29.7.2025 | 10:24
Hús dagsins: Leifshús
Á bæjum tveimur, yst í Svalbarðstrandarhreppi, eða skammt frá þar sem þjóðvegurinn sveigir áleiðis upp á Víkurskarð, má sjá tvö tæplega aldargömul steinhús, ámóta að gerð. Helsta sérkenni þessara húsa er nokkuð sérstæð þakgerð; bogadregin risþök sem lýsa mætti sem kúptum að neðan en uppmjóum efst. Annað þessara húsa er í Garðsvík en hitt í Leifshúsum, um hálfum öðrum kílómetra sunnar.
Leifshús standa, sem fyrr segir, utarlega eða norðarlega á Svalbarðsströnd, um þrjá kílómetra norður af Svalbarðseyri. Bærinn stendur á aflíðandi undirlendi, h.u.b. beint neðan Þórisstaðaskarðs. Þórisstaðir, sem skarðið er kennt við, standa aðeins um 200 metrum vestar og neðar. Eru bæirnir gegnt hvor öðrum við þjóðveginn líkt og hús við götu og standa Leifshús ofan og austan þjóðvegar. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu í Leifshúsum eru um 15 kílómetrar, heimreiðin frá þjóðveginum er um 170 metrar.
Íbúðarhúsið í Leifshúsum er einlyft steinhús með háu risi, á háum kjallara. Risþakið er með nokkuð sérstöku lagi, nokkurs konar bogadregið, lauklaga mansardris (sjá teikningu). Miðjukvistir, með sama þaklagi eru á þekju hússins en þær hliðar eru mót norðri og suðri, þar eð húsið snýr stöfnum austur-vestur. Margskiptir póstar, 6 og 9 rúðu eru í gluggum hússins, veggir múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er um 10x8 metrar (ónákvæm mæling af map.is).
Leifshús eru forn jörð, hjáleiga úr Þórisstöðum og var stundum talinn hluti jarðarinnar og þær metnar saman. Árið 1712 voru jarðirnar metnar saman 50 hundruð (forn mælieining á verðmæti jarða) og hvor um sig töldust jafnar að verði (25 hundruð). Varðveist hafa landamerkjalýsingar vegna sölu jarðarinnar Þórisstaða, frá síðari hluta 15. aldar en þar er Leifshúsa ekki getið sérstaklega. Ekki heldur þegar Þórisstaðajörðin gengur kaupum og sölum næstu tvær aldirnar eða svo (sbr. Sædís Gunnarsdóttir 2005:97). Það segir þó ekkert um hvort jörðin var komin til eða ekki, en seint á 17. öld, eða 1690 fór jörðin Sveinshús, sem einnig var undir Þórisstöðum, í eyði og rann þá inn í Leifshús. Ekki löngu síðar fóru þó Leifshús í eyði, því jörðin er í eyði 1703 og 1712 þegar manntal og jarðabók voru unnin. Árið 1712 voru Leifshús eign Guðmundar Sigurðssonar, sýslumanns á Álftanesi, hálfri öld síðar telst jörðin konungseign en síðar kaupir hana Árni ríki Hallgrímsson (1719-1789) í Sigluvík. Segir svo í Svalbarðsstrandarbók: Líklega hefur sr. Sigurður á Hálsi fengið hana [jörðina] eftir móður sína [ekkju Árna ríka]. Hann dó 1849. Baldvin Baldvinsson keypti jörðina 1874, af erfingjum sr. Þorsteins Pálssonar á Hálsi. Síðan hafa ábúendur átt jörðina (Júlíus Jóhannesson 1964:93).
Víkjum þá að ábúendum og eigendum Leifshúsa á þriðja áratug 20. aldar. Valdemar Grímsson og Jónína Björg Jónsdóttir eru ábúendur hér á árabilinu 1907 til 1925. Hingað fluttust þau frá Garðsvík. Það ár tóku synir þeirra, Halldór Kristinn og Sigurjón, við búskapnum og var þá tvíbýlt á jörðinni. Halldór var kvæntur Katrínu Guðmundsdóttur frá Furufirði í Hornströndum en Sigurjón var kvæntur Aðalheiði Níelsdóttur frá Halllandi. Halldór og Sigurjón voru fæddir í Garðsvík (sbr. Ragnar Jóhannesson 2005:118). Væntanlega hafa þeir bræður farið að huga að endurnýjun húsakosts jarðarinnar. Á þessum tíma, fyrir réttri öld, var steinsteypan að hefja innreið sína í sveitir landsins þar sem hún tók við af torfbæjunum. Árið 1926 reisti frændi þeirra og nágranni í Garðsvík, Gestur Halldórsson einmitt myndarlegt steinhús. Í Garðsvík voru raunar hæg heimatökin, þar sem bróðir bóndans, Halldór Kristinn Halldórsson var nýlega kominn heim úr námi í byggingafræði í Þýskalandi. Og það var svo árið 1927 að þeir Halldór og Sigurjón Valdemarssynir reistu steinhús í Leifshúsum, mjög áþekkt því sem frændi þeirra reisti í Garðsvík. Hvernig voru þeir Garðsvíkur- og Leifshúsabændur skyldir? Jú, pabbi þeirra Leifshúsabræðra og Gestur í Garðsvík voru bræðrasynir, Halldór Jóhannesson var faðir Gests og bróðir hans, Grímur Jóhannesson, var föðurafi Halldórs og Sigurjóns í Leifshúsum.
Greinarhöfundur veit ekki til þess, að upprunalegar teikningar, hvorki af Garðsvíkur - né Leifshúsahúsinu hafi varðveist, þær eru alltént ekki aðgengilegar á gagnagrunni map.is. En ljóst má vera, að ytra byrði þeirra er gert eftir mjög svipaðri teikningu eða hreinlega útfærslur af sömu teikningu. Helsta sérkenni húsanna er vitaskuld hið sérstæða þaklag; kúpt mansardris með yddum toppi, lag sem minnir á rótarávöxt, t.d. lauk eða næpu. Gluggasetning er þó nokkuð frábrugðin, gluggar rishæðar eru nokkuð breiðari á Garðsvíkurhúsinu og kvistirnir á Leifshúsum eru örlítið smærri. Þá er sá munur á húsunum, að þau snúa hornrétt hvort á annað, það er, stafnar Garðsvíkur snúa norður-suður en Leifshúsahúsið snýr austur-vestur. Þá er einnig sá munur, að inngöngudyr á Garðsvíkurhúsinu eru á framhlið en í Leifshúsum er inngangur á vesturstafni. Þannig eiga húsin það sameiginlegt, að inngöngudyr eru að vestanverðu. Hér er gengið út frá þeirri kenningu, með öllum hugsanlegum fyrirvörum, að sömu hönnuðir og byggingarmeistarar séu á bakvið þessi hús, þ.e. Garðsvík og Leifshús. Vitað er um fjögur íbúðarhús með þessu lagi í sveitum á Norðurlandi. Á Skútustöðum við Mývatn, Krossum á Árskógsströnd og svo hér í Leifshúsum og Garðsvík á Svalbarðsströnd. Hönnuður þessara húsa er talinn vera Halldór Halldórsson frá Garðsvík og verður það að teljast mjög líklegt. Greinarhöfundi er ekki kunnugt um tengingu Halldórs við Skútustaði en í Garðsvík bjó bróðir hans, frændur hans hér í Leifshúsum og tengdaforeldrar á Krossum. Í bókinni Eyðibýli á Íslandi er hins vegar sagt talið, að Jóhann Franklín hafi hannað Garðsvíkurhúsið (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012: 96). Greinarhöfundi þykir freistandi að álykta, að jafnvel hafi verið um að ræða eitthvert samstarf þeirra Jóhanns og Halldórs. Jóhann Franklín hafði í rúman áratug helgað sig steinsteypuvæðingu sveita landsins og bjó yfir töluverðri reynslu í þeim efnum en Halldór frá Garðsvík var nýlega útskrifaður í faginu. Hefur þá sá síðarnefndi e.t.v. notið handleiðslu hins fyrrnefnda. Hvor þeirra hélt á blýantinum eða sagði fyrir um skipulag eða skrifaði undir teikningarnar er e.t.v. ekki aðalatriði en rétt skal auðvitað vera rétt, eða eins nálægt því og komist verður. Áfast íbúðarhúsinu í Leifshúsum, norðanmegin, og líklegast byggt á sama tíma eð
a mjög fljótlega eftir byggingu hússins, var fjós og hlaða. Þau hafa nú verið rifin en sjást á meðfylgjandi myndum frá 2019.
Halldór Kristinn og Katrín bjuggu hér til ársins 1936 en þá fluttust hingað þau Sveinbjörn Níelsson og Erla Stefánsdóttir frá Gautstöðum. Sveinbjörn var bróðir Aðalheiðar og mágur Sigurjóns, sem hér bjuggu áfram um árabil. Í upphafi 7. áratugs 20. aldar, þegar byggðum og búi S-Þingeyinga voru gerð skil á bók voru Sigurjón Valdemarsson og Aðalheiður Níelsdóttir eigendur hér og ábúendur ásamt þeim Ástu Sigurjónsdóttur og Stefáni Júlíussyni. Enn var því tvíbýlt og um fjölskyldutvíbýli að ræða, því Ásta var dóttir þeirra Sigurjóns og Aðalheiðar. Árið 1963 standa á jörðinni Leifshúsum; íbúðarhúsið, sem hér er til umfjöllunar og er það sagt 62 fermetrar (væntanlega um að ræða grunnflöt), tvær íbúðarhæðir og kjallari. Áfast íbúðarhúsinu er gamalt fjós, sem þá þjónaði sem vélageymsla og verkstæði. Þær byggingar hafa væntanlega lokið upprunalega hlutverki sínu árið 1956, þegar hér var reist fjós fyrir 32 gripi. Um svipað leyti risu 1000 rúmmetra þurrheyshlaða og 300 hesta votheysturn í Leifshúsum. Húsakosturinn nýtur rafmagns frá Laxárvirkjun. Þá standa hér fjárhús, sem einfaldlega eru sögð gömul. Á jörðinni er 20 hektara tún, sem gefa 1000 hesta af töðu, 3 hektarar af garðlöndum, sem gefa 330 tunnur af kartöflum. Tuttugu og einn nautgripur, 98 kindur og 2 hross nýta gæði Leifshúsajarðar þegar þessi samantekt var gerð, árið 1960 (sbr. Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson 1963:146).
Um svipað leyti og þessi skráning var gerð, eða árið 1961, tók Árni Valdemar, sonur Sigurjóns og Aðalheiðar, og kona hans Þóranna Sólbjörg Björgvinsdóttir frá Neðri- Rauðalæk í Glæsibæjarhreppi við býlinu. Þau eru hér ábúendur árið 1985, þegar þingeyskar byggðir voru skrásettar í ritverki. Árni og Þóranna hafa greinilega ráðist í ýmsa uppbyggingu á þessum aldarfjórðungi, því við húsakostinn, sem talinn var upp 1963, hafði bæst við fjárhús fyrir 200 fjár (1968), 40 fermetra mjólkurhús (1974) og 1000 rúmmetra viðbót við hlöðu (1977). Enn var hins vegar búið í íbúðarhúsinu frá 1927. Áhöfn Leifshúsa árið 1985 taldi 35 kýr, 12 ungneyti, 145 kindur, 5 hesta og 20 hænur, tún voru 39 hektarar og garðlönd 0,86 hektarar (sbr. Helgi Jónasson, Jóhanna Á. Steingrímsdóttir og Erlingur Arnórsson 1986: 44). Þess má geta, fyrir þá sem gaman hafa að reikningi, að 0,86 hektarar jafngilda 8600 fermetrum. Í einum ferkílómetra eru svo 100 hektarar.
Hefðbundnum búskap lauk í Leifshúsum árin 2004 og 2005, þegar mjólkurframleiðslu og búfjárhaldi var hætt. Árið 2005 er Þóranna Salbjörg eigandi og ábúandi, en Árni Valdemar lést árið 1999. Tún Leifshúsa, sem þá töldu 40 hektara jarðarinnar voru þá leigð til slægna, væntanlega nágrannabýlum (sbr. Ragnar Jóhannesson 2005: 118). En það var nú aldeilis ekki svo, að Leifshús, færu í eyði, þó búskap væri hætt. Um 2015 eignuðust ábúendur Þórisstaða, þau Stefán Tryggvason og Inga Margrét Árnadóttir, Leifshús. Þau höfðu um árabil rekið ferðaþjónustu á Þórisstöðum. Á síðustu árum hefur Stefán staðið fyrir einstakri uppbyggingu, m.a. gistiaðstöðu og samkomusalar í húsakosti Leifshúsa. Það er kannski ekki einstakt, að byggja upp slíka aðstöðu en Stefán hefur innréttað hlöðuna með m.a. timbri úr fjárhúsum og ýmsum efniviði, sem til hefur fallið. Nýtnin og sjálfbærnin er þannig í fyrirrúmi.
Íbúðarhúsið í Leifshúsum er til mikillar prýði og sérlegt kennileiti í hinni blómlegu sveit á Svalbarðsströnd. Það hefur hlotið fyrirtaks viðhald og hefur nýlega fengið yfirhalningu (nýlegir gluggar og þakjárn virðist nýlegt) og er því í mjög góðu standi. Því miður munar aðeins fjórum árum, að húsið, sem byggt er 1927 hefði hlotið aldursfriðun (eftir 2023 miðast aldursfriðun við byggingarárið 1923). En húsið hlýtur að hafa eitthvert varðveislugildi, þó ekki væri nema fyrir hina sérstæðu þakgerð. Meðfylgjandi myndir af Leifshúsum eru teknar 1. des. 2019 og 31. júlí 2023. Myndin sem sýnir Leifshús og nágrenni, horft út Eyjafjörð í átt til Hríseyjar, er tekin 27. júní 2025.
Heimildir:
Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli áhugamannafélag.
Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson. 1963. Byggðir og bú; Aldarminning Búnaðarsamtaka Suður-Þingeyinga í máli myndum. Búnaðarsamband Suður Þingeyjarsýslu.
Helgi Jónasson, Jóhanna Á. Steingrímsdóttir og Erlingur Arnórsson. 1986. Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 1985. Búnaðarsamband Suður-Þingeyjarsýslu.
Júlíus Jóhannesson. 1964. Svalbarðsstrandarbók. Svalbarðsstrandarhreppur gaf út.
Ragnar Þorsteinsson. Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 2005. Búnaðarsamband Suður Þingeyinga.
Sædís Gunnarsdóttir. 2005. Fornleifar í Svalbarðsstrandarhreppi. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands. Pdf-skjal á slóðinni: https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_1303.pdf
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggfærslur 29. júlí 2025
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 158
- Sl. sólarhring: 160
- Sl. viku: 462
- Frá upphafi: 451720
Annað
- Innlit í dag: 140
- Innlit sl. viku: 314
- Gestir í dag: 138
- IP-tölur í dag: 135
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar