Lystigarðurinn á Akureyri

Fyrir um tveimur árum síðan fjallaði ég um Eyrarlandsstofu sem stendur í Lystigarðinum og í neðanmálsgrein gat ég þess að Lystigarðurinn væri efni í sérstaka færslu og e.t.v. kæmi pistill um hann innan fárra vikna. Yfirleitt hef ég nú farið varlega í að lofa einu né neinu í sambandi við þessa síðu. Samanber það, að vikurnar frá því að ég skrifaði um Eyrarlandsstofu 8.sept. 2011 eru í dag rétt innan við 100! Myndin hér til hliðar sýnir einmitt síðuhöfund sitja og njóta á bekk í Lystigarðinum. P6190022

En Lystigarðurinn er klárlega einn af helstu ferðamannastöðum Akureyrar. Eins og líklega flestir landsmenn vita stendur garðurinn á brekkubrúninni milli lóða Menntaskólans á Akureyri og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, beint upp af Hafnarstræti. Hann telst standa við Eyrarlandsveg en efri hluti þeirrar götu fylgir brekkubrúninni  og sveigir upp að Sjúkrahúsinu og mætast þar Eyralandsvegur og Spítalavegur rétt undir suðausturhorni Lystigarðsins. Þar myndi ég segja að mættust bæjarhlutarnir tveir Innbærinn en Brekkan en mér skilst að það séu skiptar skoðanir hvorum bæjarhlutanum Spítalavegur ,að hluta eða í heild, tilheyrir. En semsagt Lystigarðurinn afmarkast af Eyrarlandsvegi í austri, Sjúkrahúslóðinni í suðri, Menntaskólalóðinni í norðri og Þórunnarstræti í vestri eða að ofan. Raunar er það aðeins hluti garðsins sem nær að síðasttöldu götunni. En Lystigarðurinn rekur sögu sína til ársins 1910 er stofnað var Lystigarðafélag Akureyrar en helsti hvatamaður þess var frú Anna Cathrine Schiöth og tveimur árum síðar, 1912 hófst gróðursetning á afgirtu landi sem félagið hafði fengið úr landi Stóra- Eyrarlands. Þar voru á ferðinni nokkrar húsmæður undir forystu Önnu og eftir lát hennar 1921 tók tengdadóttir hennar, Margrethe við stjórninni og vann hún mikið starf við ræktun, umhirðu og uppbyggingu garðsins næstu áratugina. Var hún gerð að heiðursborgara Akureyrar árið 1941 mikið og fornfúst starf í þágu bæjarins við Lystigarðinn.  Eftir því sem líða tók á öldina fór að kvarnast úr Lystigarðafélaginu og var það nánast ekki til nema að nafninu til árið 1953 þegar Akureyrarbær var afhentur garðurinn. Eiginlega voru það bara frú Schiöth, þá orðin 82 ára, og Vilhelmína Sigurðardóttir sem eftir voru af félaginu. Fyrsti forstöðumaður garðsins eftir að bærinn tók við honum var Jón Rögnvaldsson frá Fífilgerði. Undir hans forystu var garðurinn stækkaður mjög þegar opnaður var Grasagarðurinn árið 1957 en hann byggðist að mestu á plöntusafni sem hafði verið í einkaeigu hans. Þar má finna flestar íslenskar plöntutegundir, um 400 auk margra heimskautaplantna og munu plöntutegundir þar vera um 7000. Lystigarðurinn hefur þrisvar verið stækkaður og á árunum 101 sem hann hefur verið til elsti hluti hans hefur að mestu leyti haldið sér hvað varðar afstöðu stíga. Flatarmál garðsins er nú 3,7 hektarar. Í garðinum eru nokkrir gosbrunnar og tjarnir, sá stærsti og elsti mun frá því um 1930 og er gengið beint að honum upp frá innganginum við Eyrarlandsvegi. Skammt ofan er buslutjörn með brú  en hún var gerð um 1990. Þarna eru einnig þó nokkrar styttur og listaverk og nýjasta viðbótin við garðinn er kaffihúsið Café Flóra sem opnað var sumarið 2012. Ég ætla að láta myndir að mestu tala sínu máli hér- enda segja þær meira en þúsund orð. Myndirnar tók ég á góðviðrisdegi, 19.júní 2013.

Að neðan: Hluti Íslensku flóru beðanna, í suðausturhorni garðsins- einirunnar í forgrunni.

P6190026   P6190018

Til hægri má sjá hátíðarflötina ofarlega í garðinum. Á milli trjábeðanna stendur brjóstmynd af frú Margrethe Schiöth, afhjúpaður 1951.

P6190020 P6190027

Til vinstri má sjá Café Flóru en kaffihúsið stendur miðsvæðis í garðinum, skammt norðan Eyrarlandsstofu og neðan við hátíðarflötina. Til hægri er brjóstmynd af Matthíasi Jochumssyni eftir Ríkharð Jónsson en hún var reist í tilefni áttræðisafmælis Matthíasar árið 1915 og er því elsta styttan í garðinum. Hún stendur neðarlega  í garðinum og blasir við af Eyrarlandsveginum gegn um trjáþykknið.

P6190016  P6190015

Vatn hefur geysilegt aðdráttarafl og veitir mikinn yndisauka í görðum. Elsti gosbrunnurinn er steyptur fyrir 1930 og stendur um 100m ofan Eyrarlandsvegar, norðarlega í garðinum og er hann á myndinni til hægri. Steinatjörnin- áðurnefnd buslutjörn- með bogabrúnni er skammt fyrir ofan gosbrunnin og er mjög vinsæl hjá börnum til leiks.

P6190032Þetta er nýjasti inngangurinn inní Lystigarðinn og er hann í norðvesturhorni hans við Menntaskólann. Þegar ég var að yfirgefa garðinn þennan góðviðrisdag voru ekki færri en þrjár rútur að koma þar með ferðamenn og svona straumur inní garðinn eins og sjá má á þessari mynd er ekki einsdæmi heldur al vanalegt.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um Lystigarðinn er hér heimasíðan: http://www.lystigardur.akureyri.is/

Heimildir eru fengnar af áðurnefndri heimasíðu, úr bókinni Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs e. Steindór Steindórsson (1993) og af upplýsingaskiltinu sem sést á myndinni hér ofan við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 23
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 514
  • Frá upphafi: 436909

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 345
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband