Hús dagsins: Skipagata 14; Alþýðuhúsið.

Skipagata 14 er eitt af tilkomumestu stórhýsum MiðbæjarinsP1190984 og nokkuð áberandi kennileiti, t.d. séð frá þjóðveginum, Torfunefi og Hofi. Húsið er að mestu byggt árin 1983-84 en elsti hluti hússins, neðsta hæðin, var byggður um 1952. Þá stóð til að reisa mikla byggingu KEA. Norðurhluti byggingarinnar reis að fullu, fjórar hæðir, og varð Skipagata 12. Skipagata 14 var hins vegar lengi vel aðeins ein hæð. Bygging  efri hæða Skipagötu 14 var samvinnuverkefni verkalýðsfélaganna á Akureyri og var ætlað að verða sameiginlegt aðsetur þeirra. Kallast húsið Alþýðuhúsið. Teikningarnar að húsinu gerði Aðalsteinn Júlíusson á Teiknistofunni Sf. vorið 1983. Nyrðri hluti neðri hæðar var hins vegar byggður eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar; „Verzlunarhús KEA og T.B.“ sem dagsettar eru 22. júlí 1952.  

Skipagata 14 er fimm hæða steinsteypuhús með valmaþaki. Efsta hæðin er eilítið smærri að grunnfleti, eða með svokölluðu „penthouse“ lagi. Járn og þakdúkur er á þaki og múrhúð, ýmist slétt eða hömruð á veggjum.

Fyrstu árin eftir að neðsta hæð Skipagötu 14 reis hýsti hún afgreiðslu KEA, en í október 1959 innréttaði kaupfélagið veglegt þvottahús þarna. Nánar tiltekið Þvottahúsið Mjöll og var það starfrækt í húsnæðinu um árabil. Á suðurhluta lóðarinnar stóð einnig timburhús, sem flutt hafði verið á lóðina frá Svalbarðseyri, svonefnt Rauða hús.  Þar var um að ræða timburhús, byggt um aldamótin 1900 og stóð upprunalega á Svalbarðsströnd, en flutt á þennan stað árið 1911. Þar voru á seinni árum afgreiðslur flutningafyrirtækja, m.a. Péturs og Valdimars. Rauða hús var fjarlægt í júní 1983, og flutt fram að Botni í Hrafnagilshreppi. Skömmu síðar hófst bygging Alþýðuhússins

Hið nýja Alþýðuhús var formlega tekið í notkun 26. júlí 1984. Á neðstu hæð hefur alla tíð verið útibú Íslandsbanka (Glitnis meðan hann var og hét) en veitingastaðir á efstu hæð. Enn er húsið aðsetur fjölmargra verkalýðsfélaga og einnig hefur Vinnumálastofnun aðsetur á annarri hæð. Þá eru hinar ýmsar skrifstofur og samkomusalir í húsinu. Kröfuganga Akureyringa á verkalýðsdaginn, 1. maí, leggur ævinlega af stað frá húsinu.  Þá hefur efsta hæðin („penthouse“ hæðin) alla tíð hýst veitingastaði. Lengi vel var þar veitingastaður sem hét Fiðlarinn- væntanlega vísun í Fiðlarann á þakinu. Enn er veitingarekstur á efstu hæð, veitingahúsið Strikið. Útsýnið frá veitingasölunum er hreint og klárt stórkostlegt, yfir Pollinn, Eyrina, út eftir og fram eftir. sem KEA Skipagata 14 er ekki talin hafa varðveislugildi, enda á það yfirleitt við um eldri hús.

Skipagata 14, Alþýðuhúsið, fellur vel inn í götumynd Skipagötu og umhverfið, hönnun þess hefur að mörgu leyti tekið mið að nærliggjandi byggingum.  Húsið er, í Húsakönnun 2014, ekki talið hafa verulegt varðveislugildi (enda á það yfirleitt ekki við um þetta „nýleg“ hús) en talið hafa gildi fyrir götumynd Skipagötu. Enda er um að ræða áberandi og glæst kennileiti í Miðbænum. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.


Bloggfærslur 15. júlí 2020

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 262
  • Frá upphafi: 451085

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 208
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband