Hús dagsins: Eyrarvegur 12

Árið 1943 fékk Jón Sigurðsson, titlaður litari í bókunum Bygginganefndar,P6221006 lóð við Eyrarveg ásamt byggingaleyfi. Fékk hann að byggja íbúðarhús á einni hæð  á lágum grunni, byggt úr r-steini, með valmaþaki úr timbri 11,5x9m að stærð. Á kortavef Akureyrarbæjar liggja ekki fyrir neinar teikningar að húsinu.

Eyrarvegur 12 er einlyft r-steinhús með lágu valmaþaki, sléttum múr á veggjum, bárujárni á þaki og lóðréttum póstum með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Horngluggar, í anda funkisstefnu á vesturhornum. Á hornum hússins eru einnig lítið eitt upphleyptir steyptir kantar, sem mynda ásamt samsvarandi láréttum köntum við jörð eins konar umgjörð um húshliðarnar.

     Jón Sigurðsson (1897-1985) var fæddur og uppalinn í Fnjóskadal, nánar tiltekið frá Snæbjarnarstöðum. Hann starfaði lengst af sem litari á Gefjun og hafði umsjón með allri litun á framleiðslu verksmiðjunnar. Var hann kvæntur Magnúsínu Kristinsdóttur (1900-1992)frá Samkomugerði í Eyjafirði. Magnúsína starfaði við kjólasaum og var mjög virk í hinni ýmsu félagastarfsemi. Hún mun hafa verið fyrsta konan sem gekk í Leikfélag Akureyrar og var mjög virk í starfsemi þess og lék þar í mörgum sýningum. Jón og Magnúsína byggðu árið 1926 húsið Brekkugötu 25 en bjuggu líkast til ekki lengi á Eyrarvegi 12. En skömmu eftir að húsið er byggt flytjast hingað Ólafur Aðalsteinsson og Hulda Svanlaugsdóttir. Ólafur vann lengst af á Vélsmiðjunni og var einnig mikilvirkur í starfsemi verkalýðs- og stéttarfélaga. Bjuggu þau hér um áratugaskeið, Ólafur allt til æviloka, 1987. Þess má geta, að Svanlaugur Ólafsson, sem um langt árabil bjó í næsta húsi vestan við, Eyrarvegi 10, var sonur þeirra. Ýmsir hafa búið á Eyrarvegi 12 eftir tíð þeirra Ólafs og Huldu, en öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við í hvívetna.  

Eyrarvegur 12 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel hirt og gróin og ber þar kannski mest á tveimur gróskumiklum birkitrjám framan við húsið. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru  til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 940, 16. apríl 1943. Fundur nr. 943, 28. maí 1943, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 585
  • Frá upphafi: 420750

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 466
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband