Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Eitt margra gilja Akureyrarbrekknanna er Skammagil. Það liggur sunnanvert í Naustahöfða og liggur um norðurbarm þess snarbrött og hlykkjótt leið frá Nonnahúsi eða Minjasafni upp að elsta hluta Kirkjugarðs Akureyrar á Naustahöfða. Gilið er að mestu skógi vaxið og er þar um að ræða trjágróður sem tekið hefur mikinn vaxtarkipp sl. 2-3 áratugi. Þau hafa hins vegar staðið í um eða yfir 18 áratugi, elstu húsin neðan Skammagils, við sunnanvert Aðalstræti. Eitt þeirra er Aðalstræti 66. Þar er mögulega um að ræða eitt fyrsta veitingahús Akureyrar…IMG_2891

Um Aðalstræti 66 segir Steindór Steindórsson: Það hefur lengi verið hald manna að Bertel Holm Borgen, sýslumaður Eyfirðinga, hafi reist húsið. En það er á misskilningi byggt. Sýsluskjöl sanna svo ekki verður um villst að Grímur Laxdal bókbindari og veitingamaður byggði það árið 1843 (Steindór Steindórsson 1993:47). Steindór telur jafnframt að húsið hafi í upphafi verið sniðið að veitingarekstri Gríms, en hann hafði fengið veitingaleyfi, árið áður.  Að öllum líkindum er húsið byggt ári fyrr eða 1842 og það rímar ágætlega við það, að í maí það ár, fékk Grímur veitingaleyfi. Hann hefur að öllum líkindum ekki tvínónað við það, að reisa hús fyrir veitingarekstur. Ekki fylgir sögunni hvort einhver byggingarmeistari hafi verið yfir byggingunni en á þessum árum voru þeir Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni og Ólafur Briem á Grund mikilvirkastir í slíkum byggingum. Það eru þó engar heimildir, svo höfundur viti til, fyrir því að annar þeirra  hafi komið að byggingu þessa húss.  Hins vegar voru Grímur Laxdal og Ólafur Briem góðir vinir og vitað að Ólafur smíðaði oft fyrir Grím.

Aðalstræti 66 er einlyft timburhús, bindingshús, með háu og bröttu risi og miðjukvisti eða útskoti, sem skagar nokkuð út fyrir framhlið. Í lýsingum segir, að burðarviðir hússins séu 5x5 tommu bitar og húsgrindin 7 bita/sperrufög að breidd (sbr. Finnur Birgisson 1993:15).  Á bakhlið er einlyft viðbygging með aflíðandi þaki og tveir smáir kvistir. Húsið er klætt láréttri timburklæðningu, sexrúðupóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er 9,50x6,91m, bakbygging 2,32x 2,55. Kvisturinn, sem er 3,25 að lengd, skagar 83 cm út fyrir framhlið. Flatarmál hússins er 154,8 m2  og rúmmál um 336 m3 , skv. teikningum Reynis Kristjánssonar.

Grímur Grímsson Laxdal, sem byggði húsið, var fæddur í  október 1801. Í Eyfirðingum (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1582) er Grímur sagður fæddur í Reykjavík 10. október en aðrar heimildir segja, að hann muni hafa verið fæddur á Hofi á Skagaströnd (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005:17). Kirkjubækur Hofssóknar á Skagaströnd taka hins vegar af því allan vafa, að Grímur var fæddur á Hofi í Skagaströnd. Þar er hann sagður fæddur 11. október en aðrar heimildir segja 11. október. (Skv. ábendingu frá Jóni Benediktssyni, 29. mars 2025 í athugasemd á vefsíðunni arnorbl.blog.is). Hann var hins vegar búsettur á svæðinu, sem nú kallast Höfuðborgarsvæðið, hluta barnæsku sinnar og fram á fullorðinsár. Árið 1816 var hann stjúpbarn í Hvammkoti, í Reykjavíkursókn. Næstu árin er Grímur að öllum líkindum í vinnumennsku en vitað er, að 1829 eða 1830 hefur hann nám í bókbandi hjá Eggert Eyjólfssyni í Skildinganesi. Um svipað leyti kynntist hann Hlaðgerði Þórðardóttur í Reykjavík. Hún var fædd árið 1804 og var frá Hvammi undir Eyjafjöllum.  Ekki festu þau þó yndi syðra heldur gengu þau í hjónaband haustið 1831 í öðrum Hvammi, en sá var í Eyjafirði. Kom flutningur þessi raunar ekki til af góðu, því foreldrar Hlaðgerðar höfðu meinað Grími að kvænast dóttur þeirra. Ekki sættu þau sig við þetta, heldur struku norður á þeirra einu eign, brúnni hryssu, gengu í hjónaband og hófu í kjölfarið búskap að Dvergsstöðum í Hrafnagilshreppi (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005: 17). Grímur fékkst við bókband samhliða búskapnum. Árið 1835 fluttust Grímur og Hlaðgerður til Akureyrar, eða höndlunarstað Eyjafjarðar og munu fyrst hafa reist torfhús á lóð þar sem nú er Aðalstræti 38. Árið 1843 kaupir Ari Sæmundssen lóðina og húsakost af þeim en þau flytja í syðsta timburhús Fjörunnar  Þar er um að ræða húsið sem Grímur hafði reist fyrir veitingarekstur og varð síðar kennt, ranglega, kennt við Bertel Holm Borgen sýslumann (sbr. Jón Hjaltason 1990:173).

Það var í maí 1842 að Grímur Laxdal fékk leyfi amtsins til að selja ferðafólki næturgistingu, mat og drykk. Segir Jón Hjaltason í Sögu Akureyrar (1990:99) að þá hafi bærinn eignast sinn fyrsta veitingamann. Leyfið var bundið verðlagsskrá amtsins sem var á þá leið, að brennivínsstaup kostaði 2 skildinga, kaffibolli 6 skildinga, rúmgisting 8 skildinga, máltíð 10 skildinga og stórt glas af rommpúnsi 12 skildinga (sbr. Steindór Steindórsson 1993:46). Það er dálítið skemmtilegt að skoða þessa verðskrá, m.a. að matur er dýrari en gisting og kaffibollinn er þrefalt dýrari en brennivínsstaupið. Auk veitingarekstursins ráku þau Grímur og Hlaðgerður nokkurs konar sjúkrahótel og skutu skjólshúsi yfir fólk sem beið þess að fá inni hjá héraðslækninum. Steindór Steindórsson telur að jafnvel hafi hús sem þau reistu, sem síðar varð Aðalstræti 64, verið reist fyrir sjúklingana. Það má ímynda sér, að þröngt hafi verið um veitingareksturinn, sjúklingana og fjölskylduna en á þessum tíma áttu þau fimm börn. Hér er ekki ólíklegt, að þeirra sjöunda barn, Eggert Laxdal hafi fæðst í febrúar 1846, en hann var síðar verslunarstjóri hjá Gudmannsverslun og er elsta hús bæjarins, Laxdalshús, kennt við hann. Grímur Laxdal og fjölskylda hans bjuggu hér í innan við áratug en árið 1850 reistu þau  nýtt hús undir Búðargili, sem síðar varð Aðalstræti 6. Þangað fluttu þau árið IMG_28861851 en hingað fluttist nýr eigandi, Indriði Þorsteinsson gullsmiður frá Víðivöllum í Fnjóskadal. Hann átti húsið í tvo áratugi og var húsið löngum nefnt Indriðahús eftir honum. Það er  líklegt að hann hafi fljótlega eftir að hann eignaðist húsið, reist smiðju á lóðinni, sem nú er Aðalstræti 66a.  Árið 1872 seldi Indriði Akureyrarbæ húsið sem nýtti það til skólahalds og var skóli bæjarins hér til húsa í fimm ár. Skólinn var á neðri hæð en á efri hæð bjuggu þurfalingar á vegum bæjarins. Eitt árið voru íbúar loftsins þeir Jón háleggur, Fjöru-Páll, Friðfinnur Kærnested, Jón askur, Jón Reinholt, Björn vasi, Indriði tindur og Jón mæða. Við getum gert okkur í hugarlund að sambúð íbúa loftsins og skólabarna hlýtur oft á tíðum að hafa verið nokkuð skrautleg en ekki fer neinum sögum af því, að vandræði hafi hlotist af. Skólinn var þó ekki marga vetur hér, því árið 1877 fluttist hann í Hafnarstræti 7, þar sem áður hafði verið Havsteensverslun. Jafnframt því að vera sérlegt skólahús bæjarins gegndi húsið hlutverki nokkurs konar félagsheimilis, þar sem fram fór söngur, dans og skemmtanir. Eftir að skólinn fluttist úr húsinu bjuggu oft margar fjölskyldur hér samtímis, jafnvel 6-8, eða um eða yfir 30 manns!

Árið 1880 keypti húsið Sigurður Sigurðsson járnsmiður frá Hæringsstöðum í Svarfaðardal. Hann gerði umtalsverðar breytingar á húsinu, m.a. byggði hann kvistinn mikla fyrir miðri framhlið og breytti gluggum en upprunalega munu gluggar hússins hafa verið tvíbreiðir miðað það sem nú er, þ.e. tólf smárúður. Þá mun Sigurður hafa fyllt grind hússins  af steypu, steypt í binding, sem kallað er. Rúmum 110 árum síðar kom í ljós, að það var eftir á að hyggja ekki mjög hyggilegt, því í ljós kom að burðarviðir neðri hæðar og gólfbitar voru ónýtir vegna fúa. Steypan í bindingsverkinu […]olli meinsemdinni með því að halda stöðugt raka að grindarviðnum (Finnur Birgisson 1993:15). Sigurður reisti einnig smiðju sunnan við húsið, sem nú er löngu horfin. Við kaup Sigurðar á húsinu mun hafa verið á því sú kvöð, að hann leigði bænum helming loftsins sem íbúðarrými fyrir þurfalinga. Það fylgir þó ekki sögunni, hvort kvisturinn mikli hafi verið með í þeim samningi, en hann jók umtalsvert rými þessarar rishæðar, þar sem gólfflötur mælist tæpir 65 fermetrar og drjúgur hluti ómanngengur undir súð. Sigurður Sigurðsson var, að sögn Steindórs Steindórssonar (1993:47) einn fremsti iðnaðarmaður bæjarins og sérhæfði sig m.a. í landbúnaðarverkfærum. Plógar, sem Sigurður framleiddi, þóttu t.d. henta íslenskum hestum betur en hinir innfluttu.  

 Sigurður Sigurðsson seldi húsið árið 1917, Árna Friðrikssyni. En skömmu áður, nánar tiltekið í nóvember 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins Sigurð og skrifuðu niður eftirfarandi lýsingu á húsinu (ath. orðrétt stafsetning og upptalning): Íbúðarhús einlyft á lágum steingrunni, með kvisti og háu risi lítill skúr við bakhlið. Á gólfi, við framhlið 2 herbergi við bakhlið 1 herb. Eldhús og búr. Á lofti 3 íbúðarherbergi og geimsluherbergi [svo]. Lengd 9,5m breidd 7,2m hæð 4,6m tala glugga 15 (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 15).  Þrjú íbúðarherbergi á lofti ríma ágætlega við það, að húsið skiptist yfirleitt í þrjú íbúðarrými á 2. og 3 áratug 20. aldar.  Árið 1920 búa t.d. 18 manns í húsinu, 4-8 manna fjölskyldur ásamt vinnufólki. Eigandi þá er Axel Vilhelmsson. Næstu áratugi eru eigandaskipti nokkuð tíð, en þegar Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar er gefin út á bók árið 1986 er sami eigandi frá 1945. Þar var um að ræða Magnús Jónsson (d.1992), sem var innfæddur Innbæingur, fæddur árið 1909 í Lækjargötu 9. Hann var lengst af vörubílsstjóri, keyrði lengst af hjá Stefni og var einn af stofnendum Nýju bílastöðvarinnar, sem síðar varð Stefnir.  Magnús og kona hans, Ebba Ólafsdóttir, byggðu nokkrum árum síðar, eða 1952, nýtt íbúðarhús á lóðinni, Aðalstræti 68. En húsið  Aðalstræti 66 og lóðin, sem kalla mætti landareign, svo víðlend sem hún er, var áfram í eigu fjölskyldu Magnúsar.

Það var árið 1992 að Kolbrún Magnúsdóttir (Jónssonar) réðist í endurbætur á húsinu eftir teikningum og forskrift Finns Birgissonar. Þá var spurning, hvort færa ætti húsið í upprunalegt útlit frá tíð Gríms Laxdals, sem hefði þá falið í sér niðurrif á kvistinum mikla, eða hvort miða skyldi við breytingarnar frá 1880 (sbr. Finnur Birgisson 1993:15). Niðurstaðan var, augljóslega, sú að halda kvistinum. Húsfriðunarnefnd styrkti þessar framkvæmdir, sem upphaflega miðuðu að því að endurnýja glugga og þak en urðu að allsherjar endurnýjum burðarvirkis. Rúmum tveimur áratugum síðar var enn ráðist í endurbætur á húsinu og m.a. byggt við það til vesturs eftir teikningum Reynis Kristjánssonar. Þar voru að verki þau Hrafnkell Marinósson og Hlín Ásbjörnsdóttir, en Hrafnkell er sonur Kolbrúnar Magnúsdóttir og þannig barnabarn Magnúsar Jónssonar. Í mars 2016 lýstu þau framkvæmdunum í viðtali við Kristínu Aðalsteinsdóttur: Ég varð að taka húsið í gegn þegar mamma eignaðist það. Það var mikilvægt að búa mömmu stað. Þá var talað um hrakvirði hússins eins og húsið væri einskis virði. Síðan eru liðin 20 ár og vinnan svo mikil að því verður varla lýst með orðum. Það jók á erfiðið að búið var í húsinu á meðan það var endurbyggt. En við sjáum ekki eftir neinu. Endurbygging sem þessi felur í sér ákveðna hugsjón sem hefur menningarlegt gildi að okkar mati (Hrafnkell Marinósson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017: 77).  Þegar viðtalið er tekið eru framkvæmdir við viðbyggingu þó væntanlega ekki hafnar, það er í mars 2016 en teikningar Reynis Kristjánssonar eru dagsettar í nóvember það ár.P5140013

Aðalstræti 66 er sérlega geðþekkt og snoturt hús og hefur líkast til alla tíð fengið gott viðhald. Það er hluti einstaklega skemmtilegrar húsatorfu undir Skammagili, sem er umföðmuð gróðri og myndar, ásamt Minjasafnsgarðinum, sem er spölkorn norðan við, sérlega yndislega heild gamalla húsa og gróskumikils trjágróðurs.  Það er raunar sem nýtt eftir endurbætur sl. áratuga og viðbyggingin frá 2016 skerðir ekki heildarútlit eða yfirbragð hússins á nokkurn hátt. Kvisturinn mikli gefur húsinu sérstakan svip eða „karakter“, það var sannarlega rétt ákvörðun að mati greinarhöfundar, þegar endurbygging hússins hófst árið 1992, að leyfa kvistinum að halda sér. Aðalstræti 66 var friðlýst skv. Þjóðminjalögum 1. janúar 1990.  Í Húsakönnun 2012 fær húsið m.a. þessi einkunnarorð: Húsið á sér ef til vill merkilegri sögu en flest önnur hús í fjörunni og er gott dæmi um hús sem hefur í gegnum tímann gegnt margskonar hlutverki (Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: 61).

Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2015 og 16. febrúar 2025. 

 

Heimildir:

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins:  https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Finnur Birgisson. 1993. Tvö gömul hús á Akureyri. Í Alþýðumanninum, sérblaði með Alþýðublaðinu, 193. tbl. 74. Árg., 17. desember, bls. 15.

Hjörleifur Stefánsson. 1986.Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn.

 Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær og höfundur gáfu út.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbærinn Saga hús og fólk. Akureyri: Höfundur gaf út.

Sigurþór Sigurðsson.  Bókbindarar á Akureyri 1. hluti. Í tímaritinu Prentarinn  2.tbl. 25. árg.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is


Bloggfærslur 28. mars 2025

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • IMG_2886
  • IMG_2891
  • IMG_2913
  • IMG_2915
  • IMG_2930

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 511
  • Frá upphafi: 444631

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 337
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband