Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 27; Þrúðvangur

Hrafnagilsstræti er nokkuð löng gata sem nær frá Eyrarlandsvegi við brúnir Barðsgils og upp að Mýrarvegi. Síðast nefnd gata þverar brekkuna og skilur að m.a. Byggða- og Lundahverfi. Gatan liggur austur- vestur upp Brekkuna og þverar á leiðinni Þórunnarstræti og Byggðaveg. Neðri hluti götunnar þ.e. Spottinn á milli Þórunnarstrætis og Eyrarlandsvegar er að mestu byggður um 1930-40 en efri hlutinn er yngri. Með einni undantekningu. Á númer 27 stendur nefnilega syðsta húsið í grasbýlaþrenningunni sem reist var árið 1935 og töldust standa við Vesturgötu. Húsið virðist þó ekki hafa verið númerað en bar nafnið Þrúðvangur.

P7150110

Daginn eftir að árið 1935 gekk í garð settist maður að nafni Sigtryggur Þorsteinsson, deildarstjóri hjá KEA niður við bréfaskriftir, þar sem hann óskaði eftir erfðafestutúni ofan Þórunnarstrætis. Jarðeignanefnd samþykkti þetta og 10 dögum síðar, 12. janúar samþykkti Bygginganefnd að veita honum leyfi til að byggja timburhús á steyptum kjallara með lágu risi, 8x9m að stærð. Að auki bókar nefndin að skipulagsnefnd telji sig samþykka “[...] byggingalóð fyrir hús 220m ofan Þórunnarstrætis og ca 50 m sunnan framlengingar Hrafnagilsstrætis” (Bygginganefnd Ak. 1935: nr. 734).Enda þótt Vesturgata komi hvergi fram í bókunum Bygginganefndar er það nú samt svo að í Manntali 1940 er húsið skráð sem Þrúðvangur við Vesturgötu. Þar er skráður til heimilis auk Sigtryggs og konu hans Sigurlína Haraldsdóttur og fjölskyldu sérlegur fjárhirðir, Hjalti Magnússon, 17 ára. 

    Hrafnagilsstræti 27 er einlyft timburhús með lágu risi og stendur það á háum steyptum kjallara. Á norðurgafli eru tröppur upp að örlitlum inngönguskúr (bíslagi) en ofan kjallarainngangs á vesturhlið snoturt dyraskýli. Krosspóstar eru í gluggum, bárujárn á þaki en steinblikk á veggjum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ekki finn ég heimildir um neina stórfellda verslun eða starfsemi í húsinu- hún hefur þá a.m.k. ekki verið auglýst á síðum Akureyrblaðana Dags eða Íslendings. Hins vegar sést, að árið 1952 er eigandi hússins Ragnar Stefánsson og þá auglýsir hann húsið og gripahús (sem nú er vitanlega löngu horfið) til sölu ef rétt tilboð fæst. Kemur þar fram að meðfylgjandi tún sé 16 dagsláttur. Húsið er eitt þriggja grasbýla sem reist voru á þessum slóðum árið 1935. Öll voru húsin sviplík, ein hæð á háum kjallara með lágu risi og í öllum tilfellum var um “hobbýbúskap” að ræða, þar eð íbúarnir stunduðu aðra atvinnu en búskap. En uppúr miðri öldinni tók þéttbýli að myndast nærri þessum húsum og búskap sjálfhætt. Í minningargrein um Sigtrygg Þorsteinsson segir árið 1961 “ En nú eru ný byggðahverfi risin þar sem áður voru töðuvellir bóndans í Þrúðvangi” (Dagur 10.tbl. 1.3.1961: 4) Þrúðvangur fékk númerið 27 við Hrafnagilsstræti og hefur verið svo í rúma hálfa öld.

   Þar sem húsið er nokkrum áratugum eldra er það nokkuð frábrugðið næstu húsum en að lögun og gerð en er engu að síður til mikillar prýði. Það er lítið og látlaust og í mjög góðri hirðu og lóðin vel gróin og snyrtileg. Ein íbúð er í húsinu. Það er að vissu leyti þakkarvert að þessi þrjú eldri hús (Ásabyggð 16, Goðabyggð 7, Hrafnagilsstræti 27) hafi fengið að halda sér þótt byggt hefði verið í kringum þau því hitt er einnig alltof algengt að gömul bæjarhús þurfi að víkja fyrir nýjum hverfum. Myndin er tekin 15. júlí 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar: Fundagerðir 1930-35. Fundur nr. 734, 12. jan 1935. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Erlingur Davíðsson ?? (1961). Sigtryggur Þorsteinsson deildarstjóri, minningarorð. Í Degi : 44.árg, 10.tbl. Sótt 19.júlí á timarit.is (hlekkur í meginmáli texta).

(Aths. E.D. Skrifar undir greinina en ekki liggur fyrir um hvern ræðir þar en mér þykir freistandi að álíta E.D. vera Erling Davíðsson, þáverandi ritstjóra Dags. )

Manntal á Akureyri 1940. Óútg. Varðv. Hsksj. Ak.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 33
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 504
  • Frá upphafi: 436859

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 326
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband