Hús dagsins: Goðabyggð 7 (áður Vesturgata 9, Silfrastaðir)

Í sumum hverfum má finna hús sem augljóslega eru eldri en nærliggjandi byggð og fanga þau ævinlega athygli þess sem þetta ritar. Þetta eru hús sem oftar en ekki eru frábrugðin nærliggjandi húsum að gerð og stærð. Þá gefur lega þeirra á lóðum stundum til kynna að hús séu byggð fyrir skipulag gatnanna sem þau standa við- oft er um að ræða gömul býli. Brekkan ofan Þórunnarstrætis byggðist að mestu eftir miðja 20.öld og fram undir 1980 en þá voru Lunda- og Gerðahverfi að mestu risin. Hverfið sem afmarkast af Þórunnarstræti í austri, Þingvallastræti í norðri og Mýrarvegi í vestri kallast “Byggðirnar” og er að mestu byggð á 6. og 7.áratug 20.aldar. Þó standa þar nokkur eldri hús og þar á meðal tvö hús sem standa við Goðabyggð og Ásabyggð. Þegar þau voru byggð töldust þau standa við Vesturgötu en Jón Hjaltason (2009: 211) segir að báðar göturnar hafi höggvið [...] skarð í Vesturgötu, sem að lokum hvarf hávaðalaust af bæjarkortinu enda var lega hennar dálítið torræð”  Árið 1904 talar Páll Briem um Vesturstræti sem á að liggja sunnan við væntanlegan Gagnfræðaskóla[Hús MA, sem reis þá um sumarið] og gæti ég trúað að þar sé um að ræða götuna sem síðar varð Vesturgata- en heyrir nú sögunni til.

Goðabyggð 7 er eitt þeirra húsa sem falla undir skilgreininguna hér fremst í formála.P6290113 Húsið stendur innarlega á mikilli og stórri lóð og gæti hæglega talist bakhús við næstu götu sunnan við þ.e. Ásabyggð. Húsið stendur á áttræðu þegar þetta er ritað, byggt 1935 en sögu hússins má rekja til vorsins 1934 en 20.apríl það ár fékk Björn Ásgeirsson innheimtumaður leyfi til þess að byggja á erfðafestulandi sínu við Vesturgötu, eina hæð úr timbri á kjallara. Leyfið var þó háð því að húsið kæmi ekki í bága við framtíðarskipulag svæðisins og ef svo væri heimilt að krefjast þess að húsið yrði flutt honum að kostnaðarlausu. Tæpu ári síðar, í febrúar 1935 skrifar Björn hinsvegar Bygginganefnd og krefst þess að skilyrðin verði burtu felld, þar sem hann fékk ekki lánafyrirgreiðslu vegna þeirra. Bygginganefnd heimilaði það en þó með því skilyrði að hann framvísaði yfirlýsingu Skipulagsnefndar um byggingin yrði ekki í bága við framtíðarskipulag. Ekki sá ég að meira væri fjallað um byggingu Björns Ásgeirssonar í gjörðabókum Bygginganefndar enda taldi ég hreinlega óþarft að leita lengra þar sem niðurstaða málsins er augljós: Björn hefur byggt húsið og enn stendur það 80 árum síðar!

   Goðabyggð 7 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara og með lágu risi. Veggir eru klæddir sléttum plötum sem ég ætla ekki að fullyrða um hvort eru asbestplötur eða viður. Gluggar eru með margskiptum póstum, 10-20 litlum rúðum og eru þær ekki ósvipaðar þeim sem sjást á upprunalegum teikningum af húsinu. Á þaki hússins er bárujárn. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ekki er ólíklegt að fyrstu íbúar hússins hafi átt skepnur og stundað minni háttar búskap. Húsið mun hafa kallast Silfrastaðir fyrstu árin meðan það var einskonar grasbýli og taldist standa við Vesturgötu en elstu heimildir sem ég finn á timarit.is um Goðabyggð 7 eru frá febrúar 1963 og er Björn Ásgeirsson þá enn búsettur þarna.

  Goðabyggð 7 er sjarmerandi og skemmtilegt hús. Það sker sig nokkuð úr nærliggjandi byggð, bæði minna og annarrar gerðar en næstu hús og lega hússins innst á lóð, sem er sögð 763 fermetrar. Húsið er ekki ósvipað húsum sem standa við Fjólugötu á Oddeyrinni og eru frá svipuðum tíma. Húsið virðist nær óbreytt frá upprunalegri gerð þ.e. að ytra byrði. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 29.júní 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundir nr. 719, 20.apríl 1934 og nr. 735, 14.feb. 1935. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Jón Hjaltason (2009). Saga Akureyrar (V bindi). Akureyri: Akureyrarbær.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 498
  • Frá upphafi: 436893

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 330
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband