Göngutúr um neðra Glerárgil

  Þessi pistill má heita í beinu framhaldi af Gönguleiðapistlinum sem ég birti í síðasta mánuði. En líkt og þá grein skrifaði ég þessa leiðarlýsingu sem grein í Páskablað Skátastarfs, þessa grein sennilega 2010 frekar en 2009.  

Við hefjum göngu okkar við brúnna yfir Glerá á þjóðvegi 1, skáhallt á móti Glerárgötu. Við fylgjum eftir stíg sem fylgir ánni samsíða götunni Lönguhlíð. Eftir um 200 metra tekur áin beygju og leiðin fer að liggja uppí mót. Þar má segja að Glerárgilið byrji. Glerárgil nær raunar langleiðina upp að Öskuhaugum upp í 200m hæð en skiptist í sk. Efragil og Neðragil. Neðragil er sá hluti sem liggur innan Akureyrar og nær frá Réttarhvammi niður að Lönguhlíð. Við kjaft gilsins rekumst við á litla stíflu í ánni og lítinn hyl. Þessi stífla sá verksmiðjunum á Gleráreyrum fyrir vatni til iðnaðar- en við hliðina má enn sjá ummerki um veitustokk sem lá niður að verksmiðjum. Á sama stað, ca. 50 m ofar er gömul og lúin steinsteypt brú. Mun þetta elsta uppistandandi brú á Gleránni, en hún er síðan 1922 og er nú notuð sem göngubrú. Þó eru ekki nema um 10 ár síðan hún var notuð undir bílaumferð. Gamli þjóðvegurinn inní Akureyri lá um þessa brú fram yfir 1950-60. Við hlið brúarinnar má sjá steinhleðslu, stöpla brúar frá ca. 1880. Höldum áfram leið okkar sem liggur um botn gilsins. Nokkrir hellisskútar eru þarna í klettaveggjunum en fæstir það stórir að margir menn rúmist þar. Á sumum stöðum þar sem gilið er mjóst er hægt að ganga á þurru yfir þegar minnst er í ánni. Nú komum við að nýju og glæsilegu stöðvarhúsi Glerárvirkjunar. Þetta hús mun nákvæm eftirlíking af eldra húsi sem var rifið um 1980. Meðfram veitustokknum liggja margar tröppur upp að stíflunni sjálfri. Glerárvirkjun var reist um 1921 og sá Akureyri alfarið fyrir rafmagni þar til Laxárvirkjun var tekin í notkun 1939. Virkjunin var aflögð um 1960 en gerð upp og tekin aftur í notkun um 2004 og framleiðir nú 290KW. Glerárlón varð til er stíflan var reist, er það mikil prýði í umhverfinu og þar eru oft ýmsar fuglategundir á vappi. Tjaldar sjást þar t.a.m. oft. Við lónið getum við valið hvort við göngum yfir stífluna eða eftir Skarðshlíðinni upp á Borgarbraut, þar sem stígur heldur áfram rétt ofan við brúna. Þarna liggur leiðin gegn um lítinn skóg og heldur hún áfram upp á Hlíðarbraut þar sem stígur heldur aftur áfram neðan við veginn. Neðan við verslun Strax er mest um barrtré en aspir eru ráðandi þegar ofar dregur. Þarna renna nokkrir lækir niður hlíðina og auðvelt er að sjá að þarna að liggur leiðin um gömul tún þar sem plantað hefur verið trjám. Það má einnig greina gömul tún þegar horft er yfir gilið til Sólborgar. Eitthvað er af gömlum mannvirkjum á leiðinni en neðan við verslun Strax hefur verið byggður upp sólpallur á gömlum, steyptum grunni sem líklega er af einhverju útihúsi. Sunnar, eða rétt við brúnna á Hlíðarbraut eru leifar af gömlu jarðhýsi sem hefur nú verið jafnað við jörðu. Við Hlíðarbraut ljúkum við þessari göngu en þessa leið er gaman að fara hvenær sem er og tekur hún ekki nema 20-30mínútur.

Svipmyndir frá Glerárgili

P9300011   PC200048

Til vinstri:Haustlitir í Glerárgili í ljósaskiptunum 30.sept. 2010. Myndin tekin af göngubrú við Hlíðarbraut. Hægra megin: Glerárstífla í gífurlegum vatnavöxtum þann 20.des. 2006. Þennan dag varð mikil asahláka í Eyjafirði sem olli þó nokkru tjóni þar sem skriður féllu og vegir skemmdust. Rauða göngubrúin var reist 1998 og þótti mörgum hún ekki falleg- hvað þá á þessum stað. En hún er talsverð samgöngubót fyrir gangandi um þessar slóðir.

P6300132

Þessa mynd tók ég beint niður af göngubrúnni á Glerárstíflu að kvöldi 30.júní 2011. Þarna féll Glerárfoss en hann var virkjaður þegar stíflan var reist 1921.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Ég segi þarna á einum stað að Neðragil liggi innan Akureyrar. En að sjálfsögðu er það þannig að allt Glerárgil-eins og Gleráin öll og vatnasvið hennar-liggur innan sveitarfélagsmarka Akureyrar- þarna á ég við þéttbýlismörkin. Efra Gilið liggur ofan við þéttbýlið og teygir sig uppí mynni Glerárdals.

Svona eftir á að hyggja er eflaust ýmislegt sem betur má fara í þessari grein en ég tók þá meðvituðu ákvörðun að láta hana bara standa eins og hún er- þar eð hún hefur birst áður opinberlega.

Arnór Bliki Hallmundsson, 14.1.2012 kl. 14:51

2 identicon

Myndin af Gleránni minnir mig á mynd sem ég tók á sama stað fyrir gríðarlöngu síðan:

Akureyri

Hallmundur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 23:08

3 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, gaman að sjá þetta. Þetta munu æði vinsælir staðir fyrir myndatökur og ekki ósennilegt að margt af þessu hafi verið myndað áður .

Arnór Bliki Hallmundsson, 23.1.2012 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 23
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 514
  • Frá upphafi: 436909

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 345
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband