Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Segja má, að götumynd Eyrarlandsvegar sé tvískipt. Úr norðri liggur gatan upp brattan hjalla upp frá Grófargili að brún Barðsgils en sunnan síðarnefnda gilsins þræðir hún brekkubrúnina í aflíðanda til suðurs að mótum Spítalavegar og aðkeyrslunni að Sjúkrahúsi Akureyrar. Með fáeinum undantekningum er gatan skipuð reisulegum steinhúsum frá 3. áratug sl. aldar.  Í norðurhlutanum standa húsin vestan götu en í suðurhluta standa húsin austanmegin og snúa stöfnum mót götu. Vestanmegin suðurhluta götunnar er að sjálfsögðu lóð Menntaskólans og Lystigarðurinn. Syðsta hús Eyrarlandsvegar er reisulegt steinhús, reyndar ekki frá 3. áratug sl. aldar, heldur örlítið eldra eða frá 1915. Þegar það var reist taldist það reyndar standa við allt aðra götu…IMG_1557

Í febrúar 1915 sótti Þorkell Þorkelsson kennari um lóð við Eyrarlandsveg, norðan við Sigurð Hlíðar (Eyrarlandsveg 26 eða Breiðablik) og leyfi til að byggja hús, samkvæmt framlagðri teikningu; 8,8x8,2m með forstofu 2,3x3,4m og bakskúr 2,2x1,3m. Fékk hann lóðina og byggingarleyfið en tveimur vikum síðar ber hann upp annað erindi við bygginganefnd. Þorkell tilkynnti bygginganefnd, að hann hyggðist hætta við þessa lóð. Þess í stað  ætlaði hann að reisa umrætt  hús á lóð, sem hann ætlaði að kaupa af Sigurði Fanndal. Lóðin yrði þannig austan við Eyrarlandsveg og norðan við Fagrastræti (sjá síðar í grein) og framhlið hússins snúi að síðarnefndu götunni. Veitti bygginganefndin leyfið með þeim skilyrðum að húsið stæði „nokkuð frá Fagrastræti“ og gaflinn yrði í húsalínu við Eyrarlandsveg. Einnig skyldi Þorkell kaupa spilduna austan húsalínunnar við Eyrarlandsveg (sem kallaður er Spítalavegur innan sviga í bókunum Bygginganefndar) á eina krónu hvern fermetra. Umræddur Sigurður Fanndal, sem seldi Þorkeli lóðina var þáverandi eigandi Hafnarstrætis 49 (Amtmanns- eða Sýslumannshússið, enn síðar skátaheimilið Hvammur).  Þannig má segja, að húsið sé „byggt úr landi“ Hafnarstrætis 49, en þegar það hús var reist árið 1895 var lóðin rúmur hektari, enda staðsett utan þéttbýlis.

      Eftir því sem greinarhöfundur kemst næst er hönnuður hússins ókunnur. Til eru ódagsettar, óáritaðar teikningar að húsinu sem  taldar eru gerðar eftir 1928 en á þeim má greina höfundareinkenni Halldórs Halldórssonar. Elstu varðveittu teikningar að húsinu munu óáritaðar raflagnateikningar frá 1923. Ekki er útilokað, að Þorkell hafi sjálfur teiknað húsið en hann var eðlisfræðimenntaður og hafði unnið við Tækniháskóla Danmerkur svo húsateikningar hefðu líkast til ekki vafist fyrir honum.

      Eyrarlandsvegur 35 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með portbyggðu risi. Krosspóstar eru í gluggum á hæð og í risi en á inngönguskúr á framgafli er margskiptur skrautgluggi. Á framhlið er forstofubygging, á norðurhlið er lítil útbygging eða stigahús og lítið útskot með lauklaga þaki (karnap) er á suðurhlið. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.  Húsið er látlaust og einfalt að gerð, líkt og elstu steinsteyptu íbúðarhúsin hérlendis en útskotið er einkum áberandi í svipgerð hússins og gefur því skrautlegt yfirbragð. Í því samhengi mætti einnig  nefna tvo samliggjandi bogadregna glugga á sömu hlið en einnig skrautglugginn á forstofu. Alls mun húsið um 225 m2  að stærð, skv. Húsakönnun (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:59).IMG_1561

      Þegar húsið var svo til nýbyggt, í desember 1916, var það metið til brunabóta og lýst sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og risi, á kjallara og byggt úr steini með járnklæddu timburþaki. Á gólfi undir framhlið, þ.e. vestanmegin á neðri hæð voru tvær stofur og forstofa en austanmegin eitt herbergi, eldhús og búr og forstofa með stiga upp á loft. Á rishæð voru fimm íbúðarherbergi og fjögur geymsluherbergi. Þá kemur einnig fram, að við aðalinngang sé skúr sem einnig er forstofa og annar lítill skúr sé við bakhlið. Grunnflötur hússins 8,5x8,2m, hæð 7,5m, gluggar 27 að tölu og einn skorsteinn. Þá kemur einnig fram, að 60 metrar séu að næsta húsi (sbr. Brunabótafélagið 1916: nr 95). Húsið, sem stóð í 60 metra fjarlægð var væntanlega skólahúsið, en næsta hús við Eyrarlandsveg á þessum tíma var Breiðablik sem Sigurðar Hlíðar byggði.

      Þegar húsið var reist stóð það við  Fagrastræti, sem liggja átti frá Lystigarðinum og til suðurs að brún Barðsgils. Ef marka má bókun bygginganefndar hefur húsinu verið ætlað að standa á horni Eyrarlandsvegar og Fagrastrætis. En hvað var þetta Fagrastræti?  Um var að ræða fyrirhugaða götu, sem líklega hefur verið ætlað að liggja nokkurn vegin á sömu slóðum og gatan Barðstún var lögð löngu síðar. Húsið taldist Fagrastræti 1 í áratugi ( og telst eflaust enn í hugum margra) og elstu dæmin sem  gagnagrunnurinn timarit.is finnur um Eyrarlandsveg 35 eru frá því eftir 1970. En það var hins vegar haustið 1961 að Bygginganefnd lagði til við bæjarstjórn, sem það samþykkti,  að Fagrastræti 1 yrði Eyrarlandsvegur 35

       Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur, sem byggði húsið, var fæddur að Frostastöðum í Skagafirði 6. nóvember árið 1876. Eftir stúdentspróf frá Reykjavík 1898 nam hann eðlisfræði í Kaupmannahöfn og lauk prófi þaðan 1903. Í Kaupmannahöfn starfaði hann í fimm ár við Polyteknisk lærenstalt (Tækniháskóla Danmerkur) uns hann fluttist til Akureyrar árið 1908. Hér í bæ kenndi hann við Gagnfræðaskólann, sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri. Það var því ekki langt fyrir Þorkel í vinnuna þau fáu ár sem hann bjó hér, því skólinn sá var til húsa handan götunnar í skólahúsinu mikla, sem nú kallast Gamli Skóli.  Þau fáu ár segir hér: Þorkell átti aðeins heima hér í þrjú ár því árið 1918 fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann kom á fót löggildingarstofu voga-og mælitækja og varð forstöðumaður þeirrar stofnunar.  Árið 1920 var Veðurstofa Íslands stofnuð og var Þorkell fyrsti veðurstofustjóri. Gegndi hann forstöðu beggja stofnananna, Löggildingarstofu og Veðurstofu, um nokkurra ára skeið, eða til áramóta 1924-25.  Þar var um að ræða nokkurs konar samrekstur eða samvinnu þeirra að ræða fyrstu árin. Þorkell var veðurstofustjóri til ársins 1946 er hann fór á eftirlaun. Eiginkona Þorkels var Rannveig Einarsdóttir (1890-1962), úr Hafnarfirði. Þorkell Þorkelsson lést árið 1961.IMG_1560

      Eftir að þau Þorkell og Rannveig fluttu úr húsinu átti Baldvin Ryel kaupmaður það um skamma hríð en árið 1920 er eigandi hússins Brynleifur Tobiasson, kennari við Gagnfræðaskólann. Hann fluttist hins vegar árið 1926 norður yfir Eyrarlandsveginn, í húsið Breiðablik, sem um svipað leyti fékk númerið 26 við Eyrarlandsveg. Árið 1930 búa alls fimmtán manns í Fagrastræti 1 og skiptist húsið í þrjú íbúðarrými. Þá er Sveinn Bjarnason bókhaldari eigandi neðri hæðar og Benedikt Pétursson þeirrar efri. Árið 1940 er eigandi hússins Jakob Kristján Lilliendahl bókbindari. Hér má sjá hann ásamt konu sinni, Stígrúnu Helgu Stígsdóttur og börnum þeirra sunnan við hús sitt um 1940. Hafa síðan ýmsir átt húsið og búið þar en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús. Sem fyrr segir var götuheitið Fagrastræti formlega lagt niður árið 1961 og húsið síðan Eyrarlandsvegur 35. Hins vegar má segja, að Fagrastræti hafi að einhverju leyti orðið að veruleika þremur árum síðar, þegar gatan Barðstún var skipulögð á brekkubrúninni austan og neðan Eyrarlandsvegar. Barðstún nær reyndar ekki að Lystigarðinum eins og Fagrastrætinu var ætlað því gatan er lokuð í suðurendann, en lega götunnar er líkast til ekki fjarri því, sem Fagrastrætinu var ætlað. Fjögur hús standa við Barðstún, öll skráð byggð 1966 nema nr. 7, sem byggt er áratug síðar.

       Eyrarlandsvegur 35 er að mestu leyti óbreyttur að ytra byrði frá upphaflegri gerð en er þó í afbragðs góðri hirðu. Húsið er látlaust og einfalt að gerð og nokkuð dæmigert fyrir steinsteypuhús frá upphafi 20. aldar en þau voru yfirleitt byggð með sama byggingarlagi og tíðkaðist við timburhús.  Útskot og  bogadregnir gluggar á suðurhlið ásamt skrautgluggum í forstofubyggingu gefa húsinu hins vegar skemmtilegan og skrautlegan svip. Í Húsakönnun, sem unnin var um þetta svæði árið 2016, segir að húsið hafi hátt varðveislugildi vegna aldurs og byggingargerðar. Þá telst það  hafa hátt menningarsögulegt gildi með fyrstu húsum sem risu á svæðinu og hluti götu sem aldrei varð að veruleika. Húsið hlýtur næst hæsta mögulegaP3180106 varðveislugildi umræddrar Húsakönnunnar, eða 7. stig (8. stig fá friðlýst hús) sem hluti götumyndar Eyrarlandsvegar og framangreindra atriða. Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um aldursfriðun húsa eldri en 100 ára (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 59). Þá hafi það fágætisgildi sem eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsum á Akureyri. Í svipinn man greinarhöfundur aðeins eftir Steinöld (1903), Ósi í Glerárþorpi (1908), Hafnarstræti 19 (1913), Aðalstræti 80, Smiðjunni við Gránufélagsgötu 22 og Strandgötu 45 (þrjú síðasttöldu byggð 1914). Þannig gæti Eyrarlandsvegur 35 verið áttunda elsta steinsteypuhús Akureyrar.  Húsið stendur á skemmtilegum og áberandi stað í gróinni brekku, gegnt Lystigarðinum. Þá er lóðin vel hirt og prýdd gróskumiklum trjágróðri.

Myndirnar eru, að einni undanskilinni, teknar 15. apríl 2024 en meðfylgjandi er einnig mynd sem tekin er 18. mars 2012 en þá stóð myndarleg Farmal dráttarvél í hlaði.

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 404, 15. febrúar 1915 og nr. 406, 1. mars 1915.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Bloggfærslur 18. apríl 2024

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 372
  • Frá upphafi: 440805

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 175
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband