Hús dagsins: Eyrarvegur 35

Vorið 1943 fékk Þórhallur Guðmundsson lóðina á horni vestan Ægisgötu P6221021og Eyrarvegar og byggingarleyfi. Hann fékk að byggja hús á einni hæð á lágum grunni með valmaþaki, 11,50x11 auk útskots að sunnan 3,8x1,4m. Húsið byggt úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Engar teikningar að húsinu eru fyrirliggjandi á kortavef map.is/akureyri. Það er hins vegar freistandi að leiða að því líkur, að Tryggvi Jónatansson eða einhver lærlinga hans eigi heiðurinn af hönnun Eyrarvegar 35.

Eyrarvegur 35 er einlyft steinhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Á bakhlið eða norðurhlið er áfastur bílskúr. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með þverfögum í flestum gluggum.

Fljótlega eftir byggingu hússins eða vorið 1944 auglýsir Þórhallur Guðmundsson húsið til leigu. Hann  og kona hans, Lilja Pálína Kristjánsdóttir, munu hins vegar hafa búið þarna til ársins 1949.  Þórhallur var frá Dæli í Hálshreppi í S- Þingeyjarsýslu, lengi vel bóndi þar en Lilja var frá Vatnsenda í Saurbæjarhreppi. Næstu eigendur hússins og íbúar voru þau Jónína Sigmundsdóttir og Einar Jónsson en þau komu frá Vopnafirði. Einar var frá Hraunfelli í þeim firði en Jónína frá Torfastöðum í Jökulsárhlíð. Þau bjuggu hér um áratugaskeið með miklum myndarskap. Garðinn ræktuðu þau af mikilli alúð og hlaut hann verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar árið 1956. Í þá daga skartaði Oddeyrin mörgum litlum skrúðgörðum við húsalóðir, og enn eru margir glæstir garðar á Eyrinni. Á meðal barna Jónínu og Einars er Jóhann Árelíuz rithöfundur. Hann er fæddur hér (1952) og uppalinn og hafa bernskuárin á Eyrinni löngum verið honum sérlegt yrkisefni. Oddeyrin, á árunum uppúr miðri síðustu öld, var nefnilega alveg sérstakt samfélag og sérlega áhugavert. Jóhann lýsir lífinu í Eyrarvegi 35 og samfélaginu á Oddeyrinni á þessum tíma á einstaklega litríkan og skemmtilegan hátt í bók sinni Eyrarpúkanum, sem út kom 2003.  Sjón er sögu ríkari, síðuhafi hvetur lesendur endilega til þess að verða sér út um eintak af Eyrarpúkanum; áður en pistill þessi breytist í eina allsherjar bókagagnrýni.  

Eyrarvegur 35 er reisulegt en látlaust hús og í afbragðs góðri hirðu. Sama er að segja af lóðinni, sem einstaklega smekkleg og snyrtileg. Þar standa nokkur ræktarleg og gróskumiklum reynitrjám, væntanlega frá tíð Einars og Jónínu. Lóðin er römmuð inn af steyptri girðingu með járnavirki sem einnig er í frábæru standi. og Eyrarvegur 35 stendur á horninu við Ægisgötu og tekur þannig þátt í götumyndum tveggja gatna. Það er útlitslega í samræmi við götumynd Ægisgötu og tekur þátt í þeirri götumynd, sem er heilsteypt götumynd funkishúsa á einni hæð. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar, svo ekki liggur fyrir hvort húsið hafi varðveislugildi en um álit síðuhafa í þeim efnum þarf vart að fjölyrða. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 943, 28. maí 1943.

Manntalsspjaldskrá fyrir Akureyri 1941-50.

Hvort tveggja varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 420749

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband