Hús dagsins: Eyrarvegur 21-23

Eyrarvegur 21-23 er eitt margra parhúsa sem Byggingafélag Akureyrar reisti á árabilinu 1939-47, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. P6221010Húsið er reist 1947, í síðasta áfanga þessara bygginga.  Voru húsin reist eftir byggingarleyfum sem veitt voru 1939 og 1942. Um var að ræða leyfi fyrir húsum, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa.

Eyrarvegur 21-23 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum, burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru klæddir sléttum múr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Burstirnar á endunum eru viðbyggingar, en byggt var við nr. 21 (vesturhluta) árið 1965 eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar.  Samsvarandi teikningar að viðbyggingu austurhluta finnast ekki á kortavef, en viðbyggingarnar við byggingafélagshúsin við Eyrarveg voru allar eftir sams konar teikningum. Voru þessar viðbyggingar reistar eftir heimild frá Bygginganefnd.  árið 1952.

Margir hafa átt og búið á Eyrarvegi 21-23 gegnum tíðina. Á Eyrarvegi 23 bjó frá upphafi, 1947, Heiðrekur Guðmundsson, skáld og verslunarmaður. Heiðrekur (1910-1988) var frá Sandi í Aðaldal. Faðir hans, Guðmundur Friðjónsson, sem einnig var skáld var jafnan kenndur við þann bæ. Heiðrekur var kvæntur Kristínu Kristjánsdóttur frá Bergstöðum í Skriðuhreppi. Heiðrekur var nokkuð afkastamikið skáld og rithöfundur, sendi m.a. frá sér sjö ljóðabækur Heiðrekur stundaði búskap á yngri árum en eftir að hann flutti til Akureyrar fékkst hann við verslunarstörf og síðustu ár starfsævinnar (1969-83) sem forstöðumaður Vinnumiðlunarskrifstofu Akureyrar. Stóð Heiðrekur um árabil verslunarvaktina í Lárusarhúsi á horni Eiðsvallagötu og Norðurgötu og hét sú verslun í Eyrarbúðin. Heiðrekur var þannig einn af mörgum „kaupmönnum á horninu“ bæjarins. Heiðrekur bjó hér til æviloka, 1988 og bjó Kristín hér áfram eftir hans dag. Hún lést 2001.

Parhúsið við Eyrarveg 21-23 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu. Lóð vesturenda, nr. 21, prýða nokkur stórvaxin og  gróskumikil reynitré en lóðin og lóðirnar eru grónar og vel hirtar. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. ágúst 1939, nr. 842, 18. Sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 420755

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 470
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband