Hús dagsins: Norðurgata 28

Í kjölfar umfjöllunar um Eiðsvallagötuna mun ég nú taka fyrir "blokkirnar" (svo maður sletti nú með Amerísku orðalagi) sem afmarkast af þeirri götu í suðri, Norðurgötu í vestri, Eyrarvegi í norðri og Ægisgötu í austri. Hefst umfjöllunin á Norðurgötu milli Eiðsvallagötu og Eyrarvegs.

Ein elsta og helsta gata Oddeyrar er Norðurgata. Hún er byggð á löngum tíma og spannar byggingarsaga hennar ofanverða 19.öld auk rúmlega hálfrar 20.aldar. (Reyndar var lítið sem ekkert byggt á götunni 1900-1920). Ég hef fjallað um húsin við Norðurgötuna frá upphafi, því fyrsta húsið sem ég fjallaði um hér á þessum vettvangi var Norðurgata 17. Síðan hef ég tekið skorpur við og við en núna hyggst ég fjalla um öll húsin við götuna frá Eiðsvallagötu, norður að Eyrarvegi. Ég hef þegar tekið fyrir 26, 31, og 33 en hér ber ég niður við rúmlega nírætt steinhús. P1010015  

 

Sigtryggur Sigurðsson reisti Norðurgötu 28 árið 1924. Ekki er teiknara hússins getið í þeirri heimild sem ég styðst helst við hér og ekki finnast neinar upprunalegar teikningar á vef Landupplýsingakerfisins. Þó eru varðveittar teikningar dagsettar 29.6.1939 af breytingum (viðbyggingu; stigahús bakatil) og þar er hönnuður Guðmundur Magnússon. Áðurnefndur Sigtryggur fékk byggingarleyfið árið 1923 og hugðist þá reisa timburhús en hann fékk síðan leyfi til að “steinlíma” útveggi þess. Því er húsið að öllum líkindum hlaðið úr steyptum steinum en alltént er steinhús. Þarna er talað um útveggi hússins en þess ber að geta að á þessum tíma voru það yfirleitt aðeins útveggir húsa sem voru steyptir; milliloft og innveggir voru undantekningalítið úr timbri. En Norðurgata 28 er einlyft steinhús með háu portbyggðu risi og kjallara. Þverpóstar eru í gluggum. Steyptar tröppur eru á framhlið en inngönguskúr (stigabygging) er á bakhlið og mun hann reistur 1939. Miðjukvistur er á framhlið en einnig er lítill kvistur á bakhlið, áfastur stigabyggingu. Líkt og oft var með elstu steinhús er húsið með algengu “timburhúsalagi”, það er ein hæð, portbyggt ris og miðjukvistur, inngangur fyrir miðju og kvistur ofan við. Það er mjög sviplíkt húsunum nr. 2-6 við götuna sem og húsum nr. 9-13 við Lundargötuna, sem eru rúmlega aldarfjórðungi eldri. Húsið er að líkindum reist í upphafi sem einbýli en mér dettur í hug að því hafi verið breytt í tvíbýli um svipað leiti og stigagangur var reistur og þar með gerður sér inngangur á rishæð. Nú eru tvær íbúðir, á hæð og í risi. Myndin er tekin á Nýjársdag 2015.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband