Hús dagsins: Skipagata 12

Skráð byggingarár Skipagötu 12 er 1949. Engu að síður er það svo, P1190981að eina bókun Byggingarnefndar sem greinarhöfundur -sem er aldeilis ekki óskeikull- fann um húsið er frá árinu 1952. En þá fengu Kaupfélag Eyfirðinga og Tómas Björnsson „að reisa norðurhluta fyrirhugaðrar bygginga á sameiginlegum lóðum“. Í Húsakönnun 2014 er hönnuður hússins sagður ókunnur en á Landupplýsingakerfinu má finna þessar teikningar, gerðar af Mikael Jóhannessyni. Á þessum teikningum Loga Más Einarsson af endurbótum hússins. Upprunalegar teikningar virðast ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar eru hins vegar teikningar af innra skipulagi hússins, eftir Mikael Jóhannesson. Húsið, Verslunarhús KEA, átti að skiptast í nokkur rými fyrir „léttan iðnað eða skrifstofur“ og áformuð lengd skv. teikningum nærri 26m en lengd hússins meðfram götu er um 12m. Þannig má ætla, miðað við upplýsingar frá Bygginganefnd og teikningar, að aðeins um téðan norðurhluta að ræða. Suðurhlutinn reis ekki í fyrirhugaðri mynd, en rúmum þremur áratugum síðar reis hins vegar mikið stórhýsi á Skipagötu 14, áfast nr. 12 (sjálfsagt halda einhverjir, að um sé að ræða eitt og sama húsið). Reis það ofan á jarðhæð byggingar, sem þegar var áföst. 

Skipagata 12 er fjórlyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Efsta hæð er inndregin frá austurhlið og eru þar svalir eftir endilöngu.  Veggir eru múrsléttaðir og þakpappi á þaki. Gluggar með einföldum þverpóstum með þrískiptu efri fögum, en verslunargluggar á jarðhæð. Á norðurhlið er kringlóttur gluggi ofarlega, sem gefur húsinu ákveðinn svip, en þessi gafl hefur löngum verið skreyttur flennistórum auglýsingamyndum.

Skipagata 12 hefur frá upphafi hýst hina ýmsa verslun og þjónustu, líkt og húsin öll við Skipagötuna. Meðal annars má nefna afgreiðslu hins valinkunna póst- og flutningabáts Drangs, Ferðafélag Akureyrar og Sjómannafélag Eyjafjarðar. Að ógleymdri Gufupressun fatahreinsun. Á níunda áratugnum var opnaður hér kjúklingastaðurinn Crown Chicken og um árabil prýddi nokkurs konar táknmynd staðarins: reffilegur hani, norðurhlið hússins. Hefur síðan verið veitingarekstur á jarðhæð, nú er þar starfræktur Akureyri Fish and chips. Á efri hæðum eru skrifstofurými  og íbúð á efstu hæð.

Ekki er talið að gildi hússins sé verulegt umfram önnur hús við Skipagötu, en húsaröðin hefur nokkuð gildi sem slík. Húsið er, líkt og húsin utar við Skipagötu, byggt í anda skipulagsins frá 1927. Húsið er í mjög góðri hirðu og mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1159, 1. ágúst 1952. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Bloggfærslur 3. júlí 2020

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 14
  • Sl. sólarhring: 42
  • Sl. viku: 263
  • Frá upphafi: 451086

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 209
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband