30.11.2016 | 21:50
Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 4
Hrafnagilsstræti 4 reisti Jón Sveinsson lögfræðingur og þáverandi
bæjarstjóri Akureyrar 1930-31. Hann fékk snemma sumars 1931 leyfi til að reisa íbúðarhús á lóð sinni, sem skyldi vera 8,40x8,60m að grunnfleti, ein hæð með háu risi og kvisti, forstofu við austurgafl og svölum yfir. Húsið yrði byggt úr steinsteypu með tvöföldum veggjum og þak yfir kjallara skyldi úr járnbentri steinsteypu. Húsið er afar svipað húsi nr. 8 og líklega er hér um tvíburahús að ræða en húsin eru byggð á sama tíma; Snorri Sigfússon sem byggði Hrafnagilsstræti 8 fékk sitt byggingarleyfi þann 4.maí en Jón þann 8.júní. (Þess má þó geta, að Hrafnagilsstræti 4 er í Fasteignaskrá skráð byggt 1930 en byggingarleyfið gefið út ári síðar). Teikningar Halldórs Halldórssonar af húsi nr. 8 hafa varðveist, og líklegt þykir að Halldór hafi því teiknað þetta hús (sbr. Hönnu Rósu Sveinsdóttur o.fl. 2016). Upprunalegar teikningar hafa hins vegar ekki varðveist af nr. 4. Mögulega hefur húsið verið byggt eftir teikningunni af nr. 8.
Sú lýsing hússins sem Bygginganefnd mælti fyrir um á að mestu við enn í dag, enda mun húsið nánast óbreytt frá upphafi. Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með háu risi og miðjukvisti. Kvisturinn er með nokkurs konar steyptum, stölluðum mæniskanti og gefur sá frágangur húsinu ákveðinn einkennissvip, en sams konar kvistur er einnig á húsi nr. 8. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki.
Jón Sveinsson var fyrsti bæjarstjórinn á Akureyri og gegndi því embætti árin 1919 til 1934, eða í hálfan annan áratug. Eftir að hann lét af embætti starfrækti hann lögmannsstofu, en hann var sem áður segir lögfræðingur að mennt. Hér má sjá minningargrein Jónasar G. Rafnar um Jón Sveinsson. Kona Jóns var Fanney Jóhannesdóttir frá Ísafirði. Þau bjuggu ekki lengi í Hrafnagilsstræti 4, fluttu í Aðalstræti 72 árið 1934, þ.e. árið sem Jón lét af embætti bæjarstjóra. Þau unnu árin 1945-55 mikið heimildaverk sem kallað hefur verið Jónsbók eftir Jóni. Þar er um að ræða upplýsingar um upprunasögu hverrar einustu lóðar og húss á Akureyri um það leiti er Jón lét af embætti bæjarstjóra, þ.e. um 1934. Mun Jón hafa safnað þessum upplýsingum en Fanney séð um uppsetningu verksins. Þar er tilgreint hver eða hverjir fengu leyfi byggingar húsanna og hvenær auk allra leyfisskyldra breytinga á húsunum. Þar er einnig tilgreint hver þáverandi (1933-35) eigandi er. Þessi ágæta bók, sem er handskrifuð með glæsilegri skrift, er varðveitt á Héraðskjalasafninu. Hún er ein af helstu heimildum mínum við skrif greinana, sem hér birtast. Ýmsir hafa búið í húsinu gegn um tíðina og lengst af mun það hafa verið einbýli, sem það er í dag. Húsið er í mjög góðu standi og til mikillar prýði í umhverfinu, og sömu sögu er að segja um lóðina sem er vel gróin. Myndin er tekin þann 18.maí 2016.
Hér má sjá Hrafnagilsstræti 4 og 8, og eins og sjá má eru líkindi húsanna töluverð.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 663, 8.júní 1931.
Óútgefið, óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2016 | 00:57
Alvöru matur.
Það er nú aldeilis tilbreyting að sjá svona uppskrift í fjölmiðli; kótelettur með nóg af raspi, smjöri og alls konar gúmmelaði. Því manni finnst einhvern veginn að allt matarkyns sem fjallað er um í fjölmiðlum sé meira og minna eitthvað grænmetis- vegan- hráfæði eða eitthvað slíkt og hollustan skal alltaf í fyrirrúmi. Sem er svo sem í góðu lagi, enda þar vafalítið um hið mesta gæðafæði að ræða. En kótelettur (eða lærissneiðar) í raspi - löðrandi í smjöri-með kartöflum, brúnni sósu, rauðkáli og grænum baunum er máltíð sem sannarlega svíkur engan- a.m.k. ekki þann sem þetta ritar. Fullkomin er þessi ágæta máltíð, ef í eftirrétt er Royal búðingur með rjóma og rótsterkt kaffi
![]() |
Alveg herramannsmatur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2016 | 17:25
Hús dagsins: Oddeyrargata 26
Oddeyrargata 26 var byggð árið 1926 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Síðla vetrar 1926 fær Þorsteinn Davíðsson garfari leigða lóð við vestan Oddeyrargötu við fyrirhugaða þvergötu, beint upp af húsi Einars J. Reynis.
Fyrirhuguð þvergata mun vera Hamarstígur, sem liggur upp og vestur frá Oddeyrargötuna upp á Brekku. Ekki fylgir sögunni hvert umrætt hús Einars J. Reynis er og ekki náði ég að ráða í það út frá aðgengilegum heimildum. Þorsteinn fékk að reisa þarna steinsteypt íbúðarhús á háum kjallara og kvisti, 8,5x8,5m að ummáli.
Oddeyrargata 26 stendur á suðurhorni Oddeyrargötu og Hamarstígs. Það er einlyft steinhús á kjallara með háu risi og stórum hornkvisti og bogadregnu útskoti með lauklaga þaki (sk. Karnap) neðan við kvistinn. Inngangur er á suðurstafni og á bakhlið en einnig á kjallara norðan þ.e. Hamarstígsmegin. Bárjárn er á þaki en einfaldir póstar í gluggum. Húsið er nokkuð skreytt m.a. með múrhleðslumunstri á hornum og steypta ramma yfir gluggum (e.t.v. mætti kalla svona gluggaumbúnað augabrúnir). Af upprunalegum teikningum hússins má ráða, að þar hafi í upphafi verið þrjár íbúðir, á hverri hæð er a.m.k. eldhús. Það rímar ágætlega við þá staðreynd, að árið 1930 búa þarna þrjár fjölskyldur eða 19 manns. Teikningar virðast ekki ná yfir allan kjallara- aðeins þann hluta sem eldhús er og herbergi. Af teikningunum má einnig ráða, að húsið virðist að mestu óbreytt frá upphafi- nema hvað gluggapóstum hefur verið breytt og teikningarnar sýna skífuklæðningu á þaki. Húsið er enn íbúðarhús og er nú einbýlishús skv. Fasteignaskrá. Það er í mjög góðri, var málað sumarið 2016, og lítur vel út. Það sómir sér vel á horninu, enda lítur það vel út á alla kanta. Það er skv. Húsakönnun 2015 talið hafa varðveislugildi sem hluti þessarar raðar klassísku steinhúsa við ofanverða Oddeyrargötuna.
Húsið er mjög skrautlegt, útskotið og hleðslumunstur á hornum gefa því sérstakan svip.
Lóðin er einnig vel hirt og gróin birki- og reynitrjám og á mörkum hennar snyrtilegur stein- og járnveggur sem setur ekki síður skemmtilegan svip á umhverfið. Myndirnar eru teknar annars vegar 21.febrúar og 20. ágúst 2016. Það er nú svo, að myndirnar koma fyrst og síðan koma skrifin. Ef hús er máluð að utan í millitíðinni þykir mér annað ekki tilhlýðilegt en að taka nýja mynd og það gerði ég einnig í þessu tilfelli.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 583, 10.apríl 1926.
Manntal á Akureyri 1930.
Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2016 | 10:59
Hús dagsins: Oddeyrargata 36
Ingimundur Árnason verslunarmaður fékk haustið 1929 leyfi til að reisa íbúðarhús úr steini á einni hæð á háum kjallara, forstofu að sunnan, brotnu þaki og kvisti. Teikningar af húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Framangreind lýsing á raunar við húsið enn í dag, einlyft steitnsteypuhús með risi á kjallara. Rishæðin er brotin svokallað mansardþak, sem lýsa má þannig að efst er risið lágt eða aflíðandi en neðri hlutinn er brattur. Líklega nýtist gólfflötur rishæða húsa betur með þessu fyrirkomulagi. Kvistir eru einnig mikil þarfaþing á rishæðum hvað varðar nýtingu en á húsinu eru tveir slíkir, stór fyrir miðju á framhlið en minni á bakhlið. Á suðurhlið hússins er forstofubygging og ofan á henni svalir með skrautlegu steyptu handriði. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki, en þak er nýlega endurnýjað. Á teikningu Tryggva Jónatanssonar virðist sem svo, að um einbýlishús sé að ræða, geymslur, þvottaherbergi og búr í kjallara, stofur, baðherbegri eldhús og búr á hæð og herbergi í risi. Húsið er nú einbýlishús en mögulega hafa íbúðir verið þarna fleiri. Þarna var líklega starfrækt lítil leikfangasmiðja sbr. þessa auglýsingu frá 1932 í tímaritinu Hlín, frá Skarphéðni Ásgeirssyni. (Mögulega hafa umrædd leikföng þó verið framleidd annars staðar). Oddeyrargata 36 er reisulegt og glæst hús og í góðri hirðu og hefur skv. Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti af þessari merku og skemmtilegu heild sem húsaröðin við ofanverða Oddeyrargötu er. Ein íbúð er í húsinu. Meðfylgjandi mynd er tekin þann 5.mars 2016.
Á bakvið Oddeyrargötu 36 standa tvær myndarlegar blæaspir og er myndin af þeim tekin á trjágöngu sem Skógræktarfélagið stóð fyrir í lok ágúst 2013 um neðri Brekkuna. Blæöspin er eina aspartegundin sem vex villt í íslenskri náttúru og jafnframt sú sjaldgæfasta af innlendum trjátegundum- hefur aðeins fundist villt á 6-7 stöðum á landinu; þ.á.m. Í Fnjóskadal. Mig minnir, að í trjágöngunni þarna hafi komið fram, að þessar væru að öllum líkindum afkomendur plantna þaðan.
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Breytt 19.11.2016 kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2016 | 08:59
Hús dagsins: Oddeyrargata 32
Karl Ingjaldsson, deildarstjóri hjá KEA, reisti Oddeyrargötu 32 árin 1932-33, eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Hann fékk lóðina á fundi Bygginganefndar 21.mars 1932 og byggingarleyfi réttum þremur mánuðum síðar; fyrir íbúðarhúsi 9,4x8,2m , ein hæð á kjallara. Tveir kvistir, forstofa að norðan en skilyrt, að viðbygging sé 5 m lóðarmörkum. Með viðbyggingu er þarna líklega átt við forstofubyggingu sem er á norðurstafni. Árið 1933 vildi Karl innrétta eldhús í kjallara og þar með auka íbúð. Meirihluti bygginganefndar vildi leyfa það, en minnihluti taldi það stangast á við lög nr. 57, 1929 varðandi kjallaraíbúðir. Þessu var vísað til Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis, sem kvað upp þann úrskurð að neðsta hæð Oddeyrargötu 32 væri kjallaraíbúð og því óheimil til íbúðar.
Oddeyrargata 32 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi og miðjukvisti. Á vesturhlið þ.e. bakhlið er einlyft viðbygging með einhalla þaki. Krosspóstar eru í gluggum en í kjallara eru m.a. einfaldir lóðréttir póstar með tvískiptu fagi. Inngangur er í kjallara fyrir miðju. Á norðurhlið er sem áður segir inngönguskúr og steyptar tröppur upp að honum og nokkuð skrautlegt steypt handrið á tröppum. Þá prýðir húsið kringlóttir smágluggar á kvisti og við rjáfur. Á bakhlið er verönd úr timbri.
Fyrir um 40 árum síðan var þarna starfrækt sambýli og var þar um að ræða fyrsta fjölskylduheimilið fyrir vangefna á Íslandi. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og margir búið þarna gegn um tíðina. Og þrátt fyrir afdráttarlausan úrskurð Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis fyrir 83 árum eru engu að síður tvær íbúðir í húsinu í dag, 59 og 170 fermetra líkast til í kjallara og á hæð og í risi. Húsið sómir sér vel í götumynd stæðilegra húsa í klassískum stíl og hefur varðveislugildi sem hluti af heild skv. Húsakönnun 2015. Lóðin er til mikillar prýði er einnig stór vel gróin og við lóðarmörk er steyptur veggur í stíl við húsið (í sama lit og kjallari). Fremst á lóð eru nokkur stæðileg reynitré og er húsið eitt þeirra sem nánast hverfur sjónum vegfarenda yfir sumartímann fyrir laufskrúði. Þess má geta, að þeim sem þetta ritar þykir trjágróður engu minni prýði eða yndisauki í umhverfinu en glæsileg hús. Þessi mynd er tekin þann 24.apríl 2016.
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 54
- Sl. sólarhring: 58
- Sl. viku: 488
- Frá upphafi: 446142
Annað
- Innlit í dag: 40
- Innlit sl. viku: 359
- Gestir í dag: 39
- IP-tölur í dag: 39
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar