Ólík systurfjöll

Dyngjur og stapar eru fjöll sem ekki finnast á mörgum stöðum í heiminum en Ísland er einn þeirra. Oft þykir mér full djúpt tekið í árinni í fullyrðingum um það hvað allt er einstakt hér og finnist hvergi annars staðar í heiminum- það er sjaldnast staðreyndin en hins vegar er margt hér sem er sjaldgæft og sumt algjörlega einstakt.  En ég er á því að hinar mörgu íslensku náttúruperlur séu alveg nógu glæsilegar, hvort sem til eru svipuð fyrirbæri annars staðar í heiminum eða ekki.025.jpg En að dyngjum og stöpum. Dyngjur eru fjöll sem líta út eins og undirskálar á hvolfi, aflíðandi og hringlaga. Þær  eru því oft ansi drjúgar að flatarmáli því þær eru ekkert endilega mjög lágar. Og fá fjöll eru eins auðveld uppgöngu- eðlilega. Ein þekktasta dyngjan er líklega Skjaldbreið(ur) (1060m) sunnan Langjökuls en aðrar dyngjur eru t.d. Ok (1141m) á Kaldadal og Trölladyngja(um 1500m)  sunnan við Vatnajökul- en það mun hæsta dyngja landsins. Dyngjan sem sést hér til hliðar- örlítið vinstra megin við miðju- heitir Kollóttadyngja og er 1180 m y.s. Stapar kallast fjöll sem eru nær hringlaga en með þéttingsbröttum skriðurunnum hlíðum og klettabelti efst en flatir að ofan- en oft er lítill strýtukollur fyrir miðju.  Löguninni mætti líkja við skál á hvolfi eða þykka rjómatertu (hnallþóru) eða hringborð sbr. enska heitið"table mountain". Stapar eru ólíkt erfiðari uppgöngu en dyngjur og oftar en ekki er eina færa gönguleiðin á stapa bundin við skorninga eða vik í hamrastálinu- og oft er það ógurlegt brölt sem jafnvel krefst klifurbúnaðar.  Nágranni Kollóttudyngju er einn þekktasti stapinn á landinu, Herðubreið (1682m). p7240162.jpgÞegar að er gáð má sjá að ekki virðist óalgengt að stapi og dyngja séu í nágrenni hvort við annað. Skammt frá Skjaldbreið er stapinn Hlöðufell(1188m) , og risastapinn Þórisjökull(1350m)  er skammt frá Okinu. Kistufell (um 1400m) nefnist stapi undir Vatnajökli  í nágrenni Trölladyngju. En dyngjur og stapar eru að upplagi "sömu" fjöllin. Bíddu nú við , hvernig getur það staðist? Þessi fjöll eru eins ólík og gömul Lada og Range Rover. Jú. Dyngjur verða til við dyngjugos, sem eru löng, basísk hraungos sem hlaða dyngjunum upp. Almennt mun talið að dyngjur myndist í einu gosi. En þegar dyngjugos verður undir jökli getur hraunið hvergi runnið heldur hleðst upp þar til það nær uppúr jöklinum.  Að lokum nær hraunið á yfirborðið og ef það stendur einhvern tíma eftir það getur hlaðist upp dyngja ofar yfirborði jökulsins. Þegar jökullinn hopar stendur svo stapin eftir og brúnirnar sem náðu yfir jökulinn hrynjaog mynda hlíðarnar. Þannig að dyngja og stapi er faktíst sama fyrirbærið- nema stapinn varð til undir jökli.  Nú má ímynda sér hvers konar ógurlegur fyrirgangur hefur verið við myndun stapanna. Stór dyngjugos brjóta sér væntanlega ekki leið gegn um 1000metra jökulstál þegjandi og hljóðalaust, gígantískt magn af ís  bráðnar og gjóskan í kjölfarið heldur varla neitt smáræði. Það hefði allavega orðið örðugt um þotuflug þegar gosin sem mynduðu t.d. Herðubreið eða Eiríksjökul stóðu yfir.

Myndin af Kollóttudyngju og nágrenni hennar er tekin 16.ágúst 2003 ofan af Herðubreið en myndin af Herðubreið er tekin 24.júlí 2010 úr Herðubreiðarlindum. Eru þær teknar á tvær ólíkar vélar, sú eldri á 4 megapíxla Trust en sú nýrri á  6 megapíxla Olympus FE120. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436887

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 324
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband