Hús dagsins: Brekkugata 41

Ég held áfram með Brekkugötuna, og þennan Föstudaginn langa er það númer 41...

P1100323

Fyrrihluta árs 1933 fékk Þorsteinn Davíðsson leigða lóð og leyfi til byggingar húss „í svipuðum stíl og framlögð teikning“. Þessi umrædda teikning hefur mögulega ekki varðveist, eða alltént er hún ekki aðgengileg á Landupplýsingakerfinu. (ATH. Það þarf ekki að útiloka möguleikann á því að teikningin hafi ekki varðveist). Þann 4.mars 1933 er Þorsteini veitt leyfi til að reisa einlyft hús, 9x9m með útbyggingu 7,5x3,1m. Fram kemur einnig, að húsið megi standa 1,5m frá norðurmörkum lóðar. Í upphafi var húsið nokkuð dæmigert funkishús með flötu þaki og horngluggum, og hefur raunar verið með fyrstu slíku húsunum sem risu á Akureyri. En flöt þök eru ekki hentug fyrir íslenska veðráttu með snjóþyngsli og bleytu og oftar en ekki fengu funkishús með slíkri þekju valmaþök eða ris síðar meir. Það var árið 1948 sem risþak var byggt ofan á húsið og þar með bættist heil hæð ofan á húsið og var það eftir forskrift Stefáns Reykjalín.  Fékk húsið þá það lag sem það hefur nú. Sjö árum áður, eða 1941 hafði húsið verið stækkað til norðurs. En Brekkugata 41 er einlyft r-steins og steinsteypuhús með háu risi og stendur á lágum grunni. Miðjukvistur mikill er á framhlið, gengur hann fram úr þekju og húsi og raunar mætti tala um hann sem sér álmu eða útbyggingu. Minni kvistir, báðir með hallandi þaki eru beggja vegna kvistbyggingar. Gluggapóstar eru einfaldir, en horngluggar í anda funskisstefnunnar er til suðurs en einnig á kvistálmu. Inngangar eru tveir á framhlið á norðurálmu, hvor fyrir sína hæð. Bárujárn er á þaki.  Lóðin er mishæðótt, enda þræðir Brekkugatan brún nyrsta hluta Brekkunnar, og stendur húsið töluvert hærra en gatan. Steyptar tröppur liggja upp að húsið frá götu. Við götu, á lóðarmörkum er mikill steyptur kantur með steypumunstri; n.k. „möskvum“ og mun sá kantur upprunalegur.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til einbýli í upphafi. Nú eru hins vegar tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Húsið og lóðin eru til mikillar prýði, og áðurnefndur steyptur kantur setur einnig skemmtilegan svip á umhverfið. Þessi mynd er tekinn þ. 10.jan. 2016.

Heimildir

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Bloggfærslur 25. mars 2016

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • P8190797
  • IMG 1770
  • IMG 1769
  • IMG 1758
  • IMG 1762

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 72
  • Sl. sólarhring: 98
  • Sl. viku: 378
  • Frá upphafi: 421594

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 261
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband