Akureyri í 150 ár, hratt yfir sögu.

Akureyri í 150ár, sagan í örstuttu máli. Hér ætla ég að rekja, gegn um húsasöguna byggingarsögu, Akureyrar sl. 150 ár. Þ.e.a.s. rekja það hvernig og í hvaða áttir byggðin dreifðist annars vegar og hvernig hús voru hinsvegar. Einnig nefna ýmislegt annað s.s. vega- og gatnabætur og tilkomu rafmagns og hitaveitu og ýmislegs annars. Semsagt einskonar mannvirkjasaga Akureyrar, annáll eða stiklur á því stærsta og sjálfsagt margt sem ég "gleymi". En ég lagði mikið uppúr því að annállinn yrði sem stystur og hnitmiðaðastur. 

      Fyrir það fyrsta ber að nefna að í ár er ekki verið að fagna 150 ára afmæli byggðar á Akureyri. Heldur verða, þann 29.ágúst næstkomandi, liðinn 150 ár frá því að Akureyrarkaupstaður var stofnaður- bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Árið 1862 var nefnilega risinn nokkur byggð við Aðalstræti og syðsta hluta Hafnarstrætis- enda hafði Akureyri verið verslunarstaður frá því á tíma einokunarverslunar. Einokunarkaupmenn höfðu að vísu aðeins sumardvöl á Akureyri en fyrsta íbúðarhúsið í bænum var reist 1778-var þannig orðið 84 ára þegar Akureyrarbær var stofnaður. (Þetta hús stóð við Hafnarstræti 3 og brann árið 1901 ásamt fleirum í stórbruna- sk. "bæjarbruna".) En semsagt 29.ágúst 1862 þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi bjuggu rétt innan við 300 manns á Akureyri og um 20 hús standa enn sem stóðu þá- öll í Innbænum. Þá voru tvö hús á Oddeyrinni, bæði byggð litlu fyrir 1860. Ekkert hús sem enn stendur á Akureyri er svo vitað sé, byggt á stofnárinu 1862. Sá sem rýnir í byggingarsögu Akureyrar fyrir og rétt eftir 1900 gegn um byggingarár húsanna sér það að mikið að sum ár er byggt meira en önnur. Áratuginn 1880-90, og það eru sérstaklega mörg hús sem enn standa sem byggð eru 1886 og 1897 og 98. Þá er mikið byggt á árunum 1900-10 og þá kannski sérstaklega árin 1902-07. (Kannski voru þessi ártöl einskonar "2007" þess tíma Wink) Þess þó  auðvitað geta að sennilega var eitthvað byggt á hverju ári þó húsin standi ekki öll ennþá.  Þá er einnig fyrirvari á byggingarárum elstu húsanna, því sum þeirra voru kannski reist áður en leyfi fékkst fyrir þeim, húsin einfaldlega bara byggð og ekkert skráð eða skjalfest um það- allavega ekki strax. En hér eru stiklur úr byggingarsögu bæjarins síðustu 150 árin.

Byggingarannáll Akureyrar 1862-2012

fyrir 1862 Timburhúsabyggð í Fjörunni og Innbænum. Einungis tvö hús standa á Eyrinni- sem bæði eru horfin í dag. Eitthvað er farið að byggjast í Búðargili. Eitt stærsta hús bæjarins við stofnun kaupstaðarins er Apótekið við Aðalstræti 4 sem byggt var þremur árum áður. Það stendur enn.

1862-70 Akureyri fær kaupstaðarréttindi 29.ágúst 1862. Sáralítið byggt af nýjum húsum. Mér vitanlega eru engin hús á Akureyri uppistandandi byggð á þessu tímabili !

1870-80. Byggð tekur að myndast á Oddeyrinni, töluvert byggt í Innbænum. Húsin yfirleitt lágreist timburhús, undantekning er þó mikið stórhýsi Gránufélagsins.  Meðal húsa sem enn standa frá þessum áratug eru Aðalstræti 34 og 36 í Innbæ og Strandgata 27 og Lundargata 2 á Eyrinni

1880-90. Mikið byggt bæði á Eyrinni og í Innbæ. Allt timburhús með einni undantekningu.  Langt er í steinsteypuöld en 1880 rís Norðurgata 17, fyrsta og eina húsið á Akureyri hlaðið úr blágrýti. Þessi húsagerð náði sér aldrei á strik hérlendis, Alþingishúsið, Hegningarhúsið, kirkjan á Þingeyrum og sæluhús við Jökulsá eru dæmi um nokkur  hús af þessari gerð. Mér dettur í hug að ástæðan fyrir því  að þessi byggingargerð náði svona litlum vinsældum  sé sú að hún hafi hreinlega þótt erfið og tímafrek miðað við byggingu timburhúsa. Blágrýti var eflaust erfitt í vinnslu og leiðinlegt í flutningi á tímum reiðingshesta. Á þessum áratug fara einnig að byggjast smábýli í Glerárþorpi en það eru byggingar af vanefnum og torfkofar enda standa engin húsana frá þessu árabili í Þorpinu, elsta húsið frá 1902. Glerá brúuð 1883 og stendur sú brú í fjóra áratugi.

1890-00 Mikið byggt á seinni hluta áratugarins. Þarna eru byggðirnar í Fjörunni og á hinni eiginlegu Akureyri og á Oddeyrinni aðskildar með snarbrattri og illfærri brekku í sjó fram. Á þessum tug er fyrst farið að byggja að ráði við þann hluta Hafnarstrætis sem nú er Göngugatan. Árið 1895 verða viss vatnaskil í byggðardreifingu þegar Páll Briem amtmaður reisir hús í hvammi í miðri brekkunni, miðja vegu milli Eyrarinnar og Fjörunnar. 1900 rís svo Barnaskóli rétt norðan við. Einnig tekur byggðin í Glerárþorpi við sér en það eru smágerðari byggingar.

1900-10  Mikið byggt af stórum og veglegum timburhúsum og eru norsk "katalóg" hús vinsæl meðal efnaðri manna. En það voru hús sem komu tilhöggvin frá Noregi og sett saman hér- en einnig voru dæmi um að svona hús væru byggð frá grunni hér. Þá er mikið byggt í Glerárþorpi- sum húsanna þar frá þessum áratug standa enn s.s. Hvoll (1902) og Sæborg (1906). Þá er byggt skólahús fyrir Þorbsbúa, Ós (1908) við Sandgerðisbót og það hús stendur enn. Árið 1907 rís eitt stærsta hús á Akureyri og eitt fullkomnasta iðnaðarhús á landinu, Gefjunarhúsið á Gleráreyrum en það hús náði  tæplega 100 ára aldri- var rifið í janúar 2007. Það hafði þá verið marg viðbyggt og breytt og bætt.  Á þessum áratug verða tveir stórbrunar, 1901 í Innbænum og 1906 á Oddeyrinni. Í Innbænum brenna m.a. Hótel Akureyri við Aðalstræti 12 og fyrsta íbúðarhús á Akureyri sem byggt var 1778.  Í Oddeyrarbrunanum brenna þrjú nýreist stórhýsi efst í Strandgötu hvert um sig að stærð og umfangi álíka og t.d. Gamli Skóli og Samkomuhúsið.

1910-20 Á þessum áratug virðist áberandi lítið vera byggt, það eru í raun sárafá hús frá þessu árabili sem enn standa í bænum m.v. áratuginn á undan. Á þessum tíma eru timburhús nánast liðin tíð og stafar það e.t.v. af almennri eldhræðslu eftir "bæjarbrunana" 1901 og 1906. 1912 verður svo þriðji stórbruninn þegar mörg vöruhús og geymsluhús brenna í Innbænum. Þarna er einnig farið að klæða timburhús með eldtraustum klæðningum, oftast bárujárni eða steinblikki og á sum hús eru settar steinskífur. Steinsteypuhús fara að rísa eitt af öðru og 1913 og 1914 eru byggð stór steinsteypuhús við Hafnarstræti 19 og Strandgötu 45, árin á eftir eru steypt hús við Oddeyrargötu og Brekkugötu.

1920-30 Þarna má fullyrða að "steinöld" gangi í garð í húsbyggingasögu Akureyrar. Frá 1920-25 rísa þau eitt af öðru í öllum hverfum bæjarins- líka í Glerárþorpi. Á seinni hluta áratugarins er síðan geysilega mikið byggt af steinhúsum bæði á Oddeyrinni þar sem byggðin er farin að verða þétt norður að Eiðsvallagötu og í Innbænum en einnig er farið að byggja upp á Brekkuna þar sem mikið er byggt við Oddeyrargötu og Brekkugötu sem og við Eyrarlandsveg, Gilsbakkaveg og Oddagötu sitt hvoru megin Grófargils. Árið 1919 fann byggingarfræðingur á Akureyri, Sveinbjörn Jónsson upp svokallaðan r-stein og eru mörg hús reist úr honum á þessum áratug það fyrsta, Oddeyrargata 15, árið 1920. Eyjafjarðará er brúuð við Hólmana 1923 og ári áður reist steinbrú yfir Glerá á nv. sama stað og eldri brú frá 1883. Og talandi um Glerá, þá er hún  virkjuð 1921-22 og haustið 1922 er rafmagni hleypt á bæinn í fyrsta skipti- Rafmagnsveita Akureyrar er orðin að veruleika!

1930-40 Enn er mikið byggt og byggðin breiðir úr sér- uppá Brekkuna og norður eftir Oddeyrinni, við Eiðsvallagötu, Ægisgötu, Hríseyjargötu, Ránargötu, Fjólugötu og Eyrarveg. Þá eru reist mikil steinsteypt stórhýsi en þarna er kominn nokkuð löng reynsla í steinsteypubyggingum og sérstakir byggingarstílar fara að sjást í steinsteypunni- en fyrstu árin voru steinhúsin oft með svipmót algengustu gerðar timburhúsa. Skraut og prjál er óvinsælt í steinhúsum þessa tíma- og algeng húsagerð fúnkís beinlínis gengur út á notagildi framar útliti. Svona hús rísa í miklu mæli við Ægisgötu og Helgamagrastræti árin 1935-40. Munkaþverárstræti, Hlíðargata, Holtagata rísa á Brekkunni auk þess sem byrjað er að byggja við Þingvallastræti en áðurnefnt Helgamagrastræti er efsta gatan í bænum.

1940-50 Oddeyri nánast fullbyggð. Þarna byrja að rísa hús við Víðivelli, Sólvelli og Reynivelli sunnarlega á Eyrinni en þetta eru fyrstu göturnar sem heita eitthvað annað en -gata eða -stræti eða -vegur. Mýrin (Rauðamýri, Grænamýri) uppi á Brekku taka einnig að byggjast. Akureyrarkirkja er vígð 1940, leysti af hólmi kirkjuna gömlu í Aðalstræti. Ferningslaga hús með valmaþaki og hornglugga, funkishús eru enn vinsæl. Breski herinn gengur á land á Akureyri 17.maí 1940.

1950-60 Enn er byggt á Oddeyrinni, við Ránargötu, Eyrarveg, Grenivelli, Hvannavelli og fleiri götur. Mýrarhverfið á Brekkunni og Byggðirnar taka að byggjast en þéttbýlið nær upp að Mýrarvegi. 1.janúar 1955 er Glerárþorp lagt undir Akureyrarkaupstað, en það hafði áður tilheyrt Glæsibæjarhreppi. Þar er mikil en strjál byggð og grunni margra minni kota sem reist voru af vanefnum eru í mörgum tilvikum risin vegleg steinhús.

1960-70 Áratugur Glerárþorps, mikið er byggt í Holtahverfi og við Skarðshlíð rísa fyrstu stóru fjölbýlishúsin í bænum. Á Brekkunni er byggt í Byggðunum og byggðin fer að teygja sig ofar; Lundarhverfi fer að byggjast um 1970. Einnig töluvert byggt af iðnaðarhúsnæði á Eyrinni. Haldið uppá 100 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar í ágúst 1962.

1970-80 Bærinn stækkar umtalsvert en á þessum tug rísa mörg fjölbýlishús í Lundarhverfinu og Hlíðahverfi í Glerárþorpi. Einnig mörg raðhús og einbýlishús sem mörg eru ansi vegleg, oft 5-10 herbergja og tvöfaldir bílskúrar algengir. Hitaveita Akureyrar er tekin í notkun 1978 og leysir hún rafmagnskyndingu og í sumum tilvikum olíufýringu af hólmi. Einnig gerðar miklar gatnabætur, Glerárgata breikkuð og Drottningarbrautin leysir Aðalstrætið af sem umferðaræð gegn um bæinn austan megin árið 1973. Þá er farið að malbika götur en fyrir 1970 voru afar fáar íbúðagötur malbikaðar. Á þessum tíma fer líka að vakna áhugi fólks fyrir að varðveita eldri hús, endurbætur hefjast m.a. á Laxdalshúsi.

1980-90 Þarna er Oddeyrin, Suður- og Norðurbrekkan að mestu leyti fullbyggð, en Síðuhverfi tekur að rísa og er að mestu byggt um 1990. Það ár er Verkmenntaskólinn við Mímisveg, reistur 1984 útvörður þéttbýlisins í suðri á Brekkunni, og syðst í Síðuhverfi skilur Borgarbrautin á milli hverfisins og túna. Iðnaðarhverfi rís norðaustan við Síðuhverfi, næst Hörgárbraut en á aðra hönd eru klappir og engi. Gatna- og vegabætur, fyrri hluta áratugarins eru malbikaðar malargötur íbúðahverfum og Hlíðarbraut tengir saman Brekku og Glerárþorp. 1986 verður mikil bylting í aðkomunni að bænum austan megin þegar Leiruvegur er tekin í notkun. Hann leysir af hólmi þrjár einbreiðar brýr frá 1923 yfir Hólmana og er auk þess mikið nær miðbænum, liggur  rúmum 2km norðar en eldri vegurinn.  Háskólinn á Akureyri er stofnaður 5.sept. 1987 og Verkemntaskólinn 1984 eins og fram kom hér á undan.

1990-2000 Giljahverfi rís, og þar rísa tvær hæstu íbúðarblokkir bæjarins árið 1991, Mjólkurfernublokkirnar sem eru níu hæða að kjallara og risi meðtöldu. Ári síðar eru kirkjur bæjarins orðnar tvær þegar Glerárkirkja við Bugðusíðu er vígð. Um aldamótin 2000 eru nokkrar götur komnar sunnan Verkmenntaskólans í Teigahverfi. Nesjahverfi, iðnaðarhverfi við norðurmörk bæjarins í lok fer að byggjast upp í lok áratugarins. Þá má einnig geta þess að þarna er ekki bara byggt nýtt heldur er mikið gert upp af eldri húsum. Töluvert um gatnabætur, dæmi er Borgarbraut milli Glerárþorps og Oddeyrar með tveimur brúm á Glerá, tekin í notkun 1999.

2000 til dagsins í dag  Áratugur Naustahverfisins- ef svo mætti komast að orði. Þar hefur nú risið fjölmenn byggð, þar eru mörg fjölbýlishús, raðhús og einbýli, byggðin nær suður að Naustabæjum en 1990 voru bæirnir um 2km frá þéttbýlismörkunum á Brekkunni. Þá hefur eitthvað bæst við byggðina í Giljahverfi þ.á.m. tvö 9 hæða háhýsi við Drekagil og Tröllagil, en þar stóðu áður tvær svipaðar blokkir frá 1990-95. Fyrsta og eina stóra verslunarmiðstöðin, Glerártorg á Gleráreyrum er tekin í notkun 2.nóvember 2000. Hún er svo stækkuð mikið 2008 en þá verða líka sögufræg verksmiðjuhús Sambandsverkesmiðjanna að víkja. Á Sólborgarsvæðinu, miðsvæðis í bæjarlandinu er mikil uppbygging á vegum Háskólans á Akureyri, m.a. Borgir rannsóknarhús reist 2003-4. Gatna og vegabætur, Dalsbraut, sem tengir Brekkuna við Glerárhverfi gegn um Borgarbraut er lögð 2004, Miðhúsabraut 2008. Nærri 18.000 manns með lögheimili á Akureyri. Menningarhúsið Hof er tekið í notkun 28.ágúst 2010. Þéttbýliskjarni bæjarins er um 7km langur frá Naustum að Lónsbakka og líklega 3km breiður frá Oddeyrartanga að efstu byggðum Giljahverfis. Hæstu hverfi eru í um 100m hæð yfir sjó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér kærlega fyrir þetta. Ég veit eiginlega minnst um sl. 30 ár.

Sjáumst í sumar. Kveðja frá Brávöllum

Margrét Harðardóttir (IP-tala skráð) 5.6.2012 kl. 10:58

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og takk sömuleiðis fyrir innlitið. Síðustu áratugir  hafa nú aldeilis verið viðburðarík hvað varðar ásýnd og vöxt bæjarins.

Sjáumst. Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 6.6.2012 kl. 18:08

3 Smámynd: Víðir Benediktsson

Þetta er skemmtilegt hjá þér.

Víðir Benediktsson, 15.6.2012 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 419
  • Frá upphafi: 440776

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 199
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband