Hús dagsins: Eyrarvegur 4

Þann 17. júní 1945 átti Lýðveldið Ísland ársafmæli.P6220993 Um mjög svipað leyti hóf Eggert Ólafsson byggingu á íbúðarhúsi við Eyrarveg 4, en byggingarleyfi fékk hann þann 15. júní þ.á. Fékk hann að reisa hús 11,7x9m að stærð, ein hæð úr r-steini með valmaþaki úr timbri. Lóðina hafði hann fengið árið áður. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef, en líkleg nöfn sem síðuhafa dettur í hug eru t.d. Tryggvi Jónatansson, Guðmundur Gunnarsson eða Guðmundur Magnússon.

Eyrarvegur 4 er einlyft steinhús á lágum grunni með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Horngluggar í anda funkisstíls á norðvestur og suðvesturhornum en í flestum gluggum eru lóðréttir póstar með skiptum fögum. Suðaustur úr húsinu er bakálma eða viðbygging og fast upp við hana er bílskúr. Á nýlegum (2016) teikningum Ágústs Hafsteinssonar kemur fram, að húsið sé byggt úr r-steini, einangrað með reiðingi þ.e. upprunalegir útveggir, en búið sé að einangra þá upp á nýtt með 50mm plasteinangrun og múrhúða.

Eggert Ólafsson (1910-1975) og Halldóra Sigurðardóttir (1904-1983) sem byggðu húsið 1945 bjuggu hér alla tíð síðan, eða til dánardægra. Eggert, sem lengst af starfaði sem vélstjóri, var Akureyringar að uppruna; nánar tiltekið Oddeyringur. Enn nánar tiltekið ólst hann upp í Norðurgötu 1 hjá Vébjörgu Árnadóttur og Árna Indriðason en í Manntali 1920 er hann sagður tökubarn þar. Norðurgata 1 kallaðist löngum Vébjargarhús. Halldóra Sigurðardóttir var úr Ólafsfirði, skráð í Manntali 1910 í Þorsteinshúsi þar í bæ. Hélst húsið í eigu afkomenda þeirra eftir þeirra dag. Um 1980 var byggt við húsið til suðurs, 42 m2 bygging og bílskúr fast við viðbyggingu sunnan og austanmegin. Teikningar að þessum byggingum gerði Haukur Haraldsson.  Um árabil, áratugina sitt hvoru megin við aldamót, var starfrækt hárgreiðslustofa í bílskúrnum, Studio Marilyn. Sú sem greiddi þar hár og klippti var Halldóra Vébjörnsdóttir, sonardóttir Eggerts Ólafsson og Halldóru Sigurðardóttur.

Eyrarvegur 4 er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Það hefur nýlega hlotið miklar endurbætur og virðist sem nýtt að sjá og frágangur hússins og umhverfi allur hinn snyrtilegasti. Lóðin, sem er gróskumikill og  er af þeim stærstu við íbúðarhús á Oddeyri, um 1100 m2 . Lóðirnar á þessum slóðum, vestast við Fjólugötu eru býsna víðlendar, en það kemur til af mótstæðum sveigjum gatnanna; Eyrarvegur liggur sem beint strik í A-V á meðan Fjólugatan liggur í nokkurs konar breiðboga samstefna, með ákveðinni sveigju til suðurs, vestast. Á sömu slóðum sveigir Glerárgata mjög skarpt til vesturs, svo skiki sá, er afmarkast af þessum götum, ásamt Norðurgötu í austri, er í laginu eins og fleygur með skástæðum toppi. (Kannski hefði átt að vara þá við, sem ekki þekkja áttirnar á Akureyri við málsgreinunum hér á undan).  Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþökum, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.  

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 988, 25. ágúst 1944, nr. 1022, 15. júní 1945 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 420749

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband