Gleðilega páska

Óska öllum gleðrilegrar páskahátíðar smile

Páskamyndin í ár er tekin núna skömmu fyrir hádegi á páskadag, horft til norðurs af Naustahöfða í átt að Oddeyri. Eins og sjá má eru páskarnir alhvítir í ár...og eins og sjá má, er hríðarsending á leiðinni úr norðrinu. 

IMG_1520


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 26; Breiðablik

Við mót Hrafnagilsstrætis og Eyrarlandsvegar, efst við ytri hluta síðarnefndu götunnar, stendur sérlega glæst timburhús í sveitserstíl, prýtt útskornu skrauti og ýmsu sem gefur því sérstakan svip. Um er að ræða hús kaþólsku kirkjunnar en það var reist sem einbýlishús árin 1911-12.IMG 1496

Sumarið 1911 má segja, að landnám þéttbýlis hafi verið á frumstigi á hinum víðlendu brekkum, landi Stóra Eyrarlands, sem tveimur áratugum fyrr tilheyrði Hrafnagilshreppi. Árin 1898-1904 risu þar miklar opinberar byggingar, sjúkrahús og Gagnfræðaskóli og á næstu árum risu stök hús við Eyrarlandsveg og Spítalaveg og á melunum norðan Grófargils. Við brún Barðsgils, ofarlega við Eyrarlandsveg, fékk 26 ára dýralæknir Sigurður Einarsson Hlíðar, úthlutað lóð undir íbúðarhús. Var honum leyft að reisa íbúðarhús á lóð þeirri sem hann hafði keypt af kaupstaðnum á horni Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis. Stærð hússins var 18x16 álnir (um 11x10m), tvílyft á háum kjallara með risi og útbyggingu með turni. Skilyrði var, að framhlið hússins sneri að Eyrarlandsvegi og það stæði hornrétt (sbr. Bygginganefnd Ak. nr. 345, 1911). Þessi krafa um hornrétta stöðu kann að virðast nokkuð sérstök, húsið stendur nefnilega skástætt á horni tveggja gatna og snýr raunar norðaustur-suðvestur. En svo vill til, að þar sem húsið stendur er sveigja á Eyrarlandsveginum og væntanlega er húsið hornrétt á hana. Þá gæti lega gatnanna eitthvað hafa hnikast frá upphafi.

Byggingameistari Eyrarlandsvegar 26 var Maron Sölvason, en talið er að húsið hafi komið tilhöggvið frá Noregi. Mögulega hefur Maron sent teikningar út og fengið það forsmíðað úti. Sagan segir, að Sigurður og kona hans, Guðrún Louise Guðbrandsdóttir Finnbogason hafi fengið hið glæsta hús í brúðkaupsgjöf.   Nánar tiltekið frá móður hennar, Louise Jakobine Fredrerike Zimsem sem sögð var ein ríkasta kona landsins þótt víðar væri leitað. Þessi saga var aldrei staðfest en sonur þeirra Sigurðar og Guðrúnar, Guðbrandur Hlíðar nefndi í æviminningum sínum að mánaðarlaun dýralækna hefðu verið 100 krónur á mánuði, kjötskoðun gaf fimm aura á skrokk og folageldingar fimm krónur. Húsbyggingin hefði hins vegar kostað 12.000 krónur. Þannig gæti hver sem vildi lagt saman tvo og tvo og fengið út sannleika málsins (sbr. Jón Hjaltason 2021:39-40). Því hlýtur að mega draga þá ályktun, að þessar sögusagnir um brúðkaupsgjöf séu á rökum reistar; það er alltént nokkuð sennilegt, að sterkefnaðir foreldrar hennar hafi lagt eitthvað af mörkum.

Ef við berum þessar tölur saman við önnur laun má nefna, að árið 1912 voruIMG 1498 meðal mánaðarlaun daglaunamanns 32,4 krónur, iðnaðarmanna (trésmiða, málara) 42,9 krónur og járnsmiða 49,7 krónur. Þeir síðasttöldu slöguðu þannig í tæp hálf mánaðarlaun dýralækna. Svo má nefna, að meðal mánaðarkaup þvotta, elda- og þrifakvenna voru ekki nema um 10-11 krónur! En þetta þýðir, að bygging Eyrarlandsvegar 26 kostaði ríflega 350 föld mánaðarlaun daglaunamanns (verkamanns)! Freistandi er, að setja þessar tölur í samhengi við geysihátt húsnæðisverð dagsins í dag. T.d. mætti ímynda sér, að tilhöggvið timburhús væri í dag e.t.v. ekki sérlega dýrt í samanburði við annað húsnæði. En árið 1912 var hús á borð við Breiðablik með ríkmannlegustu híbýlum og þannig sambærilegt við 300 fermetra einbýlishús með tvöföldum bílskúr, heitum potti o.s.frv. miðað við nútíma. Óneitanlega gaman, að velta vöngum fyrir þessu. Þannig hefur þessi samanburður í raun takmarkaða merkingu, vegna gjörólíkra aðstæðna á marga vegu, en vissulega gaman að velta þessu fyrir sér. 

Eyrarlandsvegur 26 er einlyft timburhús með háu risi og kvisti við norðausturstafn. Á suðurstafni er inngönguskúr og annar slíkur norðarlega á vesturhlið. Kvistur skagar út fyrir húshliðina og undir honum er fimmstrent útskot. Útskotið myndar gólf inndreginna svala undir kvistinum.  Byggingarleyfi hljóðaði upp á tveggja hæða byggingu með turni en niðurstaðan var einlyft hús á kjallara með framstæðum kvisti með svölum. T-póstar eða þverpóstar eru í flestum gluggum en á útskoti að framan og undir rjáfri að suðvestan eru tvískiptir krosspóstar. Láréttur panell (vatnsklæðning) er á veggjum en steinblikk á suðvesturhlið. Það er ekki ósennilegt, að sú hlið hafi löngum verið nokkuð áveðurs, en suðvestanáttin gat eflaust orðið ansi hvöss á þessum slóðum, áður en byggð og trjágróður veittu kærkomið skjól.  Þak hússins er skrauti prýtt á alla kanta og það í bókstaflegri merkingu því neðan í þakköntum er útskorið, ávalt kögur og útskornir sperruendar undir þakbrúnum, sem skaga nokkuð út fyrir veggbrúnir. Er þetta nokkuð dæmigert einkenni sveitserhúsa. Höfuðprýði hússins er væntanlega kvisturinn, sem skartar útskurði og bogadregnum körmum á súlum yfir handriði. Undir rjáfri eru krossskeyttir bjálkar meðIMG 1497 ávölum endum, skeyttir undir nokkurs konar hanabjálka. Allt er þetta prýtt fíngerðum útskurði. Svalahandrið er sérstök prýði út af fyrir sig og skartar sérkennilegu en ákaflegu fögru munstri. Grunnflötur Eyrarlandsvegar 26 er um 10x9m, suðurútskot nærri 4x2m, inngönguskúr á bakhlið um 1x3m og útskot undir kvisti eitthvað nærri 1,5x4m. Hér er aðeins um að ræða ónákvæmar mælingar af kortavef map.is.

Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1912 og nefndu þau Sigurður og Guðrún hið nýreista hús sitt Breiðablik. Og í manntali það ár er  húsið einfaldlega kallað „Breiðablik“ við Eyrarlandsveg. Þá eru búsett þar fyrrnefnd Sigurður Einarsson Hlíðar og Guðrún Louise Einarsson og  tvö ung börn þeirra, Brynja, tæplega tveggja ára og Skjöldur, fjögurra mánaða. Auk þeirra tvær vinnukonur, Margrjet Jónsdóttir og Dóróthea Hafstein.

Árið 1916 var Breiðablik metið til brunabóta og lýst húsinu sem hér segir: Íbúðarhús, einlyft með porti, kvisti og háu risi, skúr við suðurstafn, á kjallara. Á gólfi undir framhlið eru 2 stofur, við bakhlið ein stofa, eldhús, búr og forstofa með stiga upp á loftið. Á lofti 4 íbúðarherbergi, gangur og geymsla. Lengd 9,4m, breidd 7,4m og hæð 7,5m. Tala glugga 24, útveggir timburklæddir, þak járnklætt, einn skorsteinn, fimm ofnar og ein eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 98).

Sigurður Einarsson Hlíðar var fæddur í Hafnarfirði árið 1885. Hann nam dýralækningar við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan árið 1910. Þaðan hélt hann til Akureyrar þar sem hann hóf störf við það fag. Mun hann hafa verið fyrsti starfandi dýralæknirinn á Norðurlandi. Gegndi hann dýralæknastarfinu á Akureyri (og nærliggjandi héröðum) til ársins 1943 er hann tók við stöðu yfirdýralæknis. Fluttist hann þá til Reykjavíkur. Sigurður stundaði auk dýralækninganna ritstörf og stjórnmál, gaf út blaðið Dagblaðið um skamma hríð og setti á stofn blaðið Íslending árið 1915 og ritstýrði í fimm ár. Sat í bæjarstjórn Akureyrar í rúma tvo áratugi, 1917-1938 og forseti bæjarstjórnar frá 1932.  Þá var hann vararæðismaður Þýskalands frá 1927-40. Sigurður Hlíðar var alþingismaður árin 1937-49 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að hann fór á eftirlaun lagði hann mikla stund á ættfræði og sendi frá sér ritið Nokkrar Árnesingaættir árið 1956. Sigurður lést árið 1962.

Nafn Brynju Hlíðar, dóttur Sigurðar og Guðrúnar, þekkja eflaust flestir akureyrskir skátar, sem komnir eru til vits og ára.  Þá sér í lagi skátakonur, þó væntanlega séu mun færri, sem muna hana persónulega en hún fórst í flugslysinu hræðilega í Héðinsfirði vorið 1947. Brynja var ein helsta driffjöður kvenskátastarfs á Akureyri á 4. og 5. áratugnum og stóð fyrir mjög öflugu, fjölmennu og öflugu skátastarfi undir nafni Valkyrjunnar. Byggðu þær skála í Vaðlaheiði sem nefndist Valhöll um 1946. (Sá hefur nú verið jafnaður við jörðu en nýr skáli með sama nafni, einnig í Vaðlaheiði, var tekinn í notkun 1997).IMG 1495

Hlíðar-fjölskyldan átti  heima í Eyrarlandsvegi 26 í rúmlega áratug. Raunar kallaðist húsið ekki Eyrarlandsvegur 26 fyrr en eftir þeirra tíð þar; var fyrst í manntali 1926. Fram að því  var húsið ætíð skráð sem Breiðablik. Það var árið 1923 sem, Guðmundur G. Bárðarson náttúrufræðingur og menntaskólakennari, eignaðist húsið.  Þremur árum síðar eignaðist samkennari hans, Brynleifur Tóbíasson, húsið og bjó hann þar um árabil. Kallaðist húsið þá löngum Brynleifshús. Næsti eigandi hússins var Eiríkur Kristjánsson. Árið 1944 hugðist hann múrhúða hús sitt og auglýsti eftir tilboðum í framkvæmdina í dagblöðum. Kannski sem betur fer, virðist hann ekki hafa fengið neitt eða ekki nógu hagstætt tilboð; við getum rétt ímyndað okkur hvernig húsið liti út, hefði það verið forskalað. Þá er næsta víst, að allt hið timbraða skraut hefði fengið að fjúka.  Árið 1950 keypti kaþólski söfnuðurinn hér í bæ húsið af Eiríki og gerði að kapellu sinni. Kaþólikkar eignuðust síðar næsta hús vestan við, Hrafnagilsstræti 2, sem var íbúðarhús prests en Eyrarlandsvegur 26 gegndi m.a. hlutverki  kirkju eða kapellu. Árin 1998-2000 breytti söfnuðurinn Hrafnagilsstræti 2 í veglega kirkju, Péturskirkju en Eyrarlandsvegur 26 eða Breiðablik mun vera prestsetur safnaðarins. IMG 1494 

Eyrarlandsvegur 26 er eitt af glæstari og skrautlegri húsum syðri Brekkunnar og raunar bæjarins alls og stendur á áberandi og skemmtilegum stað. Það kallast mjög skemmtilega á við stærsta sveitserhús bæjarins, Gamla Skóla, sem stendur spölkorn sunnan hússins, handan Eyrarlandsvegar. Húsið er skrauti hlaðið og svipmikið; stórbrotinn kvisturinn ásamt útskotinu helstu sérkenni þess, ásamt útskornu skrauti sem hér og hvar prýðir húsið. Húsið er í fyrirtaks hirðu. Ásamt næsta húsi, Péturskirkju, myndar húsið sérlega skemmtilega heild á horninu, sem kannski mætti kalla „Kaþólska hornið“. Í Húsakönnun 2016 hlýtur það mjög hátt (7. stig af 8) varðveislugildi m.a. sem fulltrúi norskra sveitserhúsa og eitt af elstu íbúðarhúsum Brekkunnar (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 45). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, byggt fyrir 1923.

Myndirnar eru teknar 15. mars 2024.

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 345, 2. júní 1911.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Jón Hjaltason. 2021. Ótrúlegt en satt. Akureyri: Völuspá í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Spítalavegur 15

Í síðustu viku vorum við stödd við Eyrarlandsveg í nágrenni Akureyrarkirkju og við sögu kom húsið Stóruvellir sem stóð sunnan undir henni. Stóruvelli reisti Albert Jónsson, reyndar tæpum 40 árum áður en kirkjan reis, árið 1902 og nefndi eftir æskustöðvum sínum. Fjórum árum síðar reisti Sigurgeir bróðir hans, einnig hús sunnar og ofar á brekkunni ofan Akureyrar. Stendur það hús enn.

Vorið 1906 sótti IMG 1500Sigurgeir Jónsson, söngkennari frá Stóruvöllum í Bárðardal, um að fá keypta lóð meðfram Spítalavegi, 40 álnir (27,2m) meðfram veginum og 24 álnir (14,1m) að breidd. Bygginganefnd mælti með þessu en vísaði til bæjarstjórnar. Það var svo um sumarið að endanleg útmæling og úthlutun lóðar lá fyrir: Bygginganefnd samþykkti að útvísa Sigurgeiri Jónssyni lóð meðfram Spítalavegi að ofan, í beinni línu meðfram veginum eins og hann er út að hlykknum, þannig að lóðin hefjist að sunnanverðu 200 fetum frá norðurtakmarki spítalagirðingarinnar, 80 fet í norður meðfram veginum; framhlið hússins sé 12 fet frá vesturrönd vegarins. Eigi má byggja húsið nær suðurtakmörkum lóðarinnar en 10 fet (Bygg. nefnd. Ak. nr. 314, 1906).

Ekki fylgja lýsingar eða mál á húsinu sem Sigurgeir hugðist reisa en bygging hófst í júní um sumarið. Þó aðeins Sigurgeir sé nefndur í bókunum Bygginganefndar var það svo, að bygging hússins var í félagi Sigurgeirs og Ólafs Tryggva Ólafssonar, verslunarmanns frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi. Bjuggu þeir á sinni hæðinni hvor ásamt fjölskyldum sínum og húsið tvíbýli frá upphafi og hefur verið svo í tæp 118 ár þegar þetta er ritað.  Byggingameistari og hönnuður hússins var Guðbjörn Björnsson. (Guðbjörn hafði aldeilis í nógu að snúast árið 1906, því auk byggingar íbúðarhúss fyrir Sigurgeir Jónsson stýrði hann, ásamt tveimur öðrum, byggingu samkomuhússins mikla við Hafnarstræti 57). Verksamningur þeirra Ólafs og Sigurgeirs við Guðbjörn byggingameistara mun hafa varðveist og kemur þar fram, að húsið sé byggt á hefðbundinni grind með reiðingi til einangrunar. Útbygging að norðan og að sunnan einnig útbygging með „veranda“ (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2009:26).

Spítalavegur 15 er tvílyft timburhús með lágu risi, á miðlungsháum steyptum kjallara. Á báðum stöfnum þess eru útskot eða forstofubyggingar, jafnháar húsinu og einnig er stigabygging á bakhlið. Raunar nær útskot norðurhliðar meðfram öllum stafninum svo í raun má heita, að ysti hluti austurhliðar sé inndreginn, fremur en ysti hluti gafls sé útskot. Útskot suðurhliðar er hins vegar samhverft um mæni og skagar efri hæð þess eilítið yfir útidyr neðri hæðar, myndar þannig nokkurs konar skýli. Bárujárn er á þaki hússins og steinblikk á veggjum, kantur eða band á hæðaskilum og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Áttarúðupóstar eru á IMG 1501framhlið neðri hæðar og eru þeir einu póstabili síðari en gluggar efri hæðar. Þá er skrautpóstur í suðurglugga forstofubyggingar, með skásettum krosssprossum og tígul í miðju. Grunnflötur hússins er 9,45x7,65m, útskot að sunnan um 2x2,5m, útskot að norðan 1,75x5,45m og bakbygging 2,5x3,95m, skv. uppmælingarteikningum Jakobs Snorrasonar frá 1957. Upprunalegar teikningar virðast ekki hafa varðveist, en vitað, að Guðbjörn Björnsson teiknaði húsið. Í húsakönnun árið 1986 er húsið sagt 650 rúmmetrar að stærð (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:155).

Sigurgeir og kona hans, Friðrika Tómasdóttir frá Litluvöllum í Bárðardal, munu hafa flutt inn á neðri hæðina síðla árs 1906 en fullgert var húsið í maí árið 1907. Það ár eru alls sextán skráð til heimilis að Spítalavegi 15. Auk Ólafs Tryggva, konu hans, Jakobínu M. Magnúsdóttur og sonar þeirra, Þóris, er önnur fjögurra manna fjölskylda einnig búsett á efri hæðinni; Pétur Halldórsson verslunarmaður og Jónína Jónsdóttir og tvö ung börn þeirra, Alfa og Marinó Halldór. Á neðri hæð búa sem fyrr segir Sigurgeir og Friðrika ásamt fjórum börnum sínum og Sigurbjörgu Guðmundsdóttur vetrarstúlku og Jóni Guðmundssyni, sem titlaður er snúningapiltur. Á meðal barna Sigurgeirs og Friðriku í manntali 1907 er nýfæddur drengur, sem ekki er kominn með nafn. Sá hafði fæðst 22. október og hlaut hann nafnið Eðvarð. Hann var afkastamikill ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður og frumkvöðull á því sviði hérlendis. Vigfús bróðir hans fékkst einnig við ljósmyndun og raunar er það svo, að rekist maður á ljósmyndir frá Akureyri frá fyrri hluta 20. aldar eru góðar líkur á því, að annar þeirra bræðra hafi haldið á myndavélinni. Sigurgeir Jónsson kenndi söng og hljóðfæraleik um áratugaskeið, svo lengi sem heilsa og aldur entist og var organisti við Akureyrarkirkju í þrjá áratugi. Í minningargrein um hann segir Snorri Sigfússon: [...]Hefur mikill aragrúi Akureyringa og annarra Norðlendinga notið tilsagnar hans þessa áratugi. Þótti hann ágætur kennari, nákvæmur og vandvirkur, svo sem bezt má verða, og ,,músíkalskur“ ágætlega. Var því jafnan margt ungviði kringum Sigurgeir alla æfi, syngjandi og spilandi, og heimilið hlaðið tónaflóði. (Snorri Sigfússon 1954: 4).

Í árslok 1916 var Spítalavegur 15 virtur til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, tvílyft á kjallara með láu [svo] risi, skúr við bakhlið. Á gólfi undir framhlið [austanverð neðri hæð] 3 stofur og forstofa, bakhlið 1IMG 1503 herbergi, eldhús og búr. Á lofti undir framhlið 4 stofur, bakhlið, 3 stofur, eldhús og búr. Kjallari hólfaður í 4 geimsluherbergi [svo]. 2 reikháfar [svo] útbygging með stiga upp á loft (Brunabótafélag Íslands 1916, nr.91). Húsið var timburklætt og járn á þaki. Grunnflötur hússins var sagður 9,4x7,4m, hæð hússins 9,4m og á því 29 gluggar. Reykháfarnir tveir tengdust alls fjórum kolaofnum og tveimur eldavélum. Þá stóð á lóðinni fjós og hlaða úr steinsteypu, 6,9mx4,2m að grunnfleti.

Svo vill til, að á báðum hæðum bjuggu húsbyggjendur allt til dánardægra og afkomendur þeirra bjuggu þar áfram. Húsið er ekki mikið breytt frá upphaflegri gerð. Upprunalega var húsið timburklætt en mögulega um 1930 var núverandi steinblikkklæðning sett á húsið. Árið 1957 voru gluggar neðri hæðar síkkaðir, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og byggð 2x2m útbygging að vestanverðu, í raun stækkun á stigabyggingu sem var þar fyrir.  Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Jakob Snorrason. Fékk húsið þá að mestu það lag, sem það enn hefur.  Neðri hæðin var raunar í eigu sömu fjölskyldu fram yfir aldamótin 2000 en árið 1979 er Kristján Birgisson sagður eigandi efri hæðar.  

Árið 1983 keyptu þau Aðalsteinn Svanur Sigfússon og Sóldís Stefánsdóttir efri hæðina ásamt þeim Gesti Helgasyni og Hólmfríði Eiríksdóttir. Gefum Aðalsteini orðið:  Það var vorið 1983 sem við keyptum efri hæðina á húsinu númer fimmtán við Spítalaveg, ég og sambýliskona mín Sóldís ásamt Gesti vini mínum Helgasyni og eiginkonu hans, Hólmfríði Eiríksdóttur. Barnung dóttir Hólmfríðar, Árný Þóra, var hluti þessarar „kommúnu“. Við vorum mjög ung þegar þetta var. Grannar okkar á neðri hæðinni, Haraldur [sonur Sigurgeirs og Friðriku, sem byggðu húsið] og Sigga Palla, tóku okkur mjög vel og margra ára nábýli við þau var sérstaklega ánægjulegt.

Þau hófust handa við málningarvinnu: Þegar við fluttum inn var útlit hússins ansi dapurt því það hafði ekki verið málað síðan 1962 – í 21 ár. Við, skítblönk ungmennin, sömdum við rosknu nágrannana á neðri hæðinni um að við skyldum sjá um að mála húsið hátt og lágt en þau sæu um efniskaup – og það var gengið í verkið strax um sumarið 1983. Við Gestur keyptum Rex skipalakk í fötuvís til að mála steinblikkið og ég blandaði handvirkP7220095t litinn sem við vorum búin að ákveða á húsið; ljósdrappan lit með örlítið bleikum blæ. Fengum stillansa og stiga að láni og smöluðum vinum og ættingjum í málningarvinnu sem var talsvert staut því við vildum hafa olíulakkið svo þykkt að eina leiðin til að bera það á klæðninguna var með penslum. Svo auðvitað allt tréverkið; gluggar, dyr, hornlistar og þakskegg. Að ekki sé minnst á þakið sem reyndist mér lofthræddum talsverð raun, eins og þakskeggið og gluggarnir á efri hæðinni. Raunar var það svo að eftir þessa aðgerð dró stórlega úr hrikalegri lofthræðslu minni um margra ára skeið – en hún kom aftur þegar frá leið. Á einni viku málaði þessi vaski hópur allt húsið utan, hátt og lágt og hvergi voru notaðar rúllur nema á þakjárnið. Húsið varð gullfallegt eins og það á skilið og þessi málningarvinna okkar ungmennanna entist og entist. Það eru bara örfá ár síðan húsið var málað aftur svo þessi aðgerð entist upp undir 40 ár! Á síðustu 62 árum hefur þetta hús verið málað tvisvar og lengst af þess tíma litið afar vel út, þökk sé Rex-skipamálningunni frá Sjöfn.

Það var ekki að spyrja að gæðum akureyrsks iðnaðar, sem nú heyrir sögunni til að mestu.  Aðalsteini er sérlega minnisstætt, hversu kalt var í húsinu:

Gamanið kárnaði ögn þegar fyrsti veturinn okkar í Spítalavegi 15 (1983–1984) gekk í garð. Hitastig innanhúss stóð í þráðbeinu sambandi við lofthita utandyra og hvernig vindar blésu. Allir gluggar hússins voru upprunalegir og í flesta búið að mixa tvöfalt gler en þeir voru gisnir og það beinlínis blés gegnum húsið. Ofnakerfi hússins var frá tímum olíukyndingar: pottofnar sem flestir voru í hnapp inni í miðju húsi (væntanlega til að auðvelda pípulagnir að þeim). Alveg í upphafi hafði þetta hús eins og önnur frá fyrstu árum 20. aldar verið kynt með kolaeldavél og kolaofni. En 1983 dugði ofnasystemið engan veginn til að hita húsið þegar norðanáttin gnauðaði í vetrarfrosti.

Eftir nokkra vetur var það niðurstaðan, að ekki væri búandi þarna yfir veturinn:  Ég [Aðalsteinn Svanur] tók hluta stofunnar undir málaravinnustofu og glímdi við myndlistina en þegar hitinn innanhúss fór niður undir 10 °C var ég farinn að mála með grifflur á höndunum vegna kulda. Algengt var að hitinn í íbúðinni færi niður fyrir 14 °C þennan vetur og við ákváðum að við svo búið mætti ekki standa annan vetur.   Sótt var um endurbótalán til Íbúðalánasjóðs, sem var með átak gegn heilsuspillandi húsnæði. Var  henni hafnað án skýringa og þegar Aðalsteinn krafðist þeirra: Fékk þá svar sem mér þótti ansi klént og finnst enn:  „Umsókninni er hafnað vegna þess að þetta án  bara við á veturna. Íbúðin er ekki „alveg heilsuspillandi“.

Á þessum tíma var farið að huga að einhverju sem hét húsverndun fyrir alvöru og hjá Akureyrarbæ starfandi Húsfriðunarnefnd. Sótt var um lán til þeirra og það gekk í gegn: Um sumarið var skipt um alla glugga og ofna og þetta vandamál með húskuldann var úr sögunni eins og hendi væri veifað. Um gluggasmíði og -skipti sá Trésmiðjan Börkur af hreinni snilld. Í ljós kom að sjálfir gluggakarmar upphaflegu glugganna voru í fínu standi og því var ákveðið að slá bara póstana úr þeim og smíða nýja glugga inn í ramman. Var það gert og skipt um alla tíu glugga hæðarinnar á einum degi meðan ég var að störfum í Kjarnaskógi. Því eru ennþá upphaflegir gluggakarmar frá upphafi 20. aldar í allri efri hæð hússin og eiga nóg eftir.

Þótti Aðalsteini sérlega gaman að koma keyrandi þennan daginn heim úr vinnunni upp Spítalaveginn og við blöstu hinir nýju gluggar. Greinarhöfundur þakkar Aðalsteini Svani sérlega vel fyrir þessar upplýsingar en hann veitti þær mjög fúslega og brást sérlega skjótt og vel við fyrirspurn höfundar.PA040027

Spítalavegur 15 er reisulegt og glæst hús og stendur á nokkuð áberandi stað á brekkubrún, enda þótt það sé að mestu falið á bakvið laufskrúð yfir sumartímann. Útbyggingar gefa húsinu sinn sérstaka, stórbrotna svip enda eru hlutföll þeirra og samhverfur í góðu heildasamræmi. Skrautleg rúða og hæðaskilakantar og hornlistar gefa húsinu einnig skemmtilegan svip. Þá er lóðin mjög gróskumikil og til mikillar prýði í geðþekku umhverfi hinnar svokölluðu „Spítalabrekku“ en greinarhöfund rekur minni til þess, að þetta svæði kallist Undirvöllur. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið fyrirtaks viðhald.  Í Húsakönnun, sem unnin var um Spítalaveg segir eftirfarandi: Spítalavegur Spítalavegur 15 er mikilvægur hluti af þeirri heild sem húsaröðin nr. 15-17 myndar. Þessi heild hefur mikið varðveislugildi. Auk þess er húsið sérstakt vegna lögunar, gluggasetningar og veggjaklæðningar og hefur því varðveislugildi í sjálfu sér (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2009:26). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923, en þau lög gengu í gildi þremur árum eftir að umrædd húsakönnun var unnin. Meðfylgjandi myndir eru  eru teknar 22. júlí 2010 (þá skartar húsið enn Rex skipamálningu Aðalsteins Svans og hans fólks, frá 1983) og 15. mars 2024. Myndin, þar sem Spítalavegur 15 gægist upp úr laufskrúði brekkunnar ofan Hafnarstrætis er tekin 4. október 2014.

 

Heimildir: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.  Einkaskilaboð til greinarhöfundar, svör við fyrirspurnum gegnum samskiptaforritið Facebook Messenger, 16. mars 2024. 

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 310, 14. apríl 1906. Fundur nr. 314, 14. júlí 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 2016. Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg. Minjasafnið á Akureyri. Pdf skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins

Snorri Sigfússon. Sigurgeir Jónsson söngkennari. Í Einingu 12. tbl. 12. árg. bls. 4. (af timarit.is)

Ýmsar heimildar af vef Héraðsskjalasafns,  herak.is, manntal.is og islendingabok.is


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 8; Æsustaðir

Fyrsta verk Bygginganefndar Akureyrar á árinu 1906 var að afgreiða lóð og byggingaleyfi til handa Jóni nokkrum Guðmundssyni. IMG 1476Lóð þessi stóð að heita mátti  „uppi í sveit” eða sunnanvert í Grófargili, nokkuð utan þéttbýlisins. Í upphafi ársins 1906 var þéttbýlismyndun utan hinnar eiginlegu Akureyrar, Fjörunnar og Oddeyrar nokkuð skammt á veg kominn. Þó að heita mætti, að hin bratta og illfæra brekka, sem skildi þessa byggðakjarna að, væri að mestu  fullbyggð, voru sárafá hús í brekkunum sjálfum. Í nágrenni Stóra – Eyrarlands hafði reyndar risið myndarlegt sjúkrahús og háreist Gagnfræðaskólahús en að frátöldum smábýlum í landi Eyrarlands voru næsta fá íbúðarhús á brekkunum. Akureyrarbær hafði keypt Eyrarlandsjörðina árið 1893 og lagt hana undir sitt lögsagnarumdæmi þremur árum síðar, gagngert til þess að eiga land undir íbúðarhús og smábýli. En það var þann þriðja janúar árið 1906 að Bygginganefnd bókaði eftirfarandi:

Var þá tekið fyrir að útmæla lóð til handa trjesmið [svo] Jóni Guðmundssyni […]. Takmörk lóðarinnar eru ákveðin þannig: Lóðin er 125 suður frá húsi Alberts Jónssonar, rjetthyrndur [svo]  ferhyrningur, 60 fet á lengd meðfram Eyrarlandsvegi, 40 fet til vesturs frá húslínunni en húslínan er 45 vestur frá Eyrarlandsvegi, eins og hann liggur nú. Á lóð þessari var Jóni Guðmundssyni leyft að byggja hús úr timbri, tvílypt [svo] með lágu risi, 14x12 ½ al. og standi það neðst á lóðinni, 5 ál. sunnan við norðurtakmörk hennar (Bygg.nefnd.Ak. nr. 304, 1906).

En hvert var hús Alberts Jónssonar? Þar var um að ræða hús sem reist var árið 1902 og stóð nokkurn veginn þar sem nú er anddyri Safnaðarheimilis Akureyrar. Það hús kallaðist jafnan Stóruvellir, eftir bernskuheimili Alberts og var rifið upp úr miðri 20. öld, þegar kirkjulóðin var skipulögð.  (Stóruvellir sjást á þessu stórmerkilega myndskeiði af Akureyri sumarið 1950, á 44. sekúndu).

Eyrarlandsvegur 8 er tvílyft timburhús með lágu risi á miðlungsháum kjallara, ef svo mætti segja. Það er að heita má tvær álmur, sú stærri og fremri snýr hlið að götu og stöfnum NA-SV og á henni er útskot að aftan. Suðvestur úr húsinu er smærri álma sem snýr stafni til  vesturs og tengist hún „framhúsinu“ með tengibyggingu sem skagar 2m frá til suðurs og vesturs frá suðurstafni og vesturhlið. Á suðurhlið eru inngöngudyr og tröppur að þeim á útskoti þessu. Húsið er klætt steinblikki og bárujárn er á þaki og einfaldir þverpóstar í flestum gluggum. Á framhlið er upphleyptur kantur eða band meðfram neðri gluggabrúnum hvorrar hæðar og yfir inngöngudyrum að sunnan voldugur, þríhyrndur bjór (rammi yfir dyrum) sambyggður hliðargluggum. Tveir gluggar á efri hæð útskotsins eru með bogadregnum efri lista. Setur þessi umbúnaður skemmtilegan og skrautlegan svip á húsið, sem annars er einfalt og látlaust að gerð. Grunnflötur suðurálmu  mælist 9,10x8,14m, útskot að vestan 2,54x2,04m og útskot að sunnan 2x7,68m. Vesturálma er 5,73x5,35m. Tengigangur milli álmanna er 2,05x4,10m. Þessi nákvæmu mál eru fengið af uppmælingateikningum Aðalsteins Júlíussonar af húsinu frá 1994. Upprunalegar teikningar af húsinu liggja ekki fyrir, en það er raunar mjög sjaldgæft í tilfelli húsa frá upphafi 20. aldar.

Þegar flett er í gegnum manntal ársins 1906IMG 1479 má finna hús sem hvorki er nefnt með nafni né götuheiti en ráða má, að það sé staðsett á brekkunni. Eigandi er skráður Jón Guðmundsson og hann þar búsettur ásamt fjölskyldu sinni, hann var kvæntur Sigurborgu Kristbjarnardóttur og áttu þau fjögur börn. Auk þess voru búsett í hinu ónefnda húsi á brekkunni þau Sv. Svendsen málari og Helga Bergþórsdóttir lausakona.  Á næstu blaðsíðu við umrætt hús er annað ónefnt en eigandi þess Jón Guðlaugsson. Það var einmitt 14. apríl 1906 að þeir nafnar, Guðmundsson- og Guðlaugsson fá lóð og byggingarleyfi á melnum norðan Grófargils. En bíðum nú við, það er handan Grófargilsins og þessi hús kallast Melshús. Byggði Jón Guðmundsson tvö hús, sitt hvoru megin Grófargils árið 1906? Og er hið nafnlausa hús á Brekkunni í manntalinu árið 1906 e.t.v.  Eyrarlandsvegur 8 og enginn búsettur í Melshúsi, eða öfugt? Af „registrum“ Bygginganefndar mætti ráða, að sá Jón Guðmundsson sem fær lóðina við Eyrarlandsveg í ársbyrjun 1906 sé sá sami, og fær lóðina á melnum ásamt nafna sínum Guðlaugssyni um vorið sama ár. En það mun þó ekki vera tilfellið. Í bókunum Bygginganefndar 3. janúar 1906 er Jón Guðmundsson, sem úthlutað er lóðinni við Eyrarlandsveg, titlaður trésmiður en sá Jón Guðmundsson sem reisti Melshúsið var skósmiður. Þannig er um tvo alnafna að ræða, sem báðir byggðu hús á Brekkunni, sitt hvoru megin Grófargils á sama ári. Jón Guðmundsson, sem fékk að byggja á melnum, var skósmiður  og gekk undir nafninu Jón G. Ísfjörð.

Þannig er næsta víst, að Jón Guðmundsson trésmiður og byggingameistari hafi reist Eyrarlandsveg. Jón var fæddur 10. apríl 1875 í Grýtubakkahreppi. Hann nam trésmíðar á Akureyri hjá Davíð Sigurðssyni og hélt að því búnu til Danmerkur þar sem hann dvaldi í fjögur ár og nam iðnteiknun og „annað sem laut að fullkomnun í byggingariðn“. IMG 1478 Hann kom að byggingu fjölda stórhýsa á Akureyri og nærsveitum m.a.  Kristneshælis, Barnaskólans (sem nú kallast Rósenborg), Akureyrarapóteks og var auk þess einn aðalhvatamaður að stofnun Iðnaðarmannafélags Akureyrar. Þá stundaði hann einnig útgerð. Síðast en ekki síst má nefna, að Jón Guðmundsson var byggingameistari útileguskála sem skátasveitin Fálkar reistu sumarið 1932 og nefndu Fálkafell.

Jón Guðmundsson hefur ekki verið búsettur lengi hér, mesta lagi í fáeina mánuði, og mögulega hefur hann reist húsið gagngert til að selja það. Árið 1906 er hann skráður til heimilis í Aðalstræti 22 en enginn virðist búsettur að Eyrarlandsvegi 8 (sjá fyrri málsgrein um nafnlausu húsin á Brekkunni).  Árið 1907 er eigandi hússins og íbúi orðinn Pálmi Jónsson.P8291011 Hafði hann áður verið bóndi á Æsustöðum í Saurbæjarhreppi, þar sem konan hans, Jónína Jónsdóttir var uppalin. Pálmi var hins vegar fæddur og uppalinn á Kerhóli í Sölvadal. Nefndu þau hús sitt Æsustaði, eftir fyrrum bújörð þeirra og æskuheimili Jónínu.  Nýlega hefur verið fest skilti með því nafni á framhlið hússins.

 Árið 1909 fær Pálmi leyfi til að byggja fjós á lóð sinni við „No. 8 við Eyrarlandsveg“, 11x6 ½ álna breitt, 12 álnir frá „skúr aðalhússins“. Snemma árs 1915 er Pálma einnig heimilað að breyta húsinu „No. 8 við Eyrarlandsveg” en ekki kemur fram í hverju þær breytingar eru fólgnar, heldur aðeins, að þær séu gerðar samkvæmt framlögðum uppdrætti. Uppdrátturinn hefur líkast til ekki varðveist og höfundar er ekki getið. Pálmi Jónsson stundaði nokkurn búskap en hann átti erfðafestuland og fékk þar leyfi til að reisa peningahús úr torfi og grjóti. Mögulega hefur erfðafestuland hans verið aðliggjandi lóðinni við Eyrarlandsveg. Í Fasteignamati 1918 er húsinu sagt fylgja tún, sem fóðrað geti 30 kindur.  Höfum það í huga, að fram á 3. áratug 20. aldar var þessi staður nokkurn veginn „upp í sveit“. Húsaröðin við Eyrarlandsveg tók ekki að byggjast fyrr en eftir 1923 og Barnaskólinn 1930. Hverfið þar ofan við, Möðruvallastræti, Laugargata og Skólastígur risu löngu síðar. 

Í brunabótamati árið 1916 er húsið sagt vera tvílyft timburhús með skúr við bakhlið og „útúrbyggingu“  við suðurstafn. Húsið var timburklætt en þak járnvarið.  Á neðri hæð voru alls sex stofur og forstofa og á efri hæð fjórar stofur, forstofa, eldhús og búr. Í kjallara voru fimm geymsluherbergi og „kokkhús“.  Grunnflötur hússins var sagður 8,8x8,2m en „útúrbyggingin“ svokallaða var 4,9x3,8m (Brunabótafélagið 1916, nr. 129). Svokölluð útúrbygging er væntanlega forstofubyggingin á suðurhlið hússins, sem síðar var byggt við.

Árið 1919 var Sigurði Kristinssyni Eyrarlandsvegur 8 bókbindara leyft að byggja lítið hús á túni Pálma Jónssonar fyrir ofan Æsustaði. Byggingin var „[...] leyfð með því skilyrði, að skúrbyggingin yrði tekin burtu hvenær sem bygginganefnd eða bæjarstjórn krefst þess“ (Bygg.nefnd Ak. 1919: nr. 453). Af því húsi er það að segja, að Kristján nokkur Helgason keypti það nýbyggt og flutti um nokkra metra og fékk undir það lóð og bráðabirgðastöðuleyfi. Umrætt hús stendur hins vegar enn og er nú Möðruvallastræti 1a (lengi vel Eyrarlandsvegur 14b). Aðrar byggingar Æsustaða við Eyrarlandsveg eru hins vegar löngu horfnar. Árið 1920 fá þeir Pálmi Jónsson og Aðalsteinn Kristinsson leyfi til breytinga; rífa svalir á norðurhlið og setja þar glugga og flytja dyr á bakhlið „nokkuð norðar“ og setja glugga þar að ofan. Í manntali það ár, eru eigendur hússins hins vegar sagðir, Sigurður Kristinsson kaupfélagsstjóri og dánarbú Kristjáns Kristjánssonar en Pálmi Jónsson og fjölskylda enn búsett hér. Þau eru hins vegar á bak og burt þegar borið er niður í manntali ári síðar, en þau munu hafa flust til Reykjavíkur. Pálmi lést 1935 og Jónína árið 1953. Á meðal íbúa hússins árið 1921 eru Jónas Þorbergsson, þáverandi ritstjóri Dags og kona hans Þorbjörg Jónsdóttir. Tæpum áratug síðar varð Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins við stofnun þess árið 1930 og þar af leiðandi fyrstur manna til að gegna þeirri stöðu.

Hafa síðan fjölmargir átt Eyrarlandsveg 8 og búið í húsinu. Árið 1949 var byggt við suðurenda hússins til vesturs eftir teikningum Stefáns Reykjalín. Eigindur hússins þá voru dr. Kristinn Guðmundsson og Bernharð Laxdal. Var þar um að ræða þann hluta hússins, sem framar í þessari grein er kallaður “vesturálma” og fékk húsið þá það lag, sem það enn hefur.P2230060

Eyrarlandsvegur 8 er í senn einfalt og látlaust hús en jafnframt stórbrotið og skrautlegt vegna byggingarlags: Í grunninn er um að ræða einfalt hús af algengri gerð timburhúsa frá tímabilinu í kringum aldamótin 1900 en húsið dregur einnig  dám af skrautstíl sama tíma. Þá gefur viðbygging frá miðri 20. öld og útskot að vestanverðu húsinu sérstakan svip, á því eru mörg horn og kverkar. Húsið setur þannig skemmtilegan svip á umhverfi sitt og sama er að segja af lóð sem er nokkuð víðlend, gróin og vel hirt. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist hafa fengið sérlega gott viðhald á síðustu árum. Á framhlið þess er skilti með áletruninni Æsustaðir. Er það mjög vel, því rétt er að halda á lofti nöfnum húsa frá fyrr tíð með þessum hætti.  Húsið Eyrarlandsvegur 8 er nokkuð frábrugðið að gerð og stendur nokkurn spöl utan heildstæðrar götumyndar neðri hluta Eyrarlandsvegar, en hún er að mestu skipuð veglegum steinhúsum frá 3. áratug 20. aldar. Greinarhöfundur fann ekki húsakönnun, þar sem Eyrarlandsvegur 8 er tekinn fyrir; mörk ítarlegrar húsakönnunar um þetta svæði eru við Eyrarlandsveg 12. En það liggur fyrir að Eyrarlandsvegur 8 eða Æsustaðir er friðað vegna aldurs þar sem það er byggt fyrir 1923.

Myndirnar eru teknar 23. febrúar 2013 og  3. mars 2024. Myndin af Æsustöðum í Eyjafjarðarsveit, fyrrum Saurbæjarhreppi er tekin 29. ágúst 2020. 

 

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 304, 3. janúar 1906. Fundur nr. 310, 14. apríl 1906. 354, 11. maí 1909   Fundur nr. 402, 1. febrúar 1915 Fundur nr. 439, 19. febrúar 1917. Fundur nr.  476, 19. maí 1920.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 218
  • Sl. sólarhring: 229
  • Sl. viku: 514
  • Frá upphafi: 420535

Annað

  • Innlit í dag: 191
  • Innlit sl. viku: 394
  • Gestir í dag: 187
  • IP-tölur í dag: 183

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband