva Þorsteinssonar kannast margir við. Hann var lengi vel skólastjóri Barnaskóla Akureyrar sem og félagsforingi Skátafélags Akureyrar um áratugaskeið. Endurminningar hans birtast í öðru bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið og segir hann þar m.a. frá íbúðaskipan Lundargötu 11. Í bernskutíð Tryggva (1911-1975) skiptist húsið, sem hann segir vera á að giska 6x8m, í fimm íbúðarrými. Á neðri hæð samanstóðu íbúðirnar af stofu og eldhúsi en í risi voru íbúðarrýmin stofa sem jafnframt var eldhús ásamt lítilli kompu undir súð. Þar var einnig gangur undir súð og kvistherbergi, 2,5x3m, en þar bjuggu Tryggvi og foreldrar hans. Þarna bjuggu alls 19 manns og nóg pláss fyrir gesti bætir Tryggvi við í frásögn sinni.
Gefum Tryggva Þorsteinssyni orðið: Tæknilegu þægindin í þessu húsi voru þau, að vatnskrani var í báðum eldhúsunum niðri, og einn krani á loftinu til afnota fyrir þær fjölskyldur sem þar bjuggu. Í eldhúsinu á neðri hæðinni voru tvær kolaeldavélar og tvær samskonar vélar í stofunum á suður- og norðurloftinu, en ein kabyssa var á kvistinum hjá okkur, svipuð og notuð var í mótorbátum. Vaskur var ekki til í húsinu, enda voru þá engar skólplagnir frá þeim húsum í bænum, sem ekki stóðu við sjó, en útikamar var við öll hús á Eyrinni. Baðherbergi, vatnssalerni og þvottahús voru þá eins og undur í öðrum heimi í hugum fólksins í Lundargötu 11, og varla að orðin væru til í máli þess. Auðvitað var ekkert rafmagn í húsinu okkar og lamparnir reyndar af smærra taginu. [...] En þrátt fyrir allt var eitthvað stórt og gott við Lundargötu 11 og íbúa þess. Þegar ég var barn skildi ég ekki hvað þetta var, en nú veit ég að það var umburðarlyndi, hjálpsemi og glaðværð fólksins, sem ekkert fékk bugað (Tryggvi Þorsteinsson 1973. 79-80).
Handan Lundargötu, í Lundargötu 10, bjó á þessum tíma Gunnar nokkur Guðlaugsson trésmiður. Hann stóð fyrir skátastarfi meðal drengja á Oddeyrinni á þessum tíma og var á meðal frumkvöðla í því starfi á Akureyri. Gekk Tryggvi Þorsteinsson til liðs við skátasveit Gunnars ungur að árum og lýsir hann mörgum ævintýrum þeirrar sveitar í bókinni Varðeldasögur, sem Skjaldborg gaf út árið 1973. Gunnar Guðlaugsson flutti einnig inn frá Bandaríkjunum svokallað steinblikk. Um er að ræða blikkþynnur, sem mótaðar eru þannig að minnir á múrsteinahleðslu og þannig fær klæðningin nafn sitt. Klæðning þessi, eða sams konar, mun enn framleidd þar vestra í verksmiðjunni W.F. Norman í borginni Nevada í Missouri ríki. Steinblikkið er nokkuð algengt á gömlum timburhúsum á Akureyri og nærsveitum, en næsta sjaldgæft annars staðar, og mun það stafa af því, að blikkið var nær eingöngu flutt inn til Akureyrar. Það hafa þannig verið hæg heimatökin fyrir Jónasínu Þorsteinsdóttur að verða sér út um steinblikkið, þegar það var sett á húsið, líklega um 1925-30. Jónasína Þorsteinsdóttir mun hafa átt húsið og leigt út, a.m.k. til ársins 1944 en í janúar það ár auglýsir hún húsið til sölu. Ekki fylgir sögunni hver kaupir, en um miðja öld er Ólafur Rósinantsson frá Syðra Brekkukoti í Arnarneshreppi búsettur í húsinu og til dánardægurs 1967. Ári síðar er norðurhluti hússins auglýstur til sölu. Ljóst er, að margir hafa átt og búið í húsinu gegnum árin og áratugina.
Lundargata 11 er enn klædd steinblikki en hefur þá sérstöðu, að á húsinu er klæðningin nýleg. Á árunum 1993-2000 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu, að innan jafnt sem utan. Stóðu þáverandi eigendur í stórræðum við að finna þessa klæðningu, sem var svo algeng á akureyrskum timburhúsum á fyrri hluta 20. aldar. Eftir mikla rannsóknarvinnu kom í ljós, að klæðningin var enn framleidd í sömu amerísku verksmiðjunni sem Gunnar Guðlaugsson skipti við forðum og fluttu eigendur hússins steinblikkið sérstaklega inn. Svo sannarlega aðdáunarvert framtak. Framkvæmd þessi hlaut viðurkenningu Húsverndunarsjóðs Akureyrar árið 2002. Endurbætur þessar á húsinu voru gerðar eftir teikningum Ólafs Jakobssonar.
Í Húsakönnun 1990 fær húsið þá umsögn að það sé í góðu lagi og [ ] mikilvægt fyrir heildina og hefur því varðveislugildi (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:57). Þetta mat er staðfest í Húsakönnun 2020 þar sem húsið hlýtur varðveislugildi sem eitt af eldri húsum Akureyrar og falli vel inn í heildstæða götumynd Lundargötu (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021:76). Og að sjálfsögðu er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Lundargatan er ein af heildstæðustu og áhugaverðustu götumyndum bæjarins og ætti auðvitað að friða hana eins og hún leggur sig! Þess má geta að við fáar götur á Akureyri er meðalaldur húsa jafn hár og í Lundargötu, en af þrettán húsum götunnar eru aðeins tvö byggð eftir 1900!
Myndirnar eru teknar 4. mars 2010 og 22. október 2024.
Sem fyrr segir mældu bygginganefndarmenn út tvær lóðir og hússtæði þennan febrúardag veturinn 1898. Við vitum ekki í hvaða röð bygginganefnd mældi út lóðirnar tvær en útmælingin fyrir Jón Guðmundsson var númer 2 í fundargerðinni. Þannig má gera ráð fyrir, að fyrst hafi þeir mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar, spölkorni austar. Og við þessa lóð, sem bygginganefndarmenn mældu út fyrir Medúsalem, berum við niður í næsta Húsi dagsins
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 159, 9. feb. 1898. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Tryggvi Þorsteinsson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið II bindi (bls. 76-113) Akureyri: Skjaldborg.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 6.12.2024 kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2024 | 16:59
Hús dagsins: Aðalstræti 22
Það er freistandi að draga þá ályktun, að á síðustu árum 19. aldar, hafi verið nokkur uppgrip í húsbyggingum á Akureyri og Oddeyri. Það eru e.t.v. ekki mjög vísindaleg rök fyrir þeirri freistni greinarhöfundar, en hún ræðst einfaldlega af því, að hlutfallslega eru tiltölulega mörg hús sem enn standa byggð, árin 1897 og 1898. Mun færri hús eru t.d. frá árunum 1890-95. Hér ber hins vegar að hafa í huga, að þó nokkur hús frá þessu árabili hafa týnt tölunni, hvort heldur er í eldsvoðum eða niðurrifi. En eitt þeirra nokkuð mörgu húsa bæjarins með skráð byggingarár 1898 er Aðalstræti 22. Hér er um að ræða einfalt og látlaust tvílyft timburhús sem er nokkuð merkilegt fyrir þær sakir, að kona reisti það, en slíkt var fremur óalgengt í lok 19. aldar. Umrædd kona, var Anna Sigríður Erlendsdóttir, kaupkona.
Þann 9. apríl 1898 kom bygginganefnd Akureyrar saman á fundi, einu sinni sem oftar. Erindi hennar var afgreiðsla tveggja lóða og byggingarleyfa við Aðalstræti. Annars vegar fékk Þórður Thorarensen gullsmiður lóð og byggingarleyfi austan götunnar, á uppfyllingu, sem kallaðist Nýja Ísland. Handan götunnar fékk hins vegar Anna Erlendsdóttir lóð og byggingarleyfi. Hún fékk að reisa hús, 14 álnir á breidd og 11 álnir á breidd og skyldi það standa 10 álnir suður af húsi Jónatans Jóhannessonar og Júlíníusar Jónssonar (Aðalstræti 20, byggt árið áður) og í beinni línu við hús Benedikts Jóelssonar, 5 álnir frá götunni og austurhorn miðaðist við hús P. Þorgrímssonar (Aðalstræti 38) (sbr. Bygg.nefnd Ak. nr. 163, 1898). Af húsi Benedikts Jóelssonar er það að segja, að það var byggt 1895 og hlaut áratug síðar númerið 18 við Aðalstræti og stóð þar til vorsins 1990 er skriða úr Höfðanum grandaði því.
Anna Erlendsdóttir fæddist á jóladag árið 1855, líkast til í Kaupangi í Öngulsstaðahreppi en þar var faðir hennar, Erlendur Ólafsson skráður bóndi og bókbindari árið sem hún fæddist. Árið 1860 er Anna hins vegar komin í fóstur að Klömbrum í Grenjaðarstaðarsókn í S-Þingeyjarsýslu en foreldrar hennar fluttir til Akureyrar, þar sem Erlendur er titlaður bókbindari. Hvenær Anna hóf verslunarrekstur sinn er ekki ljóst en í apríl árið 1897 birtist eftirfarandi auglýsing í blaðinu Stefni: Sumargjafir: Svuntutau, kvennslipsi, barnahattar, og barnahanzkar, hanzkar úr skinni, bómull og silki, margskonar hannyrðir, svart casmir hentugt f peisuföt [svo] , saumaðar peisusvuntur, kort og margt fleira selur Anna Erlendsdóttir á Akureyri (án höf 1897:1) Þannig virðist Anna hafa selt ýmsan fatnað og hannyrðavörur. Og árinu eftir að þessi auglýsing birtist reisti Anna Erlendsdóttir hús undir verslun sína sem, líkt og almennt tíðkaðist, var einnig íbúðarhús. Verslunina innréttaði hún á neðri hæð en íbúð á þeirri efri. Þar bjó hún ásamt móður sinni, Sigurbjörgu Einarsdóttur og vinnufólki en Anna var ógift og barnlaus.
Árið 1901 eru þrír íbúar skráðir hér til heimilis, mæðgurnar Anna og Sigurbjörg auk Maríu Hafliðadóttur, vinnukonu. Þá telst húsið númer 51 við Aðalstræti. Ári síðar hefur hins vegar fjölgað í húsinu við Aðalstræti, þar búa auk mæðgnanna og Maríu vinnukonu, tvenn ung hjón; annars vegar þau Jónas Jónasson trésmiður og kona hans Jórunn Hrjóbjartsdóttir ásamt nýfæddri dóttur, Ingibjörg og hins vegar þau Guðlaugur Pálsson snikkari og Ingilína Jónasdóttir. Þá er húsið orðið númer 45. Hvers vegna svo er, er ekki gott að segja; mögulega hefur bæjarbruninn mikli sem átti sér stað milli þess, sem manntöl þessi voru tekin, haft þar áhrif; bruninn eyddi nokkrum húsum á þessum slóðum, reyndar lítið eitt norðar. Hins vegar var það svo á þessum árum, að númeraröð Aðalstrætis var öfug miðað við það sem nú er, þ.e. tölurnar fóru hækkandi frá suðri til norðurs. Aukinheldur, voru oddatölur vestanmegin. Það virðist hafa verið árið 1906 sem númeraröð Aðalstrætis var endurskilgreind, henni snúið frá norðri til suðurs og sléttar tölur hafðar vestanmegin. Athyglisvert er það í ljósi þess, að því er einmitt öfugt farið með Hafnarstræti, og raunar flestar eldri götur bæjarins, sem liggja í norður-suður.
Aðalstræti 22 er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur á steyptum eða steinhlöðnum kjallara. Á bakvið er einlyft bygging með háu risi, sambyggð húsinu, og á norðurhlið er tvílyft steinsteypt útskot; inngönguskúr, með einhalla aflíðandi þaki. Húsið er klætt steinblikki og krosspóstar eru í gluggum að framanverðu en fjölbreyttari gluggasetning í bakhúsi. Grunnflötur framhúss mælist um 9x8m, útskot að norðan 4x2m en bakbygging ásamt tengibyggingum um 6 metra breidd. Þannig er breidd framhúss og bakhúss samanlagt um 14x9m.
Í lok nóvember 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins Aðalstræti 22 og lýstu húsinu á eftirfarandi hátt: Járnvarið timburhús, tvílyft með lágu risi á steinsteyptum kjallara. Grunnflötur mældist 8,8x6,9m, hæð 7,5m og 20 gluggar á húsinu. Á neðri hæð voru tvær stofur að austanverðu. Á neðri hæð að vestanverðu voru ein stofa, eldhús, búr og forstofa með stiga upp á loft. Á lofti voru alls þrjár stofur, geymsla og 1stórt framloft svokallað. Kjallari var hólfaður í fimm geymslurými. Ein skorsteinn var á húsinu og tengdust honum þrír kolaofnar og ein eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 43) Hvergi er minnst á verslun eða sölubúð í brunabótamati árið 1916.
Árið 1929 (1926?) eignuðust þau Alfreð Jónsson kaupmaður og Bára Sigurjónsdóttir kona hans efri hæð hússins. Samkvæmt Húsakönnun (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:63) eignast þau reyndar ekki húsið fyrr en 1929 en það var engu að síður vorið 1926 að Alfreð fékk lóðarviðbót í brekkunni á bakvið húsið ásamt leyfi til að reisa geymslu- og gripahús úr steini, 8x4 ½ m að stærð, samkvæmt framanlögðum uppdrætti (sbr. Bygg.nefnd Ak. nr. 584). Umræddan uppdrátt að þeirri byggingu gerði Sveinbjörn Jónsson. Alfreð og Bára eignuðust allt húsið um 1950. Þá hafði Sigurjón Friðbjarnarson átt neðri hæðina frá 1933. Alfreð Jónsson lést árið 1972 en Bára átti húsið allt til ársins 1980. Þannig var húsið í eigu sömu hjóna að hluta eða í heild drjúgan hluta 20. aldar. Einhverjir lesendur kunna e.t.v. að muna eftir Báru Sigurjónsdóttur úr sælgætisversluninni Turninum við Hafnarstræti en hún afgreiddi þar um árabil. Alfreð rak verslun og útgerð á fyrri hluta 20. aldar en gerðist síðar starfsmaður og vann lengi við Stjörnuapótek (frá 1947).
Árið 1980 eignast Hjörtur Gíslason húsið, skv. Húsakönnun 1986 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:83). Ekki er vitað hvenær stigahús var byggt við norðanvert húsið en samkvæmt Húsakönnun 2012 eru til óundirritaðar og ósamþykktar teikningar af því frá árinu 1980. Bakhúsið var lengst af geymsluhús en um 1991 var húsið innréttað sem íbúð og byggðar tengibyggingar milli framhúss og bakhúss. Teikningarnar að þeim framkvæmdum gerði Þorgeir Jónsson. Samkvæmt útlitsteikningum hans eru krosspóstar í gluggum hússins en þegar fyrri húsakönnun var unnin um 1985 voru gluggar með þrískiptum þverpóstum í húsinu. Þá glugga hafði Alfreð Jónsson sett í árið 1947. Við breytingarnar 1991 fékk húsið það lag, sem það enn hefur. Hefur það fengið fyrirtaks umhirðu allar götur síðan. Í desember 2016 tók Kristín Aðalsteinsdóttir viðtal við íbúa efri hæðar hússins, þau Jón Benedikt Gíslason og Mörtu Violina, og birti í bókinni: Innbær húsin og fólkið. Höfðu þau á orði, að húsinu hafi verið svo vel við haldið, að það eina sem þau þurftu að gera þegar þau fluttu inn sumarið áður, var að pússa og mála gólfin (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:37). Húsið virðist í góðu ásigkomulagi og lítur mjög vel út. Húsið stendur svo til alveg upp í brekkurótum og er því ekki fyrir mikilli lóð að fara en engu að síður er umhverfi hússins mjög gróið og smekklegt. Í Húsakönnun 2012 telst húsið hluti einstarkar götumyndar sem lagt er til að varðveitt sé með hverfisvernd. Þá er húsið að sjálfsögðu aldursfriðað en hvað ræður aldursfriðun? Því er til að svara, að frá og með ársbyrjun 2023 var hin svokallað 100 ára regla (sem kvað á, að hús yrðu sjálfkrafa friðuð, árið sem þau náðu 100 árum) í húsafriðun afnumin og aldursfriðun miðast við byggingarárið 1923. Að mörgu leyti skiljanleg ráðstöfun, því eðli málsins samkvæmt hefðu aldursfriðuð hús orðið svo mörg í fyllingu tímans, að friðun yrði næsta gjaldfallin. Hins vegar eru mörg merk hús frá 3. og 4. áratug 20. aldar (og jafnvel yngri) sem ættu skilið varðveislu eða friðun. En sem fyrr segir er Aðalstræti 22 byggt 1898 svo það hefur aldarfjórðung fram yfir aldursfriðunarmörkin. Myndirnar eru teknar með áratugs millibili, 19. júní 2014 og 22. október 2024.
Heimildir: Án höfundar. 1897. Sumargjafir. Auglýsing í Stefni 13. apríl 6. tbl 5. árg.
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 163, 9. apríl 1898. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 583, 3. maí 1926 Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Hjörleifur Stefánsson. 1986.â¯Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinniâ¯http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur.
Bloggar | Breytt 6.11.2024 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 3
- Sl. sólarhring: 32
- Sl. viku: 461
- Frá upphafi: 441368
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 322
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar