Hús dagsins: Lækjargata 2

Norðanmegin á horni Lækjargötu og Aðalstræti er að finna einhverja áhugaverðustu og elstu húsasamstæðu Akureyrar. P8091033Um er að ræða Aðalstræti 6, Lækjargötu 2a og Lækjargötu 2. Yst er Aðalstræti 6, sem byggt er 1850, þá Lækjargata 2a, sem mun þriðja eða fjórða elsta hús bæjarins. Heimildum ber raunar ekki saman um byggingarár, en nokkuð víst þykir, að það sé byggt 1840. Skráð byggingarár þess er hins vegar 1824, og sé það rétt, er húsið það annað elsta á Akureyri. Yngst og syðst, á horni Aðalstrætis er hins vegar Lækjargata 2. Það hús er byggt árið 1894 sem viðbygging við téða Lækjargötu 2. Eldri húsin tvö voru stakstæð fyrstu árin en tengdust með viðbyggingu árið 1862. Þessa ágæta, ef ekki heilögu, þrenning verður tekin fyrir í næstu tveimur pistlum frá suðri til norðurs og hefjum við leikinn við Lækjargötu 2. Svo vill til, að framan af voru núverandi Lækjargata 2 og 2a sama eignin, sem getur ruglað einhverja í ríminu, en hér er yfirleitt talað um núverandi Lækjargötu 2a (áður hluta nr. 2) sem Frökenarhús.

Það var í apríl árið 1894 að bygginganefnd bæjarins kom saman á fundi til þess, eftir beiðni Stephans Stephansen, að mæla fyrir viðbyggingu við hús hans, Lækjargötu 2: „Til suðurs 8 ½ al. á lengd og 11 ál. á breidd. Austurhliðin á þessari nýbyggingu nær 1 ¼ ál. frá grundvelli hússins, í beina línu við gestgjafa Jensens hús[...]“. (Bygg.nefnd. Ak. 1894:102) M.ö.o. byggingin yrði u.þ.b. 5,4x6,9m að grunnfleti og austurhlið skagaði um 80cm út frá hlið eldra hússins. Þá setti bygginganefnd ýmis skilyrði varðandi hæð rissins og gluggasetningu suðurhliðar og nefndi, að ef hækka þyrfti grindina, mætti Stephan lækka risið sem því næmi.PB140996

Lækjargata 2 er tvílyft timburhús með lágu, aflíðandi risi, á lágum steingrunni. Það er klætt panel eða vatnsklæðningu á veggjum og bárujárni á þaki og krosspóstar eru í gluggum. Grunnflötur mun um 5,4x6,9m. En í upphafi var húsið, líkt og Lækjargata 2a, Frökenarhús, einlyft með háu risi og sneri stafn til suðurs, þ.e. að Lækjargötu. Á myndum má sjá, að tveir gluggar hafa verið á framhlið, pappi á þaki og vatnsklæðning á veggjum. Á suðurstafni voru inngöngudyr og gluggi fyrir miðju efri hæðar og annar smærri undir súð. Núverandi lag fékk húsið árið 1902 er Stephan endurbyggði það eftir brunann mikla í desember 1901. Hafði þá einkum rishæðin skemmst, svo hann reif risið og byggði aðra hæð á húsið og „sneri því“ á þann hátt, að með breytingunni sneru stafnar hússins austur-vestur.  

 

Stephan Stephansson (1843-1919) sem reisti húsið, hafði eignast Lækjargötu 2, svonefnt Frökenarhús, árið 1883. Stephan, sem var frá Höfðabrekku í V-Skaftafellssýslu, var jafnan titlaður umboðsmaður en hann var umboðsmaður klausturjarða Möðruvalla og var auk þess bankagjaldkeri. Kona hans, Anna Guðrún Pálsdóttir Melstad, sem tók upp ættarnafn Stephans, Stephensen. Hún var sagnfræðingur og fræðikona, sem m.a. tók að sér að kenna ungum stúlkum m.a. tungumál, hannyrðir og hljóðfæraleik.  Í tímaritinu Hlín frá 1927 má finna sérlega ítarlega minningargrein um Önnu Stephensen eftir Kristínu Matthíasson og rétt að grípa aðeins niður í henni, en hún lýsir því fyrst þegar hún kom að Lækjargötu 2 Akureyrar haustið 1902: í nánd við [Hótel Akureyri, Aðalstræti 12] það stóð einkennilega lagað hús, sem auðsjáanlega ekki hafði farið varhluta af brunanum. Helmingur þess var með háu risi, lágt undir þakskegg og gluggarnir með smáum rúðum. En við suðurendann hafði verið bygt [svo] með alt [svo] öðru sniði — tvílyft, með flötu þaki og stórar rúður gluggunum. Ribsberjarunnar uxu upp við húsið og teygðu sig upp með veggnum báðum megin við gluggana. Þrátt fyrir ósamræmið í byggingarlaginu, var húsið aðlaðandi og heimilislegt“. Það fylgir einnig sögunni, að heimilið ilmaði af nellikum og rósum í gluggum og veggina prýddu hinar ýmsu myndir af ættingjum. Þá segir Kristín: „Viðkunnanlegt með afbrigðum var að vera gestur hjá frú Stephensen. Auðsjeð [svo] var að henni var unun að sjá ný andlit, kynnast nýjum hugsunum og heyra nýjungar annarstaðar. Viðræður hennar báru vott um mikinn fróðleik og víðsýn“. Ræddi hún jafnan hin ýmsu málefni við gesti sína og skemmti þeim með hljóðfæraspili, söng og góðgæti: — En þegar fór að rökkva var kveikt á stórum lampa með rauðu glasi. Varpaði ljósið hlýjum bjarma á ljósbláa veggina — en frú St.[ephensen ] tók fram gítar sinn og ljek[svo] undir söng sínum. Voru það gömul lög eftir Mozart, Weber og Boieldieu. — Inni í borðstofunni, sem lá þrepi neðar, glampaði á messingketil, kínverska bolla og rauð begóníublóm. Frú Stephensen hugsaði líka um líkamlegar þarfir gesta sinna, og þegar söngnum var lokið, sótti hún allskonar góðgæti inn í hurðhvelfdan hornskáp og bar fram. (Kristín Matthíasson 1927: 81-84).  Stephan Stephensen bjó hér til dánardægurs 1919 en Anna Pálsdóttir Melstad Stephensen fluttist til Reykjavíkur árið 1920. Hún lést árið 1922, tæplega 77 ára gömul.

Árið 1920 er eigandi hússins Eggert Stefánsson símritari frá Þóroddsstöðum í Ljósavatnshreppi. Svo virðist sem höfundi hafi orðið á örlítil yfirsjón við lestur manntala við skrifin um Lækjargötu 2b, þar sem hann telur Eggert og Yrsu Nielsen búsett í Lækjargötu 2b. Staðreyndin er sú, að þar bjó árið Karl Magnússon, sem breytti því húsi úr hlöðu í íbúðarhús. Árið 1920 eru raunar tvö hús skráð sem Lækjargata 2, Karl skráður í öðru og Eggert í hinu. Það er einmitt 16. júlí 1920 sem Lækjargata 2 er virt til brunabóta. Þá er það sagt „Íbúðarhús einlyft og tvílyft, einlyfti parturinn með háu risi og tvílyfti parturinn með láu [svo] risi“ Við framhlið voru 3 stofur, við bakhlið var ein stofa, eldhús og forstofa. Á lofti voru fimm íbúðarherbergi, tvær geymslur og lítill skúr við bakhlið. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var þá sagt timburklætt með steinplötum og þak úr timbri og járnvarin. Umræddar steinplötur munu hafa verið steinskífur, sem prýddu þó nokkrum Akureyrsk timburhúsum framan af 20. öld en er nú aðeins á tveimur húsum á Oddeyri.

Um 1940 eignast Pétur Guðmundsson húsið og selur Kristni Guðmundssyni, Frökenarhús. Komst þá núverandi íbúðaskipan á, þ.e. Frökenarhúsið varð Lækjargata 2a. Sjálfsagt hafa fá hús á aldur við Lækjargötu 2, sem er 128 ára þegar þetta er ritað, skipt jafn sjaldan um eigendur og íbúa. Árið 1948 eignuðust húsið þau Aðalheiður Albertsdóttir og Sigtryggur Jónsson og skemmst er frá því að segja, að sonur þeirra, Jóhann býr hér enn. Árið 2016 tók Kristín Aðalsteinsdóttir viðtal við hann í bókinni og segir hann m.a. frá því, að hér hafi þau verið 13 þegar mest var, einn vaskur og „engin þægindi“. Húsið var klætt steinskífunni þegar hann flutti hingað ásamt foreldrum sínum, síðar var þeim skífuklæðningunni út fyrir asbest og að lokum kom núverandi vatnsklæðning. Jóhann segir húsið hlýtt og vandað. (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017: 133) Í lok árs 1965 kviknaði í húsinu og skemmdist það töluvert en Jóhann Sigtryggsson og hans fólk endurbyggði það. Þannig hefur tvisvar kviknað í húsinu, því sem fyrr segir skemmdist það í bæjarbrunanum 1901.

Lækjargata 2 er í senn látlaust og stórglæst hús. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði, hvort heldur sem það er skoðað eitt og sér, eða í samhengi við næstu hús í þessari áhugaverðu og einni elstu húsasamstæðu bæjarins. Í Húsakönnun 2012 er það metið með hátt varðveislugildi, einstakt hús og hluti einstakrar götumyndar, auk þess sem húsið er friðað vegna aldurs. Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. ágúst 2022 og 14. nóv. 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902.  Fundur nr. 102, 13. apríl 1894. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Brunabótamat 1917-22. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1917-1922 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og Fólkið. (Viðtal við Jóhann Sigtryggsson). Akureyri: Höfundur.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Hvernig er það, er hitaveituvatn í krönum á Akureyri núna, eins og í Rvík? Eða er það bara í ofnum eins og í Reykjanesbæ? Var kynt með kolum eða olíu áður, og vatnið þá hitað þannig?

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 20.10.2022 kl. 20:09

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Ég er nokkuð viss um að hér sé hitaveituvatn í krönum. Fyrir tíma hitaveitu var vatnið yfirleitt hitað með rafmagni (næturhitunartankar o.þ.h.) en olíukynding var víða. Kol voru notuð fram undir og yfir miðja síðustu öld en olían leysti kolin af hólmi um það leyti. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 21.10.2022 kl. 12:05

3 identicon

Takk. Foreldrar mínir fluttu með mig í Kópavog úr Rvík 1955. Þá var kynt þar með olíu og fram yfir 1970. Mamma var fljót að fatta kostinn við að hafa drykkjarhæft vatn úr heita krananum og blandaði  handa mér heitt djús úr þykkni þegar ég kom inn úr kuldanum. Það kannast engin/n við þetta, hvorki gamlir Kóp.búar, né heldur frændfólkið á Norðfirði þar sem þetta er enn svona. Mér datt í hug hvort hún hafi kannski verið komin upp á þetta á Akureyri, þá voru enn notuð kol þar skv. þér. Kannast þú við þetta frá eldri Akureyringum? - að drekka úr heita krananum, djús eða hreint vatn.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 21.10.2022 kl. 13:19

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Eftir því sem ég kemst næst þekktist þetta en var kannski ekki verið almenn, viðtekin venja en mögulega hefur þetta tíðkast í þeim tilgangi, að spara hitun á eldavélum og kötlum eða flýta fyrir því, að fá heita vatnið. Spurning hvort fólk tíðkar þetta í dag, þar sem ekki er hitaveita- það er náttúrulega ekki kjörhiti fyrir t.d. skyndikaffi eða kakó sem kemur úr krönunum. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 21.10.2022 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 420749

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband