Hús dagsins: Gránufélagsgata 29

Um Gránufélagsgötuna hef ég nokkrum sinnum fjallað hér á þessari síðu, en númeraröðun húsa er svolítið sérstök- svo ekki sé meira sagt.P1120044 En næst neðan Norðurgötu stendur hús númer 27 en þar neðan við er síðan Sambyggingin, sem er númer 39-41 og þar neðan er Gránufélagsgata 43, sem er samskonar hús, nema bara einn hluti af tveimur eða þremur. Húsin standa í aldursröð, byggð 1926 (nr.27), 1929 og 1930. En neðan við 43 má segja að þráðurinn sé tekinn upp að nýju því þar stendur Gránufélagsgata 29- sem sést hér á myndinni.

En Gránufélagsgötu 29 reistu þeir Aðalsteinn Þórðarson og Jónas Hallgrímsson árið 1917. Það er einlyft timburhús með portbyggðu háu risi á háum og mjög svo verklegum steyptum kjallara, en veggir kjallara standa á að giska 30 cm út fyrir veggi. Krosspóstar eru í gluggum. Árið 1924 var húsið stækkað, byggð mjó einlyft bygging með skúrþaki við bakhlið og forstofuskúr á austurgafl. Líklega hefur steinblikkklæðningin sem nú er einnig komið þá en vel má vera að hún hafi verið frá upphafi, ekki viss hversu snemma Gunnar Guðlaugsson húsasmiður  var farinn að flytja hana inn en það var í kringum 1920. Líklegt er talið að húsinu hafi við þessar breytingar einnig verið lyft eða hnikað til og þá steyptur undir nýr grunnur. Á svipuðum tíma voru einnig eldri hús við Norðurgötu 11 og 13 gerð upp og m.a. sett á hærri kjallara. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og lengst af einbýli en vel getur verið að því hafi á fyrri hluta tuttugustu aldar verið skipt í fleiri íbúðir og leiguherbergi. Húsið virðist í góðu standi og vel við haldið og er til prýði í götumynd Gránufélagsgötu- þar sem gætir mikillar fjölbreytni í húsagerð. Lóðin er einnig nokkuð stór miðað við nærliggjandi lóðir og er hún vel gróin. Þessi mynd er tekin laust fyrir hádegi sunnudaginn 12.janúar 2013.

Sem áður segir er húsið byggt 1917. Það er því nokkru eldra en húsaröðin fyrir ofan, sem er reist eftir Aðalskipulagi frá 1927. Hugsanlegt er að samkvæmt skipulaginu hafi átt að stokka upp númerakerfinu og hús nr. 39-43 reist eftir því kerfi. En síðan fór það nú svo að ekki var byggt meira eftir þessu skipulagi (utan Strandgata 37) og þ.a.l. númeraröðinni ekki breytt né heldur númer nýju húsanna leiðrétt. Það er alltént sú kenning sem ég hef oftast heyrt mögulega talin líklegust en annars hef ég ekki lesið það í neinni bók eða rekist á nokkurn sem veit með vissu hverju þessi númeraröð sætir! Ekki veit ég til að nokkurn tíma hafi staðið til að leiðrétta þetta. Ég hefði sagt að úr því sem komið er ætti alls ekki að hrófla við þessari númeraröðun vegna aldurs og hefðar; þetta ætti beinlínis að njóta friðunar. Veit að pizzasendlar og póstberar sem hafa senst í Gránufélagsgötuna eru e.t.v. ekki sammála mér þarna Smile

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Að ógleymdum munnlegum heimildum úr ýmsum áttum í Sögugöngum um Oddeyrina, sem ég hef stundað frá sumrinu 1997.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 495
  • Frá upphafi: 436890

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 327
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband