Hús dagsins: Aðalstræti 2

Það þarf ekki endilega að vera einfalt að ákvarða byggingarár húsa. Það á sérstaklega við um hús sem byggð eru löngu áður en nokkur núlifandi maður fæddist og fyrir tíma formlegra byggingarleyfa og teikninga og áður en ljósmyndun varð almenn. Síðan eru það hús sem byggð eru í áföngum. (Þú getur t.d. staðið í stofu frá 1936 í húsi sem skráð er byggt 1887 o.s.frv.) Stundum eru hús svo gjörbreytt að allri gerð og stærð frá upprunalegu lagi að fráleitt væri að tala um upprunalegt byggingarár sem það rétta.  Ég er þannig að ég hugsa fyrst og fremst í ártölum. Það fyrsta sem ég man um sögu húsa er byggingarár en ég get hins vegar hæglega gleymt því hver byggði húsin. Eins getur það hverjir bjuggu þar og hvaða starfsemi var þar skolast til hjá mér. Ef ég sé skrautlegt og áhugavert hús þá einhvernvegin verð ég ævinlega að vita hvað það er gamalt.

P6190016

 Húsið hér á myndinni, Aðalstræti 2, er eitt þeirra húsa þar sem ekki er auðvelt að slá föstu um byggingarár.   Samkvæmt fasteignaskrá (Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar ) er byggingarár hússins 1886 en uppruni þess er rakinn til 1850-53. Húsið fékk þó ekki núverandi lag fyrr en líklega um 1926. En Aðalstræti 2 er í raun tvö sambyggð hús, eldri hlutinn snýr stöfnum norður- suður en nyrðri hlutinn, sá yngri, snýr austur vestur. Syðra húsið er tvílyft timburhús á lágum grunni með háu risi og tveimur litlum á framhlið og einum stórum gaflkvisti á suðurenda. Norðurhúsið er hinsvegar tvílyft á lágum kjallara og með lágu risi og með steyptum inngöngupalli eða verönd að framan. Þá er steinsteypt viðbygging með skúrþaki vestan á húsinu. Allt er húsið klætt kvarsmulningi, sk. skeljasandi.

Saga hússins er rakin til ársins 1853 en þá reistu Gunnlaugur Guttormsson og Margrét Halldórsdóttir hús sem er væntanlega elsti hluti þessa hús. Upprunalega taldist húsið standa við Eyrarlandsveg (sem nú er Spítalavegur). Til er a.m.k ein ljósmynd af húsinu eins og það leit út upprunalega, en hún sést á bls. 64 í bókinni Akureyri: Fjaran og Innbærinn eftir Hjörleif Stefánsson (1986). Húsið var af algengri gerð timburhúsa þess tíma, ekki óáþekkt húsum nr. 50 og 52 við Aðalstrætið. Gunnlaugur lést 1859 en Margrét eignaðist þá húsið. Bróðir hennar, Jóhannes Halldórsson bæjarfulltrúi og kennari og fyrsti skólastjóri Barnaskóla Akureyrar leigði húsið um tíma og annaðist þar skólahald  Akureyringa. Margrét seldi húsið árið 1877 Jósep Jóhannessyni járnsmiði en 1886 kaupir Magnús Jónsson úrsmiður húsið. Freistandi er að álíta að Magnús hafi hækkað húsið um eina hæð og skráð byggingarár hússins miðist við þá framkvæmd. Þá kenningu styður ljósmynd sem er frá því fyrir 1890 (Steindór 1993: 52) og þar sést að húsið er orðið tvílyft með háu risi, með fjórum gluggum á efri hæð og tveimur frá suðri á þeirri neðri, útidyr og einum glugga norðan útidyra. Hjörleifur Stefánsson (1986) vill hins vegar meina að Jósep hafi gert þessar breytingar áður en hann seldi Magnúsi húsið en Magnús mun hins vegar hafa lengt húsið um 4 álnir til norðurs, auk þess sem hann reisti norðurhluta hússins talsvert seinna. 

Á mynd sem dagsett er 3.ágúst 1912, einnig í Akureyrarbók Steindórs bls. 105 sést að norðurbyggingin er risin en hún er þá örlítið hærri en eldra húsið. En Magnús Jónsson mun hafa reist norðurhlutann í áföngum 1899 og 1904, eina hæð í senn. Á myndinni frá 1912 eru kvistirnir og ókomnir á suðurhluta- sem einnig virðist mjórri. Sigmundur J. Sigurðsson tók við rekstri úrsmiðjunnar eftir dag Magnúsar og segir Steindór að orðrétt að hann hafi látið "[...]stækka húsið og byggja hæð ofan á það svo það er gerbreytt" (Steindór Steindórsson 1993: 21).  Þessar breytingar voru gerðar árið 1924 og þá mun hann hafa breikkað húsið um þrjá metra og hækkað risið og reist kvistina. Sennilega hefur ætlunin verið að innrétta þar íbúðarrými en af því varð ekki, því í Innbæjarbók Hjörleifs kemur fram að ris sé óinnréttað. Sama ár og Sigmundur stækkaði suðurhlutann byggði Carl J. Lilliendahl, eigandi norðurhlutans steinsteypta byggingu með skúrþaki vestan á þann hluta og 1926 byggði hann steinsteyptu tröppurnar framan á húsið. Ýmis starfsemi hefur verið í húsinu sem áður segir skóli og úrsmíðaverkstæði, sportvöruverslun og einhvern tíma var, skilst mér, lítil hverfisverslun í kjallara norðurhússins. Íbúar hússins gegn um tíðina skipta eflaust hundruðum- ef ekki þúsundum. Nú eru í húsinu alls fjórar íbúðir ef mér skjátlast ekki, ein á hvorri hæð og í risi í suðurhluta og ein í norðurhluta. Húsið er ráðandi í umhverfi sínu og er skemmtilega sérkennilegt og öðruvísi að gerð og greinilegt að það er byggt í áföngum. Það er í góðu standi og lóð hefur verið tekin öll í gegn fyrir einhverjum árum síðan og er gróskumikil og aðlaðandi. Þessi mynd er tekin fyrr í dag, 19.6. 2014. 

Hér má sjá Aðalstræti 50 og 52, en upprunalega var nr. 2 sviplíkt þeim húsum. Myndirnar eru teknar 29.5.2010 og 15.8.2009.

p5290051.jpg P8150042

 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436847

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband