17.8.2025 | 11:33
Hús dagsins: Eyrarland, gamla íbúðarhúsið
Áður en sá sem þetta ritar hafði vitneskju af jörðinni Stóra-Eyrarlandi, sem drjúgur hluti þéttbýlis Akureyrar sunnan Glerár er byggður úr, þótti honum heitin Eyrarlandsvegur, Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum og Eyrarlandsholt, þar sem Verkmenntaskólinn stendur, dálítið sérstök á þessum slóðum. Hvers vegna voru svona margir staðir á þessu svæði kenndir við bæ hinu megin í firðinum? Því þá þekkti greinarhöfundur aðeins Eyrarland í Öngulsstaðahreppi. Það Eyrarland var löngum kallað Litla-Eyrarland, til aðgreiningar frá téðu Stóra-Eyrarlandi og þarf því ekki að velkjast í vafa um hvor jörðin var stærri eða meiri. Eina byggingin sem enn stendur af Stóra-Eyrarlandi er eitt af elstu húsum Akureyrar, 180 ára gömul timburstofa, en á Eyrarlandi handan Pollsins stendur einnig gamalt íbúðarhús. Það er þó miklu mun yngra en Eyrarlandsstofa en þó frá aldamótum 1900 og þannig eitt af elstu húsum Eyjafjarðarsveitar. Og þar ber okkur niður að þessu sinni.
Eyrarland stendur nokkuð hátt í fremur brattri brekku upp af ósum Eyjafjarðarár, norðanvert við gil mikið, upp af Eyrarlandsfit við svokallaðan Ós. Neðst í gili þessu eru vegamót Veigastaðavegar og Knarrarbergsvegar og er heimreiðin upp að Eyrarlandi steinsnar frá vegamótum þessum, upp af Veigastaðavegi (sem er að stofni til hluti gamla þjóðvegarins um Vaðlaheiði) Ekki er gefið upp nafn á gili þessu á kortagrunni map.is en ofarlega þar, heitir Klif. Frá vegamótum Leiruvegar og Drottningarbrautar að Eyrarlandi eru sléttir 4 kílómetrar en ef við miðum við Miðbæinn er vegalengdin milli Eyrarlands og Akureyrar 5,5 kílómetrar. Þess má geta, að Eyrarlandshúsin eru nær Innbænum en ystu hverfi Akureyrar (frá mótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis við ísbúðina Brynju, eru 4,1km á hlaðið á Eyrarlandi, en 4,4km á Norðurtorg frá sömu gatnamótum).
Gamla íbúðarhúsið á Eyrarlandi stendur nokkuð ofar en núverandi íbúðarhús bæjarins. Það er einlyft með háu risi á steinsteyptum grunni. Suðurhluti snýr stafni til suðurs en norðurhluti snýr stafni mót vestri og er mun lengri til austurs og grunnflötur hússins því vinkillaga. Austasti hluti hússins er, steinsteyptur tvílyftur með lágu risi og eru þar áfastar skúrbyggingar. Norðvesturhluti hússins, sem hlaðinn er úr r-steini er stafn til vesturs, eða burst, þvert á suðurhluta. Á norðvesturhorni hússins er lágur inngönguskúr með einhalla þaki. Á þekju eru smáir kvistir, sá austanmegin í kverkinni milli suður og austurhluta og sá vestanmegin á að giska rúman metra (gluggabreidd) frá norðurburstinni. Norðurhluti hússins er steinsteyptur að hluta en suðurhlutinn, sem er elstur er timburhús. Veggir eru múrhúðaðir, að frátöldum suðurstafni, sem er bárujárnsklæddur. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins en einnig eru lóðréttir og skiptir póstar í yngri hlutum hússins. Áföst eru að norðan og austan skemmur, hlöður og skepnuhús, sem ekki koma við sögu hér. Grunnflötur framhúss mælist nærri 12x7m og bakhúss um 9x6m. Um er að ræða afar ónákvæmar mælingar af map.is. en ekki reyndist unnt að mæla suma hluta hússins á loftmyndum, m.a. vegna trjágróðurs og ógreinilegra byggingarskila.
Eyrarland stendur nærri miklum söguslóðum en skammt sunnan og neðan bæjarins er forn þingstaður, Vaðlaþing (Vöðlaþing) í svonefndri Búðalág. Vaðlaþing var einn fjögurra þingstaða í Norðlendingafjórðungi en fjórðungaþingum var komið á um líkt leyti og Alþingi var stofnað árið 930. Þarna mun hafa verið þingstaður fram til ársins 1187, að þingstaðurinn var lagður niður að skipan Guðmundar dýra (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:1070). Elstu heimildir um Eyrarland eru hins vegar miklu yngri eða frá 1461, nánar tiltekið úr máldagabók Ólafs biskups Rögnvaldssonar á Hólum, þar sem kveðið er á um eignarhald á Þórunnarey. Eyjan sú mun hafa verið austustu óshólmar Eyjafjarðarár (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:2102). Eyrarland í Öngulsstaðahreppi var löngum kallað Litla-Eyrarland, til aðgreiningar frá Stóra-Eyrarlandi í Hrafnagilshreppi ef þurfa þótti. Talið er að Eyrarland í Öngulsstaðahreppi hafi byggst eitthvað síðar en hið stærra í Hrafnagilshreppi. Nokkuð greinargóðar heimildir eru um eigendaskipti jarðarinnar allt frá miðri 16. öld. Fylgdi jörðin þá oftar en ekki fleiri jörðum sem gengu á milli lögmanna, sýslumanna og skyldmenna þeirra. Nákvæmt eigenda- og ábúendatal fyrir Eyrarland má finna í bókinni Eyfirðingum en hér stiklum við aðeins á stóru. Árið 1615 eignaðist jörðina Magnús Björnsson, en sá var sonarsonur Jóns biskups Arasonar. Samkvæmt ábúendatali virðist oftar en ekki hafa verið tvíbýlt á jörðinni frá 18. öld.
Nú skulum við bregða okkur til loka 19. aldar. Á síðasta áratug þeirrar aldar stendur á Eyrarlandi torfbær, með timburstofu fremst (þ.e. vestast) sem skiptist í norðurstofu og suðurstofu, auk bæjarganga. Á milli stofanna eru göng eða bæjardyr, sem leiða að upphækkaðri baðstofu til austurs. Sunnanmegin er búr en norðanmegin er eldhús og inn af því, fjós. Austast í þessari húsasamstæðu, inn af baðstofu, er hjónaherbergi. Engin úttekt er til (sbr. Jónas Rafnar 1975:159) en þessi lýsing byggist á uppmælingarteikningu Jónasar Rafnars í Bæjalýsingum og teikningum og teikningu Guðmundar Frímannssonar í Eyfirðingum. Óljóst er hvenær timburstofan var byggð, mögulega var það á 10. áratug 19. aldar. Öll þessi húsasamstæða, sem að framan er lýst, timburhúsið þ.m.t. brann til ösku árið 1901. Frá 1876 til 1898 voru feðgarnir Helgi Kolbeinsson og Hallgrímur Helgason bændur hér (sá síðarnefndi telst taka við jörðinni 1892, sá fyrrnefndi lést 1897). Mögulega hefur Hallgrímur Helgason átt heiðurinn af timburstofunni. Hallgrímur og kona hans, Helga Sigfúsdóttir fluttust héðan árið 1898 og þá bjuggu hér um skamma hríð í tvíbýli, þau Helgi Helgason, bróðir Hallgríms, og Vilborg Sölvadóttir annars vegar, og Jóhann Friðrik Tómasson og Sigurbjörg Björnsdóttir hins vegar. Af Hallgrími og Helgu er það að segja, að þau fluttust spölkorn utar í hreppinn, nánar tiltekið í Ytri-Varðgjá. Fáeinum mánuðum síðar, eða 25. febrúar 1899, lést Helga, aðeins 26 ára gömul. Síðar (1904) kvæntist Hallgrímur, Matthildi Grímsdóttur, yfirsetukonu og áttu þau um áratugaskeið (frá 1918) heima í Aðalstræti 44 á Akureyri. Það var svo árið 1899 að jörðina eignuðust þau Árni Guðmundsson frá Jódísarstöðum og Petrea Sigríður Jónsdóttir frá Ytra-Laugalandi. Höfðu þau verið bændur á síðarnefnda bænum í áratugi. Er skemmst frá því að segja, að jörðin er enn í eigu og ábúð afkomenda þeirra, en nánar um það síðar í greininni. Árni Guðmundsson lést líklega innan við ári eftir flutninginn á Eyrarland, eða 10. mars árið 1900. Einar, 24 ára sonur þeirra Árna og Petreu, tók þá við búinu. Ári síðar, eða 4. maí 1901 kvæntist Einar Árnason, Margréti Eiríksdóttur, frá Halllandi á Svalbarðsströnd. Og réttum fjórum síðar, eða 4. september, gerðist nokkuð, sem við skulum láta ónefndan blaðamann dagblaðsins Stefnis segja okkur frá:
Í fyrradag árdegis brann allur bærinn á Litla-Eyrarlandi í Kaupangssveit og 130 hestar af töðu. Veður var hvasst af suðri. Vestan við bæinn var nýlegt timburhús, en göng úr því til baðstofu og hinna annara bæjarhúsa. Fjós og fjóshlaða voru áföst við bæinn. Eldurinn kom upp í þaki fjóshlöðunnar, og er haldið að hafi kviknað af neistum, sem hrotið hafi úr múrsteinsreykháf, sem lá frá eldavjel í bænum. Fátt eða ekkert heimamanna var heima, heldur á engjum, og var eldurinn orðinn allmagnaður er að var komið. Dreif þá að fólk af næstu bæjum til að bjarga og freista að slökkva. Verslunarstjóri E. Laxdal [í Laxdalshúsi] sýndi þá athugun, góðvild og snarræði, að senda 8 menn yfir um, þegar er reykurinn sást og urðu þeir til mikils gagns við að bjarga búslóðinni úr bænum, sem öll náðist, bæði matvæli, munir, hirzlur, amboð og fatnaður o. fl. Gluggar og hurðir náðust og úr timburhúsinu og baðstofu og nokkuð af þiljum, göngin milli timburhússins og bæjar höfðu verið rifin, og átti með því að reyna að bjarga húsinu, en stórviðrið sló loganum úr bænum á húsið svo engin tiltök voru að bjarga því. Jörðin Litla-Eyrarland og byggingin á henni er eign Petreu Jónsdóttur, ekkju Árna heitins, er lengi bjó á Naustum, og barna hennar, og mun húseignin hafa verið óvátryggð. Skaðinn efalaust nokkuð á fjórða þúsund króna virði (Án. Höf. 1901: 86) Stefnir - 22. tölublað (06.09.1901) - Tímarit.is
(Kannski hafa Eggert Laxdal og átta menn búið vel að þessari æfingu á Eyrarlandi, undir lok sama árs, þegar einn af mestu stórbrunum Akureyrarsögunnar átti sér stað og fjöldi húsa brann til grunna í nágrenni Laxdals). En ekki þýddi fyrir Eyrarlandsfólkið að gráta Björn bónda heldur safna liði og .
byggja nýtt timburhús. Aðeins rúmum mánuði síðar segir í Stefni, að mæðginin á Eyrarlandi séu að byggja nýtt timburhús í stað bæjarhúsanna, sem brunnu. Sennilegt verður að teljast, að gluggar, þiljur og hurðir sem björguðust úr gamla bænum hafi verið nýtt í nýja húsið. Nýja timburhúsið á Eyrarlandi reyndist heldur langlífara en það gamla, því það stendur enn þegar þetta er ritað síðsumars 2025. Þar er kominn syðri hluti gamla íbúðarhússins.
Einar Árnason, sem hér stundaði búskap til æviloka, árið 1947, hlaut kjör á Alþingi og sat þar í rúman aldarfjórðung eða frá 1916 til 1942. Einar gegndi embætti fjármálaráðherra árin 1929 til 1931, í ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar. Sem alþingismaður Eyfirðinga beitti Einar Árnason sér mjög fyrir því, að Eyjafjarðará yrði brúuð og má segja, að hann hafi ýtt þeirri framkvæmd úr vör, vorið 1922, í formi þingsályktunartillögu (sbr. Hjörtur E. Þórarinsson 1994:335). Það var svo snemma sem árið 1909 að verkfræðingur, Jón Þorláksson, vann tillögur að brúarbyggingum yfir Eyjafjarðará. Fyrri heimstyrjöldin setti auðvitað strik í reikninginn en fjórum árum eftir lok hennar voru menn orðnir ansi langeygir eftir brúarsmíði. (Og fyrir þá sem vilja lesa meira um brýr yfir Eyjafjarðará má minna á bók undirritaðs, Brýrnar yfir Eyjafjarðará, sem fæst hjá höfundi og í Eymundsson). Árið 1924 hófu hér búskap Sigríður, dóttir þeirra Einars Árnasonar og Margrétar Eiríksdóttur og maður hennar Sigurgeir Sigfússon frá Holtakoti í Ljósavatnshreppi. Bjuggu þau hér á móti foreldrum Sigríðar og byggðu þau nýtt hús, sem væntanlega er norðurhluti gamla íbúðarhússins. Í febrúar 1925 er gerð virðing fyrir hús á Eyrarlandi, sem sagt er byggt 1924 og eign Sigurgeirs Sigfússonar. Er því lýst svo: Útveggir á 3 vegu [m.ö.o. ein hliðin sambyggð öðru húsi], hlaðnir úr r -steini, tvöfaldir. Húsið er skúrmyndað [svo] með timbursúð og pappa yfir, á milli mómold og tjörupappi. Á milli útveggja er tróð af mómold. Á húsinu eru 2 gluggar og 2 hurðir. Tvær stofur, forstofa og gangur í kjallara. Stofurnar betrekktar. Kjallari undir húsinu af einfaldri steinsteypu, ½ alin þykt [svo]. Vegghæð undir bita 3 al 10 þuml[ungar]. Steypt reykpípa frá gólfi og uppúr. Í kjallara steypt gólf og tveir gluggar. Virt krónur 2500 (Hallgrímur Hallgrímsson 1926: 521).
Áratug síðar, eða 1934, er íbúðarhúsinu á Eyrarlandi lýst í brunabótamati sem timburhúsi á steinsteyptum kjallara, klætt að utan með bárujárni og masonit, með járnþaki. Miðstöð til upphitunar, raflögn til suðu og ljósa og að hluta til upphitunar. W.C. og vatnsleiðsla. Grunnflötur hússins 8x6m og hæð 6,3m (Björn Jóhannsson 1934: án bls.). Af þessari lýsingu að dæma er aðeins um að ræða syðri hluta hússins. Það vakti athygli höfundar, að í þeirri handskrifuðu kompu, sem geymir handrit Björns Jóhannssonar að brunabótavirðingarlýsingum, er um að ræða Eyrarland og Eyrarland II en í síðara tilfellinu stendur yfirskriftin ein. Getur höfundur sér þess til, að um sé að ræða nýja hluta íbúðarhússins og brunabótavirðing ekki legið fyrir, enda e.t.v. ekki þótt ástæða til þess að meta það aftur, þar eð það var virt nýbyggt.
Byggt mun hafa verið við Eyrarlandshúsið um 1950, skv. Eyðibýli á Íslandi og þar um að ræða austasta hluta hússins, sem ekki sést á meðfylgjandi myndum. Um svipað leyti, eða 1948, hófu hér búskap þau Ingibjörg Einarsdóttir, systir Sigríðar, og Jóhann Benediktsson frá Jarlsstöðum í Grýtubakkahreppi. Hafa þau væntanlega tekið við þeim hluta jarðarinnar, sem Einar Árnason sat, en hann lést, sem fyrr segir 1947. Margrét Eiríksdóttir átti hér heima áfram í skjóli dætra og tengdasona til æviloka árið 1955. Þegar brunabótamat var gert á Eyrarlandi árið 1934 voru fjós, hlaða og aðrar byggingar en íbúðarhúsið úr torfi. Ef mannvirkjaskrá Eyrarlands í Byggðum Eyjafjarðar 1990 er skoðuð má rekja uppbyggingu ýmiss húsakosts frá þeim tíma og um miðja öldina. Fjárhús og hlaða voru byggð 1934, fjós 1940 (sem orðið er fjárhús árið 1990) ásamt hlöðu, ásamt kartöflugeymslu 1950 og votheysgryfju tveimur árum síðar.
Þegar eyfirskum byggðum voru fyrst gerð skil á prenti, árið 1973 (skráning miðaðist við 1970), voru ábúendur hér skráð þau Ingibjörg Einarsdóttir og Jóhann Benediktsson og Sigríður Benediktsdóttir eigandi annarrar íbúðarinnar. Sigfús hafði látist árið áður. Þar eru íbúðarhúsin sögð vera tvö, sambyggð, byggð 1901 og 1924, alls 410 m3. Ekki er minnst á viðbyggingu frá miðri öldinni, en hún hefur væntanlega talist hluti yngra íbúðarhúss. Alls eru á Eyrarlandi fjárhús fyrir 300 fjár og hlöður fyrir 800 hesta af heyi auk kartöflugeymslna, véla- og verkfærageymslna. Túnstærð er 18,67 hektarar, kartöfluland um 3 hektarar og gefur jörðin 600 hesta af töðu og 150 af útheyi (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:410). Tveimur áratugum síðar eru Ingibjörg og Jóhann enn búsett hér en Einar Grétar, sonur þeirra og kona hans, Elva Hermannsdóttir frá Akureyri höfðu tekið við búrekstrinum árið 1987. Eigandi jarðarinnar til hálfs á móti þeim var systir Einars, Sólveig Jóhannsdóttir. Gamla íbúðarhúsið var í eigu Sigríðar Einarsdóttur, sem þá dvaldist á Skjaldarvík og Sólveig einnig sögð eigandi eldra íbúðarhúss. Árið 1990 var ræktað land á Eyrarlandi 14,3 hektarar og þar 77 fjár og þrjú hross. Árið 1981 var byggt nýtt íbúðarhús á Eyrarlandi og hefur gamla íbúðarhúsið síðar verið nýtt sem geymsla. Annað íbúðarhús var reist árið 1987. Þessi hús standa örlítið norðar og neðar en gamla húsið Af öðrum byggingum, sem risu á Eyrarlandi á bilinu 1970 til 1990 má nefna 113 fermetra vélageymslu, sem reist var 1978 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993: 1070). Árið 2010 eru þau Einar Grétar og Elva ábúendur og eigendur að Eyrarlandi II (íb.hús frá 1987) og hálfri jörðinni á móti Sólveigu, sem er eigandi að Eyrarlandi (íb.hús frá 1981). Þá hafa fjárhús og hlaða frá 1934, sem stóðu skammt sunnan gamla íbúðarhússins, verið jöfnuð við jörðu (um 2000) en önnur byggingaskipan nokkurn veginn óbreytt frá því sem hún var árið 1990. Árið 2000 var þriðja íbúðarhúsið, Eyrarland III, reist á jörðinni og stendur nokkuð neðan Eyrarlands og Eyrarlands II, á gilbrúninni, h.u.b. beint niður af elsta íbúðarhúsinu. Árið 2010 voru 25 fjár á Eyrarlandi og stunduð kartöflurækt, og ræktað land 25 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013: 598-599).
Rannsóknarhópur, sem heimsótti íslensk eyðibýli og vann um þau ítarlegar skýrslur á árunum um 2012, skoðaði gamla íbúðarhúsið á Eyrarlandi. Þar er herbergjaskipan sögð óröskuð frá því síðast var byggt við og innanstokksmunir og upphengdir hlutir á veggjum til staðar. Þá eru allar hurðir og gluggabúnaður til staðar auk raflagna og pípulagna. Hópurinn metur viðgerð á húsinu mögulega en að það yrði mikið verk þar sem húsið er bæði kalt og rakaskemmt (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir, 2012:103). Gamla íbúðarhúsið á Eyrarlandi ber þess greinileg merki að hafa verið byggt í áföngum og segir hver hluti hússins ákveðna uppbyggingarsögu. Frá vegfarendum blasa þó aðeins við elstu hlutar þeirrar sögu, timburhúsið frá 1901 og r-steinsburstin frá 1924, burstin setur skemmtilegan svip á húsið. Bæjarstæði Eyrarlands er einnig einkar skemmtilegt, hátt í brekkunum ofan Hólmanna, gegnt syðsta hluta Akureyrar. Dálítill trjálundur er við gamla húsið og það sem kannski má heita merkilegt er, að hann er norðan við húsið, en ekki sunnan við. Reyndar er einnig dágóður trjágarður sunnan hússins en hann er spölkorn frá því. Eyrarlandshúsið, sem er aldursfriðað (byggt fyrir 1923) er að upplagi skemmtilegt hús og stórbrotið og myndar enn margbreytilegri heild með sambyggðum fjárhúsum og skemmum. Kannski mætti að einhverju leyti líkja þessari samsetningu gamla Eyrarlandshússins og samliggjandi bygginga við prestsetrið í Kristnihaldi undir jökli: [ ]Rángalahús samsett úr mörgum einingum [ ] þessi húsagerðarlist, hver kofinn útúr öðrum var eitthvað í ætt við æxlun kóralla; eða kaktuss (Halldór Laxness 1968: 26-27).
Meðfylgjandi myndir eru teknar 25. júlí 2025.
ES. Neðst í gilinu sunnan Eyrarlands, rétt ofan vegamóta Veigastaða- og Knarrarbergsvegar, stendur smár steinsteyptur skúr, mögulega 2x3m að grunnfleti. Hér er um að ræða fyrrum rafstöðvarskúr, og hefur sú rafstöð væntanlega séð Eyrarlandi og nærliggjandi bæjum fyrir raforku á sínum tíma. Ekki er greinarhörfundi kunnugt um upprunasögu þessarar rafstöðvar, en ljóst að rafleiðsla var komin í Eyrarland árið 1934 (sbr. brunabótavirðingu hér að framan). Kannski hefur Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti komið að smíði rafstöðvarinnar, en hann setti upp virkjun í Bíldsá og rafstöð fyrir Leifsstaði, Króksstaði og Fífilgerði, skammt hér norðan við, árið 1928. Skúrinn lætur ekki mikið yfir sér en er þó sérlegt kennileiti á þessum stað og hefur í nokkur ár borið áletrunina Velkomin heim. Sérlega geðþekkt og vinalegt.
Heimildir
Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli áhugamannafélag.
Án höfundar. 1901. Bæjarbruni. Í Stefni 6. september 22. tbl. 9. árgangur.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri (ekki aðgengileg á vef). Hskj.Ak. H12-41.
Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Halldór Laxness. 1968. Kristnihald undir jökli. Reykjavík: Helgafell.
Hallgrímur Hallgrímsson. 1926. Skýrsla um virðingar og fleira, er bygt hefur verið eftir 1917 í Öngulsstaðahreppi. Handskrifað í Úttektabók Öngulsstaðahrepps 1893-1927 bls., varðveitt á Héraðsskjalasafninu Hskj.Ak. H12-12. Bls. 510-523.
Hjörtur E. Þórarinsson. 1994. Saga Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Síðara bindi. Akureyri: Héraðsnefnd Eyjafjarðar.
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 17. ágúst 2025
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 144
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 442
- Frá upphafi: 452943
Annað
- Innlit í dag: 99
- Innlit sl. viku: 265
- Gestir í dag: 99
- IP-tölur í dag: 96
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar