Hús dagsins: Eyrarvegur 37

Árið 1947 fékk Óskar Gíslason lóðina og leyfi til þess P6221022að byggja íbúðarhús samkvæmt „meðfylgjandi uppdrætti“ en ekki fylgir frekari lýsing. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1949. Þessi tiltekna lóð virðist hafa verið nokkuð óþægur ljár í þúfu hjá bygginganefnd því tekið er fram sérstaklega að hann hafi greitt af henni leigu og hann lofi að hefja byggingu strax. En þremur árum fyrr, sumarið 1944, hafði Óskar sótt um lóðina hjá bygginganefnd, eftir að hafa keypt rétt að henni. Engu að síður synjaði bygginganefnd honum frekari réttindum þar sem „lóðin hafði gengið kaupum og sölum milli fleiri manna“.  Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Eyrarvegur 37 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Á austurhlið, sem snýr að Ægisgötu, er útskot að norðan. Veggir eru múrsléttaðir og skiptir, lóðréttir póstar í flestum gluggum. Þegar þetta er ritað stendur yfir endurnýjun á þaki hússins.

Ekki er að sjá í Manntalsspjaldskrá fyrir Akureyri að Óskar Gíslason hafi nokkurn tíma verið búsettur að Eyrarvegi 2. Sá eini með því nafni var búsettur í Ránargötu 2. Hann hefur þannig væntanlega byggt húsið sem verktaki og selt öðrum. Óskar Gíslason var múrarameistari, fæddur árið 1900 í Svarfaðardal og uppalinn á Hálsi í þeirri sveit. Hann sat m.a. í bygginganefnd bæjarins og stjórn Útgerðarfélags Akureyrar. Sem múrarameistari tók hann þátt og stýrði byggingu fjölmargra húsa og bygginga, m.a. hraðfrystihúss téðs Útgerðarfélags. Óskar lést árið 1957, langt fyrir aldur fram. Elsta heimildin, sem finna má á timarit.is um Eyrarveg 37 er auglýsing frá júlí 1949. Þar er herbergi auglýst til leigu á sanngjörnu verði, gegn því að líta eftir krakka tvö kvöld í viku. Fljótlega eftir byggingu hússins eignuðust það þau Jóhann Guðmundsson frá Saurbrúargerði í Grýtubakkahreppi og Freyja Jónsdóttir frá Ólafsfirði. Jóhann stundaði sjóinn á ýmsum Akureyrartogurum, m.a. sem vélstjóri en árið 1960 stofnaði hann fyrirtækið Sandblástur og Málmhúðun og var þar forstjóri um árabil. Bjuggu þau hér um árabil og voru annáluð fyrir gestrisni, m.a. fyrir Ólafsfirðinga, sveitunga Freyju, sem komu með póstbátnum Drangi. En á áratugunum uppúr miðri síðustu öld voru samgöngur með töluvert öðrum hætti en nú er og Ólafsfjörður með afskekktari byggðalögum landsins. Hafa síðan margir átt húsið og búið hér. Hefur það alla tíð verið einbýlishús, en dæmi um að einstaka herbergi hafi verið leigð út, svo sem sjá má framar í þessum texta.

Eyrarvegur 37 í góðri hirðu, þakviðgerðir standa yfir þegar þetta er ritað og hefur húsið fengið ýmsar yfirhalningar á sl. árum. Lóðin er einnig mjög gróskumikil og skrautleg, ber þar á miklum reynitrjám, eflaust frá tíð Jóhanns og Freyju. Í einu þeirra er myndarlegt trjáhýsi sem setur skemmtilegan svip á umhverfi hússins. Steyptur kantur afmarkar lóðina og er hann einnig í mjög góðri hirðu. Húsið stendur á horninu við Ægisgötu. Það er útlitslega í samræmi við götumynd Ægisgötu og tekur þátt í þeirri götumynd, sem er heilsteypt götumynd funkishúsa á einni hæð. Um er að ræða einstaklega yfirgripmsikla og heilsteypta götumynd einlyftra steinhúsa með valmaþökum, sem ætti að hafa hátt varðveislugildi ef ekki bara vera friðuð. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndin er tekin þ. 22. júní 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1082, 22. ágúst 1947 og nr. 988, 25. ágúst 1944. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 420749

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband