22.3.2024 | 09:15
Hús dagsins: Spítalavegur 15
Í síðustu viku vorum við stödd við Eyrarlandsveg í nágrenni Akureyrarkirkju og við sögu kom húsið Stóruvellir sem stóð sunnan undir henni. Stóruvelli reisti Albert Jónsson, reyndar tæpum 40 árum áður en kirkjan reis, árið 1902 og nefndi eftir æskustöðvum sínum. Fjórum árum síðar reisti Sigurgeir bróðir hans, einnig hús sunnar og ofar á brekkunni ofan Akureyrar. Stendur það hús enn.
Vorið 1906 sótti Sigurgeir Jónsson, söngkennari frá Stóruvöllum í Bárðardal, um að fá keypta lóð meðfram Spítalavegi, 40 álnir (27,2m) meðfram veginum og 24 álnir (14,1m) að breidd. Bygginganefnd mælti með þessu en vísaði til bæjarstjórnar. Það var svo um sumarið að endanleg útmæling og úthlutun lóðar lá fyrir: Bygginganefnd samþykkti að útvísa Sigurgeiri Jónssyni lóð meðfram Spítalavegi að ofan, í beinni línu meðfram veginum eins og hann er út að hlykknum, þannig að lóðin hefjist að sunnanverðu 200 fetum frá norðurtakmarki spítalagirðingarinnar, 80 fet í norður meðfram veginum; framhlið hússins sé 12 fet frá vesturrönd vegarins. Eigi má byggja húsið nær suðurtakmörkum lóðarinnar en 10 fet (Bygg. nefnd. Ak. nr. 314, 1906).
Ekki fylgja lýsingar eða mál á húsinu sem Sigurgeir hugðist reisa en bygging hófst í júní um sumarið. Þó aðeins Sigurgeir sé nefndur í bókunum Bygginganefndar var það svo, að bygging hússins var í félagi Sigurgeirs og Ólafs Tryggva Ólafssonar, verslunarmanns frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi. Bjuggu þeir á sinni hæðinni hvor ásamt fjölskyldum sínum og húsið tvíbýli frá upphafi og hefur verið svo í tæp 118 ár þegar þetta er ritað. Byggingameistari og hönnuður hússins var Guðbjörn Björnsson. (Guðbjörn hafði aldeilis í nógu að snúast árið 1906, því auk byggingar íbúðarhúss fyrir Sigurgeir Jónsson stýrði hann, ásamt tveimur öðrum, byggingu samkomuhússins mikla við Hafnarstræti 57). Verksamningur þeirra Ólafs og Sigurgeirs við Guðbjörn byggingameistara mun hafa varðveist og kemur þar fram, að húsið sé byggt á hefðbundinni grind með reiðingi til einangrunar. Útbygging að norðan og að sunnan einnig útbygging með veranda (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2009:26).
Spítalavegur 15 er tvílyft timburhús með lágu risi, á miðlungsháum steyptum kjallara. Á báðum stöfnum þess eru útskot eða forstofubyggingar, jafnháar húsinu og einnig er stigabygging á bakhlið. Raunar nær útskot norðurhliðar meðfram öllum stafninum svo í raun má heita, að ysti hluti austurhliðar sé inndreginn, fremur en ysti hluti gafls sé útskot. Útskot suðurhliðar er hins vegar samhverft um mæni og skagar efri hæð þess eilítið yfir útidyr neðri hæðar, myndar þannig nokkurs konar skýli. Bárujárn er á þaki hússins og steinblikk á veggjum, kantur eða band á hæðaskilum og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Áttarúðupóstar eru á framhlið neðri hæðar og eru þeir einu póstabili síðari en gluggar efri hæðar. Þá er skrautpóstur í suðurglugga forstofubyggingar, með skásettum krosssprossum og tígul í miðju. Grunnflötur hússins er 9,45x7,65m, útskot að sunnan um 2x2,5m, útskot að norðan 1,75x5,45m og bakbygging 2,5x3,95m, skv. uppmælingarteikningum Jakobs Snorrasonar frá 1957. Upprunalegar teikningar virðast ekki hafa varðveist, en vitað, að Guðbjörn Björnsson teiknaði húsið. Í húsakönnun árið 1986 er húsið sagt 650 rúmmetrar að stærð (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:155).
Sigurgeir og kona hans, Friðrika Tómasdóttir frá Litluvöllum í Bárðardal, munu hafa flutt inn á neðri hæðina síðla árs 1906 en fullgert var húsið í maí árið 1907. Það ár eru alls sextán skráð til heimilis að Spítalavegi 15. Auk Ólafs Tryggva, konu hans, Jakobínu M. Magnúsdóttur og sonar þeirra, Þóris, er önnur fjögurra manna fjölskylda einnig búsett á efri hæðinni; Pétur Halldórsson verslunarmaður og Jónína Jónsdóttir og tvö ung börn þeirra, Alfa og Marinó Halldór. Á neðri hæð búa sem fyrr segir Sigurgeir og Friðrika ásamt fjórum börnum sínum og Sigurbjörgu Guðmundsdóttur vetrarstúlku og Jóni Guðmundssyni, sem titlaður er snúningapiltur. Á meðal barna Sigurgeirs og Friðriku í manntali 1907 er nýfæddur drengur, sem ekki er kominn með nafn. Sá hafði fæðst 22. október og hlaut hann nafnið Eðvarð. Hann var afkastamikill ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður og frumkvöðull á því sviði hérlendis. Vigfús bróðir hans fékkst einnig við ljósmyndun og raunar er það svo, að rekist maður á ljósmyndir frá Akureyri frá fyrri hluta 20. aldar eru góðar líkur á því, að annar þeirra bræðra hafi haldið á myndavélinni. Sigurgeir Jónsson kenndi söng og hljóðfæraleik um áratugaskeið, svo lengi sem heilsa og aldur entist og var organisti við Akureyrarkirkju í þrjá áratugi. Í minningargrein um hann segir Snorri Sigfússon: [...]Hefur mikill aragrúi Akureyringa og annarra Norðlendinga notið tilsagnar hans þessa áratugi. Þótti hann ágætur kennari, nákvæmur og vandvirkur, svo sem bezt má verða, og ,,músíkalskur ágætlega. Var því jafnan margt ungviði kringum Sigurgeir alla æfi, syngjandi og spilandi, og heimilið hlaðið tónaflóði. (Snorri Sigfússon 1954: 4).
Í árslok 1916 var Spítalavegur 15 virtur til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, tvílyft á kjallara með láu [svo] risi, skúr við bakhlið. Á gólfi undir framhlið [austanverð neðri hæð] 3 stofur og forstofa, bakhlið 1 herbergi, eldhús og búr. Á lofti undir framhlið 4 stofur, bakhlið, 3 stofur, eldhús og búr. Kjallari hólfaður í 4 geimsluherbergi [svo]. 2 reikháfar [svo] útbygging með stiga upp á loft (Brunabótafélag Íslands 1916, nr.91). Húsið var timburklætt og járn á þaki. Grunnflötur hússins var sagður 9,4x7,4m, hæð hússins 9,4m og á því 29 gluggar. Reykháfarnir tveir tengdust alls fjórum kolaofnum og tveimur eldavélum. Þá stóð á lóðinni fjós og hlaða úr steinsteypu, 6,9mx4,2m að grunnfleti.
Svo vill til, að á báðum hæðum bjuggu húsbyggjendur allt til dánardægra og afkomendur þeirra bjuggu þar áfram. Húsið er ekki mikið breytt frá upphaflegri gerð. Upprunalega var húsið timburklætt en mögulega um 1930 var núverandi steinblikkklæðning sett á húsið. Árið 1957 voru gluggar neðri hæðar síkkaðir, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og byggð 2x2m útbygging að vestanverðu, í raun stækkun á stigabyggingu sem var þar fyrir. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Jakob Snorrason. Fékk húsið þá að mestu það lag, sem það enn hefur. Neðri hæðin var raunar í eigu sömu fjölskyldu fram yfir aldamótin 2000 en árið 1979 er Kristján Birgisson sagður eigandi efri hæðar.
Árið 1983 keyptu þau Aðalsteinn Svanur Sigfússon og Sóldís Stefánsdóttir efri hæðina ásamt þeim Gesti Helgasyni og Hólmfríði Eiríksdóttir. Gefum Aðalsteini orðið: Það var vorið 1983 sem við keyptum efri hæðina á húsinu númer fimmtán við Spítalaveg, ég og sambýliskona mín Sóldís ásamt Gesti vini mínum Helgasyni og eiginkonu hans, Hólmfríði Eiríksdóttur. Barnung dóttir Hólmfríðar, Árný Þóra, var hluti þessarar kommúnu. Við vorum mjög ung þegar þetta var. Grannar okkar á neðri hæðinni, Haraldur [sonur Sigurgeirs og Friðriku, sem byggðu húsið] og Sigga Palla, tóku okkur mjög vel og margra ára nábýli við þau var sérstaklega ánægjulegt.
Þau hófust handa við málningarvinnu: Þegar við fluttum inn var útlit hússins ansi dapurt því það hafði ekki verið málað síðan 1962 í 21 ár. Við, skítblönk ungmennin, sömdum við rosknu nágrannana á neðri hæðinni um að við skyldum sjá um að mála húsið hátt og lágt en þau sæu um efniskaup og það var gengið í verkið strax um sumarið 1983. Við Gestur keyptum Rex skipalakk í fötuvís til að mála steinblikkið og ég blandaði handvirkt litinn sem við vorum búin að ákveða á húsið; ljósdrappan lit með örlítið bleikum blæ. Fengum stillansa og stiga að láni og smöluðum vinum og ættingjum í málningarvinnu sem var talsvert staut því við vildum hafa olíulakkið svo þykkt að eina leiðin til að bera það á klæðninguna var með penslum. Svo auðvitað allt tréverkið; gluggar, dyr, hornlistar og þakskegg. Að ekki sé minnst á þakið sem reyndist mér lofthræddum talsverð raun, eins og þakskeggið og gluggarnir á efri hæðinni. Raunar var það svo að eftir þessa aðgerð dró stórlega úr hrikalegri lofthræðslu minni um margra ára skeið en hún kom aftur þegar frá leið. Á einni viku málaði þessi vaski hópur allt húsið utan, hátt og lágt og hvergi voru notaðar rúllur nema á þakjárnið. Húsið varð gullfallegt eins og það á skilið og þessi málningarvinna okkar ungmennanna entist og entist. Það eru bara örfá ár síðan húsið var málað aftur svo þessi aðgerð entist upp undir 40 ár! Á síðustu 62 árum hefur þetta hús verið málað tvisvar og lengst af þess tíma litið afar vel út, þökk sé Rex-skipamálningunni frá Sjöfn.
Það var ekki að spyrja að gæðum akureyrsks iðnaðar, sem nú heyrir sögunni til að mestu. Aðalsteini er sérlega minnisstætt, hversu kalt var í húsinu:
Gamanið kárnaði ögn þegar fyrsti veturinn okkar í Spítalavegi 15 (19831984) gekk í garð. Hitastig innanhúss stóð í þráðbeinu sambandi við lofthita utandyra og hvernig vindar blésu. Allir gluggar hússins voru upprunalegir og í flesta búið að mixa tvöfalt gler en þeir voru gisnir og það beinlínis blés gegnum húsið. Ofnakerfi hússins var frá tímum olíukyndingar: pottofnar sem flestir voru í hnapp inni í miðju húsi (væntanlega til að auðvelda pípulagnir að þeim). Alveg í upphafi hafði þetta hús eins og önnur frá fyrstu árum 20. aldar verið kynt með kolaeldavél og kolaofni. En 1983 dugði ofnasystemið engan veginn til að hita húsið þegar norðanáttin gnauðaði í vetrarfrosti.
Eftir nokkra vetur var það niðurstaðan, að ekki væri búandi þarna yfir veturinn: Ég [Aðalsteinn Svanur] tók hluta stofunnar undir málaravinnustofu og glímdi við myndlistina en þegar hitinn innanhúss fór niður undir 10 °C var ég farinn að mála með grifflur á höndunum vegna kulda. Algengt var að hitinn í íbúðinni færi niður fyrir 14 °C þennan vetur og við ákváðum að við svo búið mætti ekki standa annan vetur. Sótt var um endurbótalán til Íbúðalánasjóðs, sem var með átak gegn heilsuspillandi húsnæði. Var henni hafnað án skýringa og þegar Aðalsteinn krafðist þeirra: Fékk þá svar sem mér þótti ansi klént og finnst enn: Umsókninni er hafnað vegna þess að þetta án bara við á veturna. Íbúðin er ekki alveg heilsuspillandi.
Á þessum tíma var farið að huga að einhverju sem hét húsverndun fyrir alvöru og hjá Akureyrarbæ starfandi Húsfriðunarnefnd. Sótt var um lán til þeirra og það gekk í gegn: Um sumarið var skipt um alla glugga og ofna og þetta vandamál með húskuldann var úr sögunni eins og hendi væri veifað. Um gluggasmíði og -skipti sá Trésmiðjan Börkur af hreinni snilld. Í ljós kom að sjálfir gluggakarmar upphaflegu glugganna voru í fínu standi og því var ákveðið að slá bara póstana úr þeim og smíða nýja glugga inn í ramman. Var það gert og skipt um alla tíu glugga hæðarinnar á einum degi meðan ég var að störfum í Kjarnaskógi. Því eru ennþá upphaflegir gluggakarmar frá upphafi 20. aldar í allri efri hæð hússin og eiga nóg eftir.
Þótti Aðalsteini sérlega gaman að koma keyrandi þennan daginn heim úr vinnunni upp Spítalaveginn og við blöstu hinir nýju gluggar. Greinarhöfundur þakkar Aðalsteini Svani sérlega vel fyrir þessar upplýsingar en hann veitti þær mjög fúslega og brást sérlega skjótt og vel við fyrirspurn höfundar.
Spítalavegur 15 er reisulegt og glæst hús og stendur á nokkuð áberandi stað á brekkubrún, enda þótt það sé að mestu falið á bakvið laufskrúð yfir sumartímann. Útbyggingar gefa húsinu sinn sérstaka, stórbrotna svip enda eru hlutföll þeirra og samhverfur í góðu heildasamræmi. Skrautleg rúða og hæðaskilakantar og hornlistar gefa húsinu einnig skemmtilegan svip. Þá er lóðin mjög gróskumikil og til mikillar prýði í geðþekku umhverfi hinnar svokölluðu Spítalabrekku en greinarhöfund rekur minni til þess, að þetta svæði kallist Undirvöllur. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið fyrirtaks viðhald. Í Húsakönnun, sem unnin var um Spítalaveg segir eftirfarandi: Spítalavegur Spítalavegur 15 er mikilvægur hluti af þeirri heild sem húsaröðin nr. 15-17 myndar. Þessi heild hefur mikið varðveislugildi. Auk þess er húsið sérstakt vegna lögunar, gluggasetningar og veggjaklæðningar og hefur því varðveislugildi í sjálfu sér (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2009:26). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923, en þau lög gengu í gildi þremur árum eftir að umrædd húsakönnun var unnin. Meðfylgjandi myndir eru eru teknar 22. júlí 2010 (þá skartar húsið enn Rex skipamálningu Aðalsteins Svans og hans fólks, frá 1983) og 15. mars 2024. Myndin, þar sem Spítalavegur 15 gægist upp úr laufskrúði brekkunnar ofan Hafnarstrætis er tekin 4. október 2014.
Heimildir: Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Einkaskilaboð til greinarhöfundar, svör við fyrirspurnum gegnum samskiptaforritið Facebook Messenger, 16. mars 2024.
Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917.
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 310, 14. apríl 1906. Fundur nr. 314, 14. júlí 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.
Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 2016. Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg. Minjasafnið á Akureyri. Pdf skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins
Snorri Sigfússon. Sigurgeir Jónsson söngkennari. Í Einingu 12. tbl. 12. árg. bls. 4. (af timarit.is)
Ýmsar heimildar af vef Héraðsskjalasafns, herak.is, manntal.is og islendingabok.is
Bloggar | Breytt 24.3.2024 kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 22. mars 2024
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 3
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 374
- Frá upphafi: 440807
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 177
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar