Hús dagsins: Eyrarvegur 10

Eyrarveg 10 byggði Hólmsteinn Egilsson árið 1942 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Húsið er „tvíburahús“ Eyrarvegar 8, en Hólmsteinn byggði þessi tvö hús og seldi svo.P6220998

Eyrarvegur 10 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Að suðaustan er bílskúr áfastur húsinu, 4,4x9,0m að stærð en grunnflötur hússins er 11,50x8,60m Aðaldyr hússins snúa mót vestri en ekki að götu, líkt og á flestum húsunum við sunnanverðan Eyrarveg. Á teikningum er gert ráð fyrir dyrum þar, en líkast til fallið frá því fyrir eða við byggingu. Alltént eru ekki dyr til norðurs á raflagnateikningum, sem Hólmsteinn mun hafa gert sjálfur. Sömu sögu er að segja af Eyrarvegi 8, enda húsin byggð af sama manni á sama tíma og eftir sömu teikningu.

Hver keypti húsið nýbyggt af Hólmsteini hefur höfundur ekki náð að grafa upp, en á meðal fyrstu eigenda hússins, ef ekki sá fyrsti, var Hámundur Björnsson. Hámundur Eldjárn Björnsson (1917-2002), sem var frá Hámundarstöðum í Vopnafirði, var sjómaður og starfaði lengst af á skipum Guðmundar Jörundssonar sem vélstjóri. Eftir að hann kom í land var hann vélstjóri í verksmiðjum, m.a. hinni valinkunnu drykkjaverksmiðju Sana. Hann var kvæntur Guðrúnu Kristjánsdóttur (1909-1956). Hámundur Björnsson byggði bílskúrinn við húsið, eftir óárituðum, ódagsettum teikningum.   Hámundur og hans fólk mun hafa búið hér til ársins 1960, en það liggur nákvæmlega fyrir, hvenær hann seldi húsið. Í Viðskiptatíðindum fyrir Eyjafjörð kemur fram, að Hámundur Björnsson selji Svanlaugi Ólafssyni húsið Eyrarveg 10, afsal dagsett 21. maí 1960 og skjalinu þinglýst þann 4. júní. Svanlaugur, sem var bifvélavirkjunarmeistari bjó hér, ásamt fjölskyldu sinni, um áratugaskeið. Hafa ýmsir búið í húsinu sl. áratugi og öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við í hvívetna.  

Eyrarvegur 10 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og girðing með stöplum og járnavirki að lóðarmörkum. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru  til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 908, 5. maí 1942. Fundur nr. 910, 15. maí 1942, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 420758

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 473
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband