Hús dagsins: Byggðavegur 142

Byggðavegur er nokkuð löng gata á Brekkunni. Hún sveigir til vesturs frá neðanverðu Þórunnarstræti , gegnt Lögreglustöðinni og sveigir í mjúkum boga ofan Gleráreyra upp grunnt gil eða lægð til suðurs upp á Brekku. Gatan liggur samsíða og mitt á milli Þórunnarstrætis og Mýrarvegar og hefur eflaust verið ætlað hlutverk stofnbrautar fyrir Byggðahverfi, sbr. nafnið. Byggðavegur er sú gata bæjarins þar sem númer verða hæst, 154, en númerin hefjast hins vegar í 84- hver svo sem ástæðan er fyrir því. Byggðavegur er að stórum hluta skipuð stórbrotnum og glæstum steinsteypuhúsum frá 1950-70 en neðarlega við götuna á nr. 142 stendur hús sem mig hefur lengi grunað að ætti sér lengri sögu en nærliggjandi byggð. Húsið er ekki ósvipað að gerð og dæmigert timburhús frá aldamótum 1900. Er þetta gamall bær? Var húsið flutt á þennan stað og hvar stóð það áður ? Með hjálp Landupplýsingakerfis Akureyrarbæjar á vefnum og Bygginganefndarfundargerða Akureyrarbæjar fékk ég svör við þessu.P6290117

Byggðavegur 142 er einlyft, múrhúðað timburhús með portbyggðu risi á steyptum kjallara. Í gluggum eru T-póstar með þrískiptum efri rúðum en á framhlið er hár og mjór, margskiptur gluggi. Á þaki er bárað stál n.k. steinskífu-eftirlíking. Ég hefði kalla þessa klæðningu skífustál en sjálfsagt heitir þetta eitthvað allt annað á fagmáli. Á suðurstafni er inngönguskúr með valmaþaki og þá er einnig lítil útbygging á bakhlið. Þak slúttir yfir veggi og þar má sjá útskorna sperruenda. Húsið hefur staðið á þessum stað í 60 ár en er tæplega tvöfalt eldra. Árið 1956 fékk Guðmundur St. Jacobsen leyfi fyrir hönd föður síns, Johan Jacobsens að flytja á lóð nr. 142 gamla íbúðarhúsið við Gefjun. En þar hófst iðnaðarstarfsemi Tóvélanna (síðar Gefjun) á Gleráreyrum árið 1897 og var þetta hús reist skömmu eftir það sem íbúðarhús forstjóra. Landupplýsingakerfi segir húsið byggt 1898 en Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar (1994:287) húsið byggt 1900 af Aðalsteini Halldórssyni frá Litla- Hamri en hann gegndi stöðu forstjóra Tóvélaverksmiðjana. Stóð húsið skammt ofan athafnasvæðisins á Gleráreyrum, líklega nærri 200 m neðan við núverandi stað.

Í Fasteignamati árið 1918 er húsinu lýst sem einlyftu með porti og risi, á kjallara með pappaklæddu þaki. Húsið er sagt 8,8x7,5m að stærð auk skúra með 2,6x1,1m við norðurstafn og 2,1x1,3m við suðurstafn og í húsinu eru talin 9 herbergi auk geymslu. Húsið er sagt leigt Steindóri Jóhannessyni, en eigandi er væntanlega Gefjun. Verðmat hússins árið 1918 voru kr. 6000, en ég ætla ekki einu sinni að reyna að snara þeirri upphæð til núvirðis. Á þessari ljósmynd hér, sem birtist á forsíðu Minningarrits Verksmiðjufélagsins á Akureyri má sjá húsið í forgrunni, en í baksýn eru verksmiðjuhús og vörugeymsla. Allur er þessi húsakostur horfinn, utan þetta eina hús, og verksmiðjuhúsið mikla frá 1907 var illu heilli rifið í ársbyrjun 2007. En sem áður segir var íbúðarhúsið flutt upp í Byggðaveginn um 1956, en teikningar að húsinu er dagsettar síðsumars 1957. Húsið hefur væntanlega verið múrhúðað á sama tíma og það var flutt og einnig hefur stór gluggi verið settur á miðja framhlið, en þar er gert ráð fyrir stiga upp í ris. Húsið er í góðri hirðu, virðist nýlega málað og með nýrri þakklæðningu og lóð er gróin og vel hirt. Eftir því sem ég kemst næst telst húsið sjálfkrafa friðað vegna aldurs. Ég myndi segja að húsið ætti að hafa sérstakt varðveislugildi vegna sögulegs gildis í atvinnusögu Akureyrar; þetta er eina húsið sem eftir stendur frá upphafi Tóvélanna á Gleráreyrum. Enda þótt staðsetning hússins sé önnur en í upphafi er saga hússins samt sem áður sú sama. Mér reiknast til að húsið sé annað til þriðja elsta húsið á gjörvallri Brekkunni, aðeins Eyrarlandsstofa er eldri en Spítalavegur 9 er byggður 1899- mitt á milli þeirra tveggja byggingarára sem mínar heimildir hér gefa upp sem byggingarár Byggðavegar 142. Þessi mynd er tekin 29.júní 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1951-58. Fundur nr. 1252, 3.ágúst 1956.

Fasteignamat á Akureyri 1918.

Óútgefin rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Hjaltason (1994). Saga Akureyrar II.bindi. Akureyri: Akureyrarkaupstaður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436847

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband