Búðargil öðru nafni Lækjargil

Í byrjun síðasta árs fjallaði ég um gilin mörgu sem skera Brekkuna á Akureyri. En þeirra mest er Búðargilið eða Lækjargilið eins og það er einnig kallað en það er væntanlega tilkomið vegna Lækjargötunnar sem liggur um gilið. En Búðarlækurinn sem rann- og rennur vissulega enn um Búðargilið (að stórum hluta í lokræsi) skapaði hina eiginlegu Akureyri en sú eyri er fyrir löngu kominn inn í land með seinni tíma uppfyllingum. Byggð fór að myndast í Búðargili fljótlega uppúr miðri 19. öld og var þar um að ræða efnalítið fólk sem ekki fékk inni í byggðinni við Fjöruna og Akureyri. Enda sést greinilega munur á húsakosti Lækjargötunnar og Aðalstrætis og Hafnarstrætis, í fyrrnefndu götunni eru húsin mun lágreistari og látlausari. En í Búðargilinu hófu Akureyringar að rækta kartöflur árið 1808 og þar eru enn nokkrir kartöflugarðar og þá voru lengi vel vinsælar skíðabrekkur í gilinu á vetrum. Gripahús stóðu einnig lengi vel í gilinu og voru síðustu hesthúsin rifin um 2006. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók úr Búðargilinu í gær- en í sömu ferð ljósmyndaði ég einnig nokkur hús í Lækjargötunni, sem væntanlega verð hús dagsins næstu daga eða fáeinar vikur. P8210298   P8210297

Hér er horft niður Lækjargötu u.þ.b. í gilinu miðju.Hús nr. 22 og 18 við götuna sjást til vinstri,  Neðri hluti götunnar var malbikaður 2003 en á myndinni sést hvar það endar. Gatan er sennilega ein sú brattasta á Akureyri (og hér er alveg nóg af bröttum götum) og brattasti kaflinn er einmitt neðan við nr. 18- en sá partur er jafnframt sá þrengsti. Á myndinni hægra megin má sjá Spánarkerfil (Myrrhis odorata) en hann vex í stórum breiðum í efri hluta Búðargils. Plantan er svipuð skógarkerfli en er stórvaxnari og ljósgrænni og ekki eins ágengur en skógarkerfillinn verður víða plága þar sem hann leggst yfir.

P8210301  P8210300     T.v. Horft yfir á flatan sunnanmegin í gilinu en þar stóðu hesthús í áratugi, þau elstu voru frá fyrri hluta 20.aldar, en ég man örugglega eftir nýju hesthúsi í byggingu veturinn 1997-98. Öll hesthús voru hins vegar rifin 2006 og hesthús Akureyringa eru nú ofan bæjarins í Breiðholtshverfi neðan við Súlumýrar og við Lögmannshlíð. Viðarplatan á ljósastaurnum fyrir miðri mynd var notuð sem tilkynningatafla til hestamanna- og má segja að sé það eina sem eftir stendur af hesthúsahverfinu.  Á hægri myndinni má sjá Búðarlækinn sjálfan en hann er opinn á nokkrum stöðum í gilinu. Þarna  kemur hann úr lokræsi undir grunnum hesthúsanna, sýnist þetta ræsi hlaðið úr gömlum steyptum kantsteinum.   Lækurinn er ekki ýkja vatnsmikill en hann getur en í miklum leysingum getur hann hinsvegar orðið að "ólgandi stórfljóti".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 33
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 504
  • Frá upphafi: 436859

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 326
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband