24.2.2024 | 13:39
Hús dagsins: Strandgata 19b; Laxamýri
Í byrjun árs 1906 birtust í Akureyrarblöðunum þær fréttir að Sigurjón Jóhannesson bóndi á Laxamýri í Reykjahverfi, S-Þingeyjarsýslu hyggðist flytja til Akureyrar á hinu nýja ári. Hafði hann búið stórbúskap á þeirri kostajörð í meira en 40 ár, síðustu 14 árin í félagsbúi með sonum sínum, Agli og Jóhannesi, en hugðist nú flytja í kaupstaðinn á efri árum, en hann var orðinn 73 ára. Annar sonur Sigurjóns, Lúðvík, átti heima að Strandgötu 19 og fékk Sigurjón keypta lóð af Gránufélaginu á bakvið hús Lúðvíks. Kannski hafa einhverjir haldið, að Sigurjón myndi reisa sér lítið og lágreist smáhýsi í bakgarði sonar síns. En það var aldeilis öðru nær; hús Sigurjón var umtalsvert stærra og veglegra og gnæfði yfir framhúsin nr. 17 og 19 og er enn þann dag í dag eitt af tilkomumestu húsum sunnanverðrar Oddeyrar.
Þann 18. janúar 1906 bókaði Bygginganefnd Akureyrar eftirfarandi: Sigurjóni Jóhannessyni frá Laxamýri var leyft að byggja hús á lóð hans bak við hús þeirra Lúðvíks Sigurjónssonar og Eggerts Stefánssonar við Strandgötu og sje [svo] miðjan á húsinu fyrir miðju sundinu milli húsa hinna nefndu húsa. Húsið er byggt úr timbri, 15x15 [álnir] einlyft með porti og kvisti og með veranda á framhlið 6x2 ¼ al. [álnir] (Bygg. nefnd. Ak. nr. 305, 1906).
Sigurjón á Laxamýri ætlaði aldeilis ekki að reisa neitt smáhýsi þarna á baklóðinni hjá syni sínum. Og það sem meira var, húsið var reist í hinum svokallaða sveitserstíl, sem á þeim tíma var það allra glæstasta í húsbyggingum. Til húsbyggingarinnar réði hann frænda sinn, Sigtrygg Jónsson frá Espihóli, sem hálfu öðru ári fyrr hafði stýrt byggingu eins stærsta og veglegasta húss bæjarins, Gagnfræðaskólans við Stóra Eyrarland (Gamli Skóli, Menntaskólinn). Sveitserhúsin voru reist að norskri fyrirmynd og voru einnig kölluð katalóghús. Sú nafngift kom til af því, að þau væru valin úr bæklingum eða katalógum frá norskum timbursmiðjum eða hönnuð með þau til hliðsjónar. Helstu einkenni þeirra var mikill umbúnaður og skraut, útskurður á stöfnum og kvistum, skrautlistar og bríkur, oft skrautlegir gluggapóstar auk þess sem oft var grunnflötur og lofthæð þeirra rýmri en áður hafði tíðkast. Það liggur víst ekki óyggjandi fyrir, hvort akureyrsku sveitserhúsin hafi einhver komið algjörlega forsmíðuð eða tilhöggvin að utan en í sumum þeirra hafa fundist númeraðir bjálkar, sem benda ótvírætt til þess, að húsin hafi verið forsmíðuð eða tilbúin til samsetningar. Gagnfræðiskóli Sigtryggs, stærsta timburhús bæjarins fyrr og síðar, reis á aðeins sex mánuðum og 1906, sama ár og Sigtryggur og Sigurjón byggðu Laxamýri, var annað álíka stórhýsi og Gagnfræðaskólinn, Samkomuhúsið á Barðsnefi, reist á sama hraða. Þeirri byggingu stýrðu þeir Guðbjörn Björnsson, Guðmundur Ólafsson og Björn Björnsson. Þessi byggingarhraði þykir benda til þess, að hús þessi hafi komið tilhöggvin. Hins vegar er það skjalfest, að Sigtryggur hannaði skólahúsið (Snorri Jónsson timburmeistari hafði þar einnig hönd í bagga) en mögulega hefur það verið forsmíðað ytra eftir hans forskrift. Ekki hafa varðveist neinar upprunalegar teikningar svo greinarhöfundur viti til af Laxamýri en freistandi að giska á, að Sigtryggur hafi haft sama háttinn á og við byggingu skólahússins. Það er, hannað húsið og fengið það forsmíðað, e.t.v. skipt við sama fyrirtæki og útvegaði viðinn í skólahúsið. En hús Sigurjóns var alltént fullbyggt haustið 1906 og inn í það flutt.
Strandgata 19b er einlyft timburhús, bjálkabyggt segir í uppmælingateikningu Haraldar S. Árnasonar, með háu portbyggðu risi og á háum kjallara. Á framhlið er stór miðjukvistur sem skagar út fyrir húshliðina og tveir smærri kvistir beggja vegna. Kvisturinn er í raun efri hæð forstofubyggingar en að henni eru tröppur og verönd framan við. Á bakhlið er einnig útskot með einhalla þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins en forstofubyggingu að framan prýða margskiptar skrautrúður, sumar glerjaðar með lituðu gleri. Þakbrúnir slúta langt út fyrir brúnir og þar blasa við útskornir sperruendar. Við efri gluggabrún neðri hæðar er skrautlisti. Neðan hans er lárétt panelkæðning en ofan lista eru lóðrétt þil, ydd að neðan og mynda þannig nokkurs konar kögur við listann. Neðan við glugga á framhlið er timburklæðningunni raðað í nokkuð sérstakt, tígullaga mynstur. Framangreint mætti telja til einkenna sveitserstílsins. Grunnflötur hússins er nærri 9x10m, útskot á bakhlið um 2,5x3 og forstofubygging að framan um 1,5x4m.
Sigurjón Jóhannesson var kvæntur Snjólaugu Þorvaldsdóttur frá Krossum á Ársskógsströnd. Á meðal barna þeirra var Jóhann (1880-1919) skáld og rithöfundur, sem er e.t.v. þekktastur fyrir leikverk sín Galdra-Loft og um Fjalla-Eyvind. Hún lést árið 1912 og segir svo í bókinni Af norskum rótum að eftir lát hennar hafi Sigurjón ekki unað lengur í kaupstaðnum og flust aftur að Laxamýri í viðbyggingu, sem hann lét reisa við gamla bæinn þar (sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:188). Árið 1913 eru íbúar hússins m.a. þær Jóhanna Sigurgeirsdóttir og Elísabet Sigurðardóttir, titlaðar lausakonur og Margrét Sigurðardóttir búðarstúlka en Sigurjón er enn skráður eigandi. Sigurjón virðist hafa flust hingað aftur síðasta æviárið en hann er skráður hér til heimilis árið 1914, ásamt dóttur sinni, Soffíu, lækni. Sigurjón Jóhannesson lést árið 1918. Árið 1916 eru komnir til sögunnar nýir eigendur að húsinu. Umræddir eigendur áttu húsið drjúgan hluta 20. aldar og í hugum margra Akureyringa er þessi félagsskapur og Laxamýri að Strandgötu 19b tengt órjúfanlegum böndum. Þetta var Hjálpræðisherinn.
Hjálpræðisherinn á Akureyri var stofnaður árið 1904 og hafði m.a. verið til húsa í Norðurgötu 11 (árið 1907) en 1916 festi hann kaup á stórhýsinu við Strandgötu. Það ár er skráður til heimilis, H. Nielssen, foringi í Hjálpræðishernum en auk hans þau Jón Halldórsson skipstjóri og Klara Bjarnadóttir, kona hans. Einnig þrír skólapiltar, Stefán Hallgrímsson, Þorleifur Þorleifsson og Gestur Jóhannsson. Þann 5. september 1916 heimilaði Bygginganefnd Akureyrar Hjálpræðishernum að reisa samkomuhús úr steinsteypu á lóð sinni við Laxamýri, 10x7 metrar grunnfleti. Húsið skyldi standa að lóðarmörkum að sunnan og vestan. Á suðurgafli og vesturhlið skyldu vera eldvarnarveggir. Þetta hús var risið í mars 1917, þegar Strandgata 19b var virt til brunabóta. Þá var Laxamýri sagt vera íbúðarhús, einlyft með porti og kvisti, kjallara og skúr við bakhlið. Á gólfi við framhlið voru tvær stofur og forstofa, við bakhlið tvær stofur, eldhús, búr og forstofa. Á lofti voru sjö íbúðarherbergi og gangur en sjö geymsluherbergi í kjallara. Útveggir voru timburklæddir og þak járnvarið, grunnflötur sagður 9,4x8,8m og hæð 9,4m. Þá voru á húsinu 28 gluggar og tveir skorsteinar sem tengdust átta kolaofnum, eldavél og þvottapotti.
Árið 1917 eru efst á íbúaskrá Strandgötu 19b þau Kristian og Bertha Johnsen, hann titlaður kaptain og mætti því leiða leikur að því, að hann hafi verið leiðtogi Hjálpræðishersins á þeim tíma. Þá er einnig annað hús skráð á sama heimilisfang og þar búsettur Georg Anderssen mótoristi og fjölskylda hans. Væntanlega er þar um að ræða steinhúsið, sem Hjálpræðisherinn reisti 1916. Í steinhúsinu fóru löngum fram stærri mannamót en í Laxamýri rak herinn gistiheimili (sjómannaheimili), eldhús og alls kyns hjálparstarfsemi, sem hernum var og er tamt að sinna, auk þess sem búið var í því. Í þessum húsum Hjálpræðishersins fóru fram ýmsar samkomur; jólaskemmtanir, bíósýningar og ýmislegt barnastarf og eiga eflaust margir góðar minningar úr Laxamýri og salnum þar vestan við.
Sjálfsagt mætti skrifa langar greinar, ef ekki heila bók, um sögu og starfsemi Hjálpræðishersins á Akureyri og á landsvísu. En hér var Hjálpræðisherinn til húsa í rúm 60 ár eða fram til um 1980 er Akureyrarbær eignaðist húsið. Meðan húsið var í eigu bæjarins hýsti það m.a. Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar, fjölskyldudeild og skrifstofur menningarmála. Eftir að húsið komst í einkaeigu árið 1996 var það innréttað sem íbúðarhús. Síðar hafa verið þarna lögmannsstofur og nú er nýsköpunarfyrirtækið Eimur til húsa í Strandgötu 19b.
Samkomusalur Hjálpræðishersins er nú horfinn fyrir mörgum áratugum og það má ímynda sér, að hefði Sigurjón Jóhannesson reist hús sitt, Laxamýri, aðeins fáeinum metrum vestar hefði það orðið að víkja fyrir breikkun Glerárgötu! En Laxamýri reisti hann á þessum stað og húsið stendur enn, svo óþarft er að mála skrattann á vegginn. Sumir eru þó þeirrar skoðanir, að eldri hús séu aðeins til óþurftar og rétt sé, að rífa þau sem flest til að rýma fyrir nýtísku byggingum. Komi það einhvers staðar til, að slík viðhorf verði ráðandi í skipulagsgerð er æskilegt að til staðar sé sterk og bindandi löggjöf um húsverndun.
Strandgata 19b, Laxamýri, er eitt af glæstustu og tilkomumestu húsum Oddeyrar og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt enda þótt það standi ekki fremst við götu. Það er eitt nokkurra stórglæstra og skrautlegra sveitserhúsa bæjarins og er í afbragðs góðri hirðu. Í Húsakönnun 2020 er varðveislumat í fimm undirflokkum, þ.e. listrænt gildi, menningarsögulegt gildi, umhverfisgildim upprunalegt gildi og tæknilegt ástand. Skemmst er frá því að segja, að húsið er metið með hátt gildi í öllum flokkum og með hátt varðveislugildi sem hluti af mjög samstæðri byggð við Strandgötu. Húsið er með eldri húsum á Akureyri, góð hlutföll, samræmi í gluggasetningu (Bjarki Jóhannesson 2021:48). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, þar sem það er byggt árið 1923 og húsaröðin við Strandgötu telst einnig varðveisluverð heild. Myndirnar eru teknar þann 10. október 2010 (10.10.´10), 20. ágúst 2017 og 21. janúar 2024.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 305, 18. janúar 1906. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 432, 5. Sept. 1916. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is
Bloggar | Breytt 26.2.2024 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 24. febrúar 2024
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 13
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 384
- Frá upphafi: 440817
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 186
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar