Hús dagsins: Garðsvík; gamla íbúðarhúsið

Laugardagskvöldið þann 4. mars árið 2000 var sá sem þetta ritar staddur í Sambyggingunni við Gránufélagsgötu. Erindið var að innheimta áskriftargjald fyrir dagblaðið DV. Sérlega er það minnisstætt, að á augnablikinu sem dyrnar voru opnaðar, hófst lag í útvarpinu, Hvert er farið blómið blátt“, í flutningi Ellýjar Vilhjálms og Ragnars Bjarnasonar. Lagið var kunnuglegt en það er erlent lag,Where have all the flowers gone“ á frummálinu og hafði greinarhöfundur setið nokkrar kvöldvökur í skátaútilegum þar sem það var sungið.  Þetta augnablik var í fyrsta sinn, sem greinarhöfundur heyrði útsetningu þessa lags á íslensku. Hvernig í ósköpunum, tengist þessi formáli og þessar endurminningar greinarhöfundar, umfjöllunarefninu? Í raun ekki nokkurn skapaðan hlut en þannig er mál með vexti, að rúmum tveimur áratugum eftir þessi viðskipti undir ljúfum tónum, í Sambyggingunni, komst greinarhöfundur að því, að þennan sama dag, 4. mars 2000, voru liðin nákvæmlega 100 ár frá því að hönnuður Sambyggingarinnar fæddist. Sá hét Halldór Halldórsson og var fæddur og uppalinn í Garðsvík á Svalbarðsströnd. Og þar ber okkur niður nú.IMG 0787

Garðsvík stendur norðarlega í Svalbarðsstrandarhreppi, nyrsti bær hreppsins raunar, undir syðsta hluta Miðvíkurfjalls, sem hæst rís í Miðvíkurhnjúk, í aflíðandi en stuttri hlíð undir svokölluðu Felli.  Skammt ofan bæjarstæðisins taka við brattar skriður og hamraþil mikil, og kallast þar m.a. Efribrún og Neðribrún en einnig má finna örefnin Einisklöpp, Einisklapparbolli og Einbúi en síðasttöldu örnefnin eru nokkuð sunnar og mögulega nær Sveinbjarnargerði. Framangreind upptalning er fengið af kortavef map.is. (Nú ber þess að geta, að höfundur er lítt kunnugur í Svalbarðsstrandarhreppi svo verið gæti, að hann skripli eitthvað á örnefnaskötunni, og biðst fyrirfram velvirðingar á því).  Stendur Garðsvík rétt austan og ofan þjóðvegarins (heimreiðin innan við 100 metrar) um Svalbarðsströnd en neðan vegarins er marflatt og víðlent nes, Garðsvíkurnes. Frá Miðbæ Akureyrar að hlaðinu á Garðsvík eru um 16 kílómetrar.

Garðsvíkur mun fyrst getið í heimildum í Sturlungu og nefnist þar Gaddsvík en í jarðabók Árna Magnússonar er Garðsvíkurnafnið komið til sögunnar. Þegar þingeyskum byggðum voru gerð skil á bók árið 1963 kom eftirfarandi fram um Garðsvík: Árið 1796 flutti þangað Jónas Jónsson prests úr Fjörðum, hann átti skipið Breið, er hann hélt til Grímseyjar haust og vor. Fóstursonur hans var Jónas Bergmann er tók þar við búi 1827, fjárríkastur í hreppnum í seinni tíð, ræktaði kollótt fé. Árið 1857 tók Hildur Eiríksdóttir jörðina og bjó þar tvö ár, giftist þá Jóhannesi á Laxamýri. Árið 1861 komu þangað Grímur Jóhannesson og Sæunn Jónsdóttir frá Látrum. Halldór bróðir Gríms keypti jörðina og bjó þar, og eftir hann sonur hans, Gestur þar til 1944 (Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson 1963:149).

Halldór Jóhannesson, sem þarna er sagður kaupa jörðina af bróður sínum, en ekki getið hvenær, var fæddur á Kaðalsstöðum í Þönglabakkasókn árið 1842. Hann ól manninn framan af ævi á Látraströnd, vinnumaður á Látrum 1870 og bóndi á Grímsnesi á sömu strönd um árabil. Árið 1890 er hann kominn á Svalbarðsströnd og skráður húsmaður á Þórisstöðum. Þau Halldór Jóhannesson og kona hans, Guðrún Ingibjörg Bjarnadóttir frá Brennigerði í Skagafirði, hafa væntanlega komið að Garðsvík einhvern tíma á 10. áratug 19.  aldar, í tíð þeirra Valdimars Grímssonar og Jónínu Bjargar Jónsdóttur. Síðarnefndu hjónin voru hér eigendur og ábúendur á bilinu 1885 til 1902 (sbr. Ragnar Þorsteinsson 2005:125). Halldór og Guðrún eru skráð í húsmennsku hér í manntali 1901 en ári síðar hafa þau líkast til eignast jörðina en þau teljast hér ábúendur frá 1902. Tvíbýlt mun hafa verið á Garðsvík fyrstu áratugi 20. aldar en þar eru að jafnaði skráð tvenn hjón eða einstaklingar sem ábúendur fram til 1931 (sbr. Ragnar Þorsteinsson 2005:125). Halldór Jóhanneson lést árið 1914, en þremur árum síðar, 1917 tóku við búinu Gestur sonur hans, og kona hans Elín Ásgeirsdóttir frá Gautsstöðum.  Tæpum áratug síðar reis nýtt íbúðarhús á jörðinni. PC010954

Gamla íbúðarhúsið á Garðsvík er einlyft steinhús með háu risi, á háum kjallara. Risþakið er með nokkuð sérstöku lagi, nokkurs konar bogadregið, lauklaga „mansard “ris. Miðjukvistir eru einnig á þekju hússins, sem snýr framhlið mót vestri. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum. Húsið er múrhúðað og bárujárn er á þaki. Áfast húsinu að norðan eru útihús eða álíka byggingar en þess má geta, að gamla húsið er hluti þeirrar samstæðu og hefur nýst sem skepnuhús. Grunnflötur gamla íbúðarhússins er um 8x10m. Það sem helst einkennir gamla Garðsvíkurhúsið er hin sérstæða þakgerð. Hana er að finna á fjórum bæjarhúsum á Norðurlandi, nánar tiltekið á Skútustöðum við Mývatn, Krossum á Árskógsströnd og á Leifshúsum og á Garðsvík. Hönnuður þessara húsa mun hafa verið Halldór Halldórsson (sbr. Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015:18) en sá var einmitt héðan frá Garðsvík, sonur þeirra Halldórs Jóhannessonar og Guðrúnar Bjarnadóttur.

Þegar þau Gestur Halldórsson og Elín Ásgeirsdóttir hófu hér búskap hefur húsakosturinn væntanlega verið af torfi, sem tíðkast hafði öldum saman. En það var árið 1926 að þau byggðu nýtt veglegt steinhús á jörðinni, sem enn stendur, þó ekki hafi verið þar búseta manna í hálfa öld. Á sama tíma og húsið var byggt bjuggu á móti þeim þau Bergur Bergsson og Oddný Bjarnadóttir, en hún var móðursystir Gests. Það hafa verið hæg heimatökin fyrir ábúendur Garðsvíkur, að fá teikningar að nýju húsi. Árið 1924 lauk nefnilega bróðir Gests, Halldór Kristinn, námi í byggingafræði í Hildisheim í Þýskalandi. Ekki er ósennilegt, að ein af frumraunum hins nýútskrifaða byggingafræðings hafi verið íbúðarhús á heimaslóðum hans. Garðsvíkurhúsið er sem fyrr segir byggt 1926 og í janúar 1927 birtist eftirfarandi auglýsing í Degi: Teikningar að húsum geta menn fengið gerðar hjá mér undirrituðum og verður mig að hitta á Hótel Oddeyri: Á mánudögum kl. 1-6 e.m. og þriðjudögum 10. f.m.  – 2. e.m. alt til byrjunar marzmánaðar. Undir skrifar Halldór Halldórsson frá Garðsvík (1927:16). Kannski hafa ábúendur Leifshúsa, steinsnar sunnan Garðsvíkur, ráðið Halldór frá Garðsvík til húsateikninga um svipað leyti eða fyrr, því þar stendur mjög svipað hús að gerð sem byggt er árið 1927. Svo vill til, að handan Eyjafjarðar, nánar tiltekið á Krossum, stendur hús, reist á svipuðum tíma (1929) með sambærilegu lagi. Á þeim árum bjuggu á Krossum þau Ólafur Magnús Þorsteinsson og Ásta Sigurlaug Þorvaldsdóttir en þau voru einmitt tengdaforeldrar Halldórs frá Garðsvík.

(Greinarhöfund rekur reyndar minni til þess, að hafa heyrt annað nafn í samhengi við teikningar þessara húsa, man reyndar ekki hvert nafnið var. Mögulega hefur þar verið um að ræða byggingameistara eða byggingarstjóra. Hvort tveggja, Húsakönnun 2015 og myndatexti á vefsíðu Minjasafns Akureyrar, segja Halldór hafa teiknað þessi hús svo það hlýtur að teljast nokkuð áreiðanlegt. Augljós vensl Halldórs við a.m.k. þrjá þessara bæja hljóta einnig að vera nokkuð sterk rök. Í bókinni Eyðibýli á Íslandi er sagt talið, en ekki fullyrt vel að merkja, að Jóhann Franklín hafi teiknað húsið).

Af Halldóri er það að segja, að árið 1928 réðist hann til starfa semIMG 0786 byggingarfulltrúi Akureyrar og gengdi því starfi til ársins 1944, er hann hóf störf hjá Skipulagi Ríkis og bæja. Árið 1957 var hann skipaður framkvæmdastjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins og gegndi þeirri stöðu til æviloka, en hann lést 23. ágúst 1969. Hús, sem Halldór Halldórsson teiknaði skipta eflaust hundruðum, en mörg hús eftir hann eru t.d. á Oddeyri og neðri hluta Brekkunnar á Akureyri. Þeirra á meðal er eitt fyrsta skipulagða fjölbýlishús bæjarins, Gránufélagsgata 39-41 eða Sambyggingin. Þá teiknaði Halldór, Dalvíkurkirkju.

Sama ár og Halldór Halldórsson söðlaði um og fluttist suður til starfa hjá Skipulagi ríkis og bæja, 1944, fluttust Gestur bróðir hans og Elín Ásgeirsdóttir frá Garðsvík. Næstu ábúendur og eigendur voru þau Jón Bjarnason frá Grýtubakka og Ingibjörg Tryggvadóttir frá Gröf í Kaupangssveit. Þau voru búsett hér, þegar byggðum S-Þingeyjarsýslu voru gerð skil á prenti fyrsta sinnið. Þá var húsakosturinn sagður íbúðarhús 71 m2  (væntanlega aðeins grunnflötur), fjós fyrir 24 nautgripi, fjárhús fyrir 120 kindur, hlöður með súgþurrkun fyrir 1500 hesta og þess getið, að bærinn sé búinn Laxárrafmagni. Tún eru 24,3 hektarar, taða 1200 hestar og kartöflurækt gefur 125 tunnur (sbr. Haukur, Jón og Steingrímur 1963:149). Þau Jón og Ingibjörg bjuggu hér til ársins 1972 en næstu eigendur og ábúendur voru þau Jón Óskar Jensson og Rósa Hálfdánardóttir. Þau voru Vestfirðingar, hann frá Suðureyri en hún frá Þingeyri. Þau voru væntanlega síðustu íbúar gamla hússins, því árin 1975-76 reis af grunni nýtt og veglegt íbúðarhús á Garðsvík og skv. Eyðibýli á Íslandi  (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012: 96) var síðast búið í húsinu árið 1975.

Árið 1985 var byggðum Suður Þingeyjarsýslu aftur gerð skil á prenti og þá eru búsett á Garðsvík þau Jens Jónsson og Sigrún Baldursdóttir og höfðu þau flust hingað fjórum árum fyrr. Þá eru túnin orðin 40 hektarar, áhöfnin 35 kýr, 16 ungneyti, 182 kindur og 6 hestar (sbr. Helgi Jónasson, Jóhanna Á. Steingrímsdóttir og Erlingur Arnórsson 1986:48). Árið 2005 stóðu á Garðsvíkurjörðinni eftirfarandi byggingar, auk íbúðarhúsanna: fjós og hlaða, byggð 1948, hlöður byggðar 1959 og 1990, blásarahús byggt 1978, alifuglahús byggt 1959 og vélageymsla byggð 1958. Tún voru 48 hektarar og áhöfnin taldi 16 holdakýr, 110 geldneyti, 58 kindur og, líkt og 20 árum fyrr, voru hér 6 hross (sbr. Ragnar Þorsteinsson 2005:125).

Eigandi og ábúandi árið 2005 var Bent Hansson en hann var sérlegur heimildamaður þegar rannsóknarhópur um eyðibýli skoðaði m.a. gamla Garðsvíkurhúsið sumarið 2011 og gaf afraksturinn út á bók. Í þeirri skrá segir, að innveggir hússins hafi fljótlega verið rifnir að mestu eftir að hlutverki þess sem íbúðarhúss lauk og því breytt í gripahús. Svo mun enn. Þó er hurðaumbúnaður til staðar, sem og raf- og pípulagnir. Þar er talið að höfundur hússins sé ekki Halldór Halldórsson heldur Jóhann Franklín. Hann var einmitt mjög ötull við hönnun og byggingu steinhúsa til sveita, byggði m.a. eitt fyrsta steinhús í sveit í Eyjafirði, á Munkaþverá. Kannski hefur hönnunin verið samvinnuverkefni þeirra Jóhanns og Halldórs en sá síðarnefndi var þá auðvitað nýútskrifaður en sá fyrrnefndi þrautreyndur í sínu fagi. En gefum eyðibýlahópnum síðustu orð þessarar umfjöllunar, um sérstöðu og varðveislugildi:

Varðveislugildi hússins liggur í sérstöku lagi þess. Leifshús, sem er næsti bær til suðurs, er eins hús. Dapurlegt er að sjá að Garðsvík hafi verið breytt í gripahús. Það hefur á sínum tíma verið vandasamt verk að byggja þak hússins sem er einkar fallegt ( Axel, Bergþóra Góa, Birkir, Hildur, Olga, Sólveig, Steinunn Eik og Þuríður Elísa 2012:96). 

Greinarhöfundur tekur undir þessi orð, að því undanskildu, að Leifshús eru ekki næsti bær sunnan við Garðsvík; Sveinbjarnargerði og Þórsmörk eru þar á milli. Gamla húsið í Garðsvík myndar, ásamt öðrum bæjarhúsum og nýja íbúðarhúsinu, sem er auðvitað allt annarrar gerðar, skemmtilega heild í fallegu umhverfi. Næst færum við okkur hálfan annan kílómetra til suðurs, að „frændhúsi“ Garðsvíkurhússins, í Leifshúsum. Meðfylgjandi myndir eru teknar 1. desember 2019 og 31. júlí 2023. 

Heimildir:  Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. 2015. Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni n-brekka-husakonnun-3-utg-150416-vefutg.pdf

Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Halldór Halldórsson. 1927. Teikningar (auglýsing). Í Degi 22. janúar, 4. tbl. 10. árg.

Haukur Ingjaldsson, Jón Sigurðsson og Steingrímur Baldvinsson. 1963. Byggðir og bú; Aldarminning Búnaðarsamtaka Suður-Þingeyinga í máli myndum. Búnaðarsamband Suður – Þingeyjarsýslu.

Helgi Jónasson, Jóhanna Á. Steingrímsdóttir og Erlingur Arnórsson. 1986. Byggðir og bú Suður Þingeyinga 1985. Búnaðarsamband Suður – Þingeyjarsýslu.

Minjasafnið á Akureyri. Án árs. 35_h1-146.jpg. Myndatexti.  Sótt 4. júlí 2025 á slóðina 35_h1-146.jpg | Akureyri Museum

Ragnar Þorsteinsson. Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 2005. Búnaðarsamband Suður – Þingeyinga.


Bloggfærslur 9. júlí 2025

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 51
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 351
  • Frá upphafi: 450538

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 233
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband