Hús dagsins: Eyrarvegur 9-11

Eyrarveg 9-11 reisti Byggingafélag Akureyrar árið 1942.P6221002 Þann 24. apríl þ.á. fékk Erlingur Friðjónsson, fyrir hönd Byggingafélagsins, leyfi til byggingar, jafnstórra húsa, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Voru þetta sams konar hús og byggð höfðu verið árið 1939 vestast við Eyrarveginn, verkamannabústaðir eftir Guðjón Samúelsson.

Eyrarvegur 9-11 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru klæddir sléttum múr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum.

Umræddar útbyggingar, sem nefndar eru í byggingarleyfi voru útskot á bakhornum parhúsanna og í þeim voru kyndiklefar og geymslur. Burstirnar, sem einkenna parhúsin við Eyrarveg voru í flestum tilvikum stofur og voru þær reistar síðar- og ekki á sama tíma. En það var árið 1952, sem breytingar voru heimilaðar á húsunum við Eyrarveg. Ekki er þó nefnt í hverju þær breytingar felast, en tímasetningin rímar við, að elstu teikningar af burstum við Eyrarvegarhúsin eru dagsettar 31. jan. 1952 og eru undirritaðar af Sigurbirni Árnasyni. Þær teikningar eiga við Eyrarveg 5-7, en viðbyggingin við 5a er teiknuð af Tryggva Sæmundssyni árið 1957. Árið 1969 teiknar Mikael Jóhannesson viðbyggingu við Eyrarveg 11, stofa 4,60x6,14 ásamt anddyri, 1,50x3,50, alls rúmir 34 m2 og 107 m3. Árin 1981-83 svo byggt við Eyrarveg 9, fyrst hin hefðbundna stofuálma, eftir teikningum Hauks Haraldsson. Þá var byggt við húsið til norðurs, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.  

Fyrstu íbúar Eyrarvegar 9 munu hafa verið þau Sveinbjörg Eiríksdóttir og Sveinn Þorsteinsson. Hún var frá Norðfirði en hann frá Hóli í Höfðahverfi. Líkt og svo margir frumbyggjar við norðanverðan Eyrarveginn bjuggu þau hér um áratugaskeið, raunar til æviloka, en Sveinbjörg lést 1972 og Sveinn árið 1980. Hafa síðan ýmsir búið hér um lengri eða skemmri tíma. Fyrstu íbúar Eyrarvegar 11 mun hafa verið Helga Sigfúsdóttir, og dóttir hennar Rannveig Kristjana. Helga, sem var frá Ásbyrgi í Kelduhverfi var þá orðin ekkja, en hún hafði verið gift Kristjáni Markússyni, sem lést 1932. Árið 1920 voru þau búsett í Ytra Melhúsi, á Brekkunni, norðan Grófargils. Helga Sigfúsdóttir naut hússins ekki lengi, en hún lést í nóvember árið 1944. Rannveig Kristjánsdóttir fórst í hinu hörmulega flugslysi í Héðinsfirði vorið 1947. Hafa síðan margir átt hér heima.

Parhúsið við Eyrarveg 9-11 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu, virðist nýlega málað og þak nýlegt að sjá sem og þakkantar. Lóðin er einnig í góðri hirðu. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar:. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 906, 24. apríl 1942. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 420749

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband