Gleðilega páska

Óska öllum gleðilegrar páskahátíðar smile

Páskamyndin í ár er tekin um tvöleytið á föstudaginn langa, 18. apríl, og sýnir Súlutind, nánar tiltekið Ytri Súlu, horft með miklum (um 40x) aðdrætti frá Kjarnaskógi. 

IMG_3045


Hús dagsins: Minjasafnskirkjan (Aðalstræti 56)

GLEÐILEGA PÁSKA KÆRU LESENDUR. 

HÉR ER FRÁSÖGN AF KIRKJU, SEM SEGJA MÁ, AÐ HAFI RISIÐ UPP- Á NÝJUM STAÐ.

E.T.V. VIÐEIGANDI Á PÁSKADAG.

Fyrsta kirkja Akureyringa reis þar sem nú er lóð Minjasafnsins á Akureyri, Aðalstræti 56, og hófst bygging hennar sama ár og bærinn hlaut kaupstaðarréttindi eða árið 1862. Byggingameistari hennar var Jón Chr. Stephánsson. Hann hefur ekki þurft að fara langt í vinnuna við kirkjusmíðina, því á þessum árum var hann búsettur í AðalstrIMG_3025æti 52 (götuheitið og húsnúmerið komu löngu síðar). Kirkjan var vígð 28. júní 1863 og þjónaði bæjarbúum í 77 ár en guðshús þetta var afhelgað, þegar nýja kirkjan í Grófargili var vígð 17. nóvember 1940.  Örlög kirkjunnar voru þau, að hún var rifin um þremur árum síðar  og einhvern tíma heyrði sá sem þetta ritar, að bændur úr nágrannasveitum hafi fengið viðinn úr henni; kirkjuna væri þannig „að finna“ í pörtum víðs vegar í hlöðum, útihúsum og skemmum. Á þessum sama stað stendur þó engu að síður lítil og vinaleg timburkirkja, um 180 ára gömul, og hefur hún staðið hér í rúma hálfa öld. En hún var reist handan Eyjafjarðar árið 1846, nánar tiltekið á Svalbarði á Svalbarðsströnd.

Svalbarð stendur í aflíðandi brekku nokkurn veginn fyrirPB030984 miðri Svalbarðsströnd, upp af samnefndri eyri, við rætur Vaðlaheiðar. Steinsskarð, þar sem gamli þjóðvegurinn liggur yfir heiðina er nokkurn veginn beint upp af Svalbarði. Frá Svalbarði eru um 13 kílómetrar til miðbæjar Akureyrar. Svalbarð var sagt byggt “sextán vetrum  fyrir kristni” (þ.e. um 984) af Héðni hinum milda (sbr. Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson 1963: 132). Það var hins vegar ekki fyrr en um 400 árum eftir kristnitöku, eða á ofanverðri 14. öld, að Svalbarð varð kirkjustaður og var Svalbarðskirkja helguð Jóhannesi postula. Sú kirkja sem reis á Svalbarði árið 1846 leysti af hólmi torfkirkju frá 1752 (sögð 94 ára). Var um að ræða fyrsta timburhúsið, sem reis í Svalbarðsstrandarhreppi (sbr. Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson 1963: 150). Byggingameistari var Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni en einnig er Jón Gunnlaugsson frá Sörlastöðum nefndur sem kirkjusmiður.  

Minjasafnskirkjan, áður Svalbarðskirkja, IMG_3020er timburhús með háu risi, bindingsverkshús með krossreistu þaki og stendur hún á steyptum grunni. Grunnflötur er 10,18x5,11m (lengdin er þannig nánast upp á centimetra, nákvæmlega tvöföld breiddin). Veggir og þak eru klæddir slagþili, á hvorri hlið eru þrír sexrúðugluggar en tólfrúðugluggi á vesturstafni. Öfugt við landlæga hefð, um að kirkjur snúi framhlið í vestur snýr framhlið kirkjunnar mót austri. Þar eru inngöngudyr og gluggi upp af henni. Þar ofan við eru tvær klukkur á ramböldum (reyndar var aðeins klukka til staðar í apríl 2025, sbr. meðfylgjandi mynd hér að neðan) Enginn turn er á kirkjunni en kross á mæni framhliðar.  Önnur klukkan er upprunaleg, þ.e. fylgdi kirkjunni af Svalbarði en hin mun vera úr Miklagarðskirkju í Saurbæjarhreppi, sem aflögð var 1924. Af innanstokksmunum má nefna altaristöflu frá 1806 eftir Jón Hallgrímsson málara og ljósahjálm úr messing, sem ber ármerkið 1688. Hann er talinn einn mesti dýrgripur kirkjunnar og var áður í fyrirrennara kirkjunnar, þ.e. Akureyrarkirkju hinni eldri.

Þorsteinn Daníelsson var  fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni og bjó þar mestalla sína ævi, utan fáein ár sem hann dvaldist á Akureyri og í Danmörku. En á síðarnefnda staðnum dvaldist hann veturinn 1819-20  nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið eftir. Prófstykki hans var saumakassi úr mahogany með inngreiptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og gerði sömu kröfur til annarra og sín sjálfs. Í ævisögu Þorsteins Daníelssonar segir Kristmundur Bjarnason svo frá: Árið 1846 smíðar Danielsen enn eina kirkju, Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd. Kirkjan er reist á hlöðnum steingrunni. Hún er 10,20 metrar á lengd en 5,75m á breidd. Svipar henni mjög til annarra kirkna, er Danielsen hefur smíðað, en öllu fátæklegri. Sperrur eru 5“ x 5“ [ 5x5 tommur], og eru þær tappaðar í mæninn og skammbitar í sperrurnar. Þakið er skarklætt og þar ofan standklætt. Kirkjan stendur á hlöðnum grjótgrunni, og var með hornstögum, sem fest voru í stóra steina einn í hverju horni. Veggirnir eru standklæddir. Að utan eru borðin sérlega breið, allt í 30cm með strikuðum hornum (Kristmundur Bjarnason 1961:263).  IMG_3023

Ekki fer mörgum sögum af vígslu Svalbarðskirkju en í september árið 1847 vísiteraði sr. Halldór Björnsson á Eyjardalsá hana. Hann lýsti, eins og tíðkaðist í vísitasíum, kirkjunni í mjög löngu og ítarlegu máli. Grípum niður í frásögn hans: Kirkjan er byggð á næstliðnu ári af timburþaki, 15 álnir og 22 þumlungar að lengd, 7 7/12 alin að á hæð og 7 ½ alin á breidd; umhverfis til hliða og stafna með fullkomnu bindingsverki og alþiljuð með póstaþili. Þrjú sex rúða gluggafög eru á hvorri hlið og eitt tólf rúða gluggafag yfir altari. Kirkjan er í 5 stafgólfum hvar af 2 í kórnum. […] Plægt fjalagólf er lagt í alla kirkjuna af óflettum borðum. Fyrir henni er hurð á sterkum járnum með samstemmdu snikkaraverki og skrá tvílæstri emð lykli og tveimur koparhönum. Til beggja stafna eru vindskeiðar skornar saman í horn að ofan. Aftur og fram til beggja hliða inní kirkjunni er listi með IMG 3024ahvoldu striki að neðan negldur ofan á hliðfjala- og póstaendanan og borð yfir sem liggur á lausholtum út undir súðina. […] Milli allra, nema stafnsperra, eru skammbitar.  (Haraldur Þór Egilsson 2007: 175-177). Fullsmíðuð kostaði kirkjan 760 ríkisdali og 76 skildinga. Laun Þorsteins Daníelssonar voru þar af 96 ríkisdalir og 24 skildinga en allra annarra smiða og sögunarmanna, samanlagt 84 ríkisdalir og 24 skildingar.  

Líklega hefur mjög verið vandað til verka og viðhaldi sinnt af alúð mest alla tíð kirkjunnar á Svalbarði, því ekki fer sögum af leka eða fúa eða öðrum skemmdum, sem stundum vildu hrjá timburkirkjur 19. aldar. Hvassviðri gátu líka verið skæðir óvinir timburhúsa, sérstaklega kirkna, en Þorsteinn Daníelsson mun hafa verið annálaður fyrir frágang húsa sinna þannig, að aldrei skekktust þau eða fuku. Ýmsar breytingar og framkvæmdir voru auðvitað gerðar á kirkunni í áranna rás, árin 1885-1888 var t.d. smíðað í hana loft fyrir orgel og um svipað leyti var hún hvítmáluð. Hafði hún verið bikuð fram að því. Þá var kirkjan krosslaus fyrstu 27 árin, en árið 1873 var settur á hana kross eftir ósk prófasts. Einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar varPB030983 kolaofni komið fyrir í kirkjunni, en ekki vitað nákvæmlega hvenær það var. Það var allavega nokkru fyrr en 1935 en þá var minnst á viðgerðir á reykháfi. Þegar Svalbarðskirkja varð 100 ára, árið 1946 er ekki ósennilegt, að sóknarbörn hafi verið farið að lengja eftir endurnýjun á guðshúsi sínu. En það var árið 1952 að bygging nýrrar kirkju hófst. Um var að ræða veglega steinsteypta kirkju eftir Bárð Daníelsson og var hún vígð á uppstingningadag (30. maí) árið 1957.  Áfram stóð hins vegar hin gamla kirkja en gerðist nokkuð hrörleg.

Fimm árum eftir að aldargamla guðshúsið á Svalbarði lauk hlutverki sínu eða 1962 var Minjasafn stofnsett á Akureyri. Samhliða því komu upp hugmyndir um nokkurs konar húsasafn og hugmyndir uppi um að fá kirkju á safnasvæðið við Aðalstræti. Þá hlaut nú að vera upplagt, að fá kirkju á hið upprunalega kirkjustæði. Hér má segja að hafi komið til lögmálið um framboð og eftirspurn: Minjasafn Akureyrar vildi gamla kirkju og Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti þurfti að flytja kirkju, sem því hafði verið gefin. Æskulýðssambandið hafði haft á því hug, að flytja kirkjuna austur á Vestmannsvatn en það talið ógerningur vegna örðugleika við flutning (sbr. Pétur Sigurgeirsson 1972:404).  IMG 3018Var það haustið 1963, að sambandið samþykkti að gefa safninu kirkjuna. Það tafðist hins vegar nokkuð að fá kirkjuna flutta, m.a. vegna biða á samþykki sóknarnefndar og Akureyrarbæjar. Það var svo í lok október 1970 að hin 124 ára Svalbarðskirkja lagði af stað í ferðalag á vörubílspall yfir fjörðinn og á sinn nýja stað í Innbænum.  Var það Þórður H. Friðbjarnarson, þáverandi safnstjóri Minjasafnsins, sem hafði veg og vanda af framkvæmdum þessum. Hafði hann einnig umsjón með nauðsynlegum endurbótum, sem fram fóru á kirkjunni ásamt Kjartani Magnússyni smiði og bónda á Mógili en Þorsteinn Gunnarsson arkitekt annaðist ráðgjöf og teikningar við endursmíðina. Meðal annars var pantaður var sérstakur viður og koparnaglar frá Svíþjóð til endurbótana, sem tóku um tvö ár og lauk síðla árs 1972.P6171045

Þann 10. desember 1972 var gamla kirkjan frá Svalbarði vígð á nýjum stað við Aðalstrætið og hafði hún einnig hlotið nýtt nafn, Minjasafnskirkjan. Var það sóknarprestur Akureyrar, sr. Pétur Sigurgeirsson sem annaðist vígsluna en auk hans flutti predikun sr. Birgir Snæbjörnsson og viðstaddir voru einnig prestar úr nágrannasóknum. Hófst athöfnin með skrúðgöngu frá Kirkjuhvoli (Aðalstræti 58, hús Minjasafnsins). Þá var einnig flutt sérstakt vígsluljóð, sem Kristján frá Djúpalæk samdi sérstaklega, í tilefni vígslunnar (sjá hér að neðan).   Minjasafnskirkjan hefur verið nýtt til ýmissa athafna, m.a. brúðkaupa, skírna og tónleika, þar er  stundum messað auk þess sem Minjasafnið nýtir kirkjuna til ýmissa nota og viðburða. Kirkjan hefur notið fyrsta flokks viðhald undir umsjón Minjasafnsins og virðist í eins góðri hirðu og frekast er unnt.  Minjasafnskirkjan sómir sér vel á þessum stað, í jaðri Minjasafnsgarðsins og kallast skemmtilega á við nágranna sinn norðanmegin, Nonnahús. Er hún jafnvel talin falla betur að umhverfi sínu en fyrirrennari hennar hefði gert  og virðist allt eins geta hafa staðið þarna alla tíð (sbr. Haraldur Þór Egilsson 2007:174). Kirkjan stendur eins og nokkur krúnudjásn við aðkomuna að Minjasafninu enda í raun safngripur. Minjasafnskirkjan var friðlýst þann 1. janúar 1990. Myndirnar af Minjasafnskirkjunni eru teknar 8. apríl 2025 en myndirnar sem teknar eru inni í kirkjunni eru teknar 17. júní 2022. Myndirnar af Svalbarði og Svalbarðskirkju eru teknar 3. nóvember 2019.P6171046

 

Vígsluljóð Minjasafnskirkju

Þú gamla, lága guðshús,

sem gestum opnar dyr,

enn leið í djúpri lotning

er lögð til þín sem fyr.

Vor önn er yndisvana,

vor auður gerviblóm,

því heimur, gulli glæstur,

án guðs, er fánýtt hjóm.

 

Fyrr gestur göngumóður

við grátur þínar kraup.

Margt tár í þögn og þjáning

á þessar fjalir draup.

Hér æskan ljúf, í auðmýkt,

sín örlög Guði fól.

Hér skyggðu þyngstu skuggar.

Hér skein og björtust sól.

 

Þú varst hin milda móðir.

Þín miskunn allra beið.

þú veittir hjálp og hugdirfð

að halda fram á leið.

Það ljós, er lýðum barstu,

um langa vegu sást.

— Þú enn ert vonum viti.

Þín vegsögn engum brást.

 

Og kæra, aldna kirkja,

í kyrrþey beiðstu þess,

að yngjast, endurvígjast,

og öðlast fyrri sess.

Enn bljúg, í hljóði beðin,

er bæn í fangi þér.

— Hið gamla, lága guðshús

vor griðastaður er.

 Kristján frá Djúpalæk

Heimildir:

Haraldur Þór Egilsson. 2007. Minjasafnskirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 173-197. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson. 1963. Byggðir og bú. Aldarminning búnaðarsamtaka Suður- Þingeyinga í máli og myndum. Búnaðarsamband Suður Þingeyinga gaf út.

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Pétur Sigurgeirsson. 1972. Minjasafnskirkjan á Akrureyri. Í Heima er bezt 12. tbl. 22. árg. bls. 404-405. Slóð: Heima er bezt - Nr. 12 (01.12.1972) - Tímarit.is

 


Bloggfærslur 20. apríl 2025

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 323
  • Frá upphafi: 445875

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 210
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband