Hús dagsins: Oddagata 3b; Ytra Melshús og Gilsbakkavegur 3; Syðra Melshús

Tvö mikil gil skera brekkuna ofan Miðbæjar. Sunnar er Grófargil eða "Gilið" (Listagilið) en nyrðra gilið kallast Skátagil og skilur um 100 m breið brekkutunga þau að. Á barmi Grófargils liggur gatan Gilsbakkavegur en á barmi Skátagils er Oddagata. Gegnt Oddagötu, á norðurbarmi Skátagils liggur gatan Bjarmastígur. Gaman er að segja frá því, af því ég er nú skáti, að Skátagilið er mér vitanlega eina náttúrufyrirbærið hér á landi sem kennt er við skáta. Upphaf þessarar nafngiftar má rekja til ársins 1935 en í ársbyrjun það ár sótti Skátasveitin Fálkar um ræktun og umhirðu þessarar skákar fyrir bæinn. Á móti fékk skátasveitin, sem Jón Norðfjörð veitti forystu, að reisa þarna tjaldbúðir. Í bókun bygginganefndar er þetta gilið ekki nefnt, heldur talað um spilduna milli Oddagötu og Bjarmastígs. Húsin við Gilsbakkaveg og Oddagötu eru flest steinhús byggð á árabilinu 1925-40 en þar lúra einnig tvö geðþekk timburhús frá árunum 1905-06. Hús þessi, sem ein sátu að tungunni milli giljana í um tvo áratugi kallast Melshús. Það ytra eða nyrðra stendur við baklóð við Oddagötu en það syðra stendur við Gilsbakkaveg.

 

Oddagata 3b

Oddagata 3b eða Ytra Melshús er einlyft timburhús með háu risi og á steyptum kjallara. P7150124Tvö bíslög eða litlir inngönguskúrar eru á húsinu norðan- og vestanverðu. Í gluggum eru sexrúðupóstar og bárujárn á þaki en veggir eru klæddir steinblikki. Samkvæmt Steindóri Steindórrsyni (1993: 169) er Oddagata 3b byggð 1905 en Fasteignaskrá segir húsið byggt 1915. Ekki fylgir sögunni hver byggði húsið en árið 1910 bjuggu tvenn hjón í húsinu, Maron Sigursteinn Sölvason og Helga Grímhildur Helgadóttir og Hallgrímur Helgason og Matthildur Grímsdóttir. (Maron byggði síðar Ránargötu 5 á Oddeyri). Á þessum tíma voru karlarnir oftast titlaðir húsbændur en þarna eru þær tvær skráðar húsmæður en þeir leigjendur. Maron og Helga áttu árið 1910 þrjú börn og sama gilti um Hallgrím og Matthildi, en auk fjölskyldnanna tveggja bjuggu í húsinu ein lausakona og einn leigjandi. Alls bjuggu því 12 manns í húsinu árið 1918.

Árið 1918 var húsið virt og þá sagt einlyft með porti og háu risi, þak pappaklætt og húsið 8,3x5,7m, alls 7 herbergi auk geymslu. Húsið er þá metið á 3000 kr. og lóð á kr. 600. Eigandi er sagður Ásgeir Pétursson en íbúar sagðir Guðjón Jónsson verkamaður o.fl. Eins og gengur gerist og með hús á þessum aldri hefur margt heiðursfólk búið þarna. Meðal íbúa hússins voru Eðvarð Sólnes, formaður hjá Ásgeiri og Lilja Daníelsdóttir Sólnes, en fóstursonur þeirra var Jón G. Sólnes (1910-1986) alþingismaður með meiru. Jón G. flutti í húsið 9 ára gamall með foreldrum sínum, þ.e. 1919.

Líklegt þykir mér að húsið hafi fengið númerið 3b við Oddagötu þegar byggð tók að myndast við götuna skömmu fyrir 1930. Í dag er húsið einbýli og hefur verið síðustu áratugi. Húsið virðist ekki mikið breytt frá upprunalegri gerð. Húsið er til mikillar prýði, lítið og látlaust timburhús og er það í góðu standi. Gluggar og þakklæðning virðist nýleg og lóð er vel gróin og hirt. Á suðurmæni hússins er vindhani í fiskslíki (“vindfiskur”) sem setur mjög skemmtilegan svip á húsið. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2015.

 

Gilsbakkavegur 3

Gilsbakkavegur 3 eða Syðra Melshús er byggt 1906, en ekki fylgir sögunni hver byggði húsið. P6220002 (2)Árið 1910 er Una Kristín Sigþrúður Hálfdánardóttir skráð þarna húsmóðir en Stefán Nikulásson er þar leigjandi en þau búa þarna ásamt þremur börnum sínum. Ekki er hægt að fullyrða að þau hafi byggt húsið. Árið 1918 er Ásgeir Pétursson útgerðarmaður eigandi hússins, sem og Ytra Melshúss en vel gæti verið að hann hafi reist bæði húsin. Gilsbakkavegur 3 er einlyft timburhús með lágu, aflíðandi risi og stendur húsið á lágum steyptum kjallara. Á vesturhlið er inngönguskúr með aflíðandi þaki en á austurhlið er lítið bíslag þar sem áður hefur verið gengið inn á hæð en þar eru kjallaradyr. Þá er viðbygging við kjallara á norðausturhorni. Húsið er klætt steinblikki og bárujárn á þaki en krosspóstar eru í gluggum. Á austurbíslagi er nokkuð skrautlegur gluggi til suðurs, með margskiptum rúðum en hann hefur lengi vel verið forstofugluggi.

Árið 1918 er húsið virt og sagt einlyft timburhús með pappaklæddu þaki, 6,3x5,7m að stærð og geymsluskúr við bakhlið. Þar er líklega átt við kjallaraskúrinn. Húsið var virt á kr. 2500 en lóð talin 600 kr. virði. Þarna virðast forstofubyggingar ekki vera komnar en árið 1923, þegar rafmagn var lagt í húsið eru viðbyggingarnar sýndar á raflagnateikningu. Þá hefur húsið líklega verið komið með það útlit sem það nú hefur, og líklegt má telja að húsið hafi verið járnvarið á svipuðum tíma. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Melshúsin tvö hafa staðið stök í um tvo áratugi á 3.áratug 20.aldar tóku göturnar tvær á gilbörmunum að byggjast, og á teikningunni frá 1923 er húsið skrifað sem Gilsbakkavegur 3. Húsið er til mikillar prýði í umhverfi sínu og mynda Melshúsin tvö ansi hreint skemmtilega tvennd í hverfinu a.m.k. að dómi þess sem þetta ritar. Lóðina prýða mörg og stórgerð tré og ber kannski hvað mest á tveimur miklum silfurreynitrjám fast fyrir framan húsið. Þau hljóta að vera margra áratuga gömul. Ein íbúð er í húsinu. Þessa mynd tók ég á leið frá Sundlaug Akureyrar, mánudagskvöldið 22.júní 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 735 14.febrúar 1935. [Á þessum fundi samþykkti Bygginganefnd að heimila skátasveitinni Fálkum að annast ræktun og umhirðu blettsins milli Oddagötu og Bjarmastígs, síðar þekktum sem Skátagil.]

Fasteignamat á Akureyri 1918. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Halldór Halldórsson (1984) Jón G. Sólnes; segir frá viðburðaríkri og stormasamri ævi. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband