20.5.2024 | 10:26
Hús dagsins: Hafnarstræti 57; Samkomuhúsið
Samkomuhúsið eða Leikhúsið við Hafnarstræti 57 er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Það er á sérlega áberandi stað, hátt í brattri brekku á svokölluðu Barðsnefi og er sérstaklega áberandi þegar ekið er inn í bæinn að austan um Vaðlaheiði. Útskorið skraut á voldugum burstum og háreist turnspíra fyrir miðju setja á húsið einstakan svip. Samkomuhúsið hefur löngum verið annað stærsta timburhús bæjarins, Menntaskólin er eitthvað örlítið stærri að rúmtaki en þessar byggingar eru í raun ekki óáþekkar; skrauti hlaðin, svipmikil stórhýsi í sveitserstíl. Það er kannski vafasöm fullyrðing að segja þessi hús stærstu timburhús bæjarins, því til eru íþróttahallir og skemmur sem eru byggðar upp af límtrésbitum. En það væri tæpast hægt að kalla slíkar byggingar timburhús á sama hátt og aldamótahúsin tvö. Hins vegar rísa nú, í nýjum hluta Holtahverfis, fjölbýlishús úr timbureiningum sem vitaskuld flokkast sem timburhús og gætu þau mögulega skákað Samkomuhúsinu og Menntaskólanum hvað stærð varðar.
Fyrsti áratugur 20. aldar má segja, að hafi verið tímabil háreistra og glæstra timburhúsa í byggingasögu Akureyrar. Mætti þar nefna t.d. Thuliniusarhús við Hafnarstræti, Laxamýri við Strandgötu, Gagnfræðaskólann á Eyrarlandstúni og Samkomuhúsið. Þá má nefna tvö hús, sem voru nánast á pari við síðasttöldu húsin hvað stærð og íburð varðar; Horngrýti og Turnhús vestast við Strandgötu. Þessi tvö stóðu reyndar aðeins í 1-2 ár, því 18. október 1906 eyðilögðust þau í Oddeyrarbrunanum. Þá stóð bygging Samkomuhússins við Hafnarstræti einmitt yfir en það var vígt undir lok árs 1906. Sögu Samkomuhússins mætti gera skil í löngu ritverki en hér munum við fyrst og fremst einblína á uppruna- og byggingarsöguna en fara hraðar yfir sögu síðari ára.
Samkomuhúsið er tvílyft timburhús á háum steyptum, eða hlöðnum, kjallara sem reyndar er allur ofanjarðar við framhlið. Húsið er með fremur aflíðandi risþaki, mænir miðhluta snýr N-S en á endum eru burstir sem snúa A-V. Nyrsti hluti hússins er reyndar ein hæð með flötu eða mjög aflíðandi, einhalla þaki og er þar um að ræða viðbyggingu. Þá eru einnig nýlegar, steyptar viðbyggingar með flötu þaki á vesturhlið (bakhlið hússins). Þak er járnklætt en möl er á þaki nýjustu viðbyggingar. Á burstum eru hengisúlur og hanabjálkar með áföstum skrautlegum útskurði og undan þakskeggjum gægjast útskornar sperrutær. Gluggapóstar eru mjög sérstæðir, neðri hluta mætti lýsa sem tvöföldum T-póstum en efri hluti er margskiptur með óræðu en mjög reglulegu mynstri lóðréttra og láréttra sprossa. Á hæðarskilum jarðhæðar og annarrar hæðar og undir gluggaröðum efri hæða eru samfelld vatnsbretti eða skrautbönd. Þá skipta strikaðar flatsúlur á framhúsinu skemmtilega niður í álmur eða deildir. Milli súlna undir burstum eru þrír gluggar á efri hæðum og tveir á jarðhæð ásamt inngöngudyrum. Beggja vegna miðju eru hins vegar tveir gluggar á efri hæðum og þrír á jarðhæð. Miðja hússins, rúmlega ein gluggabreidd, er römmuð inn af tveimur súlum. Þar ofan við, fyrir miðju þakinu, er ferkantaður kvistur eða fótstallur og stendur þar helsta prýði hússins: Áttstrendur turn með ámálaðum krosspóstagluggum undir járnklæddri, oddmjórri spíru. Ekki er greinarhöfundi kunnugt um hæð turnsins, en giskar á, að spíran sé um 4-5 metrar upp af fótstalli, eða um 15m frá götubrún. (Við þetta bætist svo á að giska 2-3m fánastöng, en fánastangir eru einnig upp af burstum). Ef einhver lumar á upplýsingum um hæð turnsins eru þær upplýsingar vel þegnar. Grunnflötur Samkomuhússins (viðbyggingar meðtaldar) er um 34,7x13,5m og í Húsakönnun 1986 er það sagt 3461 rúmmetri (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:135). Þessi tala er væntanlega eitthvað hærri þegar þetta er ritað, vegna síðari tíma breytinga og viðbygginga.
Samkomuhúsið er sem fyrr segir byggt 1906 en saga samkomuhalds og leiksýninga á Barðsnefi teygir sig hins vegar áratug lengra eða til ársins 1896. Það ár reisti Gleðileikjafélagið með þá J.V. Havsteen konsúl og Halldór Gunnlaugsson í broddi fylkingar, í félagi við Sjónleikjafélagið, Goodtemplara, Söngfélagið Gígjuna og bindindisfélagið Björgina veglegt félagsheimili eða leikhús. Ákveðið var að byggingin skyldi hvorki rísa á Oddeyri né Akureyri heldur Barðsnefi, nokkurs konar hlutlausu svæði milli byggðakjarnanna, þar sem amtmaður hafði árið áður reist sér hús eftir nákvæmri mælingu á milli. Húsið var reisulegt og veglegt, tvílyft með háu risi og stóð u.þ.b. 50 metrum norðar en núverandi Samkomuhús og varð síðar Hafnarstræti 66. Var það vígt þann 3. janúar 1897. Nokkrum misserum síðar voru fyrrgreindir Goodtemplarar (hér eftir Góðtemplarar eða Templarar) í eigin byggingarhugleiðingum.
Í júní 1902 sóttu Góðtemplarar um, til bygginganefndar, að fá að reisa hús við Hafnarstræti, 16x11 álnir að stærð, 50 álnir (31,5m) norður af Barnaskólanum (sem reistur var tveimur árum fyrr). Skyldi húsið standa í beina línu með skólanum. E.t.v. var hús templara of lítið frá upphafi en húsið var ekki orðið fjögurra ára gamalt þegar V. Knudsen og L. Thorarensen lögðu fram byggingarleyfisumsókn til bygginganefndar fyrir nýju samkomuhús við Hafnarstræti, í febrúar 1906. Átti það að standa á sama stað og húsið frá 1902 en umtalsvert stærra; 28x16 álnir með 5x8 álna veranda á suðurstafni og út-útbyggingu (kallað svo í bókunum Bygginganefndar) á norðurstafni 10x10 álnir. Svo virðist sem templarar hafi verið full stórhuga að mati bygginganefndar því hún velti vöngum yfir lóðarstærð þeirra, mögulegum fleiri byggingum og húslínu götunnar. Enda hafði húsbygginganefnd templara ákveðið að hafa salinn svo stóran að hægt væri að leigja hann til samsöngva, leikja og annarra stærri funda- og samkomuhalda (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Finnur Birgisson 2003:200). Þeir minntust reyndar ekkert á, að salurinn myndi þjóna leiklistarfsemi í a.m.k. 120 ár, í allt að 20.000 manna samfélagi. En leyfið veitti bygginganefndin með þeim skilyrðum, að bæjarstjórn veitti þeim nægilega lóð og ekki yrðu byggð fleiri hús að Barðsstíg (mögulega hefur sá stígur legið á svipuðum slóðum og Menntavegurinn). Þá gerði nefndin kröfu um, að grafið yrði úr brekkunni til að breikka Hafnarstræti austanmegin. Þann 20. mars 1906 bókar bygginganefnd, að Templarar fái að byggja samkomuhús, 24x16 álnir með þverbyggingum, 21x10 álnir norðanmegin og 16x10 álnir sunnanmegin. Þar kemur fram, að teikning hafi verið lögð fram en sá ljóður er almennt á bókunum bygginganefndar frá fyrri tíð, að hún getur þess sjaldnast eða aldrei, hver gerði framlagðar teikningar. Það liggur hins vegar fyrir, að teikningarnar sem Góðtemplarar samþykktu, gerðu þeir Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson og gerður var við þá byggingasamningur upp á 21.500 krónur. Voru þeir báðir reglubræður Góðtemplarareglunnar. Byggingarmeistarar og hönnuðir hússins voru hins vegar þrír: Þriðja byggingameistarans er einhverra hluta ekki getið í mörgum heimildum en sá hét Björn Björnsson. (Í tölvupósti til undirritaðs fyrir nokkrum árum síðan gat barnabarn Björns, Björn G. Björnsson, sér þess til, að Akureyringar síðari tíma hafi einhvern veginn misst af honum, þar sem hann flutti úr bænum skömmu síðar eða 1909). Samningurinn mun hafa verið gerður daginn eftir samþykki bygginganefndar, 21. mars 1906.
Greinarhöfundur minnist þess að hafa einhvern tíma heyrt, að byggingaframkvæmdir við Samkomuhúsið hafi hafist 20. júní 1906. Á þeirri dagsetningu er þannig fyrirvari, en samkomuhúsið frá 1902 var fjarlægt af lóðinni í maímánuði og geta má sér þess til, að gröftur fyrir grunni og úr brekku hafi hafist um svipað leyti, með þíðum vorsins. Þá minnist greinarhöfundur þess einnig, að hafa heyrt eða lesið að þeir sem komu að byggingu hússins hafi unnið 12 tíma á dag, alla daga vikunnar en slíkt var eflaust ekki óalgengt áður en vinnulöggjöf hvers konar kom til sögunnar. Byggingarmeistarar hússins voru sem fyrr segir þeir Björn Björnsson, Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson. Frá því að byggingarframkvæmdir hófust í júnímánuði og húsið var vígt liðu aðeins sex mánuðir. Er þessi byggingarhraði allt að því ævintýralegur, þegar það er haft í huga að á þeim tíma þekktist ekkert sem hét byggingarkrani (nema e.t.v. einfaldar talíur), steypuhrærivél, vélsög eða nokkur rafmagnsverkfæri. Er þó líklega ekkert einsdæmi; nánast beint ofan Samkomuhússins hafði tveimur árum fyrr ámóta hús, jafnvel ívið stærra, verið reist á álíka stuttum tíma. Þessi stutti byggingartími bendir til þess, að húsin hljóti að hafa komið tilhöggvin, væntanlega frá Noregi, og verið sett saman á staðnum. Hins vegar er vitað, að bæði þessi hús voru teiknuð hér, af íslenskum smiðum. Þannig má ímynda sér, að menn hafi mögulega fengið húsin forsmíðuð í stóreflis verksmiðjum, eftir pöntunum. (Og hvað byggingarhraða varðar má einnig geta þess, að árið 1906 þurftu húsbyggjendur ekki að huga að lögnum að neinu tagi). Samkomuhús templara frá 1902 var flutt af lóðinni sem fyrr segir, nánar tiltekið út á Torfunef, en af upprunalega leikhúsinu á Barðsnefi er það að segja, að það brann til kaldra kola í lok janúar árið 1952.
Samkomuhúsið var vígt þann 23. desember 1906. Var þar um að ræða hefðbundinn reglufund þar en eftir hefðbundin fundarstörf tóku við almenn veisluhöld. Erindi fluttu m.a. bæjarfógeti Guðlaugur Guðmundsson, sr. Geir Sæmundsson prófastur og sr. Matthías Jochumsson flutti lofræðu, að sjálfsögðu í bundnu máli. Þá flutti kórinn Hekla söngatriði. Akureyrarbær lagði Góðtemplurum til fjárstyrk til byggingarinnar gegn því að fá afnot af hluta hússins, þar hafði bærinn aðstöðu fyrir bókasafn og lestrarsal, íbúð bókavarðar, fundarsal og tryggði sér einnig forgangsrétt að stærri sal hússins fyrir stærri samkomur, að vísu gegn leigu í hvert skipti (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Finnur Birgisson 2003: 201). Hinn stærri salur mun hafa verið stærsti samkomusalur landsins og hélt þeim titli í nærri aldarfjórðung eða allt þar til Oddeyringurinn Jóhannes Jósefsson reisti Hótel Borg árið 1930. Hið nýja samkomuhús kom aldeilis að góðum notum fyrsta sumarið eftir að það var vígt, er Danakonungur heimsótti Akureyri í ágúst 1907 og var að sjálfsögðu boðið til veglegrar veislu í nýja samkomuhúsi Góðtemplara.
Í desember 1916 varð Samkomuhúsið 10 ára. Í þeim mánuði átti sér það annars vegar stað, að Akureyrarbær samþykkti að kaupa húsið með öllum búnaði af Góðtemplurum fyrir 28.000 krónur. Komst þá húsið í eigu bæjarins, sem á það enn. Þetta var 19. desember. Hins vegar, fjórum dögum fyrr, höfðu matsmenn Brunabótafélagsins heimsótt Samkomuhúsið og lýst því á eftirfarandi hátt: Leikhús, tvílyft með lágu risi með útbyggingu við bakhlið á öðrum enda. Fyrstu hæð (gólfi) er lýst svo: [...] samkomu- og áhorfendasalur er nær þvert yfir húsið upp í gegnum báðar lofthæðirnar með svölum á 3 vegu. Þess utan 2 stofur, eldhús og forstofa við norðurgafl. Við suðurgafl er leiksvið með tveimur hliðarkompum, uppi í sama enda eru 2 búningsherbergi. Önnur hæð (loft) er lýst stuttlega, þar er samkomusalur við norðurgafl, stofa og forstofa. Kjallari: 2 íbúðarstofur við framhlið, 2 forstofur, lestrarsalur, bókhlaða eða bókasafnsstofa. Við bakhlið var þvottahús, tvær stofur og tvö geymsluherbergi. Í matinu kemur fram, að húsið sé endrum og eins notað til leiksýninga og fyrir fundahöld og samkomur með veitingum. Leiksviðið lýst með steinolíulömpum og samkomusalir með luxlömpum. Grunnflötur var sagður 30,3x10,4m en hæð hússins 12,8m. Ekki liggur fyrir hvort þar sé um að ræða hæð hússins upp að mæni bursta eða hvort turnspíra teljist með, en greinarhöfundur myndi telja turninn ná a.m.k. 15m hæð frá jörð svo sem fyrr er getið. Það voru 12 kolaofnar og ein eldavél í húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 120).
Í Sögu leiklistar á Akureyri eftir Harald Sigurðsson sem Leikfélag Akureyrar gaf út árið 1992 má m.a. finna upprifjun nokkurra leikara frá árdögum Samkomuhússins. Friðrik Júlíusson lýsti frumstæðum ljósfærum fyrir daga raflýsingar: Í salnum var stór lampi sem lýsti vel allan salinn. Fyrir þessum lampa var svört hetta, sem mátti draga frá og fella niður með snúruútbúnaði sem náði eftir loftinu upp á hliðarsvalirnar, og þar varð maður að vera meðan á leiksýningu stóð og draga fyrir, og draga frá eins og þurfti. Á leiksviði voru 5 lampar í lofti, einn stór var í miðju lofti, fjórir til hliðar[...] Fyrir framan senuna var renna og í hana raðað mörgum lömpum, 10 línu og lýstu þeir upp gólfið (Haraldur Sigurðsson (Friðrik Júlíusson) 1992:76). Í leikskrá árið 1959 var Gísli R. Magnússon spurður hvort ekki hafi ekki verið erfitt að leika við lampaljós: Nei, alls ekki. Við þekktum ekki annað svo við gerðum okkur enga grein fyrir erfiðleikunum fyrr en við fengum rafmagnið [1922]. Við röðuðum um það bil tylft af 10 lömpum fremst á sviðið. Það voru rennuljósin. Svo héngu einir sex stærri lampar í loftinu, tveir og tveir milli lofttjaldanna (Haraldur Sigurðarson (Gísli R. Magnússon) 1992:76). Aðspurður, hvort þetta hafi ekki verið stórhættulegt svaraði Gísli, að það hefði örugglega verið svo en menn hefðu aldrei haft áhyggjur af því, og aldrei hefði kviknað í. En það má ímynda sér, að ekki hafi mikið mátt út af bera með einhverja tugi logandi olíulampa í timburhúsinu. Þá má geta þess, að olíulamparnir gáfu einnig af sér aukaafurð sem nýttist leikurum, því sót sem þeir mökuðu framan í sig, m.a. til að mála á sig hrukkur fékkst með því að leggja undirskálar við lampaljósin! Aðstæður voru sannarlega frumstæðar: Búningsherbergin voru í útbyggingu vestur af senunni, en oft var svalt þar, og ekkert vatn. Hitað var upp með olíuofni en í miklum frostum var lítill hiti sem vonlegt var. Í brekkunni vestan við húsið var áður lind og úr henni var lögð leiðsla niður í kjallara og var oftast hægt að ná í vatn (Haraldur Sigurðsson (Friðrik Júlíusson) 1992:76). Og oft var kalt. Jóhannes Jónasson: Verstur var bölvaður kuldinn. Við æfðum að heita mátti allt á sviðinu og það var aldrei lagt í [húsið m.ö.o. óupphitað]. Ég man að, að stundum höfðu húsráðendur hengt upp þvott frammi í húsi. Hann hékk þarna gaddfreðinn, eins og til að gera kuldann ennþá kaldari! (Haraldur Sigurðsson (Jóhannes Jónasson) 1992:69).
Leikfélag Akureyrar var stofnað 19. apríl 1917 og hefur frá upphafi haft aðsetur sitt í Samkomuhúsinu og sett á svið vel á fjórða hundrað sýningar hér. Eftir því sem leið á öldina var aðstaðan betrumbætt og stækkuð eftir kröfum hverju sinni. Árið 1920 var byggt við húsið til norðurs, tveggja hæða bygging með flötu eða mjög aflíðandi þaki þar sem var miðasala og salerni. Áður voru miklar tröppur og svalir á þessum stað. Árið 1945 var byggt við húsið til vesturs, búningsklefar. Sú bygging skagaði út frá annarri hæð út í brekkuna bröttu bak hússins, en var kjallaralaus, svo hún myndaði nokkurs konar undirgöng í port bakvið húsið. Árið 1950 var áhorfendasalur endurnýjaður, hliðarsvalir rifnar og settir nýmóðins bekkir. Um aldamótin 2000 fóru fram endurbætur á salnum og var útlit hans og yfirbragð fært nær upprunalegu útliti. Eins og gefur að skilja fór að verða þrengra um starfsemi leikfélagsins og sýningar þess eftir því sem áratugirnir liðu og ekki óalgengt, að félagið fengi inni í öðrum rýmum til leiksýninga, sem voru of flóknar eða umfangsmiklar fyrir hið aldna félagsheimili Góðtemplara. Þá var það bylting þegar smíðaverkstæðið fluttist úr suðurhluta jarðhæðar að Vör við Óseyri, haustið 1997, enda óhægt um vik að koma fyrir stórum trésmíðavélum eða fyrirferðarmiklum leikmyndarhlutum í aðstöðunni hér. En ævinlega tókst leikfélagsfólki einhvern veginn að sníða sér (þröngan) stakk eftir vexti innan veggja Samkomuhússins. Þó fékk leikfélagið inni í stærri salarkynnum fyrir ákveðnar sýningar, t.a.m. var oft sýnt á Renniverkstæðinu við Kaldbaksgötu á Oddeyrartanga á árunum kringum 2000. Á tímabili eftir tilkomu Hofs voru flestar stærri sýningar félagsins settar upp þar en á seinustu árum hafa þær flestar verið settar upp hér. Húsið hefur þannig verið nýtt óslitið til leiksýninga frá upphafi og verið aðsetur leikfélags bæjarins frá stofnun þess. Auk þess hafa hin ýmsu áhugaleikfélög, m.a. framhaldsskólanna og ýmsir leikhópar fengið hér inni alla tíð. Því má með sanni segja, að hér hafi verið vagga akureyrskrar leiklistar í nærri 120 ár.
Enda þótt húsið hafi frá upphafi verið leikhús fyrst og fremst og eingöngu gegnt því hlutverki síðustu áratugi hýsti það ýmsa starfsemi og stofnanir á fyrri tíð. Hér var t.d. Amtsbókasafnið til húsa um árabil, bæjarstjórn fundaði hér og hafði skrifstofur, húsið var m.ö.o. ráðhús bæjarins. Þá var póstafgreiðsla bæjarins hér um tíma. Þá var búið í húsinu allt fram yfir 1970. Árið 1920 búa átta manns í Hafnarstræti 57 og tíu árum síðar eru ábúendur Samkomuhússins Björn Ásgeirsson bókhaldari og Stefanía Dúadóttir, tvö börn þeirra og tvær þjónustustúlkur. Björn og Stefanía reistu sér síðar hús eða smábýli, Silfrastaði, við Vesturgötu (nú Goðabyggð 7) á Brekkunni. Síðustu íbúar Samkomuhússins voru líklega húsvarðarhjónin þau Jón Andrés Kjartansson og Jóna Waage.
Á árunum 2004-06 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu og nánasta umhverfi þess. Fóru þær fram jafnt að utan sem innan. Voru þær m.a. gerðar eftir teikningum Páls Tómassonar og uppmælingarteikningum Finns Birgissonar. Viðbyggingin, búningsaðstaðan frá 1945, var rifin og reist steinsteypt viðbygging í staðinn sem gegnir sama hlutverki. Lyfta var sett í norðurenda hússins og allt aðgengi og aðstaða, hvort tveggja leikara og gesta, Samkomuhússins þannig stórbætt. Þá var þak endurnýjað. Einnig var unnið í brekkunni að baki hússins og hún stölluð með mörgum steyptum veggjum en framskrið og vatnsrennsli hafði þar lengi verið vandamál. Einnig var jarðvegsskipt í brekkunni framan hússins og settur á hana meiri flái.
Það þarf vart að fjölyrða um hversu mikið og einkennandi kennileiti Samkomuhúsið er í götumynd Hafnarstrætis og í raun bænum eins og hann leggur sig. Það stendur einnig mjög skemmtilega, hátt í brattri og gróskumikilli brekku. Snemmsumars skartar brekkan framan við skemmtilega gulum lit af túnfíflum og þykir mörgum það ótvírætt merki um að sumarið sé komið þegar Samkomuhúsbrekkan skartar gulu. Samkomuhúsið var friðlýst í B-flokki árið 1977, með fyrstu húsum bæjarins sem voru friðlýst og er auk þess aldursfriðað. Þá þætti greinarhöfundi rétt að flötin framan við það yrði einnig friðuð fyrir byggingum; það yrði afleitt, ef byrgt væri fyrir ásýnd Samkomuhússins með hærri byggingum! Meðfylgjandi myndir eru teknar 5. júní 2006, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.
ES. Á bernskuárum sínum var sá sem þetta ritar oft eins og grár köttur í Samkomuhúsinu þar sem faðir hans, Hallmundur Kristinsson leikmyndahönnuður, starfaði sem forstöðumaður smíðaverkstæðisins og hannaði þar og smíðaði leikmyndir. Þótti höfundi þetta sannkallað ævintýrahús; allir gangarnir, ranghalarnir og afkimarnir en þess má geta, að greinarhöfundur átti það til að fara ítrekaðar könnunarferðir um húsið meðan pabbi hans sinnti einhverjum erindum á verkstæðinu. Geymslurnar innaf verkstæðinu þar sem leyndust ýmsir leikmunir, stórir og smáir, gangurinn bakvið verkstæðið, og bröttu stigarnir upp á svið og að búningsklefanum. Kaffistofan fyrir miðri annarri hæð, fínu tröppurnar og stofurnar með þykka rauða teppinu, leiksviðið, salurinn og búningsherbergin og Borgarasalurinn svokallaði nyrst uppi á þriðju hæð. Auk hinna ýmissa kompa og kytra. Gilti einu hvar strákurinn þvældist, aldrei nokkurn tíma heyrðist Hvað ert þú að vilja eða Þú átt ekki að vera hér eða neitt svoleiðis heldur var honum þvert á móti ævinlega tekið eins og höfðingja. Þá vöknuðu ýmsar ráðgátur í sambandi við þetta magnaða hús. Hvar voru t.d. herbergin bakvið alla þessa glugga á framhliðinni? Þar var um að ræða falska glugga en á bakvið þá var austurveggur leiksviðs og salur. Og turninn! Hvað var þar og hvernig komst maður þangað? Var e.t.v. fjársjóður uppi í turninum? Leikmunir? Skrifstofa? Kaffistofa? Aldrei fór greinarhöfundur upp í turninn til að komast að því sanna að eigin raun hvað væri þar uppi. Honum skildist hins vegar að þar væri einfaldlega ekki neitt, turninn væri einungis hluti af háalofti, sem lægi þarna yfir öllu og hvorki á færi barna að komast þangað, né að þau ættu þar nokkurt erindi. Greinarhöfundur gæti ritað heillanga grein um eigin minningar úr Samkomuhúsinu en látum staðar numið hér.
Heimildir: Björn G. Björnsson. Upplýsingar um Björn Björnsson og byggingarframkvæmdir Samkomuhússins, veittar í einkaskilaboðum (tölvupósti) 28. júlí 2020.
Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 129, 15. júní 1896. Fundargerðir 1902-21. Fundir nr. 224, 16. Júní 1902, nr. 307, 20. feb. 1906 og nr. 309, 20. mars 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.
Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.
Haraldur Sigurðsson. 1992. Saga leiklistar á Akureyri. Leikfélag Akureyrar.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 24.5.2024 kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 1
- Sl. sólarhring: 29
- Sl. viku: 372
- Frá upphafi: 440805
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 175
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar